01.03.1956
Neðri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. það um atvinnuleysistryggingar, sem hér er til umr., á sér langa og merkilega sögu, sem þó er ekki kostur á að rekja hér, enda ekki ætlan mín.

Á undanförnum þingum hafa verið flutt bæði frumvörp og þáltill. um þetta mál, og á fjölmörgum þingum Alþýðusambandsins hafa verið gerðar ályktanir og áskoranir til Alþ. um samþykkt frumvörp og þáltill. um þetta mál, og á fjölmörg hinna einstöku verkalýðsfélaga. Það er því sama gangan sem þetta baráttumál verkalýðshreyfingar hefur orðið að fara og flest hin fyrri, er gengið hafa í sömu átt. Það hefur orðið að berjast fyrir þeim öllum á öllum vígstöðvum árum og jafnvel áratugum saman, þó að stór meiri hluti væri þeim fylgjandi og fáir eða engir mæltu þeim í mót. Ástæðan til þessa tómleika virðist nokkuð augljós. Þá fjölmennu hreyfingu, sem verkalýðssamtökin eru, hefur til þessa skort skilning á að standa jafneinhuga um að tryggja sér sem flesta fulltrúa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar og í þeim átökum, sem hún hefur háð við atvinnurekendur um kaup og kjör, vegna innbyrðis deilna. Af þessum ástæðum hefur þeim átökum fjölgað að sama skapi og fulltrúum verkalýðsins hefur fækkað á Alþingi. Ég hef áður bent á það hér í hv. þd. í umr. um hliðstæð mál og það, sem nú er til umr., að mörg þeirra mála, sem lengstan tíma tekur að leysa í stórfelldum vinnudeilum, hefði á auðveldan hátt mátt leysa hér í sölum Alþ., ef meiri skilnings og sanngirni hefði gætt í meðferð slíkra mála.

Það virðist vera að bera í bakkafullan lækinn að ræða efni frv. frekar en þegar hefur verið gert hér í framsögu. Ég tel þó, að ekki verði hjá því komizt að minnast nokkurra atriða.

Eins og í aths. þeirrar mþn., er frv. samdi, segir, er málið nú flutt hér af hálfu hæstv. ríkisstj. sem efndir á loforðum, er hún gaf við lausn vinnudeilunnar í apríl s.l. ár, en undirstöður frv. voru þá eitt af þeim atriðum, sem um var samið til lausnar vinnudeilu þeirri, sem leiddi til algerrar vinnustöðvunar, er stóð yfir í 6 vikur og þátt tóku í yfir 20 verkalýðsfélög með yfir 20 þús. félaga.

Tekjur trygginganna eiga að vera samkv. 1. gr. frv. 2% af vinnulaunum úr ríkissjóði, 1% frá bæjar- og sveitarfélögum og 1% frá atvinnurekendum. Ýmsir hafa áætlað, að árlegar tekjur sjóðsins mundu nema allt að 35 millj. kr. í því árferði, sem nú er í atvinnumálum. Hver sem reynslan verður í þeim málum, er þess að vænta, að hér geti safnazt það fé, sem að nokkrum árum liðnum gæti komið í veg fyrir atvinnuleysi, en það tel ég, að vera ætti annað aðalverkefni trygginganna, m.ö.o. trygging gegn atvinnuleysi, verði hins vegar svo, að enn um sinn gæti atvinnuleysis, þá verði hinum vinnufúsu höndum bætt það tjón samkvæmt ákvæðum 15.–18. gr. frv. Ég er þó þeirrar skoðunar, að þessar gr. þurfi mestra endurbóta við, þegar kemur að endurskoðun l. eftir tvö ár. Bætur þær, sem gert er ráð fyrir í 18. gr., finnst mér við fljótlega yfirsýn of lágar og biðtíminn til þess að ná þessum bótum samkv. 15. gr. of langur. Það er nauðsynlegt, að við endurskoðun l. verði í einu og öllu litið á þessar tryggingar sem sjálfstæða stofnun, óháða öðrum en þeim, sem þeirra eiga að njóta, og þá jafnframt þá staðreynd, að hér er um mál að ræða, sem samið var um til þess að brúa bil í kaupdeilu. Það er hluti af uppbót á kjararýrnun, er orðið hafði.

Þá tel ég einnig nauðsynlega nákvæma athugun á því takmarki, er um getur í 4. gr., að einungis verkalýðsfélög í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúa eða fleiri geti orðið aðilar að tryggingunum. Þó er heimildin um úrskurð ráðherra þar til mikilla bóta.

3. málsgr. þessarar gr. gerir ráð fyrir, að stéttarfélög skrifstofu- og verzlunarfólks teljist samkvæmt lögum þessum ekki til verkalýðsfélaga þrátt fyrir þá staðreynd, að innan Alþýðusambandsins eru nú þegar fimm eða sex slík félög og fleiri undirbúa komu sína þangað. Hér er um misrétti að ræða, er leiðrétta verður í síðasta lagi við hina áður umtöluðu endurskoðun laganna. Reynslan mun verða haldbezta sönnunin um nauðsynlegar breytingar, og við endurskoðun er þess þá að vænta, að gerðar verði þær umbætur á lögunum, er sú reynsla leiðir í ljós.

Ég sé það í fyrirvara frá fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands, að hann telur, að ekki ætti að greiða af öðrum launþegum en fullgildir eru í viðkomandi verkalýðsfélagi. Ég minnist þess ekki, að nokkurn tíma væri á annað minnzt við samningana s.l. vor, sem eru, eins og áður var getið, undirstaða þessa frv., en að greitt yrði af öllum í viðkomandi starfsgrein án tillits til félagsréttinda, og nægir í því sambandi að benda á, að þegar verið var að gera lauslegar áætlanir um tekjur sjóðsins, var reiknað með öllum meðlimum alþýðusamtakanna án tillits til félagsréttinda, eins og ég áðan sagði. Það er þó hins vegar nauðsynlegt, að réttur til bótanna sé því háður, að viðkomandi sé fullgildur meðlimur síns stéttarfélags, enda er það á valdi hvers einstaklings að halda þar fullum rétti sínum.

Varðandi þá aths. fulltrúa Vinnuveitendasambandsins, að úthlutun og útborgun bótanna séu óskyldir hlutir, kannast ég ekki heldur við það. Það var í huga okkar allra í samninganefnd verkalýðsfélaganna a.m.k. ávallt eitt og það sama.

Við hina væntanlegu endurskoðun verður einnig nauðsynlegt að athuga um meiri tekjur til hins sameiginlega sjóðs með sérstöku tilliti til hinna fámennari staða, en einmitt þar hefur atvinnuleysið oft verið þungbærast og þar af leiðandi minnstar tekjur á sérreikninga fámennustu verkalýðsfélaganna. Ef tala ætti um einhvern sérstakan ágalla frv., þá er hann í þessu fólginn. Mér er jafnframt ljóst, að erfiðast mun reynast að leiðrétta hann svo sem þörf væri á. Í fljótu bragði eygi ég ekki aðra möguleika þessu til bóta en eflingu hins sameiginlega sjóðs, er síðan gæti miðlað til þeirra staða, sem verst væru settir.

Þrátt fyrir þau atriði, sem ég hef hér minnzt á að betur mættu fara, fagna ég af alhug þeim réttarbótum, sem í frv. felast launþegum til handa, en ítreka það enn, að haldbezti og æskilegasti árangurinn af framgangi þessa frv. væri sá, ef takast mætti að koma í veg fyrir atvinnuleysi og hinar válegu afleiðingar þess.