01.03.1956
Neðri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Hannibal Valdimarason:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða mikið efnishlið málsins að þessu sinni.

Mér virðast líkur standa til, að þessu máli verði vísað til n., sem ég á sæti í, og þar mun ég að sjálfsögðu um það fjalla og þá ef til vill ræða nánar efnishlið þess, þegar það kæmi frá afgreiðslu í nefnd.

Hæstv. félmrh. minntist á það, að frv. kæmi nokkuð seint fram, en vildi þó vænta þess, að það yrði ekki að ádeiluefni á hæstv. ríkisstj., og skal ég ekki deila á hana út af því. Ég tel það engar vanefndir af hendi hæstv. ríkisstj., þó að málið komi ekki fyrr fram en þetta. Ég er sannfærður um, að það vakir fyrir hæstv. ríkisstj. að efna sitt gefna loforð um lagasetningu á þessu þingi um atvinnuleysistryggingar, og að frv. er nú fram komið úr þeirri deiglu, sem það hefur verið i, er mér sönnun þess, að ríkisstj. efnir þetta loforð, enda hefur verkalýðshreyfingin aldrei efazt um, að það mundi verða við þau loforð staðið.

Ágreiningsefni eru að vísu mörg í þessu frv., og ræddi hæstv. félmrh. um þau mörg. Um þetta hefur verið deilt í n. og menn síðast sætt sig eftir atvikum við frv. í þeirri mynd, sem það er nú í. En öll frumsmið stendur til bóta, og þetta frv. mun áreiðanlega breytast. Ef það verður nú samþ. sem lög á þessu þingi lítt eða ekki breytt vegna samkomulags, þá á endurskoðun að fara fram eftir tvö ár, og þá mun reynslan stuðla að því, að ýmislegt komist fram, sem nú er óskað eftir af verkalýðssamtökunum. Við erum vissir um það, að reynsla mun staðfesta það, að sumt af því, sem við hefðum gjarnan viljað fá inn í frv. nú, á erindi í slíka löggjöf, og verður varla hjá því komizt, að það verði viðurkennt, þegar endurskoðun fer fram að tveimur árum liðnum.

Þetta mál er í raun og veru ágæt sönnun þess, að það er ekki alls kostar rétt, sem oft er haldið fram, að verkalýðshreyfingin á Íslandi leggi einhliða áherzlu á kaupkröfur. Eins og síðasti hv. ræðumaður (GJóh) vék að, er enginn vafi, að það hefði verið hægt að knýja fram meiri beinar kauphækkanir en gert var, ef verkalýðshreyfingin hefði ekki lagt stórum meiri áherzlu á að fá réttarbætur eins og þessar, fá öryggismáli komið í höfn eins og þetta mál er fyrir verkalýðshreyfinguna. Og það slær í raun og veru alveg niður ásakanirnar í garð verkalýðshreyfingarinnar um það, að hún leggi einhliða áherzlu á kauphækkanir, hvað sem öllu öðru liði.

Ég er viss um það, að þó að frv. sé ekki í því formi, sem verkalýðshreyfingin hefði óskað eftir, ef hún hefði mátt ein um það fjalla, langt frá því, þá er mikill fengur að lögfestingu þessa frv. eins og það er. Ég er t.d. viss um, að það verður ekki einungis verkalýðshreyfingin, sem fagnar því í framtíðinni, að mikil fjármagnsmyndun verður í landinu við þessar tryggingar, sterkir sjóðir myndast og þessir sjóðir inna af hendi gagnlegt hlutverk að því er snertir uppbyggingu atvinnutækja og úrlausn á íbúðarhúsnæðisvandamálinu að einhverju leyti eða koma að minnsta kosti til með að létta þar undir, og því mættu allir fagna og munu allir fagna. Ég hygg, að þó að það kynni e.t.v. að þykja eðlilegt við afgreiðslu þessa máls, að verkalýðshreyfingin sýndi brtt. nákvæmlega í þá átt, sem hún óskaði að fengjust hér samþ., þá megi segja það fyrir hönd alþýðusamtakanna, að við munum heldur kjósa þá leið nú að bera ekki fram neinar brtt. við málið nema þá lagfæringar, sem kynni að verða allsherjar samkomulag um, til þess að flýta fyrir lögfestingu málsins og e.t.v. leiða til þess, að aðrir, sem mundu þá vilja breyta frv. til hinnar lakari áttar, fengjust þá til þess að láta slíka breytingartillagnasmíð fara fram hjá þessu þingi nú, meðan verið er að setja lögin nú í fyrsta sinn. Ég legg því áherzlu á það, að afgreiðsla þessa máls fáist greiðlega gegnum þingið, og ég neita því ekki, að mér þætti það mjög ánægjulegt, ef hægt væri að fá lagasetningu um atvinnuleysistryggingar t.d. þann 12. marz n.k., þegar Alþýðusamband Íslands á 40 ára afmæli. Ég hef látið það í ljós hér við hæstv. félmrh., að það væri mjög ánægjuleg afmælisgjöf til Alþýðusambandsins, ef Alþ. afgreiddi þetta frv. t.d. á þeim degi, ef því yrði við komið, eða a.m.k. nú í kringum þann afmælisdag.

Ég þakka svo hæstv. ríkisstj. fyrir það, að hún hefur flutt frv. og stuðlað að því, að úr rættist um alvarleg deilumál, sem voru uppi í n. lengst af meðan hún starfaði, og að frv. er þannig samkomulagsúrlausn á merku og þýðingarmiklu máli verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsstéttarinnar og þar eiga vissulega n., sem starfaði að því að semja þetta frv., og ríkisstj. sameiginlega þakkir skyldar fyrir.