19.03.1956
Neðri deild: 89. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt öðrum nm. í heilbr.- og félmn. skrifað undir nál. á þskj. 484, sem lá hér fyrir við 2. umr., en ég vil samt nú við síðustu umr. í d. ekki láta hjá líða að gera grein fyrir því, að ég er mótfallinn skiptingu atvinnutryggingafjár í sérsjóði, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Það er nú svo, að á þeim stöðum, þar sem mikil er atvinna, verða að sjálfsögðu iðgjöld atvinnurekenda há, það verður há upphæð af þeim iðgjöldum. Sama gildir þá um framlög ríkis og sveitarsjóða. Þau verða einnig mest þar, sem atvinnan er mest. Sjóðir þessara staða verða því að líkindum brátt allstórir, og ef ekki verður breyting á atvinnuástandi til hins verra, sem vonandi er að ekki þurfi að gera ráð fyrir í bráðina, þá getur safnazt þarna saman á þessum stöðum mikið fjármagn á skömmum tíma, en einmitt á þessum stöðum verða útgjöld til atvinnuleysisbóta tiltölulega minnst, miðað við mannfjölda. Hins vegar verður allt annað upp á teningnum þar, sem atvinna er mjög stopul. Þar verða iðgjöld atvinnurekenda tiltölulega lág og framlög ríkis og sveitarsjóða þá einnig lág. En á þessum stöðum verður einmitt þörfn fyrir atvinnuleysisbætur mjög mikil, af því að þar er atvinnuleysið meira en í hinum landshlutunum og möguleikarnir þá um leið litlir til að mæta þeirri miklu þörf, sem þar kann að verða. Reynslan verður þá sú, að þörfin fyrir bótagreiðslur verður að nokkru leyti í öfugu hlutfalli við það fjármagn, sem fyrir hendi er til greiðslu bótanna á hverjum stað.

Það er mín skoðun, að varla sé hægt að mæla á móti því með rökum, að eðlilegast sé, að atvinnuleysissjóður, sem myndaður er að hálfu leyti af ríkisfé, sé sameiginlegur fyrir allt landið, sé samtrygging allra verkamanna í landinu, sem lögin á annað borð ná til, án tillits til þess, hvar á landinu þeir eiga heima. Atvinnuleysið er náttúrlega alveg eins tilfinnanlegt fyrir fátæka verkamannafjölskyldu, sem á heima á Norður- eða Austurlandi, þótt í smákauptúni sé, eins og fyrir sams konar fjölskyldu hér suður við Faxaflóa í stórum bæ. Og ráðstafanir eins og þessi, sem hér er gert ráð fyrir í frv., eru vitanlega ekki til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Hins vegar er það svo, að eins og kunnugt er, er hér um samningsmál að ræða í sambandi við kjarasamninga og lausn verkfalls á s.l. vori. Af þeirri ástæðu mun ég ekki bera fram brtt. við frv. um þetta efni, en ég tel og vil láta það koma fram hér, áður en málið fer út úr d., að vinna þurfi að því, að sérsjóðirnir, sem frv. gerir ráð fyrir, verði sameinaðir í einn sameiginlegan sjóð til tryggingar öllum verkamönnum jafnt, hvar sem þeir eiga heima á landinu, og ég vil mega vænta þess, að Alþýðusamband Íslands, sem vitanlega á að gæta jafnt hagsmuna verkalýðsfélaga í öllum landshlutum, beiti sér fyrir þessari breytingu áður en langt líður, úr því að það hefur ekki þegar gert það. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram við 3. umr. málsins.