26.03.1956
Efri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar almannatryggingalögin á sínum tíma voru sett, var mjög um það rætt, enda augljóst þeim, sem að þeirri lagasmið unnu, að þar var stórt skarð ófyllt. Markmið almannatrygginganna er að tryggja almenning gegn afleiðingum þess, ef starfsgetan bregzt vegna elli, sjúkleika, slysa, örorku eða af öðrum slíkum óviðráðanlegum ástæðum. Það er því augljóst, að ef ástæða er til að tryggja starfsgetuna í þessum tilfellum, er jafnnauðsynlegt að tryggja almenning, þá sem hafa tekjur sínar og framfæri af vinnu í annarra þjónustu, gegn afleiðingum þess, ef starfsgetan verður verðlaus, þ.e.a.s. ef atvinnuleysi er fyrir höndum. Ég fagna því þess vegna mjög, að þetta frv. kemur nú fram, og tel, að með því, þó að á því séu ýmsir gallar, sé bætt úr mikilsverðri vöntun í félagsmálalöggjöf okkar og stórt spor stigið til þess að auka félagslegt öryggi í landinu og þar með tryggja kjör og hag almennings.

Ég hef leyft mér að láta fylgja grg. frv. sérálit mitt í þeirri n., sem starfaði að undirbúningi þessarar löggjafar. Ég hefði talið langheppilegasta fyrirkomulagið á þessu, að upp hefði verið sett sérstök stofnun, sem annaðist bæði vinnumiðlunina og atvinnuleysistryggingarnar og hefði með höndum skráningu alls fólks á starfsaldri eða a.m.k. þess fólks, sem hefur atvinnu sína sem launþegar í þjónustu annarra manna, þannig að á hverjum tíma væri til yfirlit yfir þessar stéttir og hvernig atvinnu þeirra væri háttað. Enn fremur hefði ég talið sjálfsagt, að þessi stofnun hefði til ráðstöfunar eða hefði yfirumsjón með úthlutun þess atvinnubótafjár, sem veitt er á hverjum tíma, og einnig a.m.k. væri með ríkisstj. í ráðum um notkun og úthlutun þess fjár, sem á hverjum tíma er lagt fram til atvinnuaukningar eða til aukins jafnvægis í byggð landsins, eins og nú er mjög talað um. Þá hefði ég einnig gert ráð fyrir því, að þessi sama stofnun hefði með höndum fyrirgreiðslu um að sjá unglingum og öryrkjum, sem nokkra starfsgetu hafa, fyrir vinnu við þeirra hæfi. Ef slík stofnun væri komin á fót, sem hefði allsherjar yfirlit yfir fjölda og ástæður þess fólks í landinu, sem hefur framfæri af vinnu í annarra þjónustu, og héldi uppi vinnumiðlun og skrásetti atvinnuleysingja, hefði fé til umráða til nokkurra atvinnuleysisframkvæmda og eins til atvinnujöfnunar, eins og ég áður hef drepið á, þá væri augljóst, að fullkomlega mætti tryggja það, að ekki yrði gripið til þess að greiða bætur fyrir atvinnuleysi, þ.e.a.s. greiða mönnum fyrir að ganga atvinnulausir, fyrr en öll önnur sund væru lokuð. Ég leyfi mér að drepa á þetta hér í d., því að ég tel alveg hiklaust, að í þessa átt beri að stefna: fyrst að gera allar þær ráðstafanir, sem unnt sé með skipulegum hætti, til þess að afstýra því, að fólkið sé atvinnulaust, og ekki greiða atvinnuleysisbætur fyrr en öll önnur sund séu lokuð, ef svo mætti segja. Um þetta gat ekki orðið samkomulag í þeirri nefnd, sem vann að undirbúningi þessa frv., enda skal játað, að það var stórum víðtækara svið, sem till. mínar fjölluðu um, heldur en gert var ráð fyrir í því samkomulagi, sem gert var í sambandi við lausn verkfallsins á s.l. vori. Ég tel því, þar sem þessi leið er hér opin, að það sé sjálfsagt að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir, en vil þó eins og hv. frsm. nota tækifærið til þess að benda á það, sem ég tel að þurfi hið fyrsta að lagfæra í þessu frv.

Ég tel eins og hv. frsm. höfuðgalla frv. þann, að eins og frá því er gengið nú, eru allar líkur til þess, að mest fé safnist í atvinnuleysissjóðina á þeim stöðum, þar sem minnst er með þá að gera, minnst er þörfin, en hins vegar verði minnst fé handbært í þessu skyni, tekjurnar minnstar, þar sem mest er þörf á atvinnuleysisbótum. Þetta er afleiðing þess, að gert er ráð fyrir því í frv., að allar tekjur atvinnuleysissjóðsins skiptist niður á sérreikninga hinna einstöku verkalýðsfélaga, og þá liggur í augum uppi, þar sem ekki er aðeins að ræða um iðgjöld atvinnurekenda, heldur einnig framlög ríkis og sveita, að mest safnast í sjóðina á þeim stöðum, þar sem atvinnan er mest og hæstar greiðslur vinnulauna. Ég hefði talið alveg sjálfsagt, að nokkur hluti af framlagi ríkissjóðs hefði gengið til sameiginlegs sjóðs fyrir allt landið til þess að jafna metin, til þess að velta sérstakan stuðning þeim héruðum, þar sem atvinnuleysið er mest og tekjur sjóðanna af þeim ástæðum bregðast. Ég geri mér vonir um, að við þá endurskoðun, sem á að fara fram á löggjöfinni innan tveggja ára, verði þetta atriði tekið til gaumgæfilegrar athugunar og úr því bætt.

Þá tel ég einnig, að mjög sé gallað það ákvæði frv., sem segir til um, hvernig eigi að skipta tekjum atvinnuleysissjóðs á milli hinna einstöku verkalýðsfélaga í umdæminu. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því, að tekjunum t.d. hér í Reykjavík eigi að skipta á milli verkalýðsfélaganna hér eftir starfsgreinum þeim, sem hvert einstakt verkalýðsfélag hefur samninga um. Ég álít, að miklu eðlilegri og sanngjarnari skipting sé sú, að tekjunum sé skipt milli verkalýðsfélaganna beinlínis miðað við meðlimatölu þeirra, þ.e.a.s. að tekjurnar, sem greiddar eru í sjóðinn vegna hvers einstaks manns, renni í sjóð þess félags, sem hann er meðlimur í. Ég óttast, að það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir í frv., verði til þess að skapa nokkra erfiðleika við að ná samkomulagi milli hinna einstöku félaga um það, hvernig skiptingin eigi að fara fram milli sérreikninga félaganna á sama stað. Þetta atriði tel ég einnig nauðsynlegt að athuga við væntanlega endurskoðun og geri mér vonir um, að þá verði úr því bætt.

Þá tel ég einnig, að ákvæðin um stjórn sjóðsins, sjö menn, séu ekki hyggileg. Ég hefði álitið, að það væri nóg að hafa í henni 3 menn, eftir því verkefni, sem sjóðsstjórninni er ætlað, einn frá atvinnurekendum, einn frá verkamönnum og einn frá ríkisstj., og einnig tel ég, að skipun úthlutunarnefndar sé, ef ég mætti orða það svo, alveg fráleit, en þar eiga að sitja 2 frá atvinnurekendum og 3 frá verkamönnum, en enginn frá hlutaðeigandi sveitarfélagi eða ríkisstj., sem sameiginlega leggja fram 3/4 hluta fjárins.

Ég bendi á þessi atriði nú, en þar sem nauðsynlegt er að afgr. frv. á þessu þingi, sem senn lýkur nú, og samkomulag er um höfuðatriðin, þá mun ég þó ekki bera fram brtt. við frv. um þetta efni, heldur fylgja því óbreyttu í þeirri von, að þegar lögin verða endurskoðuð, verði tekin til greina þau atriði, sem ég nú hef bent á.