26.03.1956
Efri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að segja, að miklum tíma sé eytt í þetta mál hér í hv. d., jafnvel þó að tveir menn töluðu við 2. umr. þess og fáein orð verði sögð nú við 3. umr. Ég skal þá ekki heldur fjölyrða um málið, en þó get ég ekki verið ánægður með það, að þetta stóra mál verði samþ. hér í hv. d., án þess að það heyrist, að hér er um töluvert nýstárlegan undirbúning lagasetningar að ræða.

Hv. frsm. n., sem fjallaði um þetta mál, sagði núna áðan við 2. umr. þess, að þetta væri algert nýmæli hér á landi, og er það rétt. En það er fleira, sem er nýtt í sambandi við þetta mál, m.a. það, að þó að hv. n. leggi til að samþ. frv., sem er allmikill bálkur, óbreytt, þá talar hv. frsm. í raun og veru á móti ýmsum atriðum þess, eða a.m.k. getur um það, að hann hefði kosið þessi atriði á allt annan veg, og ekki nóg með það, heldur talar á eftir honum maður úr mþn., sem samdi þetta frv. og mun hafa verið þar aðalmaður, og hann hefur sömu sögu að segja.

Í nál. er getið um það, að þetta frv. sé árangur af samningum, sem gerðir hafi verið við verkfallslausn, og er það öllum mönnum í Alþ. kunnugt. Það er líka nýstárlegt, að samið sé um svo stórfellda löggjöf í raun og veru alveg utan við þingið. Ég skal ekki fara fleiri orðum um það, en ég vil láta í ljós, að það er ekki sérlega mikið svigrúm, sem t.d. hv. Ed. gefst til athugunar á þessu máli, þegar það er tekið til 2. umr. nú áðan og 3. umr. nú, og fyrir hönd n. er það sagt, að frv. hefði þurft breytinga við, en ekki sé fært að gera till. um það, og það er tekið undir það af manni, sem ef til vill er aðalhöfundur þessa frv. — Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta.

En ég kynni miklu betur við að skilja þó öll ákvæði frv. eða sem allra flest, og þess vegna vildi ég gera hér litla fyrirspurn til hv. n. um, hvernig beri að skilja það. Það er út af e-lið 16. gr. Þar stendur, seinast í þessum staflið: „Bótaréttur glatast þó eigi, þó að hafnað sé vinnu í öðru byggðarlagi eða í annarri starfsgrein, fyrr en hlutaðeigandi hefur notið bóta í 4 vikur.“ — Það er nú fyrst og fremst það, hvað er átt við með „öðru byggðarlagi“. Á maður, sem er kannske atvinnulaus í Hafnarfirði, en getur fengið atvinnu í Reykjavík, að geta krafizt atvinnuleysisbóta þegar í stað, þó að strætisvagnar gangi á milli þessara staða oft á hverjum klukkutíma? Og svo er um fleira. Það er stutt á milli sumra byggðarlaga hér á landi. Auðvitað er margt fleira í frv., sem hefði þurft nánari skýringar við, en af sérstökum ástæðum er mér sérstök forvitni á að vita, hvað meint er með þessu ákvæði. Yfirleitt verð ég að taka undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) sagði við 2. umr. málsins, að mér hefði fundizt, að bætur ættu þá fyrst að koma til greina, þegar í gegnum vinnumiðlun og aðrar ráðstafanir öll sund eru lokuð um það að útvega styrkþega atvinnu.