26.03.1956
Efri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði hér áðan, að það er fleira nýstárlegt við þetta mál en frv. sjálft. Það er einmitt mjög nýstárlegt, að samið sé um ákveðna lagasetningu utan þings og þingið í raun og veru skuldbundið með þeim samningi, og það væri ekki æskilegt, að það gerðist oft. Bót er það þó í máli, að þegar þeir samningar voru gerðir, munu þingflokkarnir hafa vitað, hvað var að gerast, og þm. þannig haft tækifæri til þess að láta koma fram sína afstöðu.

Hv. 1. þm. Eyf. óskaði skýringar hér á einu atriði. Ég gat þess í ræðu minni áðan, að ákvæði væru í frv., sem æskilegt hefði verið að væru ljósari, en í trausti þess, að úr þeim verði greitt í framkvæmdinni, hefði n. ekki flutt tillögur um þau, enda stutt þangað til lögin eiga að endurskoðast.

Þetta atriði, sem hv. þm. gerði fyrirspurn út af, í niðurlagi 16. gr., e-lið, virðist mér vera sæmilega ljóst, ef um það er hugsað, og ákvæðið ekki heldur óeðlilegt. Það er, að bótaréttur glatist eigi, þótt hafnað sé vinnu í öðru byggðarlagi eða í annarri starfsgrein, fyrr en hlutaðeigandi hefur notið bóta í 4 vikur, þ.e. mánaðartíma. Mér finnst það eðlilegt, að maður, sem getur ekki fengið atvinnu í heimabyggð, sé ekki skyldugur að sækja atvinnu lengra til fyrr en eftir 4 vikur; ekki skyldugur til þess undantekningarlaust. T.d. geta heimilisástæður hans verið þannig, að hann eigi torvelt með að fara frá heimill sínu. Mér finnst eðlilegt, að hann hafi þann ráðrúmstíma, en hitt er það, að svo stutt getur verið á milli byggða, að þetta sé eins og maðurinn sé heima hjá sér, og það á við um dæmi, sem þm. tók. Maður, sem er í Hafnarfirði, fer í raun og veru ekki í venjulegri merkingu þeirra orða að heiman, þó að hann fari með strætisvagni til að sækja vinnu í Reykjavík, og ég get ekki hugsað mér, að framkvæmd þessara mála verði svo stirð og svo fráleit, að þetta ákvæði komi til, þegar um slíkt er að ræða sem þarna var nefnt sem dæmi. En ráðrúmsöryggi það, sem einstaklingurinn hefur samkv. þessari grein, finnst mér eðlilegt. Mér finnst það eðlilegt, að maðurinn úr Hafnarfirði verði strax að sinna vinnu í Reykjavík, en jafneðlilegt finnst mér það, að hann sé ekki skyldugur til þess að fara að heiman a.m.k. fyrr en eftir mánuð, ef hann ætti að fara norður á Langanes eftir atvinnunni. Ég efast ekki um, að framkvæmdin greiðir úr svona atriðum.