24.01.1956
Efri deild: 47. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. muni fara í fjhn„ sem athugar það, og þá vil ég benda á, að hér er frv. til l. um breyt. á l. nr. 63 30. des. 1937, um tollheimtu og tolleftirlit, og l. nr. 59 30. des. 1939 og nr. 12 5. maí 1941 og nr. 13 5. maí 1941, um breyt. á þeim lögum. Þetta er m.ö.o. frv. til l. um breyt. á fjórum öðrum lögum. Þau eru ekki færð saman. Og svo á almenningur, sem á að borga toll eftir þessum lögum öllum saman, að finna, í hverjum lögunum hvert atriði er. Er það í þessum eða þessum eða þessum eða þessum? Hann verður að leita á fimm stöðum til að sjá, hvað er rétt.

Ég skal viðurkenna það, eins og ég sagði, þegar ég talaði um sauðfjársjúkdómavarnirnar, að það er náttúrlega hægara fyrir þingmenn að bera saman grein fyrir grein, þegar aðeins eru teknar upp breytingarnar. En það er ónothæft fyrir almenning að heita má, og þó er ætlazt til, að hann þekki lögin, og hlýði þeim. Það á að færa þetta inn í lögin, færa öll lögin saman og gera úr þeim eitt lagafrv. Þá hefur maður það í því lagi eins og það er og þarf ekki að leita á ótal stöðum að, hvað eru lög og hvað ekki lög, og ég vil beina því til n. að gera þetta. Það kostar dálitla vinnu, en hún er ekkert mikil, en það er líka ólíkt aðgengilegra fyrir allan almenning, sem þarf að nota lögin, þegar búið er að færa það saman í heild, heldur en svona breyting við lög og þeim lögum búið að breyta þrisvar sinnum áður.