20.03.1956
Efri deild: 88. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Svo vildi til, þegar þetta mál kom í n. í þessari hv. d., að ég gegndi þar störfum um stundarsakir fyrir hv. þm. Seyðf., sem var í utanlandsför, og þess vegna varð ég áskynja um ýmislegt varðandi aðdragandann að því, að þetta mál er lagt fram, og heyrnarvottur við umræður þær, sem fram fóru á milli hv. nefndarmanna, og tók raunar þátt í þeim líka, og með ýmsum fulltrúum þeim úr embættisstétt, sem hafa staðið að samningu þessa frumvarps.

Nú er það þannig, eins og lýst hefur verið við umræðurnar í þessari hv. d., að hv. Nd. virðist hafa hleypt málinu fram hjá sér svo að segja óathuguðu og ekki leitazt við að fá þar fram skýringar né gagnrýni á neinu atriði af því, sem í frv. var, eins og það kom frá hæstv. stjórn, verður maður vist að segja, því að það mun vera flutt aðallega á vegum fjmrn. og samið af embættismönnum eða starfsmönnum ríkisins, án þess að til ráðuneytis hafi nokkrir þeirra manna verið kvaddir, sem eiga að búa undir þessum lögum að mestu, og þar á ég við t.d. skipafélögin, og mætti kannske nefna fleiri aðila, t.d. eins og afgreiðslumenn skipa og því um líkt, fyrir utan hina venjulegu borgara, sem eiga undir þessum lögum að búa.

Það kom glöggt í ljós, þegar hv. fjhn. þessarar d. fór að ræða þetta mál, að hér er um að ræða stórkostlega breytingu á ýmsu sviði frá því, sem áður hefur verið, og meira að segja heill kafli, sem er alveg nýmæli í frv. og sjálfsagt nýmæli í tollalögum að sumu leyti, þó að víðar væri leitað en á landi hér. Þess vegna varð það að ráði, að fjhn. þessarar hv. d. leitaði álits skipafélaganna, sem þetta mál helzt snertir, þar vil ég nefna Eimskipafélagið og skipadeild Sambands íslenzkra samvinnufélaga og raunar einnig Skipaútgerð ríkisins, en engir þessara aðila höfðu nokkurt veður eða reyk af því, að í undirbúningi væri að setja þessar ýtarlegu reglur, sem frv. felur í sér, og hafa í för með sér á mörgu sviði aukin afskipti tollyfirvaldanna og aukinn kostnað fyrir þá, sem eiga við lögin að búa. Það kom og ljóst fram, elns og hér hefur verið lýst áður við umr. af hv. þm. Barð., að þó hann ekki læsi upp að öllu leyti innihald þeirra svarskrifa, sem hv. nefnd bárust frá þessum aðilum, sem ég nefndi, og tæki í viðbót frá Verzlunarráði Íslands og fleiri aðilum, Félagi íslenzkra stórkaupmanna og Sambandi smásöluverzlana, að margir þessara aðila og þó einkum skipafélögin höfðu talsvert við frv. að athuga í einstökum atriðum.

Hér er ekki um það að ræða, að neinn af þeim, sem gagnrýnir þetta frv., geri það með það fyrir augum að veikja tolleftirlitið eða hrekja það af réttri leið, að svo miklu leyti sem það er viðurkennd rétt leið, sem lagt er inn á. Þvert á móti. Ég verð að taka undir með hv. minni hl., þegar því er lýst yfir, að þeir, sem gagnrýna þetta frv., þó einkum og sér í lagi við, sem gerum það hér í þessari hv. d., gerum það engan veginn til þess að veikja neitt tolleftirlitið og þær ráðstafanir, sem það opinbera má hafa í frammi til þess að koma í veg fyrir smygl á vörum. Miklu heldur er þessi gagnrýni af því sprottin, að öllum skynbærum mönnum hlýtur að vera ljóst, að þó að stjórnarráðsstarfsmenn og tollstofustarfsmenn hafi að vísu sína þekkingu á útfærslu tolleftirlitsins, þá er hún samt sem áður mjög einhliða séð frá bæjardyrum þessara aðila einna saman. Og ef setja á reglur, sem vonir eiga að standa til, að hald sé í, þá er miklu viturlegra að hafa í verki þegar frá upphafi fulltrúa þeirra aðila, sem eiga að búa við löggjöfina, því að þá má þegar við lagasmið í þessu efni taka tillit til þeirra agnúa á tilvonandi löggjöf, sem stjórnarráðsstarfsmaðurinn eða tollstarfsmaðurinn kemur síður auga á en hinn, hvort sem það er heldur skipafélag, afgreiðslumaður eða skipaáhafnir.

Nú varð það til þess, að hv. fjhn. leitaði álits þessara aðila, sem ég nefndi, skipafélaganna og verzlunarráðs og annarra, að hv. n. barst mjög ýtarleg gagnrýni á ýmis atriði þessa frv. þegar í stað, meðan málið var í nefnd, og tillögur til ábendinga um það, hvernig breyta mætti ákvæðunum þannig, að betur færi. Því miður verður ekki séð, að hv. meiri hl. n. hafi þessu nokkurn gaum gefið. Á einu einasta sviði hefur hv. meiri hl. tekið sönsum, og það var á því sviði að leggja ekki nýjan skatt á þjóðina til þess að byggja tollgeymsluhús fyrir, en upphaflega frv. var þannig, að þar var smeygt inn í ákvæði um að leggja nýjan skatt á í þessu skyni. N. hefur horfið frá því, sem ég tel vel hafa farið, og tekur upp eina brtt., þá einn að mér virðist, sem meiri hl. styður við þetta mál og sjá má á þskj. 482 og gengur út á það, að leggja skuli í sérstakan sjóð 1% af vörumagnstolli og verðtolli frá 1. jan. 1957, um leið og þeir eru innheimtir samkv. tollskrá, og viðaukum við þá og svo öðrum aðflutningsgjöldum, þó eigi söluskatti né framleiðslusjóðsgjaldi.

Þetta er að mínum dómi miklu betri leið og réttari en í frv. var lagt til að farin yrði, og þar sem n. öll stendur að þessari brtt., hefur hv. meiri hl. á þessu eina sviði tekið sönsum, eins og ég sagði áður, en hinar mörgu aths. frá Eimskipafélaginu, frá skipadeild Sambandsins, frá verzlunarráðinu og samtökum kaupmanna hefur hv. meiri hl. að því er virðist algerlega látið sem vind um eyrun þjóta. Aftur á móti hefur hv. minni hl. tekið upp ýmsar brtt., sem sumpart munu vera í samræmi við þá gagnrýni, sem fram hefur komið í þeim skjölum, er ég nefndi.

Mér þykir það nú satt að segja gegna talsverðri furðu og lýsa, ja, mér liggur við að segja óvenjulegum sauðþráa af hv. meiri hl. í máli eins og þessu, þar sem þeir vita, að það er undirbúið eingöngu af skrifstofufólki stjórnarráðsins og tollsins, en þeir, sem vinna við flutninginn, skipafélögin o.s.frv., hafa þar um ekkert fengið að segja, að vilja hamra málið fram að öllu leyti án þess að taka nokkurt tillit til þess, er fram kemur frá þessum aðilum — ég tel að megi í öllu falli segja merku aðilum, er gagnrýnt hafa frv.

Það vill nú svo til að ég er ekki gersamlega ókunnugur framkvæmdum á þessu máli með afgreiðslu skipa og því um líkt, því að í mörg ár hef ég starfað við það og var raunar í Vestmannaeyjum mjög kunnugur því, hvernig tolleftirlit yfirvaldanna var á þeim vörum, sem upp komu.

Frv., eins og það er komið í þessa hv. d., er samið af mönnum, sem hafa einblínt á framkvæmd og aðstæður utanlands, þar sem aðstæður eru talsvert öðruvísi en hér, og samið hér heilmikinn lagabálk, sem verður illframkvæmdur við aðstæður þær, sem enn eru hér innanlands, þó að í löndum, sem hafa langa verzlunarævi að baki sér og langa tollskoðunarævi, séu þessi mál komin í það horf, að sú aðferð, sem ætlazt er til að viðhafa samkv. þessu frv. í öllum einstökum atriðum, gæti sjálfsagt miklu betur gengið þar en hér. Hér vantar sem sé skilyrðin til þess, að tollgæzlan geti farið fram eins og frv. ætlast til.

Hv. þm. Barð. rakti fyrr við þessa umr. hverja einstaka grein og lýsti á henni lesti og kosti, svo að það væri endurtekning fyrir mig að fara að hafa það hér eftir. Ég tel, að hv. minni hl. hafi í tillögum sínum reynt það, sem æskilegt hefði verið að öll n. hefði fallizt á, reynt það sem sé að taka nokkurt tillit til þess, sem skipafélögin hafa óskað eftir, og breyta frv. samkv. því. En því miður hefur hv. meiri hl., eins og ég sagði áðan, ekki séð sér fært að láta þar undan nokkurri ósk, ekki einni ósk. Svo þegar kemur til kastanna og hv. frsm. fer að hnekkja því, sem hv. þm. Barð. hafði haldið fram, þá hefur hann að vísu ekkert frá eigin brjósti fram að færa, en hann hefur bréf frá tollstjóra, og það bréf er honum lykill að allri vizku í þessu efni. Og mér virtist hann láta algerlega nægja að lesa upp aths. tollstjórans við hina ýmsu gagnrýni, sem komið hafði fram við frv. frá skipafélögunum, og ekkert þar fram yfir eða út yfir. Alveg í sömu andránni var þó hv. frsm. að kvarta yfir því, að fjmrn. hefði ekki sérstaka aðstöðu til þess að hafa fulltrúa í þeirri n. til athugunar á frv. samkvæmt tillögu í bráðabirgðaákvæði á þskj. 437 frá hv. minni hl., þar sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin skipar fimm manna nefnd til þess að semja heildarlöggjöf um tollgæzlu, er miði að því að gera tolleftirlitið svo einfalt og öruggt sem kostur er á, m.a. með því, að komið verði upp tollbúðum og vörugeymslu fyrir tollskyldar vörur á innilokuðum hafnarsvæðum, sem tryggi hagkvæmari og öruggari tollgæzlu og jafnframt sem minnstan flutningskostnað tollvara á milli tollgæzlustöðva, svo og með því að skipuleggja samstarf á milli tollgæzlunnar og þeirra aðila, sem annast flutning og geymslu tollskyldra vara. Skal nefndin skipuð þannig: Einn samkvæmt tilnefningu hvers eftirtalinna aðila, Eimskipafélags Íslands, skipadeildar Sambands íslenzkra samvinnufélaga og Reykjavíkurhafnar, en auk þeirra húsameistari ríkisins og tollstjórinn í Reykjavík, og er hann formaður nefndarinnar. Skal nefndin hafa lokið störfum og skilað til ríkisstjórnarinnar áliti, tillögum og frumvarpi til laga um tollgæzlu fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis.“

Hv. frsm., sem studdist eingöngu við hv. tollstjóra til þess að svara gagnrýni hv. þm. Barð., taldi hann, að því er virtist, ekki nægilega hæfan, að því er mér skildist, til þess að vera fulltrúi fjmrn. í þessari n., sem lagt er til af hv. minni hl. að sett yrði, og fannst mér í því mjög mikil mótsögn í varnarræðu hv. frsm. Það er vitaskuld tollstjórinn og hans nánustu undirmenn, sem eiga flest ákvæðin í þessu frv., og þar sem hann er í jafnnánu sambandi við fjmrn. og raun ber vitni, þá er það næsta broslegt, ef rn. telst ekki vera vel „representerað“, ef ég má brúka það orð, í nefnd, sem fjallar um útfærslu á tolleftirliti, þar sem tollstjóranum sjálfum er ætlað að vera formaður. Þetta er þó ekkert aðalatriði, en það sýnir fálmið í vörninni gegn réttmætri gagnrýni, sem fram var komin við tilbúning þessa frv. Það er í rauninni ekkert óeðlilegt, að þegar málið er undirbúið og hafið á þann hátt, sem þetta frv. hefur verið gert, þegar það sætir eingöngu meðferð frá öðrum aðilanum, sem sagt frá tollyfirvöldunum, það er eingöngu þeirra sjónarmið, sem fram kemur í frv., og ekkert farið að heyra álit neinna annarra, þá er það ekkert óeðlilegt, þó að á því sjáist augljósir gallar.

Og það er ekkert óeðlilegt, að það komi fram gagnrýni á svona máli, þegar maður veit og þekkir, hvernig það hefur verið einhliða undirbúið, og hefði verið mjög viðkunnanlegt, ef hv. meiri hl. fjhn. hefði sýnt lit á því að taka eitthvert tillit til þeirrar heilbrigðu gagnrýni, sem það hefur sætt.

Ég held, að það sé og hafi alltaf verið góð regla, þegar sett eru jafnýtarleg lagafyrirmæli og eru í þessu frv. um tollheimtu, tolleftirlit o.s.frv., að taka eitthvert tillit til álits þeirra, sem undir lögunum eiga að búa og að nokkru leyti eiga að framkvæma þau, en það virðist svo sem hv. meiri hl. n. sé á annarri skoðun. Þó er það viðurkennt og vitað, að frv. felur í sér að sumu leyti alger nýmæli, sem ekki hafa verið lögfest að neinu leyti eða vísir til þeirra á landi hér, og ég leyfi mér að vefengja, að þau eigi sér nokkurt fordæmi utanlands, þar sem er hinn svokallaði IV. kafli laganna. Í honum er það m.a. tekið fram, sem ekki hefur hingað til verið í lögum, að enginn megi annast afgreiðslu farartækja, sem flytja vörur frá útlöndum, eða geymslu ótollafgreiddrar vöru nema hafa fengið til þess leyfi fjmrn. Þetta segir það ríkisvald, sem sjálft hefur ekki nokkurt skýli yfir að ráða til að geyma í ótollafgreidda vöru nema dálítið hús hérna á hafnarbakkanum, þar sem afgreiddur er farþegafarangur.

Svo að ég minnist nú á Eimskipafélagið í þessu sambandi, þá mun það hafa á sínum vegum eitthvað milli 40 og 50 afgreiðslur víðs vegar á landi hér og þar af leiðandi jafnmarga afgreiðslumenn. Margir þessara manna hafa starfað að þessu, sumir síðan félagið var stofnað, um 40 ár, og flestallir víst tugi ára. Þeir eiga núna samkvæmt þessu frv. allt í einu að fara að sækja það undir hæstv. fjmrh., hvort þeir megi nú halda áfram þessu sínu starfi.

Það er vitaskuld, að afgreiðslur skipanna úti um land alveg eins og afgreiðslur skipanna í Reykjavík starfa á ábyrgð skipafélagsins. Ef eitthvað misferst hjá þeim með toll, ef vörur eru teknar eða afhentar óleyfilega úr tollafgreiðslu, þá er það skipafélagið, sem ber ábyrgð á því að lokum.

Um þetta sérstaka atriði segir Eimskipafélagið í sinni umsögn.

„Í b-lið, sem á að verða 31. gr. tollheimtulaganna, segir svo m.a.: „Enginn má annast afgreiðslu farartækja, sem flytja vörur frá útlöndum, eða geymslu ótollafgreiddrar vöru nema hafa fengið leyfi til þess frá fjmrn.“ Samkvæmt þessu ætti félag vort, ef þetta nýmæli verður samþykkt, sem hefur sjálft með höndum afgreiðslu skipa sinna, leiguskipa og annarra skipa, undanfarin 40 ár að þurfa að sækja um leyfi til þess að mega halda þessari sinni starfsemi áfram. Að vísu gerum vér ekki ráð fyrir, að oss verði synjað um slíkt leyfi, en þó er það hvergi tryggt í frv., að neinn forgangsréttur ráði í þessu efni fyrir þá aðila, sem áður hafa annazt þetta starf. Þó er enn frekar gengið á rétt skipafélaganna, ef þau eiga ekki að fá að ráða því, hvaða menn eða fyrirtæki þau velja sem trúnaðarmenn sína á höfnum úti á landi án íhlutunar ríkisvaldsins. Hvað félag vort snertir, þá hafa ávallt verið vandlega athugaðar allar aðstæður, þegar þurft hefur að ráða afgreiðslumenn félagsins úti á landi, og kemur þar margt til greina, sem taka verður tillit til, svo sem aðstæður til þess að hafa afgreiðsluna á hendi með tilliti til aðgangs að bryggjuplássi og geymsluhúsa, fjárhagsaðstæður hlutaðeigandi og almennt traust á manninum eða fyrirtækinu, sem ráðið er. Félag vort hefur ávallt lagt mikla áherzlu á, að öll þessi skilyrði séu fyrir hendi, enda er það svo stórt atriði fyrir félagið og viðskiptamenn þess, að einungis veljist þeir menn eða þau fyrirtæki til þessara starfa, sem vér teljum treystandi, að oss mundi aldrei til hugar koma að velja aðra en þá, sem uppfylla áðurgreind skilyrði.“ — Það eru skilyrði, sem frv. gerir ráð fyrir líka að þurfi að vera til staðar, nefnilega að ráða yfir nægu geymsluplássi.

En frv. lætur ekki öll skilyrðin uppi hvað þetta snertir, því að í einni málsgrein þessarar sömu gr. segir í frv.: „Leyfi má að öðru leyti binda þeim skilyrðum, sem ráðuneytið telur nauðsynleg á hverjum tíma“ — eftir að búið er að telja upp, að sá, sem afgreiðslu hefur á skipi, verði að hafa húsakost nægan og hann verði að hafa meðmæli tollstjóra á staðnum.

Og mér er nú spurn: Getur hv. frsm. skýrt það fyrir mér, hvað það er fleira, sem má krefjast af hálfu ráðuneytisins, þegar um er að ræða að velja afgreiðslumenn fyrir skipin? Ég skal að vísu vorkenna hv. frsm., þótt hann eigi bágt með svar um það, því að það stendur í frv., að leyfi megi binda þeim skilyrðum, sem rn. telur nauðsynleg á hverjum tíma, svo að þessi skilyrði geta verið nokkuð breytileg. Hv. minni hl. hefur lagt til, að þessi kafli væri felldur niður, og það er það rétta í þessu máli. Það er óhæfa að setja svona ákvæði í lög, án þess að höfð sé við sú aðferð, sem hv. minni hl. hefur bent á með sínu bráðabirgðaákvæði.

Ég veit engin dæmi til þess, að neins staðar hér í löggjöf hafi neitt rn. eða ráðh. seilzt inn á verksvið manna á svipaðan hátt og þennan með nýrri lagasetningu. Það hefur hingað til verið þannig, að skipafélögin ráða sér sína trúnaðarmenn, sem bera ábyrgð vitaskuld gagnvart skipafélaginu, en nú er það fjmrn., sem á að ráða því, hver maðurinn er. Og ef nú sá maður, sem skipafélagið vill trúa fyrir vörunum og uppfyllir að öðru leyti skilyrði til þess, sem það setur, svo sem um húsakost og því um líkt, finnur ekki náð fyrir augum fjmrh., hvað þá? Hver á þá að skera úr? Það er m.ö.o., að ráðherrann á að fara að ráða afgreiðslumenn fyrir skipafélögin. Það er það, sem er ætlazt til með þessu ákvæði. Það getur vel verið, að það verði vel framkvæmt, og það getur líka vel verið, að það verði misjafnlega framkvæmt. Það er enginn kominn til að segja um, hvernig það yrði, en ég tel fullkominn óþarfa að lögleiða slíkt ákvæði og alls ekki rétt að setja slíkt í lög. Og hvað tolleftirlitið snertir, þá hefur það ekki nokkra úrslitaþýðingu fyrir tolleftirlitið, hvort fjmrn. ræður afgreiðslumönnum skipafélaganna víðs vegar úti um land eða hvort fjmrn. þarf að „jústera“ sjálf skipafélögin um það, að þau megi afgreiða sjálf sín skip eða ekki. Ef þetta á að vera út af því, að þessir menn hafi með höndum varning, sem sé tollvara, og það er ekkert nýmæli, það hefur einatt verið, fer þá ekki að verða nauðsynlegt, að fjmrn. ráði því, hverjir eru stýrimenn á þessum skipum, eða jafnvel undirmönnum öllum á skipunum, því að allir skipta þeir sér eitthvað af þessum varningi, og er það þá ekki alveg eins líklegt, að einhver fjmrh. vilji hafa hönd í bagga með það, hverjir ráðnir séu til að flytja vörurnar á milli landa, ef hann á að ráða því eða rn. á að ráða því, hverjir það eru, sem skipafélögin trúa fyrir að geyma vörurnar, þegar á land er komið?

Ég held, að hér gæti einhvers misskilnings að því leyti, að það er eins og tollyfirvöldin eða rn. líti svo á sem rn. eða tollyfirvöldin eigi þessar vörur, sem fluttar eru milli landa og eru kallaðar tollvörur. En þær eru vitaskuld ekki eign rn. og rn. hefur sína sérstöku embættismenn, þar sem eru tollverðirnir, til að veita því athygli og eftirför, hvað við þær vörur er gert. Og það eru viss ákvæði í lögum um það, sem gilda fyrir hvern mann, sem fær tollvörur frá útlandinu, hvernig hann á að haga sér gagnvart yfirvöldunum á staðnum til þess að „tollklarera“, sem kallað er, sína vöru á heiðarlegan hátt, og þessi 4. grein, eins og hún er orðuð, bætir þar ekkert um.

Í 4. gr. eru svo fleiri ný ákvæði, sem Eimskipafélagið og þeir, sem gagnrýna þetta frv., hafa líka minnzt á.

Svo eru þessi fáránlegu sektarákvæði, sem hér er um að ræða í frv. Það er nú ekki neitt smáræði. Ég held, að skipstjóri, sem stýrir skipi, þar sem vitnast kann, að eitthvað hafi verið flutt með skipinu, sem ekki er á farmskrá, sé sekur um geipilega upphæð, ef yfirvöldin vilja svo vera láta. Það er hér talað um sektir í 19. gr. allt að 200 þús. kr. Það er nú ekki neitt smáræði.

Ég vildi ekki láta hjá liða að láta í ljós álit mitt um þetta mál við þessa 2. umr. Þó að ég hafi ekki flutt hér brtt., hefur hv. minni hl. flutt brtt. við það, sem ég fyrir mitt leyti ætla mér að fylgja. En ég vil sérstaklega láta í ljós hryggð mína yfir því fádæma sinnuleysi, sem hv. meiri hl. fjhn. hefur sýnt í þessu máli, þar sem hann skellir gersamlega skollaeyrum við öllum ábendingum, sem komið hafa fram frá mörgum aðilum utan þings og mörgum aðilum innan þings, öllu öðru en því að breyta skattgjaldinu þannig, að það sé tekið af tollinum sjálfum, en ekki lagður á nýr tollur, eins og rn. eða tollstjórinn ætlaðist til, þegar þetta var lagt fram. Sér í lagi þó þykir mér fyrir því og það vera þó verst, ef ekki fæst samþykkt bráðabirgðaákvæði eftir till. hv. minni hl. á þskj. 437. Ég er búinn að lesa upp innihald þess og þarf þess vegna ekki að endurtaka það, en þar virðist mér vera bent í rétta átt að því er snertir að setja löggjöf um þetta efni, sem sé haldgóð fyrir tollinn sjálfan, löggjöf, sem verði gagn að til að framkvæma gott eftirlit. Það er það, sem ætti að vera áhugamál allra, sem um þetta fjalla, að löggjöfin yrði meira en bara pappírsgagn, sem sýnilega, eins og ég hef lýst, er að sumu leyti miðuð við útlendar aðstæður, sem ekki eru til hér á landi, að öðru leyti nýmæli, sem hvergi eru til í lögum annars staðar og eiga hvorki hér á Íslandi né annars staðar við, og enn fremur ákvæði, sem að vissu leyti, eins og sumt í IV. kaflanum, eru, ja, mér liggur við að segja óhæfa, eins og það, að fjmrn. sé að skipta sér af því, hverjir séu trúnaðarmenn fyrir vissa atvinnurekendur á ýmsum stöðum hér á landi. Hér eru það siglingarnar, sem teknar eru í þessu efni, siglingarnar milli landa, þar vill ráðherra hafa fingurinn inn á milli um það, hverja þeir velja sér að trúnaðarmönnum hér á landi. Hvaða stétt verður tekin næst? Er ekki hugsanlegt, að það geti verið einhverjir fleiri, sem vilja hafa tögl og hagldir með, hverjir eru ráðnir til hverra starfa á hverjum stað?

Bráðabirgðaákvæðið, sem ég minntist á að mér þykir mest fyrir um, ef ekki nær lögfestingu, bendir ljóslega á það, hvernig þennan vanda megi leysa með ráði tollyfirvaldanna, með ráði þeirra, sem flytja vörurnar á milli landa, þ.e.a.s. skipafélaganna, og með ráði þeirra, sem hafa þær með höndum bæði til verzlunar og afhendingar hér á landi. Upp frá slíku samstarfi gætu vissulega komið þær tillögur um framkvæmd á þessu máli, sem haldgóðar kynnu að reynast í framkvæmdinni, og þá ekki sízt þar sem hv. þm. Barð. drap á, að stigið væri spor í þá átt að loka hafnarsvæðinu fyrst og fremst hér í Reykjavik, til þess að allt eftirlit á öllum sviðum, ekki einasta á tolleftirlitssviðinn, heldur á fleiri eftirlitssviðum, gæti orðið haldkvæmt og komið að gagni. Það þýðir lítið að setja pappírsákvæði, sem ekki eiga við og eru sett í trássi við þá, sem eiga mest undir þeim að búa. En það er miklu viturlegra að setja löggjöf, sem fyrir fram er tryggt, að samkomulag geti orðið um, að verði framfylgt.

Ég mun nú bíða átekta og sjá, hvernig fer við atkvgr. um þetta mál hér við þessa umr. Ég veit ekki, hvort það þýðir neitt að flytja brtt. við 3. umr., ef allt verður fellt núna, en a.m.k. má sjá, hversu þetta fer. En ég vil alvarlega benda hv. meiri hl. fjhn. á það, að sérstaklega með því að leggjast á móti bráðabirgðarákvæðinu á þskj. 437 er visvitandi verið að vinna tollgæzlunni til óhagræðis, þá er verið að vinna gegn henni, en ekki með henni.