20.03.1956
Efri deild: 89. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Fjhn. er óklofin um þetta mál og hefur gefið út sameiginlegt nál., þó að tveir nm. hafi borið fram brtt. og kosið sér framsögumann í málinu.

Ég veit það, að hv: frsm. mun svara þeim efnislegu athugasemdum og gagnrýni, sem fram hefur komið, ef hann finnur ástæðu til, og hann hefur þegar svarað því, sem þá var fram komið, þegar hann tók síðast til máls. Hv. þm. Vestm. (JJós) taldi, að hann hefði aðallega notað rök tollstjórans í Rvík í sínu svari, og finnst mér það ekki ámælisvert, þó að hann vitni í álit tollstjórans í Rvík, því að það mun vera sá maður í landinu, sem hefur mesta reynslu um framkvæmd tollheimtu. Og þó að hv. þm. Vestm. teldi sig þekkja töluvert til þessara mála, sem ég efa ekki að hann geri, þá hygg ég, að tollstjórinn í Rvík þekki þau

betur. Þess vegna finnst mér það sízt að lasta, þó að hv. frsm. nefni álit tollstjórans í Rvík.

Hv. þm. Vestm. sagði á þá leið, að Nd. mundi ekkert hafa athugað málið. Hvernig getur nú hv. þm. fullyrt þetta? Er það sönnun fyrir því, að n. hafi ekki athugað mál, þó að hún leggi til, að það verði samþ. óbreytt? Ég held ekki. N. hefur getað athugað mál rækilega, þó að hún komist að þeirri niðurstöðu, að bezt fari á því að samþ. lagafrv. óbreytt.

Á fyrri fundi hér í d. í dag var stórum lagabálki vísað til þessarar sömu nefndar, fjhn., og hæstv. forseti skoraði á mig sem formann n. að sjá svo um, að 2. umr. um málið gæti farið fram á fimmtudaginn. Ef þetta á að framkvæmast, þá sé ég ekki, að það muni verða mjög mikill tími til þess að hlusta á marga aðila, sem kunna að hafa ráð að gefa í því málí, eða fá umsagnir margra aðila um það. Það væri þá líklega dómur, ef svo skyldi fara, að n. legði til að samþ. það frv. óbreytt, að n. hafi ekkert athugað málið.

Ég skal kannast við það, að ég lít svo á, að þessi hv. d. sinni meira athugun mála en hv. Nd. og hafi oft leiðrétt mál, sem hv. Nd. hefur samþykkt, en að kveða upp samt sem áður órökstudda sleggjudóma yfir hv. Nd. og einnig þingnefnd þar, finnst mér ekki viðeigandi. Og ég vil minna hv. þm. Vestm. og hv. þm. Barð. á það, að þeirra eigin flokksbræður eiga sæti í fjhn. Nd. eins og þeir eiga sæti í fjhn. Ed., og þeir lögðu til, að þetta frv. yrði samþykkt óbreytt. Það gerir þó enginn nm. í fjhn. Ed. að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.

Hv. þm. Vestm. sagði orðrétt, að það hefðu engir fengið að segja neitt um þetta mál nema tollstjórinn. Ég get ekki kannazt við þetta. Ég get ekki kannazt við það, hvort sem mönnum líkar niðurstaðan betur eða verr, að hv. n. hafi ekki af fullri gaumgæfni athugað þetta mál, og ég ætla að segja það, að sjútvn., sem ég á sæti í og hv. þm. Vestm. er form. fyrir, hefur ekki yfirleitt athugað mál meira en fjhn. hefur athugað þetta mál. Hún hefur leitað til flestra þeirra aðila, sem mest hafa um þetta mál að segja og mest kemur það við, og fengið umsagnir þeirra. Svo segir hv. þm., að það sé sauðþrái meiri hl. fjhn. að taka ekkert tillit til þeirra athugasemda. Auðvitað verða nm. og þm., þó að þeir vilji heyra sem flest rök, að fara eftir eigin skoðun um það, hvað rétt sé að leggja til í hverju máli, en ekki hlaupa endilega eftir því, sem aðrir menn segja. Svo er annað í þessu máli, að tollstjórinn í Rvík, sem hefur samið frv., a.m.k. að mestu leyti, og eins og ég sagði áðan er þessum málum allra manna kunnugastur, er sá óhlutdrægi embættismaður, sem byggir á sinni þekkingu við samningu frv., en þessir aðilar, sem mótmælt hafa lögunum, eru þeir, sem eiga að lúta þeim, og ég veit ekki, hvernig löggjöfin yrði yfirleitt í landinu, ef ætti að fara eftir því, hvað þeir, sem sérstaklega er ætlað að lúta tilteknum lögum, segja um þau.

Það gat hver sagt sér fyrir fram, að þær kvaðir, sem óneitanlega eru lagðar á skipafélögin með þessu frv., þótt þær séu langt frá því eins stórvægilegar og hv. þm. vildi vera láta, mundu ekki finna náð fyrir augum skipafélaganna, en það er engin sönnun fyrir því, að þau ákvæði frv. séu ekki réttmæt.

Hv. þm. Vestm. fjölyrti um það, að ráðning afgreiðslumanna verði að vera háð samþykki ráðuneytis, og bjóst við, að ráðuneytið færi að hafa afskipti af ýmsum fleiri ráðningum og það væri rökrétt afleiðing af þessu. En það hefur nú lengi verið í lögum um ýmis störf, sem t.d. atvinnuvegirnir verða að láta inna af höndum, að það er háð samþykki og veitingu jafnvel yfirvaldanna, hvaða menn það eru. Ég minni á fiskmat og annað slíkt og aðra matsmenn á vörum. (JJós: Fiskmat er opinbert starf.) Ja, það er opinhert starf að nokkru leyti, og að nokkru leyti er það á vegum útgerðarinnar. (JJós: Það er ekki sambærilegt.) Mér virðist það sambærilegt. Og svo geri ég alls ekki ráð fyrir því, að ráðuneytið fari að misbeita þessu. Ráðuneytið samþykkir auðvitað oftast þá menn, sem skipafélögin ráða og vilja ráða, en það getur hent, að það séu menn, sem t.d. er ekki hægt að treysta í svona hlutum, við skulum segja menn, sem á einhvern hátt hafa orðið sekir við tolllög; það gæti vel staðið svo á, að skipafélag vildi hafa þá við afgreiðslu. Þess vegna virðist það ekki óeðlilegt ákvæði, að þetta sé háð samþykki ráðaneytis.

Hann var að tala um það, að þetta væri eins og ráðuneytið þættist eiga vörurnar, sem fluttar eru til landsins. Vitanlega á ráðuneytið ekki vörurnar, en ríkissjóður á hluta af verði þeirra, þar sem eru tollarnir, og mér finnst ákaflega eðlilegt, að ríkisvaldið vilji hafa hlutdeild í því, hvernig tollgæzlan fer fram.

Ég vísa algerlega frá mér sem formanni n. og nefndinni í heild sinni, að hún hafi sýnt sinnuleysi um þetta mál, eins og hv. þm. Vestm. ber á meiri hl. nefndarinnar. Ég bara fullyrði það, að þetta mál hefur verið rætt meira í fjhn. og meira um það fjallað en hér er venja um þingmál í nefndum. Annars var það ekki ætlun mín að fara að ræða hér efni málsins, heldur hitt, að ég kunni ekki við þann tón, sem hv. Vestm. viðhafði um það, að hér hefði verið kastað til höndunum, tala nm sauðþráa og annað eins, þó að menn vilji ekki fallast á hans skoðun. Ég efast ekki um það, að í byrjun þessa máls eða einhvern tíma hefur verið rætt um þetta á fundi í Sjálfstfl., a.m.k. hefðu hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm. getað innleitt það þar á fundi. Því aðvöruðu þeir ekki sína menn í Nd. í staðinn fyrir að koma hér á síðasta stigi málsins svo að segja með ásakanir á aðra? Við leggjum ekki annað til í meiri hl. en það, sem þeirra flokksbræður í Nd. hafa lagt til og allir samþykkt þar.