13.10.1955
Efri deild: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

15. mál, tollskrá o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv. ásamt öðru, sem nú hefur verið afgreitt frá deildinni til 2. umr., fjallar nm framlengingu á gildandi gjaldaákvæðum.

Ég er sammála hæstv. fjmrh. um það, að þar sem gjöldin, tollarnir, eru lögð á magn eða einingu, sé alveg óhjákvæmilegt og eðlilegt að fylgjast með verðbreytingunum með því að taka álag á grunntollana, ef svo mætti segja, eins og lagt er til í þessum frv. Ég er því samþykkur öllum greinum þessa frv. nema B-lið 1. gr., en það er verðtollurinn. Um hann gildir allt annað en um vörumagnstolla, þar sem tollarnir eru lagðir á ákveðið vörumagn eða ákveðna einingu. Verðtollurinn hækkar af sjálfu sér með hækkuðu verði, og því er ekki ástæða til þess að leggja á hann viðaukatoll vegna breytts verðlags, því að sá tollur hækkar, eins og ég áður sagði, sjálfkrafa með hækkuðu verðlagi í íslenzkum krónum á þeim vörum, sem keyptar eru og fluttar inn.

Samkv. fjárlagafrv. fyrir 1956, sem hæstv. ráðh. hefur lagt fram, er gert ráð fyrir, að verðtollurinn verði að meðtalinni þessari álagningu um 155 millj. kr. Telst mér því svo til, að þessi 45% álagning á verðtollinn, sem hér ætti að heimila, svari til nálægt 50 millj. kr. af þessari upphæð. Það liggur í augum uppi, að álagning slík sem þessi í viðbót við fyrri tolla að viðbættri svo álagningu milliliða, sem með vöruna verzla, hlýtur að koma fram í verðlagi varanna, auka dýrtíðina, hækka vísitöluna með þeim afleiðingum, sem öllum eru kunnar.

Ég vildi því leyfa mér að skjóta því til hæstv. ráðherra, með tilliti til hinnar greinargóðu skýrslu, sem hann hefur gefið um afkomu ársins 1954, hvort hann sæi sér ekki fært að fella þetta álag niður eða a. m. k. lækka það verulega frá því, sem hér er um að ræða. Ég vænti, að hv. fjhn., sem væntanlega fær málið til umr., athugi þessa hlið málsins með hæstv. ráðherra.