20.10.1955
Efri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

15. mál, tollskrá o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. tók fram, flyt ég brtt. á þskj. 36 um, að B-liður 1. gr. þessa frv. falli niður, en í B-lið er ákveðið, að verðtollurinn skuli innheimtur með 45% álagi.

Ég benti á það þegar við 1. umr., að verðtollurinn sé að því leyti ólíkur öðrum tollum, sem á eru lagðir, að hann er bundinn við verðgildi vörunnar og hækkar eftir því, sem verð hennar hækkar, í staðinn fyrir að flestir hinna tollanna eru bundnir við magn. Af því leiðir, að með hækkandi vöruverðlagi eða lækkandi gildi krónunnar hækkar tollurinn í krónutölu sem því svarar. Þess vegna er óeðlilegt að leggja sérstakt álag ofan á þennan toll, þó að aðrir tollar þurfi að hækka til samræmis við vaxandi dýrtíð þeir tollar, sem miðaðir eru við magn.

Hv. frsm. (KK) veit einnig, að þegar viðaukinn var lagður á verðtollinn á sínum tíma, var það gert í sérstökum tilgangi, áður en gengislækkun var framkvæmd, og einmitt var gert ráð fyrir því í sambandi við gengislækkunina og þá hækkun á verðtollinum, sem af henni stafaði að krónutölu, að hægt yrði að fella niður þennan viðauka. (Gripið fram í.) Það er rétt, að hann var lækkaður niður í 45%.

Hv. þm. segir, að það muni kosta ríkissjóðinn um 50 millj. kr. að fella þennan verðtollsviðauka niður. Mér reiknast, að miðað við fjárlagafrv. sé það um 48 millj., svo að það skeikar ekki miklu. Í því sambandi skal ég geta þess, að ég léði máls á því í fjhn., þegar þetta mál var til umr., að taka til athugunar, ef nefndarmenn vildu ganga til móts við mig og gera nokkra lækkun á verðtollsviðaukanum, t. d. niður í 20–25%, en það fékk engar undirtektir í nefndinni.

Hv. þm. segir, að það sé furðulegt, að ég, sem sjálfsagt óski aukinna útgjalda á fjárlögum, skuli vera með því að rýra tekjur ríkissjóðs á þennan hátt. Ég hef nú ekki verið frekari til fjárins en aðrir í kröfum mínum til ríkissjóðs, — ég meina það ná ekki um sjálfan mig persónulega, enda meinti hann það ekki heldur, — en yfirleitt til fjárframlaga úr ríkissjóði án þess að gera grein fyrir, hvernig tekna skyldi aflað til þeirra framkvæmda.

En í sambandi við þessa fullyrðingu hv. frsm. vil ég minna hann á upplýsingar hæstv. fjmrh., sem hann gaf við fjárlagaumr. í hv. Sþ. nú fyrir skömmu. Hann taldi, að eftir því sem séð væri og ætla mætti um útkomu ársins 1955, mætti telja víst, að tekjurnar færu a. m. k. nokkuð yfir 100 millj. kr. fram úr áætlun, og í yfirliti yfir árið 1954, sem útbýtt hefur verið til þingmanna ásamt fjárlagafrv., liggur skjalfest, að umframtekjurnar hafa orðið um 108 millj. kr. árið 1954. Það er að vísu rétt, að mikið af þessu fé hefur verið notað, sumpart fyrir það, að einstakir liðir fjárlaganna hafa farið fram úr áætlun af ýmsum ástæðum, sem of langt mál yrði að rekja hér, og sumpart fyrir það, að því hefur verið varið til annarra hluta, sem hæstv. ríkisstj. hefur talið að þörf hafi verið að leggja fé til og fengið stundum samþykki Alþingis eftir á.

Ég verð að segja, að ég sé þess engin merki, að frv., sem nú liggur fyrir til fjárlaga fyrir næsta ár, sé með öðrum hætti en undanfarið. Það er því enginn vafi á því, að það eru sömu varlegu útreikningarnir við áætlun teknanna, sem þar er miðað við, eins og verið hefur, enda sést það, ef borið er saman yfirlitið 1954 og fjárlagafrv. nú.

Af þeim sökum er því ekki hægt að mæla með þessu frv., nema ætlunin sé, að svo varlega sé áætlað enn í fjárlögunum, að þau standist það, að bætt sé á þau miklum útgjaldaauka, sem síðan yrði jafnaður með því að hækka þá tekjuliði, sem fyrir eru. Auk þess er þess að geta, að hæstv. fjmrh. hefur beinlínis boðað í fjárlagaræðu sinni, að vænta mætti tillagna frá honum um nýjar álögur, og er þá rétt að athuga, þegar till. koma fram, hvort þær kynnu að vera réttmætari á einhvern hátt en þessi tollauki, sem hér er um að ræða.

Ég skal ekki hafa um þetta lengra mál og vil vænta þess, að hv. deildarmenn greiði till. atkvæði.