20.10.1955
Efri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

15. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. (HG) hefur nú gert grein fyrir till. sinni, og má segja, að sú grg. hafi varla verið annað en þær ágætu óskir, sem við berum náttúrlega allir í brjósti, að hægt hefði verið að lina á útgjöldum þegnanna. Hann benti á það, að þessi tollur hækkar með hækkandi verðlagi, og það er að vísu rétt. En þó er hann lagður á erlendu vöruna, innkaupsverð hennar og líklega flutningsgjöld, og þegar verðlagið innanlands stígur hraðar en verðlag aðkeyptra vara, eins og hefur verið að undanförnu yfirleitt, þá má segja, að þessi tollur lækki samhliða því, sem verðlagið innanlands hækkar, og verði því léttari en áður. Í stjórnartíð Alþfl. mun álagið á tollinn hafa verið 60%, og þá var þó þörfin fyrir álagninguna minni en hún er nú, vegna þess að fjárl. voru miklu lægri og margt hefur komið til, sem standa þarf straum af fyrir ríkissjóðinn síðan. Ég held þess vegna, að hv. 4. þm. Reykv. þurfi ekki sérstaklega að vera óánægður með tollálagið fyrir næsta ár um 45%.

Ég gerði ráð fyrir því, að hv. þm. mundi vegna flokks síns fyrst og fremst hafa áhuga á því, að þeir útgjaldaliðir, sem tilkynnt hefur verið að enn væru ekki komnir inn á fjárl., yrðu teknir inn í þau. Það eru útgjöld vegna hækkandi launalaga. Gizkað er á, að þau verði 20 millj. Vegna greiðslu ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginga munu vera áætlaðar um 14 millj. Enn fremur er sennilegt, að hækka þurfi greiðslur úr ríkissjóði vegna almannatrygginganna, mér er sagt um ekki minna en 6 millj. — kannske meir. (Gripið fram í.) Já, hvað þá, ef það er meira, eins og hv. 4. þm. Reykv. skýtur nú inn í að það verði. Þarna eru um 40 millj. Og þegar þetta liggur fyrir, finnst mér það satt að segja fullhraustlegt, eins og ég sagði áðan, að flytja lækkunartill. á tekjum ríkissjóðs um nálega 50 millj. og jafnvel þótt tekjuafgangur, sem búið er að eyða, hafi verið frá síðasta ári.

Í sjálfu sér er það svo, að þar sem tekjur ríkissjóðs byggjast mjög mikið á verzluninni og kaupgetu manna, þá er óvarlegt að gera ráð fyrir því og byggja á því, að hún geti orðið áfram eins og hún hefur verið á þessu og síðasta ári.

Fleira tel ég ekki ástæðu til að taka fram. Ég hygg, að það liggi ljóst fyrir, að brtt. fær ekki staðizt, því miður.