09.01.1956
Efri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

129. mál, náttúruvernd

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir sáðasta Alþ., en það var á sínum tíma samið af mönnum, sem hæstv. fyrrverandi menntmrh„ Björn Ólafsson, hafði kvatt til þess. Frv. er allmikill bálkur og hefur að geyma ýmis nýmæli og takmarkanir á umráðarétti einstaklinga og almannastofnana yfir eignum þeirra.

Enginn efi er á því, að frv. í heild stefnir í rétta átt, þar sem það miðar að því að vernda náttúru landsins og sérstaklega einkennilega og fagra staði, sem segja má að setji svip sinn á umhverfið og séu landinu til prýði, og miðar enn fremur að því að gefa almenningi betra færi til að njóta náttúrunnar en segja má að tryggt hafi verið í lögum fram að þessu. En vegna þess að hér er um nýmæli að ræða, var frv. á síðasta hv. Alþ. afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin leiti umsagnar sýslunefnda, bæjarstjórna og Búnaðarfélags Íslands um málið og leggi fyrir næsta þing niðurstöður sínar, að undangenginni endurskoðun á frumvarpinu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Frv. hefur verið sent til þessara aðila, og flestir þeirra hafa sent umsagnir. Á mörgum þeirra er lítið að græða. Í öðrum eru athugasemdir, fæstar

veigamiklar. Yfirleitt má segja, að frv. hafi hlotið góðar undirtektir, sumar athugasemdirnar eins og gengur byggðar á misskilningi, aðrar eru réttmætar. Til þessara athugasemda hefur verið tekið tillit í þremur óverulegum breytingum, sem gerðar hafa verið á frv., eins og nánar er rakið í grg. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um það. Breytingarnar eru nánast til frekari skýringar, eru um efni, sem ekki hafa neina þýðingu fyrir heildarskoðun manna á málinu, og tel ég því ekki ástæðu til að þreyta hv. d. með mælgi um þær eða ýtarlegri skýringum.

Ég vonast til þess, að frv. eftir þessa rækilegu athugun, sem það hefur fengið hjá þeim aðilum, er til stóð, hljóti nú greiðan framgang í hv. þingdeild. Leyfi ég mér að leggja til, að það verði samþykkt til 2. umr. og verði vísað til hv. menntmn.