23.01.1956
Efri deild: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

129. mál, náttúruvernd

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. það um náttúruvernd, sem hér er til umr., er flutt af menntmn. fyrir ríkisstjórnina. Þetta var til umr. í þessari hv. d. á síðasta þingi, en var eftir till. menntmn. vísað til ríkisstj., einkum til þess að leita umsagnar sýslunefnda og bæjarstjórna, því að vitað var, að alilangan tíma mundi taka að fá þær umsagnir.

N. sú, er undirbjó frv., hefur athugað þessi gögn, sem flest mæla með því, að frv. verði samþ. með litlum eða engum breytingum. Búnaðarfélag Íslands hefur í svari sínu gert nokkrar athugasemdir við frv., einkum við 2., 4., 6., 7. og 9. gr., en ekki geta þær kallazt róttækar, en benda einkum á rétt bóndans til nytja af landi sínu, sbr. um berjatínslu. Sams konar ummæli finnast einnig í umsögn sýslunefndar Kjósarsýslu og sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu. Annars eru flestir þess fýsandi, að lög um þetta efni verði samþykkt.

Frv. hefur tvennan tilgang, í fyrsta lagi að vernda sérstakar náttúruminjar, sem sjaldgæfar eru, svo að þær verði ekki eyðilagðar að óþörfu eða í hugsunarleysi, og setja reglur um umferð fólks, sem njóta vill hressingar og hvíldar úti í náttúrunni, og er þá að sjálfsögðu fyrst og fremst átt við fólk úr kaupstöðum og kauptúnum, en um leið að vernda rétt bænda fyrir ósanngjörnum ágangi á lönd þeirra, en umsjón með þessu er í höndum náttúruverndarnefndar í hverri sýslu,en náttúruverndarráð hefur úrskurð um þessi mál, og eru sjö menn í því undir yfirstjórn menntmrh. Þær sýslunefndir, sem helztar athugasemdir gera, eru næstar Reykjavík og Akureyri, en þaðan er aðallega að vænta ágangs á lönd bænda, einkum að því er snertir berjatínslu, svo og óþarfa styggð, sem kemur á búfé fyrir þennan ágang. Í 6. gr. frv. eru settar skorður við slíku óhagræði fyrir landeigendur, og því til styrktar hefur n. gert breytingu á 6. gr., eins og nál. ber með sér, og það er sú eina breyting, sem n. hefur gert á frv. Annars sker reynslan úr, ef frv. verður að lögum, og þá verður hægt að bæta um síðar, ef þörf þykir.

Eins og ég gat um áðan, eru umsagnir Búnaðarfélags Íslands á þann veg, að það snertir eiginlega sameiginlega allar þær athugasemdir, sem fram hafa komið frá sýslufélögum og öðrum. Eins og ég gat um lauslega áðan, þá er í fyrsta lagi gerð athugasemd við 2. gr. frv., þar sem rætt er um jarðrask á jörðum. En við athugun á nál. og skýringum, sem þar fylgja, á þetta ekki að hafa neina hættu eða kostnað í för með sér, því að það er ekki skylt að hlíta þessu til fullnustu.

Um 6. gr., sem n. hefur gert aths. við, er einnig rætt í bréfi Búnaðarfélags Íslands, og finnst þeim, að bændur eigi að hafa það mikinn rétt yfir löndum sínum, að þeir geti ákveðið um berjatínslu og annað og eigi að hafa fullar nytjar þess vegna. Undanfarin ár, a.m.k. nú um lengri tíma, hafa menn haft þann sið yfirleitt að biðja um leyfi til berjatínslu, og í þeim sveitum, þar sem berjalönd eru bezt, hafa menn selt þau á leigu, visst fyrir hvern mann, sem tínir ber, og t.d. sérstaklega í Kjósarsýslu er talsverð fjárhæð, sem borguð er fyrir þetta af ýmsum félögum og félagasamtökum, sem hafa farið í berjatínslu að haustinu. Ég hef ekki heyrt, að það hafi borið á því, að menn hafi gert neitt til að spilla landi, ekki hafa komið kvartanir, svo að ég viti. Og ég held, að með eftirliti, sem bændur jafnan hafa, er þeir leigja lönd til berjatínslu, sé mjög lítið úr þessu gert. Og þetta eru nú þær helztu aukatekjur, sem menn hafa af óræktuðu landi.

Í þeirri breytingu, sem n. gerði á 6. gr., 2. málsgr., var skotið inn í greinina, að sé landið girt, er aðelns heimilt að fara gegnum hlið á girðingunni, svo að menn séu ekki að ráðast beint á girðingarnar, brjóta þær niður eða spilla á þann hátt. Í greininni stóð: „enda hafi dvöl manna þar ekki í för með sér mikið óhagræði“. Við fellum orðið „mikið“ niður, og þá geta bændur kvartað yfir ágangi við náttúruverndarnefndir og fengið þar úrskurð á. En n. sá sér ekki fært eða ástæðu til þess að breyta frv. neitt að öðru leyti en þessu, því að það getur eflaust verið margt í því, sem orki tvímælis, en þá hefði verið farið það langt út í það, að litið hefði kannske orðið eftir af frv. En nm. eru allir sammála um, að þetta sé gagnlegt mál og þarflegt að fá um það lög, sem reynslan síðar sker úr, hvort verði til gagns eða ekki.