20.10.1955
Efri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

15. mál, tollskrá o. fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Mér virðist liggja einkennilega mikið á að afgreiða þetta mál frá þessari hv. deild. Ég held hins vegar, að þetta mál sé þannig vaxið, að mikil nauðsyn beri til að láta það fá mjög gaumgæfilega athugun, eins og nú er ástatt í okkar efnahagslífi.

Þessi hækkun, sem hér um ræðir, á tollum var fyrst sett í lög árið 1946. Það var eitt af fyrstu verkum þeirrar stjórnar, sem tók við af nýsköpunarstjórninni, þ. e. a. s. stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar. Þá átti það að vera bráðabirgðafjáröflun til stuðnings útflutningsatvinnuvegunum og átti þá að gilda aðeins eitt ár. Síðan var söluskatturinn lagður á í sama skyni. Þessar miklu tollahækkanir áttu að koma í staðinn fyrir gengislækkun, sem mjög var rædd þá þegar, og það var oft komizt svo að orði, að hér væri um dulbúna gengislækkun að ræða. Síðan var stórkostleg gengislækkun framkvæmd, og meðal þeirra raka, sem færð voru fram fyrir kostum hennar, var það, að hún kæmi í staðinn fyrir þessa miklu tolla og skatta, sem þá væri hægt að lækka. En raunin varð ekki sú, að þessar tollahækkanir væru látnar niður falla, heldur voru þær framlengdar ár frá ári, og nú er farið fram á, að það verði gert einu sinni enn, víst í áttunda sinn.

Þetta eru því ekki neinir bráðabirgðatollar lengur, heldur fastur tekjustofn, og ekki til stuðnings útflutningnum sérstaklega, heldur almennt eyðslufé ríkissjóðs.

Nú eru það skrýtin vinnubrögð að vera að samþykkja þessar tollahækkanir á hverju ári, þó að þær séu í raun og veru orðnar fastur tekjustofn, og maður hlýtur að spyrja: Hvers vegna er þetta ekki fært inn á tollskrána? En það hefur sýnilega orðið fastur siður, að í hvert skipti, sem tollar eru hækkaðir, er látið í veðri vaka, að hér sé aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða til þess að afla fjár til einhverra sérstakra þá óhjákvæmilegra útgjalda. Þessi leið er farin vegna þess, að tollahækkanir, sem raunar eru ætlaðar til frambúðar, eru eins konar feimnismál.

Nú gengur mikið dýrtíðarflóð yfir landið og stofnar afkomu þjóðarinnar í mikla hættu, ef ekki verður rönd við reist. Þetta ætti að vera það vandamál, sem þingið einbeitti sér að því að leysa, þegar það kemur saman. En það örlar ekki á því. Og þessi flýtir á afgreiðslu tollahækkananna spáir ekki góðu um hugarfar stjórnarflokkanna í þessum efnum.

Nú eru tollar og óbeinir skattar orðnir fast að hálfum milljarði samtals á fjárlögum, og þar við bætist svo bátagjaldeyririnn og togaraskatturinn, sem nema á annað hundrað milljónum króna. Hlýtur að vera hverjum manni ljóst, hversu gífurlegan þátt þessir óbeinu skattar eiga í dýrtíðinni. Hv. frsm. meiri hl. heldur því fram, að vegna væntanlegra aukinna útgjalda sé ekki aðeins nauðsynlegt að framlengja alla þá skatta, sem til þessa hafa hvílt á þjóðinni, heldur jafnvel að bæta nýjum við. Þetta er raunar það sama sem hæstv. fjmrh. tilkynnti í fjárlagaræðu sinni. Ekkert tillit er tekið til þess, að rekstrarafgangur s. l. árs var fast að 100 millj. kr., eða hefur raunar verið a. m. k. 100 millj. kr., eftir því sem nú er upplýst, og auðsætt er, að með aukinni dýrtíð hækkar upphæð óbeinn skattanna að sama skapi. Ekki sjá fulltrúar stjórnarflokkanna heldur neina leið til þess að afla aukinna tekna, aðra en þá að hækka tolla og óbeina skatta; a. m. k. hefur það ekki komið fram enn. Ég geri því ráð fyrir, að ef till. hv. 4. landsk. verður borin undir atkvæði nú, þá séu örlög hennar þegar ráðin, eins og greinilega kom fram í ræðu hv. frsm. (KK). Mér finnst hins vegar þetta mál og dýrtíðarvandamálið allt vera svo mikilvægt, að ekki sé rétt að hrapa að afgreiðslu þess nú á stundinni.

Fyrir hv. neðri deild liggur annað mál náskylt þessu og ekki hægt að skilja frá því, en það er framlenging söluskattsins. Nú vildi ég leggja til, að þessu máli yrði frestað og að fjárhagsnefndir beggja deilda kæmu saman og ræddu þessi mál í sameiningu af fullri alvöru, gerðu gaumgæfilega athugun á því, hvort hægt væri að komast að samkomulagi um einhverja lækkun, sem orkað gæti í þá átt að draga úr dýrtíðaröldunni, samfara öðrum ráðstöfunum í því skyni. Það er ekki víst, að ráðið yrði að afnema þessa skatta á öllum vörum, þ. e. a. s. þá skatta, sem felast í þessu frv. og frv. um framlengingu söluskattsins, heldur öllu fremur endurskoðun á öllu tolla- og skattakerfinu í því skyni að draga eitthvað úr hinu háa verðlagi á þeim vörum, sem mesta þýðingu hafa í neyzlu almennings.

Hvað sem líður hugmyndum manna nú að lítt rannsökuðu máli um tekjuþörf ríkissjóðs og þeim áætlunum, sem fyrir liggja um tekjur ríkissjóðs á næsta ári, tel ég það vera beinlínis ábyrgðarleysi af þinginu, eins og nú er ástatt, að gera enga tilraun til slíkrar rannsóknar, til slíkrar sameiginlegrar athugunar, og enda þótt ýmis aðkallandi mál liggi fyrir þinginu, þá held ég, að dýrtíðarmálið í heild sinni sé tvímælalaust mest aðkallandi.