26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

129. mál, náttúruvernd

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls var lýst hér brtt., sem skógræktarstjóri hafði samið og óskaði eftir að menntmn. tæki til athugunar.

Menntmn. hélt fund um málið nú í morgun. Formaður n., hv. 7. þm. Reykv. (GTh), gat þó ekki setið fundinn sökum lasleika, og annar nm., hv. 2. þm. N-M. (HÁ), var fjarstaddur á þessum fundi n., en 3 nm. ræddu málið að nýju við skógræktarstjóra, og gerði hann n. ýtarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum um þetta mál.

Sú breyting, sem skógræktarstjóri og aðilar í Skógræktarfélagi Íslands virðast leggja mesta áherzlu á að gerð verði á þessu frv., er, að fulltrúi frá Skógræktarfélagi Íslands fái sæti í náttúruverndarráði.

Þeim nm., sem athuguðu þetta á fundi í morgun, þótti sanngjarnt að verða við þessum tilmælum, og leyfum við okkur að leggja fram brtt.. við 10. gr. frv. á þann veg, að í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að Ferðafélag Íslands tilnefni einn mann í náttúruverndarráð, þá komi í þess stað, að Skógræktarfélag Íslands tilnefni þennan aðila í ráðið.

Enn fremur leggjum við til lítils háttar breytingu við 4. gr. frv., þar segir svo: „Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar.“ Þetta virðist við nánari athugun vera helzt til bundið, svo að við leggjum til, að á eftir þessum orðum komi: án leyfis náttúruverndarráðs. M.ö.o. sé heimilt, ef sérstaklega stendur á, að ráðið geri á þessu undantekningu.

Ég skal geta þess, að ég hef í dag rætt þessar brtt. við Ármann Snævarr prófessor, sem er annar höfundur þessa frv. eða líklega réttara sagt aðalhöfundur þessa frv., og hefur hann tjáð mér, að hann geti fyrir sitt leyti fallizt á, að þessi breyting verði gerð á frv.

Tillögur þær, sem ég hef nú lýst, voru látnar í prentun nú fyrir kvöldmatinn, en ég sé, að þeim hefur ekki verið útbýtt, svo að ég ætla að leggja þessa till. fram skriflega og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni.