20.10.1955
Efri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

15. mál, tollskrá o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Út af till. hv. 2. landsk. þm. um að fresta þessu máli og fyrirspurn hæstv. forseta til n. um það, hvort hún vildi á það fallast, vil ég taka fram, að ég fyrir mitt leyti sé ekki ástæðu til þess að fresta þessu máli nú, þó að ég skuli viðurkenna, að það mundi ekki gera mikinn skaða, þó að því væri frestað um sinn.

Það er þó ekki sökum þess, að ég sé ekki hv. 2. landsk. þm. sammála um það atriði út af fyrir sig, að þörf sé á að taka fjármál ríkisins, tekjur þess og gjöld, til gaumgæfilegrar athugunar og það sem allra fyrst, t. d. af fjárhagsnefndum þingsins og fjvn. og yfirleitt þinginu í heild sinni. En ég tel ekki þörf á að fresta þessu máli þrátt fyrir þetta, vegna þess að sú rannsókn getur alls ekki leitt til þess, að tekjustofnar ríkissjóðs, sem hann nú hefur, verði lækkaðir. Það er óhugsandi, eftir því sem gjöld ríkisins hafa verið undanfarið og eftir því sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið loforð, sem þingið væntanlega staðfestir, sem ég skal þó ekki fullyrða um. Þess vegna held ég, að af þeim ástæðum, sem hv. þm. nefndi, sé alls engin ástæða til að fresta þessu máli.

Úr því að ég fór að kveðja mér hljóðs og nokkuð til kvaddur, get ég ekki látið hjá líða að mótmæla því, sem virtist koma fram hjá hv. 2. landsk. þm. og hv. 4. þm. Reykv., að hér væri um skattahækkun að ræða. Hér er aðeins um það að ræða að halda þeim tekjustofni óbreyttum, sem verið hefur undanfarin ár. Það var líka rangt, sem hv. 2. landsk. þm. sagði, að það hefðu ekki verið lækkaðir skattar í sambandi við gengislækkunina. Verðtollurinn var með hærra álagi, það var verulega lækkað, um leið og gengisbreytingin var samþykkt. Annars er ég því sammála, sem hann sagði, að ég teldi það réttara með tekjustofna, sem framlengdir eru ár frá ári, að setja það ákveðið inn í viðeigandi lög og vera ekki að þessum árlegu framlengingum, og fyrir mér er það ekkert „feimnismál“, að það þurfi að leggja skatta á þjóðina til þess að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru og ríkisstj. hefur verið knúin til að gefa loforð um að uppfylla, hvort sem hún fær þingfylgi fyrir því eða ekki. Ég er ekkert feiminn við það, því að það er nú einu sinni svo með ríkissjóðinn, að það er engin yfirnáttúrleg uppspretta af peningum, sem í hann rennur, né heldur að það rigni peningum ofan úr himni í ríkissjóðinn. Þeir, sem gera sífelldar kröfur til ríkissjóðs, verða að vita, að það er ekki hægt að fullnægja þeim á annan hátt en með sköttum og tollum.