27.03.1956
Efri deild: 102. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

166. mál, vinnumiðlun

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég get látið fá orð nægja sem framsögu fyrir hönd heilbr.- og félmn., en að mestu talið fullnægjandi að vísa til þskj. með áliti nefndarinnar, þskj. nr. 621. Nefndin hafði vitanlega mjög nauman tíma til þess að athuga málið. Frv. var vísað til hennar í nótt, og allt varð að afgreiða til prentunar í morgun. Þar sem komið er að þingslitum, verður líka að hrökkva eða stökkva, breytingum á málum verður lítt við komið. Það verður að samþykkja vangaveltulaust, ef áríðandi er, að mál gangi fram, og forsvaranlegt getur talizt.

Þetta frv. er fylgisnekkja lagasetningarinnar um atvinnuleysistryggingar og kemur rakleitt í kjölfar hennar. Úr því að settar eru á fót atvinnuleysistryggingar, verður ekki hjá því komizt að setja nýja löggjöf um vinnumiðlun. Annað væri fásinna. Vinnumiðlun getur verið góð og nauðsynleg án atvinnuleysistrygginga, en tryggingar án vinnumiðlunar standast ekki.

Heilbrigðis- og félagsmálanefndarmenn eru ekki ánægðir að öllu leyti með frv. þetta um vinnumiðlun. Hvers vegna var t.d. ekki löggjöf um vinnumiðlun höfð sem einn kafli í löggjöfinni um atvinnuleysistryggingar? Það hefði gert mál þessi nokkru brotaminni en þau verða. Miðlun vinnu er auðvitað einn þáttur atvinnuleysistrygginga. Hvers vegna að vera að gefa út tvo lagabálka í stað eins? En um þetta þýðir ekki að tala nú. Það er eftir dúk og disk, af því að búið er að afgreiða lögin um atvinnuleysistryggingarnar. Og svo er raunar um önnur atriði frv. þessa, af því að komið er að þingslitum.

Það er illt, að vandasöm mál eru sett í slíkar sjálfheldur. Mér finnst t.d. óhæfileg sú skriffinnska, sem leiðir af sumum ákvæðum frv., skal nefna í því sambandi 5. gr. frv., að á öllum þeim stöðum, sem lögin eiga að ná til, skulu allir þeir, sem hafa með höndum fastan atvinnurekstur með aðkeyptu vinnuafli verkamanna, eigi sjaldnar en mánaðarlega senda þeim, er vinnumiðlun annast á staðnum, afrit af kaupgjaldsskrám sínum o.s.frv. Væri ekki nóg, að þetta væri gert, þegar þeir, sem vinnumiðlun eiga að annast, auglýsa eftir slíkum skýrslum? Eru þær nauðsynlegar, þegar gott ástand er í atvinnumálum og engrar miðlunar þarf við á staðnum? Mér sýnist, að þær ættu þá ekki að vera nauðsynlegar. En ég hreyfi ekki brtt. um þetta eða annað, af því að ég tel, að ekki megi tefja eða trufla framgang málsins, og þegar svo er, þá tel ég ekki heldur ástæðu til að hafa um málið mörg orð eða bera fram athugasemdir í ræðu, hvorki fyrir n. í heild né mig sérstaklega. N. vill á engan hátt verða þess valdandi, að frv. gangi ekki fram á þessu þingi. Hún telur forsvaranlegt eftir ástæðum þeim, sem fyrir hendi eru, að það verði samþykkt óbreytt, þar sem líka telja má víst, að þessi löggjöf um vinnumiðlun verði tekin til endurskoðunar innan tveggja ára, eins og lögin um atvinnuleysistryggingar, sem lögboðið er að verði endurskoðuð á þeim tíma.

Þessir tveir lagabálkar eru svo samstæðir og greinar þeirra samanfléttaðar, að þeir hljóta að endurskoðast samtímis, eins og þeir verða nú að afgreiðast á sama þingi.

Að öllu þessu athuguðu leggur n. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.