24.02.1956
Efri deild: 75. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

160. mál, almenningsbókasöfn

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Vegna þess að þetta mál snertir nokkuð Kópavogskaupstað og ég hef rætt það við viðkomandi aðila, vil ég segja um það örfá orð.

Það er rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði, að á síðasta þingi var gerð sú breyting á frv. til l. um almenningsbókasöfn frá því, sem ráð var fyrir gert, er frv. var flutt, að héraðsbókasafn fyrir Kjósarsýslu yrði í Kópavogi, Kópavogskaupstað. Þessi breyting var ekki gerð fyrir minn atbeina, og ég sá á því þegar vissa annmarka. En hv. Alþ. starfaði þá um það leyti ekki að öðru meir en að gera Kópavogshrepp að kaupstað, og hv. Nd. hafði nýlokið sínu verki í því efni, þegar frv. um almenningsbókasöfn lá þar fyrir, og þess vegna mun það hafa verið, að meiri hl. hv. þm. í Nd. virtist það rétt og sanngjarnt, að hinn nýi kaupstaður yrði aðsetur héraðsbókasafns fyrir nærliggjandi sýslu, eins og var gert ráð fyrir um aðra kaupstaði. Nú var það að vísu mín till. í sambandi við kaupstaðarmál Kópavogs, að sýslumaður yrði settur í Kópavogi fyrir Kópavog og Kjósarsýslu, Kópavogur yrði áfram innan Kjósarsýslu, og ef farið hefði verið að þeirri till., þá hefði það getað staðizt, að héraðsbókasafn fyrir sýsluna væri sett í Kópavoginn, því að þá hefði það verið svo, að íbúar í hreppum Kjósarsýslu hefðu átt ýmis erindi í Kópavogskaupstað. En það var ekki farið að þessari till. minni, og því er það, að Kópavogskaupstaður er utan Kjósarsýslu, og því benda íbúar í Kjósarsýslu, sem hafa athugað þetta mál, á það, að með lögunum, eins og þau eru nú, er héraðsbókasafni þeirra ætlaður staður utan sýslunnar, en það mun vera einsdæmi.

Nú er það svo, að sýslunefnd Kjósarsýslu tók þetta mál fyrir á fundi sínum á s.l. hausti og lét í ljós ákveðnar óskir um, að þessu yrði breytt og héraðsbókasafn fyrir Kjósarsýslu sett á ákveðinn stað, Hlégarð í Mosfellssveit, eins og hér mun vera gert ráð fyrir.

Eins og komið er, virðist mér þetta bezta lausnin á málinu, og þó að bæði megi segja, að þessi breyting hafi í för með sér tekjumissi nokkurn fyrir fyrirhugað héraðsbókasafn Kópavogskaupstaðar, að því er mér virðist milli 10 og 20 þús. kr. á árí, vil ég ekki láta það standa fyrir þeim óskum íbúa Kjósarsýslu, sem mér virðast sanngjarnar, að þeir fái sjálfir sitt héraðsbókasafn innan sinnar sýslu og greiði til þess. Ég hef því þegar í haust, þegar kom að því, að lögin um almenningsbókasöfn áttu að koma til framkvæmda, vakið máls á þessu að fyrra bragði við bókafulltrúa, þann embættismann, sem settur var yfir almenningsbókasöfn, og látið það í ljós, að ég óskaði beinlínis eftir breytingu á þessu fyrir hönd Kópavogskaupstaðar og að það yrði orðið við óskum Kjósarsýslu í þessu efni.

Ég vildi aðeins til viðbótar því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, láta það koma í ljós hvort tveggja, að af hálfu bæjarstjórnar Kópavogskaupstaðar er ekkert til fyrirstöðu þessari breytingu, og enn fremur, að það liggja fyrir beinlínis óskir sýslunefndar Kjósarsýslu um þetta, og ég tel rétt og sjálfsagt að verða við þeim, svo að ég hef ekkert við þetta frv. að athuga og hefði sjálfur flutt till. um breytingu á lögunum að þessu leyti, ef hún hefði ekki komið fram frá hæstv. menntmrn.