24.10.1955
Efri deild: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

15. mál, tollskrá o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég tók till. á þskj. 36 aftur til 3. umr. og lét mér detta í hug, að til þess gæti komið, að fjhn. samkvæmt fram kominni ábendingu vildi athuga efni hennar nánar. Nú hefur ekki verið haldinn fundur í nefndinni, mér er ekki kunnugt um, að neitt hafi gerzt í málinu síðan, og hæstv. forseti hefur tekið málið á dagskrá, svo að ég vil því óska eftir, að till. komi til atkv. nú við þessa umræðu.

Ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu við það, sem hér var sagt við 1. og 2. umr., en ég skal vísa til þess, sem hv. 2. landsk. sagði hér við síðustu umr., að þessi verðtollsviðauki var upp tekinn beinlínis í því skyni að afstýra gengislækkun. Um leið og hún var ákvörðuð, mátti því vænta, að þessi liður yrði felldur niður, en svo hefur ekki orðið, eins og kunnugt er.

Ég skal geta þess, að þó að málið fari til Nd., þá er að sjálfsögðu eftir sem áður opið, ef fjhn. vill sinna því, að ræða um möguleika á breyttri tekjuöflun fyrir ríkissjóð frá því, sem nú er.