20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef litlar athugasemdir að gera við ræðu hv. 1. landsk. þm. Hann viðurkenndi, að meginefni frv. væri til bóta, þó að hann væri einstökum atriðum ósamþykkur, og er það ekki nema að vonum, að mönnum sýnist sitt hvað um ýmis efni. En ég vil aðeins ítreka það, sem ég sagði áður, að við athuguðum mjög gaumgæfilega í sambandi við undirbúning frv., hvort rétt væri að taka allt skyldunámið hér undir, og sannfærðumst um, að það væri ekki tímabært að svo stöddu. En sú vinsamlega athugun, sem hv. þm. rifjaði upp að Alþ. hefði ætlazt til að fram færi, hefur vissulega átt sér stað. Það var gífurlegur kostnaður, sem varð þess valdandi, að við töldum ekki fært að taka þetta upp nú þegar og okkur sýndist réttara að íhuga það þá frekar á seinna stigi, hvort menn vildu vikka starfssvið útgáfunnar sem þessu nemur.

Hinu vil ég alveg mótmæla, að þetta frv. sé að nokkru leyti spor aftur á bak. Undanfarið hafa ekki verið gefnar út bækur fyrir gagnfræðastigið, og er þó búinn að vera aðskilnaður á því og barnafræðslunni með þeim hætti, sem nú tíðkast, um langt árabil, svo að í því efni verður engin breyting í framkvæmd frá því, sem verið hefur. Frv. miðar hins vegar að því, og það véfengdi hv. 1. landsk. þm. alls ekki, að gera starfsemi útgáfunnar raunhæfa. Sannleikurinn er sá, að eins og komið er, má segja, að starfsemin sé stöðvuð að verulegu leyti, ekki vegna áhugaleysis þeirra, sem forustuna hafa, heldur vegna þess, að þá hefur skort nauðsynlega fjármuni til þess að sinna þessu verulega þýðingarmikla verki. Og það fyrsta til þess að komast áfram er að útvega þeim fé til þess verks, sem þeir hingað til hafa átt að vinna, en skort fé til að annast um. Og það er óneitanlega gert með þessu frv., auk þess sem ýmsar umbótatill. aðrar eru í því. Ef hins vegar Alþ. telur, að ekki sé horfandi í þann mikla kostnað, sem mundi leiða af því að taka gagnfræðastigið hér undir, er ég fyllilega til viðræðna um það atriði. En menn verða þá að gera sér grein fyrir, að starfsemin verður mun umfangsmeiri en ella, að kostnaður verður miklum mun meiri og að hætt er við, að seinna gangi en ella að kippa því í lag, sem nú hefur aflaga farið, og má ekki lengur svo standa.

Ég játa það með hv. þm., að það er áhorfsmál, hvort taka eigi tilnefningarrétt í þessa nefnd af félagi framhaldsskólakennara. Ef menn vilja heldur láta þá fá mann, þá er hægurinn hjá, eins og verið hefur, að láta samband barnakennara aðeins fá einn mann, og þá er á engan hallað í því. Barnakennararnir lögðu hins vegar nokkra áherzlu á, að meðan þetta væri einungis um þeirra námsstig, sem starfrækslan tæki til, fengju þeir að tilnefna tvo menn. Hér er um nokkurt áhorfsmál að ræða og eðlilegt, að sitt sýnist hverjum, það skiptir raunar ekki miklu málí. Hitt tel ég vera eitt af meginatriðum frv. og tel því mjög illa farið, ef breytt yrði, ef tilnefningarrétturinn yrði tekinn af prestastefnunni. Það er að vísu rétt, að samkvæmt lögum hafa prestar lítinn íhlutunarrétt um barnafræðslu, en ég tel það einmitt galla, hversu prestarnir hafa verið fjarlægðir frá uppeldismálum og æskulýðnum. Og ég tel það þess vegna til mjög mikilla bóta, ef þeim er fenginn slíkur áhrifaréttur eins og lagt er til hér í frv. Og ég trúi því ekki að óreyndu, að Alþingi Íslendinga felli niður þann rétt, sem prestastefnunni hér er fenginn, og þar með útiloki prestana frá hollum áhrifum í þessum efnum.