20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er kunnugt, að skólamenn hafa á undanförnum árum alloft gert till. um það, að breytingar yrðu gerðar á námsbókaútgáfunni. Till. þeirra hafa allajafna beinzt fyrst og fremst að því, að ríkisútgáfa námsbóka ætti einnig að ná til framhaldsskólanna og að sú útgáfa, sem hingað til hefur verið bundin við barnaskólana einvörðungu, væri allsendis ófullnægjandi. Ég hygg, að það séu sárafá eða engin dæmi um það, að samtök kennara hafi fjallað um námsbókaútgáfu án þess að gera till. í þessa átt. Það var því mjög eðlilegt, að búizt væri við því, þegar frv. kom fram um breytingu á ríkisútgáfu námsbóka, að gengið yrði til móts við þessa megintillögu frá hálfu kennarasamtakanna í landinu. En það kemur fram í grg. þessa frv., að ástæðan til þess, að ekki hefur þótt vera mögulegt að verða við þessum óskum kennaranna, er sú, að það þykir of kostnaðarsamt, en á hinn bóginn virðist það ekki hafa verið lagt til grundvallar, hversu gífurlega miklum kostnaði væri hægt að létta af aðstandendum barna, sem ganga til framhaldsnáms, með því einmitt að taka upp sameiginlega útgáfu fyrir framhaldsskólana, á svipaðan hátt og gert hefur verið fyrir barnaskólana. En enn þá einkennilegra er það þó, finnst mér, þegar lagt er svo fram frv. eins og þetta, sem gerir ráð fyrir því að auka útgjöldin við útgáfuna stórkostlega frá því, sem verið hefur, en þó er ekki gert ráð fyrir því að bæta við útgáfu fyrir framhaldsstigið.

Hæstv. menntmrh. undirstrikaði það hér ýtarlega í ræðu sinni, að kostnaður í sambandi við frv. þetta, ef að lögum yrði, yrði allverulega mikill, og það sýnist mér líka að hljóti að verða. En í hvað á sá kostnaður m.a. að fara? M.a. er gert ráð fyrir því, að verulegur hluti af auknum kostnaði muni renna í að fullnægja þeim ákvæðum, sem nú eru sett í 3. gr. frv., sem er um það, að gefa skuli út yfirleitt tvær bækur, tvær mismunandi kennslubækur í sömu námsgrein, og er alveg augljóst, að þetta hlýtur að auka á útgáfukostnaðinn mjög verulega. Þannig er gengið frá þessu ákvæði í 3. gr. frv., að þar er ekki einu sinni um almenna heimild að ræða fyrir útgáfustjórnina, þannig að hún geti valið um það, hvort hún telur slíkt nauðsynlegt í öllum greinum, heldur er beinlínis sagt í greininni, að gefa skuli út tvær bækur í sömu námsgrein, sé þess yfirleitt nokkur kostur.

Ég er alveg fullviss um það, að í ýmsum tilfellum mundu kennarar vera mjög á einn máli um það, að ekki væri ástæða til þess, vegna þess að vel hefði heppnazt með samningu og útgáfu á kennslubók, að efna einnig til útgáfu á annarri bók í sömu kennslugrein, en eins og frv. liggur fyrir, þá tel ég að það sé tvímælalaus skylda á útgáfustjórninni að efna þarna einnig til annarrar útgáfu, ef yfirleitt fæst nokkur maður til þess að leggja fram handrit að nýrri útgáfu. Mér er ekki kunnugt um það, að kennarasamtökin í landinu, sem þessi mál hafa látið sig mestu skipta, hafi lagt sérstaka áherzlu á þessa breytingu, sem hlýtur þó að verða mjög kostnaðarsöm. Vitanlega hefur námsbókaútgáfustjórnin fulla aðstöðu til þess að velja nokkuð úr, hvaða bækur hún kann að gefa út í hverri námsgrein fyrir sig, og þarf því ekki að vera alveg fastbundin við einn aðila í þeim efnum. Ég hefði því talið algerlega nóg í þessum efnum að hafa heimild fyrir útgáfustjórnina að gefa út fleiri en eina bók, þegar henni þætti veruleg ástæða til slíks.

Með þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því, að nú verði ráðinn fyrir þessa útgáfu sérstakur útgáfustjóri, en fram að þessu hefur þótt fært að fela einum af starfsmönnum ríkisins þessa framkvæmdarstjórn. Mér þykir eiginlega ótrúlegt, að það þurfi að halda þannig á þessum málum á næstunni, ef ekki á að bæta við bókaútgáfu fyrir framhaldsstigið, að þá þurfi hér að verða um að ræða stórkostlega miklu meiri bókaútgáfu og meiri vinnu en verið hefur frá upphafi í þessum efnum, á meðan var verið að ryðja slóðina og hefja alla þá útgáfu, sem þarna hefur farið fram. Ég er því ekki sannfærður um, að það sé neinn nauður, sem rekur til þess, að þarna verði farið að stofna nýtt embætti í þessu skyni.

Mér finnst líka, að nokkuð beri á því í sambandi við þetta mál, því miður, eins og mér fannst mega merkja í ræðu hæstv. menntmrh„ að það væru jafnvel uppi raddir um, að það bæri að leggja þessa útgáfu niður. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. kom þar orðum sínum, að hann sagði, að það hefði orðið niðurstaða, að ekki væri tímabært að leggja niður þessa útgáfu, hvað sem mönnum kynni svo síðar að sýnast um það efni.

Það er alveg fullvíst, að það eru ýmsir aðilar, sem hafa haft horn í síðu þessarar bókaútgáfu frá upphafi, hafa það ábyggilega enn og hafa m.a. staðið gegn því, að ríkisútgáfa yrði tekin upp á kennslubókum framhaldsskólanna. En ég hygg, að reynslan hafi tvímælalaust skorið úr um það, að þessi ríkisútgáfa á rétt á sér. Hún er mjög til sparnaðar fyrir aðstandendur barna, og hún yrði það ekki síður fyrir aðstandendur þeirra barna, sem verða að stunda og eiga að stunda nám í framhaldsskólum. Ég álít því, að nú hefði verið eðlilegt að bæta nokkuð við þessa útgáfu, en ekki að stefna að því, sem mér sýnist vera gert fremur í þessu frv., að draga þar jafnvel heldur úr. Ég tel það t.d. alveg tvímælalaust að draga úr, að það skuli nú eiga að neita samtökum framhaldsskólakennara um að hafa fulltrúa í námsbókaútgáfunni, en réttur þeirra til að hafa fulltrúa við þessa útgáfu hafði þó óneitanlega gefið vonir um, að það væri ætlunin að taka upp útgáfu kennslubóka fyrir framhaldsskólana. En með því að ryðja fulltrúa þeirra úr útgáfustjórninni sýnist mér vera mynduð yfirlýsing um, að brenna skuli fyrir slíka útgáfu að fullu og öllu.

Ég vil svo taka undir það, sem hér hefur komið fram frá hv. 1. landsk. þm. (GÞG), að ég tel í fyllsta máta óeðlilegt og ég furða mig einnig á því að heyra það frá hæstv. menntmrh., þegar hann sagði, að hann teldi einn megintilgang frv. fólginn í því ákvæði að gefa prestastefnu Íslands rétt til þess að eiga fulltrúa í námsbókaútgáfustjórninni. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert samhengi í því, að það þurfi að breyta l. um námsbókaútgáfu til þess að koma þar inn fulltrúa frá prestastefnunni. Ég er andvígur því og tel miklu réttara það form, sem var á áður, að fulltrúar framhaldsskólakennara hafi rétt til þess að stjórna þessari útgáfu.

Eitt atriði er það enn, sem ég vildi aðeins minnast á í sambandi við þetta mál á þessu stigi, en það kemur fram í grg. frv., að talið er, að námsbókaútgáfan skuldi ríkissjóði nú um 11/2 millj. kr., vegna þess að ríkissjóður hefur þurft að leggja fram nokkru meira en ætlað hafði verið til útgáfunnar. Ber þá að skilja þetta svo, að þau auknu gjöld, sem nú verða innheimt af aðstandendum barna, og það framlag, sem nú er gert ráð fyrir að eigi að koma frá ríkissjóði til útgáfunnar, eigi m.a. að nota til þess að greiða þessa skuld, sem námsbókaútgáfan er komin í við ríkissjóð? Ég satt að segja hafði álitið, að það, sem ríkissjóður hefur lagt til námsbókaútgáfunnar á undanförnum árum, yrði talið beint framlag, sem ekki yrði krafið inn aftur. Og ég hygg, að menn muni almennt líta á hækkuð persónugjöld þeirra, sem eiga að greiða námsbókagjald, nokkuð öðrum augum, ef þau eiga að ganga til þess að greiða þessa gömlu skuld. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um þetta, en vildi mælast til þess fyrir mitt leyti, að menntmn., sem fær þetta mál til athugunar, athugi það gaumgæfilega, hvort ekki er rétt að verða við óskum kennarasamtakanna í landinu að taka nú elnmitt upp ákvæði um það, að ríkisútgáfa námsbóka nái einnig til framhaldsskólanna eða a.m.k. til alls skyldunámsins.