22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. menntmn. hefur skýrt frá, varð n. sammála um það að leggja til, að frv. þetta næði fram að ganga, og er enginn efi á því, að full nauðsyn er á að fá bætt úr þeim mikla fjárskorti, sem ríkisútgáfa námsbóka hefur átt við að stríða. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. Ástæðan til þess er sú, að ég tel, að í frv. sé of skammt gengið, sérstaklega að því er varðar það, að ríkisútgáfan á samkvæmt því eingöngu að taka til barnaskólanámsins, en ekki til alls skyldunámsins. Þetta er að vissu leyti nokkurt spor aftur á bak frá því, sem var áður en hin nýju fræðslulög voru sett. Eins og kunnugt er, var þá almenn barnaskólaskylda til 14 ára aldurs, en var lækkuð um eitt ár, en hins vegar var þá sett ákvæði um það, að unglinganám, skyldunám unglinga, skyldi vera tvö ár. Ég hef leyft mér að flytja brtt. varðandi þetta, og er hún á þskj. 521. Þar er því ákvæði bætt við 1. gr., að ríkisútgáfa námsbóka skuli ná til alls skyldunámsins, þ.e., að unglinganámið heyri einnig hér undir. Mér virðist það eðlilegt í alla staði, að hér sé miðað við skyldunámið og að ný löggjöf, þegar hún er nú sett um þetta efni, sem ekki var seinna vænna að gera vegna hins mikla fjárskorts ríkisútgáfunnar, eigi að taka tillit til þeirra breytinga, sem hafa orðið á skólakerfinu, og a.m.k. eigi ekki að hverfa aftur á bak í þessu efni, heldur að stíga dálítið fram á leið.

Mér virðist eðlilegt, að ríkisvaldið, sem skyldar börn og unglinga til náms, sjái þeim fyrir bókum og að námsbækur, sem ríkisútgáfan gefur út, séu látnar í té ókeypis á sama hátt og gert er um kennslu, kennslutæki og annað slíkt, það sé aðeins liður í kostnaðinum við framkvæmd fræðslumála. Þess vegna hef ég einnig borið fram brtt. við 7. gr. þessa frv. um það, að kostnaður af framkvæmd laganna greiðist úr ríkissjóði, þ.e.a.s. hætt verði að innheimta námsbókagjaldið. Ég tel þetta í alla staði eðlilegast. En jafnvel þótt hv. Alþ. féllist ekki á þetta sjónarmið og vildi halda því ákvæði, að námsbókagjald nokkurt sé greitt, tel ég þrátt fyrir það fulla ástæðu til þess, að námsbókaútgáfan nái til alls skyldunámsins.

Það er vitað, að kennarasamtök landsins hafa gert mjög ítrekaðar till. um það, að ríkisútgáfan nái til alls skyldunámsins, og ég held, að mér sé óhætt að segja, að mikill meiri hluti kennara líti svo á, að það sé það fyrirkomulag, sem koma skuli, og er ýmislegt fært fram því til stuðnings, að það sé eðlilegt og heppilegt. Eina verulega mótbáran, sem gegn því hefur verið færð fram, er sú, að þarna sé um töluvert aukinn kostnað að ræða. Það er að vísu rétt, ef litið er á málið frá einhliða sjónarmiði ríkissjóðs. Hins vegar er það upplýst, að kostnaður unglinga við námsbókakaup á unglingaskólastiginu er mjög verulegur. Hann mun vera nálægt 300 kr. fyrra árið og nokkuð á þriðja hundrað króna síðara árið, þó að ekki séu þar teknar með aðrar bækur en þær, sem telja má eðlilegt, að ríkisútgáfan sæi um, ef sú útgáfa næði til þessa stigs. Þar eru ekki taldar með orðabækur, heldur eingöngu hinar eiginlegu námsbækur. Þetta er ekki lítill kostnaður, og ég er ekki í neinum efa um það, að með ríkisútgáfu á þessum bókum er hægt að prenta þessar bækur ódýrar en þær eru yfirleitt nú, þegar einkaframtakið svokallaða hefur þá útgáfu með höndum. Enn fremur er ég sannfærður um það, að bækurnar ættu að geta orðið betri og í frekara samræmi við þær bækur, sem notaðar eru á barnafræðslustiginu, að minnsta kosti ef fjárskortur hamlar ekki starfsemi ríkisútgáfu námsbóka.

Þá vil ég geta þess, að um eitt atriði frv. varð dálítill ágreiningur í n. Það var um það, hverjir eigi að skipa námsbókanefndina, og munum við 3 nefndarmenn flytja till. um, að þar verði gerð sú breyting á ákvæðum 2. gr., að í stað þess, að einn nefndarmaður skuli skipaður samkvæmt till. prestastefnu Íslands, komi: samkvæmt till. Landssambands framhaldsskólakennara. — Yrði sú brtt. mín samþ. að færa út starfssvið ríkisútgáfunnar, svo að það næði til alls skyldunámsins, er þetta vitanlega svo sjálfsagður hlutur, að ekki þarf um að ræða, að framhaldsskólakennarar eigi þarna fulltrúa, en ég verð að segja, að jafnvel þótt það næði ekki fram að ganga, tel ég í alla staði miklu eðlilegra, að þeir eigi þarna fulltrúa, heldur en að þar sé fulltrúi frá prestastéttinni.