26.03.1956
Efri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ákvæði um ríkisútgáfu námsbóka hafa alllengi verið í lögum, en á síðari árum hefur komið í ljós, að fjárveitingar til þessarar starfsemi hafa verið allt of litlar, svo að ekki hefur verið unnt fyrir útgáfuna að sinna verkefni sínu eins og skyldi og hún þess vegna á ýmsan hátt verið með öðrum og miklu lakari hætti en sæmilegt má teljast. Af þessum sökum lét ég endurskoða þessa löggjöf og lagði frv. um það fyrir hv. Alþ. strax í þingbyrjun, og hefur það legið hjá hv. Nd. þangað til nú. Ég vona þó, að um svo einfalt mál sé að ræða og hv. þingmenn Ed. hafi kynnt sér það nægilega, þannig að þeir séu færir til þess að afgreiða málið, þó að komið sé að þingslitum, þannig að það megi ná fram að ganga á þessu þingi.

Ég fullyrði, að það er mikil þörf á umbótum í þessu efni. Eini ágreiningurinn, sem fram er kominn og máli skiptir, er það, hvort þessi útgáfa eigi að taka til alls skyldunámsins eða láta hana eingöngu taka til barnafræðslunnar, eins og verið hefur. Hvað sem þeim ágreiningi líður, hika ég ekki við að fullyrða, að mikill vinningur er, að sú starfræksla, sem á annað borð á sér stað, geti verið með sæmilegum hætti, og það sé fyrst tími til að bæta við, þegar það er komið í skaplegt horf, sem nú þegar á sér stað. Ég vona því, að þó að menn telji sumir, að frv. hefði átt að vera enn þá viðtækara en það er, þá láti þeir það ekki valda þeim ágreiningi, að málið þess vegna verði stöðvað.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. deildarinnar.