27.03.1956
Efri deild: 102. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 630, sem er verið að útbúa. Hún er við 1. gr. og er þess efnis, að aftan við 1. gr. bætist ný mgr., sem mælir svo fyrir, að unglingum í gagnfræðaskólum skuli séð fyrir ókeypis námsbókum í þeim greinum, sem kenndar eru, þ.e.a.s., að þeim skuli séð fyrir ókeypis námsbókum á sama hátt og börnum á barnafræðslustiginu.

Ég hef heyrt þau andmæli borin fram gegn þessu, að ekki væri ástæða til að hafa námsbækurnar ókeypis fyrir aðra en þá, sem eru á skólaskyldualdri, eða til 15 ára, og flyt því til vara, til að mæta þessari aths., þá till., að unglingum í unglingaskólum skuli séð fyrir ókeypis námsbókum í þeim greinum, sem þar eru kenndar, þ.e.a.s., að saman skuli fara rétturinn til ókeypis námsbóka og skólaskyldualdur.

Ég vænti þess, að hv. deildarmönnum sé ljóst, að það er ekki minnsta ástæða til þess, úr því að börnum á barnafræðslustiginu er séð fyrir ókeypis námsbókum, að fella niður þessi sömu fríðindi þau tvö ár, 14. og 15. árið, sem eru skólaskyld samkv. fræðslulögum.