23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

3. mál, íþróttalög

Frsm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. þetta á nokkrum fundum. N. sendi það ýmsum aðilum til athugunar. Umsagnir hafa borizt frá eftirtöldum aðilum: fræðslumálastjóra, Íþróttasambandi Íslands, sambandi ungmennafélaga Íslands, íþróttanefnd ríkisins, Íþróttakennarafélagi Íslands og Íþróttabandalagi Reykjavíkur.

Sumir þeir, sem umsagnir hafa sent, gera nokkrar athugasemdir við einstök ákvæði frv., en yfirleitt er frv. þó talið til bóta frá gildandi íþróttalögum, einkum það ákvæði 8. gr., að íþróttamannvirki njóti jafns hundraðshlutastyrks, miðað við stofnkostnað, og geti styrkveiting numið allt að 40%. Um þetta segir svo í bréfi íþróttanefndar ríkisins, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi 8. gr. frv. leyfir n. sér að taka það fram, að hún telur ákvæðið um, að styrkveiting geti numið allt að 40%, mikilvægt, því að með því njóta íþróttamannvirki að lögum sömu viðurkenningar til styrkja og mælt er fyrir um styrkhæfni félagsheimila í 2. gr. laga um félagsheimili. Margoft hefur nefndin sjálf hvað þá snertir, sem byggja íþróttamannvirki, rekið sig á það, að beiðzt er láns og væntanlegt framlag úr íþróttasjóði nefnt sem veð, að forráðamenn lánastofnana hafa tekið það fram, að slík fyrirheit geti þeir ekki tekið sem veð, þar sem íþróttalögin fela ekki í sér neitt þátttökuákvæði í byggingarkostnaði íþróttamannvirkja. Aftur á móti hafa lán fengizt til byggingar félagsheimila samkv. ákvæðum í 2. gr. laga um félagsheimili.“

Menntmn. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum, og eru brtt. nefndarinnar á þskj. 518.

1. brtt. er um það, að ákveðið verði í lögum, að íþróttafulltrúi skuli starfa í fræðslumálaskrifstofunni, svo sem verið hefur. Þessi brtt. er flutt samkv. eindregnum tilmælum fræðslumálastjóra. Menntmn. þótti rétt að taka þessa ósk fræðslumálastjóra til greina og virtist ástæðulaust að breyta því fyrirkomulagi, sem verið hefur að þessu leyti og virðist hafa gefizt vel.

2. brtt. n. er við 4. gr. Hún er um það að takmarka nokkru meir en gert er í frv. valdsvið íþróttanefndarinnar að því er varðar bein afskipti af hinni frjálsu og almennu íþróttastarfsemi í landinu, þeirri íþróttastarfsemi, sem er í höndum Íþróttasambands Íslands, einstakra sérsambanda og einstakra íþróttafélaga.

Í 3. brtt. n., umorðun á 12. gr., felst sú breyting, að öllum heimavistarskólum skuli séð fyrir hæfu húsnæði til íþróttakennslu, en ekki aðeins nýbyggðum heimavistarskólum, eins og í frv. stendur.

Aðrar breytingar á þessari frvgr. eru aðeins orðalagsbreytingar, svo sem að í stað orðanna „að temja nemendum þær fimleikaæfingar, sem við verður komið“ komi: að kenna nemendum þær íþróttir, sem við verður komið.

4. brtt. n., við 18. gr., er þess efnis, að þar eru einkaréttindi þeirra manna, sem tekið hafa hið almenna íþróttakennarapróf, takmörkuð við íþróttakennslu í skólum. Þetta mun vera nokkurt deilumál innan íþróttahreyfingarinnar, og Íþróttakennarafélagið mun vera þessari breytingu mótfallið. Hins vegar hefur það komið ljóslega fram, að hin almennu íþróttafélög telja óeðlilegt og mjög óæskilegt, að íþróttafélögin sjálf og Íþróttasamband Íslands fái ekki að ákveða, hvaða kennara þau ráða til kennslu í hinum einstöku íþróttagreinum, og að Íþróttakennarafélag Íslands geti bægt frá kennslu á vegum þessara félaga reyndum hæfileika- og kunnáttumönnum í íþróttum vegna þess eins, að þeir hafa ekki útskrifazt úr íþróttakennaraskóla. Í þessu sambandi er á það bent, að t.d. framúrskarandi knattspyrnumaður, sem hefur iðkað þá íþrótt árum saman, verði samkv. ákvæðum frv. óbreyttum ekki ráðinn hjá knattspyrnufélagi til að kenna íþrótt sína, ef um starfið sækti maður með íþróttakennarapróf, en það er veitt eftir almennt íþróttanám í níu mánuði.

Sama mundi gilda um t.d. framúrskarandi glímumann. Glímukóngur Íslands ætti ekki að mega kenna glímu, methafi í sundi ekki að kenna sund o.s.frv. Nefndinni sýndist, að mjög þröng stéttarsjónarmið mættu ekki vera þarna algerlega einráð. Verði brtt. n. samþykkt, hafa menn með íþróttakennaraprófi einir rétt til að kenna íþróttir við skólana, en sá réttur nær þá ekki til íþróttakennslu í félögum.

5. og síðasta brtt. menntmn. er sú, að síðasta mgr. 19. gr. falli niður. Sú mgr. virðist óþörf, þar eð efni hennar er áður komið í sömu frvgr., þar sem rætt er um takmörkuð réttindi til leiðbeininga þeirra, sem þar um ræðir.

Í þessu frv., eins og frá því hefur verið gengið af þeirri nefnd, sem samdi það, og eins og það kemur nú frá menntmn., er felld niður 16. gr. gildandi íþróttalaga, en efni þeirrar greinar er það, að skólastjórar barnaskóla skuli hafa rétt til að takmarka eða banna nemendum íþróttaiðkanir utan skólanna þann tíma, sem skólar starfa, ef sérstök ástæða þykir til. Þessi 16. gr. gildandi íþróttalaga virðist vera gamalt og nýtt deilumál. Menn greinir allmjög á um það, hvort hafa eigi slíkt ákvæði í íþróttalögunum, og umsagnir þær, sem nefndinni hafa borizt um frv., bera ljósan vott um það, að skoðanir í þessu efni eru mjög skiptar. Um þetta atriði náðist ekki samkomulag í menntmn., og hefur n. í heild því ekki gert neinar brtt. við frv. að þessu leyti. Hins vegar höfum við þrír nm. lagt fram till. þess efnis, að 16. gr. gildandi laga verði tekin upp í frv. Mun 1. flm. þeirrar till., hv. þm. A-Sk. (PÞ), gera grein fyrir sjónarmiði okkar í því efni. Ég fer því ekki frekar út í það mál.

Ég hef nú gert hér mjög stuttlega grein fyrir áliti menntmn. Nefndin í heild leggur til, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem hún flytur á þskj. 518. Einstakir nm. hafa hins vegar áskilið sér rétt til að flytja fleiri brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.