01.03.1956
Efri deild: 78. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

128. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eftir að búið var að samþykkja þessa breytingu á lögunum um ríkisborgararétt, sem lá hér fyrir um daginn við 2. umr., vöknuðu nokkrir þm. og mundu eftir konum, sem þeir höfðu á ýmsan hátt verið beðnir fyrir og voru svona að nokkru leyti í þeirra umsjá, og fóru fram á það við n., að hún sæi um, að málið yrði ekki tekið til 3. umr. fyrr en þeir væru búnir að athuga mál snertandi þær stúlkur, sem þeir hefðu í huga. N. varð við þessu, og hæstv. forseti d. lofaði að taka málið ekki fyrir fyrr en n. segði aftur til um það. Það komu til n. fjórar umsóknir um konur, sem giftar eru Íslendingum, og eiga þrjár þeirra rétt á því að fá ríkisborgararétt eftir þeim reglum, sem fylgt hefur veríð s.l. ár og aftur núna við veitingu hans. Ein af þeim fjórum konum, sem sóttu, er ekki búin að vera gift nema stutt, tvö ár liðug, og kom þess vegna ekki til greina, en þrjár af þeim komu til greina, og eftir að hafa athugað málið, telur n., að þær eigi að bætast við, þær hafi rétt til þess að bætast við tölu þeirra, sem nú fá ríkisborgararétt.

Nöfn þessara kvenna er að finna á þskj. 417. Þær eru giftar úti á landi allar saman, og fylgja þeim þessi venjulegu gögn um hegningarvottorð o.s.frv., eins og vant er, og er allt í stöku lagi með þær. Nefndin er sammála um að leggja til, að þær verði teknar inn í frv. í réttri stafrófsröð.