08.11.1955
Neðri deild: 16. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

89. mál, almannatryggingar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 99, sem er frv. til l. um almannatryggingar, er samið af nefnd, sem setið hefur nú um 11/2 ár að störfum til endurskoðunar á almannatryggingalöggjöfinni í heild. Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál, sem er geysilega þýðingarmikið, eins og við vitum, orðið eitt af mestu félagsmálum, sem okkar þjóð hefur með að gera, og hefur því mjög almenna og mikla þýðingu fyrir hvern borgara í landinu á marga vegu.

Ég vil fyrst með örfáum orðum nefna smápunkta úr sögu almannatrygginganna hér á landi. Almannatryggingarnar eiga ekki langa sögu á Íslandi, og í raun og veru eiga þær félagslegu ráðstafanir, sem í tryggingum felast á þessum grundvelli, hvergi langa sögu. Þetta eru síðustu aldar verk viðast hvar í heiminum, að mestu leyti a.m.k., og það var aðeins fyrir síðustu aldamót, að hinn fyrsti vísir til alþýðutrygginga nútímans verður til hér hjá okkur. Og það er óhætt að segja, að fram til ársins 1936, þegar alþýðutryggingalögin, eins og þau þá voru nefnd, voru sett, voru það aðeins slysatryggingarnar, sem verulega þýðingu höfðu fyrir landsfólkið í heild, hinar greinar trygginganna voru þá mjög svo ófullkomnar og komu að tiltölulega litlu gagni. Fyrstu slysatryggingalögin, sem voru um lífsábyrgð fyrir sjómenn, eru frá 10. nóv. 1903. Endurbætur voru gerðar á þeim lögum 1909, þá um vátryggingarsjóð sjómanna, og enn var breyting gerð á þessum lögum frá 1921, en sú breyting var fremur smávægileg, og tekur tæpast að nefna hana. Þáttaskil verða svo á slysatryggingalögunum með lögum frá 1925 um slysatryggingu ríkisins. Og upp frá því verður slysatryggingin ekki aðeins fyrir sjómenn, heldur almenn slysatrygging, en enn þá er þessum lögum breytt 1928, og svo enn aftur 1930.

Elzta sjúkrasamlag hér á landi, sem er sjúkrasamlag prentara, var stofnað árið 1897. Sjúkrasamlag Reykjavíkur er stofnað árið 1909. Fyrstu lög um sjúkrasamlög eru frá 1911. Samkvæmt þeim lögum skyldi ríkissjóður styrkja sjúkrasamlögin með einni kr. á ári fyrir hvern félagsmann, þar sem læknir var búsettur, en annars staðar með kr. 1.50. Hækkað var framlag ríkissjóðs og fleiri breytingar gerðar með lögum frá 1915. Þessum lögum var svo breytt á næstu árum alloft, og loks var með lögum frá 1933 heimilað að lögskrá skólasjúkrasamlög. Fyrsti vísir til ellitrygginga voru styrktarsjóðir handa heilsubiluðu og ellihrumu alþýðufólki, er stofnaðir voru samkvæmt lögum frá 1890. Upphæðir þær, sem úthluta mátti, voru svo lágar, einnig eftir að lögunum var breytt 1897, að þær upphæðir komu raunverulega að mjög litlu haldi, en með lögum frá 1909 um almennan ellistyrk var lögum þessum breytt allverulega. Ellistyrkur var þá veittur fyrir eitt ár í senn, og mátti ekki vera lægri en 20 kr. og ekki hærri en 200 kr. Lögum þessum var svo oftar en einu sinni breytt á næsta áratugnum.

Eins og fram kemur af því, sem ég hef hér nefnt, voru alþýðutryggingar hér á landi næsta ófullkomnar og komu að mjög litlu gagni fram til þess tíma, að lögin um alþýðutryggingar voru sett, 1. febr. 1936. Það voru raunverulega aðeins slysatryggingarnar, sem höfðu nokkra verulega þýðingu fyrir verkafólkið í heild áður, en ég hygg, að það sé ekki ofmælt, þótt sagt sé, að alþýðutryggingalögin frá 1936 marki eitthvert stærsta spor í íslenzkri félagsmálalöggjöf, bæði fyrr og síðar. Slysatryggingarnar voru endurbættar þá mjög verulega, sjúkrasamlögin lögboðin fyrir nærri helming landsmanna og ýtt allmikið undir stofnun þeirra annars staðar. Þá var og lagður grundvöllur að almennri elli- og örorkutryggingu og upp teknar greiðslur til gamalmenna og öryrkja, sem mjög tóku fram því, sem áður var í þessum efnum, og um svipað leyti voru einnig sett lög um ríkisframfærslu sjúkra manna og öryrkja, sem stóðu í nánu sambandi við tryggingarnar, og með alþýðutryggingalögunum var stofnaður lífeyrissjóður Íslands. Sjóðurinn skyldi hefja greiðslur elli- og örorkulífeyris eftir ca. 12 ár frá stofnun hans.

Lögin byggðu þannig á tryggingarsjónarmiðinu og á sjóðamyndun til þess að standa undir útgjöldum síðar.

Þessum lögum var nú síðar breytt, bæði 1937 og svo aftur 1940.

Annað stóra sporið í þessum málum má segja að sé með almannatryggingalögunum frá 1946, sem þá hlutu það nafn í stað „alþýðutrygginga“, eins og þessi löggjöf áður hafði verið nefnd, en með þeirri löggjöf var í raun og veru horfið frá sjóðsmyndunarhugmyndinni, en svið trygginganna var þá mjög aukið og bótaupphæðir hækkaðar til mjög verulegra muna. Jafnframt var þá ákveðið, að heilsugæzlan yrði á vegum Tryggingastofnunarinnar í samvinnu við heilbrigðismálastjórnina. Þá er gert ráð fyrir afnámi sjúkrasamlaganna í þessari löggjöf, en þessum ákvæðum var þó frestað frá ári til árs. Iðgjöld og framlög voru í þeim lögum ákveðin í krónutölu, svo að oft þurfti að breyta lögunum, eftir því sem fjárhagsástæður stofnunarinnar þörfnuðust í hvert sinn.

Þá hefur á síðustu árum stöðugt þurft lagasetningu frá ári til árs til þess að framlengja viss ákvæði almannatryggingalaganna, eins og hv. alþm. vita bezt sjálfir, þar sem það hefur oftast nær verið eitt aðalverkefnið síðustu daga fyrir jólafríið að koma slíkri bráðabirgðalöggjöf af fyrir næsta ár.

Af þessum ástæðum hefur það lengi verið ljóst, að það væri þörf á endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni, m.a. af þessum ástæðum, en þó jafnframt af ýmsum öðrum, enda var þannig, þegar þessi löggjöf var sett, að raunverulega var gert ráð fyrir, þótt ekki væri kannske beint lögfest, að innan tiltölulega fárra ára færi fram endurskoðun á heildarlöggjöfinni um þetta efni, og reglugerðir, sem settar voru, voru að ýmsu leyti markaðar við það, að slík endurskoðun færi fram ekki síðar en nú um það leyti, sem þessi endurskoðun hefur staðið yfir.

Þetta, sem ég hér hef nefnt, voru þær ástæður, sem urðu þess valdandi, að ríkisstj. ákvað að láta fara fram endurskoðun á almannatryggingalögunum í heild sinni, og í samræmi við það skipaði ríkisstj. fimm manna nefnd í maí 1954 eða fyrir um það bil hálfu öðru ári. Þessi nefnd var í upphafi fimm manna nefnd, og nefndina skipuðu Hjálmar Vilhjálmsson skrifstofustjóri félmrn., og var hann jafnframt skipaður form. n., auk hans voru í n. Gunnar Möller hrl., hefur hann verið ritari nefndarinnar, Gísli Guðmundsson alþm., Haraldur Guðmundsson forstjóri almannatrygginganna og alþm. og Kjartan J. Jóhannsson alþm.

Nokkru eftir að nefnd þessi tók til starfa, komu fram áskoranir um það frá kvenfélagasamtökum landsins, að konurnar ættu fulltrúa í þessari nefnd, og leit ríkisstj. svo á, að rétt væri að verða við þeim óskum, og samkv. því voru um áramótin síðustu skipaðar tvær konur í nefndina til viðbótar, þær Auður Auðuns bæjarstjórnarforseti og Rannveig Þorsteinsdóttir hdl. Hafa þær starfað með n. síðan og standa að þessu frv. með þeirri nefnd, sem upphaflega var skipuð.

Nefnd þessi hóf störf sín með því að athuga, hjá hvaða aðilum væri rétt að leita álits varðandi meginatriði almannatryggingalaganna, og sendi n. út bréf um allt land til allra bæjar- og sveitarstjórna, þar sem leitað var álits þeirra um öll meginatriði tryggingalöggjafarinnar. Voru lagðar spurningar fyrir þessa aðila og óskað, að þeim væri svarað, eftir því sem unnt væri. Það hafa borizt svör við þessum bréfum frá 156 hreppsnefndum og frá 9 bæjarstjórnum, eða samtals frá 165 sveitarstjórnum, og er það mjög mikill meiri hluti allra sveitarfélaga landsins.

Ýmsum öðrum aðilum voru og sendar fyrirspurnir til umsagnar eða til þess að fá upplýsingar um afstöðu þeirra til þessara mála, þessar fyrirspurnir og máske að einhverju leyti einhverjar fleiri, sem ég sé nú ekki ástæðu til að telja hér upp, enda nánar skýrt frá því í grg. frv. Og frv. þetta til almannatryggingalaga, sem hér með er lagt sem stjórnarfrv. fyrir hv. þd., er það, sem þessi nefnd hefur skilað, eftir að hún hefur leitað þeirra upplýsinga, sem ég lauslega hef drepið á, og aflað sér á annan hátt margvíslegra upplýsinga, m.a. frá nágrannalöndum okkar, sem langt eru komin í tryggingastarfsemi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í ýmsum atriðum frábrugðið almannatryggingalögunum. Þó skal það strax tekið fram, að tegundir bóta eru hinar sömu eftir frv. og verið hafa í gildandi lögum og eru enn. Uppsetning frv. er allmikið önnur en í þeim lögum, sem nú gilda. Frv. þetta er í fimm köflum. I. kafli svarar til I. kafla almannatryggingalaganna, en efni frv. er annars skipað eftir hinum ýmsu tryggingargreinum. H. kaflinn fjallar um lífeyristryggingarnar, III. kaflinn um slysatryggingarnar og IV. kaflinn um sjúkratryggingar. V. kaflinn geymir ýmis sameiginleg ákvæði, sem gilda um allar greinar trygginganna. Hverjum kafla er skipt í almenn ákvæði fyrir hverja tryggingu, bótaákvæði og fyrirmæli um það, hversu tekna er aflað til hverrar greinar trygginganna. V. kafla er svo skipt niður í þrjá undirkafla, og fyrst koma þar sameiginleg ákvæði um bæturnar, því næst ákvæði um gjaldskrár, innheimtu o.fl. og loks önnur ákvæði, sem flest munu vera sameiginleg ákvæði fyrir kerfið.

Þetta frv., sem hér er lagt fyrir, er allmiklu styttra en gildandi lög eru. Almannatryggingalögin eru um 140 gr., en frv. er aðeins 89 gr. Það er í raun og veru ekkert nema eðlileg rás viðburðanna, að hægt hafi verið eftir þá frumsmíð, sem almannatryggingalögin voru fyrir 10 árum, þegar þau voru gerð, að gera þau dálítið einfaldari í meðförum eftir þá reynslu, sem fengizt hefur, og mun n. hafa reynt að notfæra sér þetta út í æsar, og vonandi verður það til þess, að auðveldara verður að átta sig á þeim meginákvæðum, sem þar eru fram tekin.

Samkv. þeim lögum, sem nú gilda, skal Tryggingastofnunin vinna að því í samráði og samvinnu við heilbrigðismálastjórnina, að látin verði í té heilsugæzla, þ.e.a.s. sjúkrahjálp og heilsuvernd. Sjúkrasamlögin áttu þannig að hverfa samkv. þeim lögum, sem nú gilda. Þessum kafla laganna hefur ætíð verið frestað ár hvert, eins og ég hef nú áður getið um að hafi orðið að gera með nokkur ákvæði almennt. En eins og nánar greinir í athugasemdum við frv., var horfið að því ráði að fella heilsugæzlukaflann úr lögum og lögbinda þess í stað sjúkrasamlögin, en sem afleiðing af þessu er og lagt til, að sjúkradagpeningaúthlutun, sem verið hefur hjá Tryggingastofnun ríkisins, flytjist til sjúkrasamlaganna. Þetta er aðeins einn þáttur sjúkrahjálparinnar, sem óeðlilegt er að slíta úr sambandi við aðra sjúkrahjálp, sem frv. gerir ráð fyrir að sjúkrasamlögin annist.

Í þessu frv. eru gerðar nokkrar breytingar á bótaupphæðum, og vil ég hér aðeins geta þeirra helztu. Í fyrsta lagi er ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækkaður til samræmis við launahækkun þá, er varð 1. júlí s.l. hjá opinberum starfsmönnum. Hækkun þessi nemur um það bil 5%. Í öðru lagi: Felldar eru niður fjölskyldubætur með öðru barni, en þær greiðast samkv. þessu frv. fyrst með þriðja barni. Í þriðja lagi: Barnalífeyrir, sem aðeins greiðist í þrjú ár eftir að ekkja giftist aftur, verði greiddur þar til börn hennar veráa 16 ára. Og í fjórða lagi: Mæðralaunaákvæðin eru mjög breytt. Þau eru eins og fjölskyldubætur, en í frv. er lagt til, að þau verði miðuð við lífeyri og nemi fullum lífeyri, þegar börnin eru orðin fjögur. Þetta er mjög mikil aukning mæðralaunanna, sem kosta mun árlega fullar 2 millj. kr. Samkv. þessu frv, munu fæðingarstyrkir hækka um 50%, þ.e.a.s. úr 600 kr. í 900 kr. hvað grunnupphæðir snertir. Jafnframt falli niður greiðsla fæðingarstyrks hjá sjúkrasamlögum, nema um sjúkdóm sé að ræða, þ.e. ef fæðing veldur lengri sjúkrahús- eða hælisvist en níu daga. Ein breyting enn, sem mun vera sú sjötta, er það, að skerðingarmark einstaklinga hækki um þriðjung, en að öðru leyti eru skerðingarákvæðin látin haldast. Í sjöunda lagi skal það tekið fram, að uppbót á elli- og örorkulífeyri er aukin í tvær áttir. Eftir núgildandi lögum er uppbót aðeins veitt þeim, sem þurfa sérstakrar umönnunar vegna sjúkleika, en frv. gerir ráð fyrir, að nú fái allt hælisvistarfólk uppbótina, þótt ekki þurfi það sérstakrar umönnunar, og einnig megi nú veita uppbót til einstæðinga utan hæla, þótt þeir séu fullhraustir að öðru leyti. Í annan stað er uppbótin nú aðeins 40% hámark samkv. gildandi lögum, en frv. gerir ráð fyrir allt að 100% sem hámark. Uppbótin á lífeyri greiðist hælisvistarfólki á öðru verðlagssvæði eins og á fyrsta verðlagssvæði. Uppbót þessi verði veitt eftir tillögum sveitarstjórna, en er nú veitt af Tryggingastofnuninni. Kostnaður vegna hennar sé borinn að 2/5 hlutum af sveitarstjórn, en að 3/5 hlutum af Tryggingastofnuninni. Tryggingastofnunin má þó eigi verja hærri uppbót árlega í þessu skyni en nemur 7% af ellilífeyri síðasta árs. Í áttunda lagi vil ég nefna það, að slysadagpeningar eru nokkuð hækkaðir, og er það gert til samræmis við ákvæði samþykktar alþjóðavinnumálastofnunarinnar um lágmark félagslegs öryggis. Og í níunda lagi: Á fyrsta verðlagssvæði greiði menn gjald til lækna, 5 kr. fyrir viðtal og 10 kr. fyrir vitjun. Samkv. núgildandi lögum greiða samlög að fullu fyrir viðtöl og vitjanir hjá almennum læknum, sem samið er við. Þá má í tíunda lagi nefna, að greiðsla fyrir röntgenmyndir er hækkuð úr 1/3 af verði þeirra í helming af verði myndarinnar eða myndanna.

Þetta eru í mjög skjótu máli meginbreytingar á greiðslum frá því, sem var í eldri lögum, og eru nú teknar upp í það frv., sem fyrir liggur.

Nokkur fleiri atriði vil ég aðeins nefna varðandi frumvarpið. Skal þá fyrst það nefnt, að samkv. núgildandi lögum starfa trygginganefndir í hverri sýslu, en samkv. þeim svörum, sem bárust frá sveitarstjórnunum, var það mjög almennt álit þeirra, að þessar trygginganefndir væru fremur gagnslitlar, og virtist ekki vera vilji fyrir því hjá sveitarstjórnum, að þeim yrði haldið við á þann hátt, sem þær hafa starfað. Í þessu frv. er þessum trygginganefndum sleppt eða þær felldar niður, en hins vegar er ætlazt til þess, að stjórnir héraðssamlaga gegni því hlutverki, sem trygginganefndirnar hafa haft með höndum áður.

Sýslumenn og bæjarfógetar hafa samkv. sérstökum samningi annazt umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina, en sums staðar annast sjúkrasamlögin þetta þó. Hitt mun þó algengara. Reynslan hefur yfirleitt verið mjög góð af starfi sýslumannanna, og frv. gerir því ráð fyrir, að umboðsmennska þeirra verði lögboðin alls staðar utan Reykjavíkur með frv. þessu, sem áður var ekki.

Verðlagssvæðin eru hin sömu og eftir almannatryggingalögunum, en í þessu frv. er ákveðið, að iðgjöld skuli vera hlutfallslega lægri á öðru verðlagssvæði, miðað við bótaupphæð hvors verðlagssvæðis. Allar bætur eru fjórðungi lægri á öðru verðlagssvæði en á fyrsta verðlagssvæði, en þrjár undantekningar eru þó frá þessu. Fæðingarstyrkur er eins á báðum verðlagssvæðunum, og sama gildir um ekkjubætur. Loks er svo í frv. nýmæli þess efnis, að þeir, sem dveljast á sjúkrahúsum, elliheimilum eða öðrum slíkum stofnunum, skuli ætið fá lífeyri fyrsta verðlagssvæðis, þótt heimilisfang þeirra sé á öðru verðlagssvæði. Sama gildir um uppbót á lífeyri slíks fólks sem þar er um að ræða. Samkv. núgildandi lögum eru bætur bundnar við ríkisborgararétt. Þetta ákvæði hefur m.a. verið til fyrirstöðu því, að Ísland gæti fullgilt samþykkt alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagslegt öryggi. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir, að bótaréttur sé ekki bundinn við ríkisborgararétt, og er því þessari hindrun þar með úr vegi rutt.

Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir, að sá, sem frestar töku lífeyris, fái hækkaðan lífeyri, er nemur 5% fyrir hvert ár, sem frestunin varir. Hér er þessi uppbót hækkuð í 71/2 %. Núgildandi lög fastbinda framlög ríkissjóðs og sveitarfélaga við ákveðnar upphæðir. Sama gildir um iðgjöld hinna tryggðu og atvinnurekenda. Þetta hefur þann ókost, sem áður er að vikið, að sífellt þarf að breyta þessum fastsettu upphæðum. Eitt veigamesta nýmæli frv. er það, að gert er ráð fyrir, að þátttakan verði ákveðin í vissum hundraðstölum. Á grundvelli þeirra hlutfalla, sem ákveðin verða í lögunum, skulu svo iðgjöld ákveðin árlega með reglugerð þar um.

Samkv. þessu frv. skal árlega gerð áætlun um öll útgjöld lífeyristrygginganna, sem er samin af aðalforstjóra almannatrygginganna og tryggingaráði. Áætlunin skal send ráðherra til staðfestingar. Síðan eru framlög og iðgjöld næsta árs ákveðin á grundvelli þeirra hlutfalla, sem lögin ákveða. En komi í ljós, að framlag eða iðgjöld reynist of há eða ekki nógu há, skal það leiðrétt í sambandi við áætlun næsta árs. Þannig er ætlunin að þetta verði leiðrétt frá ári til árs. Ætlazt er til, að enginn greiði meira en hlutföll þau, er lögin ákveða, segja til um, og enginn greiði heldur minna, heldur verði það algerlega ákvarðað. Tryggingastofnunin öðlast þannig enga sjóðaaukningu í sambandi við meðferð sína á tryggingunum, því að sá, sem greitt hefur meira en honum bar, á að fá það leiðrétt í sambandi við næsta árs áætlun. Stofnunin, þ.e.a.s. almannatryggingarnar, á nú þegar nokkra sjóði, og að svo miklu leyti sem þeir eru ekki í veltu trygginganna sjálfra, skulu þeir hafðir á vöxtum í öruggum skuldastöðum og vextir lagðir við höfuðstólinn. Einnig er gert ráð fyrir því, að auka megi árlega varasjóðinn um allt að 2% af samanlögðum útgjöldum. Sú eina sjóðsmyndun, sem frv. gerir ráð fyrir, er því aðeins vextir og varasjóðstillagið.

Þá vil ég koma hér að einu nýmæli í frv., sem ég að vísu hef lauslega nefnt hér áður í öðru sambandi, og það eru hin svonefndu héraðssamlög. Það er einkum tvennt, sem þótt hefur áfátt varðandi sjúkrasamlögin. Annars vegar hafa reikningsskil þeirra þótt ófullnægjandi að ýmsu leyti, þau hafa oft verið síðbúin með sína reikninga og þar að auki sundurleit reikningsyfirlit þeirra, og það hefur stundum verið hér um bil ókleift að gera heildarskýrslur, sem nauðsynlegar eru um kostnað vegna sjúkramálanna, vegna þess að reikningsyfirlitin hafa verið ekki samrýmanleg að öllu leyti. Tryggingastofnunin er samkv. núgildandi lögum sá aðili, sem úrskurðar reikninga sjúkrasamlaganna. Hins vegar hafa einkum hin smærri sjúkrasamlög oft og einatt lent í greiðsluþrotum, þegar til hafa fallið meiri háttar sjúkrahúsvistir. Uppástungur hafa verið á lofti um að leggja niður hreppasamlögin og taka upp samlög fyrir stærri umdæmi, t.d. sýslusamlög eða kannske jafnvel stærri. Sveitarstjórnirnar í landinu hafa tekið þessu mjög þvert og virðast yfirleitt vera því andvigar. Þær vildu yfirleitt viðhalda hreppasamlögunum. Frv. gerir þá líka ráð fyrir, að svo verði gert. En jafnframt er í frv. ákvæði um héraðssamlög, sem ætlað er að hæta úr þeim ágöllum, sem taldir eru á sjúkrasamlögunum. Og í sambandi við það er héraðssamlögunum ætlað það hlutverk að endurskoða og úrskurða reikninga hreppasamlaganna og gera heildarskýrslur um kostnað sjúkrasamlaganna í hverri sýslu, sem senda skal svo Tryggingastofnuninni. Slíkar skýrslur ættu að geta orðið öruggur grundvöllur undir hagfræðilegar skýrslur varðandi landið í heild. Enn fremur er svo helmilt að ákveða í hverri sýslu jöfnun kostnaðar, sem héraðssamlögin annast. Eitthvað voru skiptar skoðanir um þetta í nefndinni. Sumir munu hafa viljað lögbinda jöfnunina alls staðar, en niðurstaðan varð sú að hafa heimildarákvæði handa ráðherra. Samkvæmt ákvæðum þessa frv. má verja allt að hálfu framlagi ríkissjóðs til jöfnunar og bæta allt að 3/4 þess kostnaðar samlaganna, sem fer fram úr meðalsjúkrakostnaði í sýslunni.

— Þá er eðlilegt, að spurt sé, hver sé fjárhagsgrundvöllur þessa frv. og að hve miklu leyti hann sé frábrugðinn í heild því, sem er í núgildandi lögum. Samkvæmt áætlun, sem Tryggingastofnunin hefur gert um útgjöld trygginganna á grundvelli frv., hækkar sú fúlga, sem afla þarf vegna trygginganna, á næsta ári um 16.8 millj. króna.

Í þessu sambandi er rétt að benda á tvö atriði: Í fyrsta lagi það, að áætlun sú, sem gerð hefur verið fyrir næsta ár samkvæmt gildandi lögum, gerir ráð fyrir 11.4 millj. kr. tekjuhalla á rekstri trygginganna. Á áætlun þessari hafa verið gerðar leiðréttingar, svo að tekjuhalli mun nú ekki verða meira en um það bil 91/2 millj. kr. Frv. gerir alls ekki ráð fyrir neinum tekjuhalla samkvæmt því, sem áður hefur verið skýrt, hvernig teknanna á að afla, og hækkun útgjalda trygginganna vegna frv. er því um það bil 7.3 millj. kr., sem skiptast á þennan veg: Það eru lífeyristryggingar um 6.8 millj. kr. og slysatryggingar nálægt 1/2 millj. kr., samtals um það bil 7.3 millj. kr. Hækkun vegna hækkunar á elli- og örorkulífeyri, sem lagt er til að gerð verði til samræmis við hækkun þá, er gerð var á launum, er áætlað að nemi samtals 4.1 millj. kr. Loks má svo vekja athygli á því, að frv. gerir ráð fyrir, að auka megi varasjóð trygginganna um allt að 2% af útgjöldum á ári hverju. Þessi upphæð er áætluð að nemi á næsta ári tæplega 2.7 millj. kr.

Ég hef hér reynt í eins stuttu máli og unnt var að draga fram meginatriði í þeim mun, sem er á frv. því, sem hér liggur fyrir, og þeirri löggjöf, sem gilt hefur. Allt er það ófullkomið, en ég veit, að hv. alþm. kynna sér þetta og gera það betur á þann hátt að lesa þá grg., sem frv. fylgir, og annað það, sem til upplýsinga er í þessu máli.

Ég vil þó leyfa mér að nefna hér eitt atriði enn, áður en ég skilst við þetta mál. Nefndin stendur að þessu frv. í meginatriðum samhljóða, en vissir nm. hafa haft fyrirvara um einstök atriði, og ég tel mér skylt að geta þess, sérstaklega vegna þess, að sá nm., sem hefur meginfyrirvarana, situr ekki í þessari hv. deild. Það er aðalforstjóri trygginganna, Haraldur Guðmundsson, hv. 4. þm. Reykv. Hann hefur haft fyrirvara um nokkur atriði frv. Skal ég nefna nokkur þeirra hér án þess að fara nákvæmlega út í það, því að það mun líka prentað í nál.

Haraldur Guðmundsson vill m.a. hækka lífeyrisgreiðslur almennt til gamalmenna og öryrkja meira en frv. gerir ráð fyrir. Þá er hann og andvígur því, að fjölskyldubætur með öðru barni verði niður felldar, nema áðurnefnd hækkun lífeyris verði gerð eða lækkun iðgjalda, sérstaklega þó unglinga, verði lögfest. Hann mun og vilja rýmka skerðingarákvæðin, nema þá að fyrrnefnd hækkun lífeyris fáist. Þá mun hann og telja, að þeim tryggðu sé ætlað að bera of mikið hlutfallslega við aðra aðila, er halda uppi kostnaði, og mun vilja, að þátttaka ríkis, sveita eða atvinnurekenda, annaðhvort einhverra af þessum aðilum eða kannske allra, verði aukin til léttis fyrir þá tryggðu. Þá vill hann og, að dánarbætur vegna slysa verði almennt ákveðnar hinar sömu og dánarbætur lögskráðra sjómanna. Það munu ef til vill vera nokkur fleiri atriði, sem hv. þm., Haraldur Guðmundsson, hefur sérstöðu um, en þetta munu þó víst þau veigamestu og ekki mjög mörg önnur. Ekkert af þessum ákvæðum er nein grundvallaratriði í þessu sambandi, og má því vel vera, að hægt sé að ná samkomulagi um eitthvað af þeim undir meðferð málsins hér á Alþingi. Það skal ég ekki um segja neitt frekar að sjálfsögðu, en er til athugunar.

Þá hafa þær tvær ágætu konur, sem í n. sátu, haft fyrirvara um eitt atriði, þær Auður Auðuns og Rannveig Þorsteinsdóttir. Þær hafa flutt till. um niðurfellingu 2. mgr. í 16. gr. frv., en sú mgr. kveður svo á, að við ákvörðun fjölskyldubóta skuli ekki teljast með þau börn í fjölskyldunni, sem eiga framfærsluskyldan föður utan hennar.

Aðrir fyrirvarar við frv. veit ég ekki til að gerðir hafi verið, nema eins og ég tók fram áðan, að Haraldur Guðmundsson mun hafa einhverja fleiri fyrirvara en ég las hér upp, og ég skal því ekki fara frekar inn á það. En að öðru leyti held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að öll n. standi að frv., þótt vel kunni að vera, að einstakir nm. hafi eitthvað mismunandi skoðanir á einstökum atriðum, og geti það að einhverju leyti komið fram við meðferð málsins í þinginu. En það hefur ekki verið stærra en það, að nm. hafa allir beygt síg undir að fylgja frv. óhreyttu að öðru leyti en því, sem hér er tekið fram um afstöðu einstakra nm.

Ég skal nú fara að ljúka máli mínu. Þetta mun og vera orðið nógu langt, en þetta er líka stórt mál og á það skilið, að sýnd sé full viðleitni til að skýra það, eftir því sem unnt er. Ég hef tekið það hér fram áður, og það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. alþm., að við höfum alltaf orðið að gera bráðabirgðalöggjöf á hverju þingi, rétt fyrir áramótin, til þess að framlengja viss ákvæði, sem aldrei hafa verið látin gilda nema til eins árs. Sé vilji hér á hinu háa Alþingi til þess að breyta almannatryggingalögunum í það horf, sem hér er verið með, eða eitthvað nærri því með þeim eðlilegu breytingum, sem sjálfsagt kunna á því að verða gerðar hér við meðferð málsins, þá væri mjög nauðsynlegt að reyna að koma frv. af og gera það að lögum fyrir áramót. Þá losnum við við það leiðindaverk að þurfa að fara að bera hér fram sérstök frv. og framlengja þau einu sinni enn.

Ég veit nú ekki, hvort þetta tekst. Það er ekki langt til áramóta, eins og við vitum, og fara að safnast að meiri annir á Alþingi hér eftir heldur en áður. En því miður var ekki hægt að leggja þetta frv. fram fyrr en nú, því að það var ekki fyllilega tilbúið, þó að form. n. hefði mjög mikinn hug á því, að það væri tilbúið strax í þingbyrjun, svo að þá væri hægt að taka það til meðferðar.

Ég vildi því leyfa mér að stinga upp á því við þá hv. n., er fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki gæti komið til álita, að nefndirnar í Nd. og Ed. störfuðu að einhverju leyti saman um frv., og ekki sízt fyrir það, að tveir nm. sitja nú hér í hv. Nd. og einn situr í hv. Ed., þar sem einn nm. situr þar, sem einmitt hefur haft nokkra fyrirvara um viss atriði frv. Það gæti kannske töluvert mikið flýtt fyrir, ef nefndirnar að einhverju leyti störfuðu saman og reyndu að átta sig á því í sameiningu, um hvað væri hægt að semja og ná samkomulagi um í þessum efnum. Ég vildi aðeins benda á þetta, án þess að það sé nokkur fyrirskipun frá minni hendi, sem enda getur ekki komið til greina.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að þakka þeirri nefnd, sem að þessu máli hefur starfað. Ég hygg, að hún hafi starfað vel, og ég held mér sé óhætt að segja ágætlega. Það er feiknastarf, sem hún hefur leyst af höndum, og ég er ekki í neinum vafa um, að það er mjög margt til bóta, sérstaklega og ekki síður varðandi form frv., sem ég tók fram áðan, að aðeins væri eðlilegt, þar sem væri verið að endurskoða frumsmiði í íslenzkri löggjöf, eins og almannatryggingalögin frá 1946 raunverulega voru. N. hefur því að mínum dómi leyst sitt verk ágætlega af höndum. Nú kemur það til hins háa Alþingis að taka við frv. og endurskoða það enn og gera þær breytingar á því, sem þingvilji er fyrir.

Ég vil að svo mæltu leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.