26.01.1956
Neðri deild: 50. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

89. mál, almannatryggingar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Áður en ég vík að efni frv. og brtt., sem hér hafa verið ræddar, vildi ég vekja athygli hæstv. forseta á því, að hæstv. félmrh. er fjarstaddur sökum veikinda, og getur hann ekki á þessum fundi gert athugasemdir við málið, þótt hann kynni að hafa hug á því, og yrði því að fresta umr., ef ætti að veita honum tækifæri til þess að gera grein fyrir sínu áliti.

Hv. 3. landsk. hefur nú í alllangri ræðu gert grein fyrir þeim brtt., sem hann flytur á þskj. 269. Ég vil leyfa mér að fara um þær brtt. nokkrum orðum, og mun þá koma í ljós, af hvaða ástæðum meiri hl. heilbr.- og félmn. gat ekki fallizt á að mæla með þessum brtt.

1. brtt. er við 10. gr. frv. og fjallar um það, að ákveðið verði í löggjöfinni, að landið skuli vera eitt verðlagssvæði, og hv. 3. landsk. tók fram, að þetta væri ein af þremur brtt., sem hann legði mesta áherzlu á.

Þegar lögin um almannatryggingar voru sett 1946, var svo ákveðið í 14. gr. þeirra, með leyfi hæstv. forseta:

„Skipta skal landinu í tvö verðlagssvæði. Til fyrsta verðlagssvæðis teljast kaupstaðir og kauptún með 2000 íbúum eða fleiri, til annars verðlagssvæðis allir aðrir staðir á landinu. Þó er heimilt að færa kaupstaði eða kauptún milli verðlagssvæða, ef óskir koma fram um það frá hlutaðeigandi sveitarstjórn og rannsókn á framfærslukostnaði á þeim stað réttlætir tilfærsluna.“

Allt frá því að lögin voru sett 1946, hefur verið í gildi heimild til þess að færa kaupstaði og kauptún á milli verðlagssvæða, en þessi heimild hefur verið lítt eða ekki notuð, vegna þess að umsóknir um þetta frá sveitarstjórnunum hafa ekki legið fyrir.

Mþn., sem hafði þetta mál til athugunar, leitaði einnig álits sveitarstjórnanna um þetta atriði, og svör sveitarstjórnanna í landinn voru þau, að með skiptingunni mæltu um 90 sveitarstjórnir, 45 vildu afnema hana, en 30 svöruðu ekki spurningu nefndarinnar um þetta atriði. Frá þessu atriði er því gengið í frv. að mjög vel athuguðu máli og eftir að hafa leitað álits sveitarstjórnanna í landinu um það, og hefur þótt rétt að þessu athuguðu að haga ákvæðum greinarinnar á svipaðan hátt og gilt hefur s.l. 10 ár, þannig að landinu skuli skipt í tvö verðlagssvæði, en heimilt er áfram að færa sveitarfélag milli verðlagssvæða, ef rökstuddar óskir þess efnis koma frá hlutaðeigandi sveitarstjórn.

2. brtt. hv. 3. landsk. er við 13. gr. frv. Ég gat þess í framsöguræðu minni um þetta mál, að meiri hl. n. legði til, að nokkur hækkun yrði gerð á þeim tölum, sem í frv. eru, í 13. gr. þess, um hæð árlegs ellilífeyris. Sú brtt., sem meiri hl. n. leggur til að verði samþ., er gerð til samræmis við ákvæði hinna nýju launalaga. Nú leggur hv. 3. landsk. til, að þessar tölur verði hækkaðar enn að nokkrum mun frá því, sem meiri hl. n. leggur til. Hv. 3. landsk. gerði ekki grein fyrir því, á hvaða rökum þessi breyting hans er reist, og það hefur ekki komið fram, að það hafi verið athugað, hve mikilli hækkun hún muni valda. Vitanlega má segja, að um þetta gildi þau almennu rök, að það sé bótaþegum til hags að spenna greiðslurnar sem hæst, en það gildir þá jafnt um alla þætti málsins, og ef á að hafa það sjónarmið fyrst og fremst í huga, þá er vissulega þörf í því sambandi að gera sér grein fyrir, hvaða byrðar falla á Tryggingastofnunina í sambandi við það.

3. brtt. hv. 3. landsk. er við 15. gr. frv. Eins og lögin eru nú og gert er ráð fyrir að haldist í frv., er lífeyrir til hjóna, þegar bæði taka lífeyri, nokkru lægri en til tveggja einstaklinga. Nú er 15. gr. frv. þannig að hún veitir heimild til þess að greiða eiginkonu elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 60% óskerts einstaklingslífeyris, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Hugsunin, sem að baki þessu liggur, er sú, að ástæður hjóna geti verið þannig, að þau hafi þörf á að fá fjárhæð sem svarar hjónalífeyri, þó að konan sé ekki orðin fullra 67 ára, sé nokkru yngri. Greinin, eins og hún er í frv., er miðuð við, að hægt sé að ná þessu marki, að veita öldruðum hjónum þessa aðstoð, þó að konan sé ekki orðin fullra 67 ára. En samkv. till. hv. 3. landsk. mundu hjón, sem svona er ástatt um, fá hærri greiðslu, ef konan væri t.d. 65 ára og maðurinn 67 eða 68 ára, heldur en fullum hjónalífeyri nemur. Af þessu mundi leiða það, að þegar bæði hjónin yrðu komin á lífeyrisaldur, þ.e.a.s. 67 ára eða eldri, mundu greiðslur til þeirra lækka samkv. þessari brtt., þó að ástæður þeirra væru að öðru leyti óbreyttar. Þetta finnst meiri hl. n. óeðlilegt og mælir ekki með, að þessi brtt. verði samþ.

Hv. 3. landsk. fór allmörgum orðum um það ákvæði frv., að gert er ráð fyrir því, að fjölskyldubætur verði felldar niður með öðru barni í fjölskyldu. Ég gat þess í framsöguræðu minni, að við athugun málsins hefði mþn. valið að fara þessa leið, en sú till. mun ekki vera byggð á því, að ríkisstj. hafi gefið nein fyrirmæli í þessu sambandi, heldur mun mþn. hafa komizt að þessari niðurstöðu eftir nákvæma athugun málsins. Og þess má geta, að ævinlega síðan þetta ákvæði var sett inn í tryggingalögin, hefur það þótt orka tvímælis, hvort eðlilegt væri að halda þessu ákvæði í gildi, m.a. með tilliti til þess, að það nær ekki til verkamanna einna eða þeirra, sem höllustum fæti standa, heldur til allra fjölskyldna í landinu, sem hafa á framfæri sínu tvö börn eða fleiri. Ég gat þess í framsöguræðu minni, að sparnaður, sem af þessu leiddi, næmi 8 millj. kr. Það er þó alls ekki gert ráð fyrir því að skerða fjárhag Tryggingastofnunarinnar sem þessu nemur, heldur er sá kostur valinn samkv. frv. að dreifa þessum 8 millj. á aðra liði, svo að þær komi til nota aðilum í þjóðfélaginu, sem að áliti þeirra, er málið hafa athugað, eru taldir hafa meiri þörf fyrir þessa fjárhæð en fjölskyldur, sem hafa tvö börn á framfæri.

Hv. 3. landsk. fór um það nokkrum orðum, að hann áliti, að með því að gera þessa breytingu væri brugðið loforði, sem verkalýðssamtökunum hefði verið veitt í sambandi við lausn vinnudeilunnar 1952. Það liggur nú í augum uppi, að ríkisstj. getur aldrei bundið hendur löggjafarvaldsins svo til frambúðar, að ekki sé ævinlega opin leið til þess að breyta löggjöf, ef löggjafinn kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé eðlilegt. Og fyrir því eru mörg dæmi í ýmissi löggjöf, sem sett hefur verið, að gerðar séu tilfærslur á hlunnindum eða greiðslu styrkja og annarra hlunninda, sem að áliti þeirra, sem það hafa athugað, koma að betri notum á annan veg en áður hafði verið ákveðið. Ég vil sem dæmi nefna jarðræktarlögin. Þeim hefur oft verið breytt hér á hv. Alþ., og það hefur iðulega komið fyrir, að horfið hefur verið frá að veita styrki eða framlög til ákveðinna þátta, sem gert hefur verið um skeið, en fjárhæðinni varið þá til aukinna framlaga á öðrum sviðum. Hið sama má segja, svo að tekið sé dæmi annars staðar að, um lögin um landnám, nýbyggðir og endurbyggingu sveitabýla. Um eitt skeið var það t.d. í lögum, að veita skyldi dálítinn styrk til endurbyggingar íbúðarhúsa í sveitum, óafturkræfan styrk. Þessu breytti löggjafinn að athuguðu máli, ekki til þess að gera hlut aðilanna, sem fyrirgreiðslunnar eiga að njóta, rýrari, heldur til þess að veita þeim ríflegri aðstoð með auknum lánveitingum í þess stað. Fleiri dæmi af þessu tagi mætti vissulega nefna. Ég hygg enn fremur, að samningur sá, sem gerður var 1952 um lausn vinnudeilunnar, sé að miklu eða öllu leyti fallinn úr gildi. Það hafa átt sér stað kauphækkanir síðan, sem verkalýðsfélögin hafa átt frumkvæði að, og ýtir það undir, að ástæður kunna að vera til að athuga þetta atriði einnig.

Hv. 3. landsk. sagði, að sjálfsagt hefði verið að veita aðrar bætur, þó að þetta ákvæði hefði haldizt. M.ö.o.: Hann gerir till. um það, að þessar 8 millj., sem færðar eru til milli einstakra þátta bótakerfisins, renni áfram til fjölskyldubóta, en allar aðrar bætur verði veittar eigi að síður. Af því leiðir 8 millj. kr. hækkun á framlögum til Tryggingastofnunarinnar. Nú kann vel að vera, að ýmsum finnist það rétt og eðlilegt, en það liggur þó fyrir, að þeir aðilar, sem framlögin greiða til Tryggingastofnunarinnar, þeir, sem kostnaðinn bera, vilja stilla starfseminni í hóf. Af þeim ástæðum mun áreiðanlega spretta viðhorf sveitarstjórnanna til þess að hafa verðlagssvæðið ekki eitt, heldur tvö, þar sem þær byrðar, sem lagðar eru á iðgjaldagreiðendur á öðru verðlagssvæði, eru nokkru léttari en á fyrsta verðlagssvæði. Og af sömu ástæðu mun það líka vera sprottið, að mikill meiri hluti sveitarstjórnanna telur eðlilegt, að skerðingarákvæði í einhverri mynd haldist áfram.

Þá gerir hv. 3. landsk. till. um það, að einstæðar mæður fái fjölskyldubætur auk mæðralauna, sem þeim eru ákveðin samkv. frv. Um þetta gildir auðvitað hið sama og um aðra þætti málsins, að öðrum þræði verður alltaf að líta til þess, hvað fært þykir að auka framlög til Tryggingastofnunarinnar. En í því sambandi vil ég ítreka það og leggja á það áherzlu, að með þessu frv. er gengið mjög til móts við það sjónarmið að auka réttindi til einstæðra mæðra, með því að gert er ráð fyrir, að heildarhækkun Tryggingastofnunarinnar til mæðralauna nemi 2 millj. kr. frá því, sem er í gildandi lögum.

8. brtt. hv. 3. landsk. er við 22. gr., þar sem hann leggur til, að greinin um skerðingu lífeyris vegna annarra tekna verði felld úr gildi, og hv. ræðumaður tók fram, að þetta væri ein af þremur brtt., sem hann legði mikla áherzlu á. Ég hef þegar tekið fram í þessum umræðum, að áætlað er, að það mundi kosta Tryggingastofnunina 12–13 millj. kr. að samþykkja þessa till. Þessi fjárhæð yrði þá ný viðbót, sem félli á herðar þeirra aðila, sem iðgjöld greiða og önnur framlög til Tryggingastofnunarinnar, og þessi viðbót færi til þess að greiða þeim fullan ellilífeyri, sem hafa aðrar tekjur allháar, því að skerðingarmarkið er hækkað allverulega samkv. ákvæðum frv. frá því, sem verið hefur. Það hefur einnig verið á það bent, að álit sveitarstjórnanna er, að meiri hluti þeirra mælir með því, að skerðingu sé haldið. Svör sveitarstjórnanna um þetta atriði voru þau, að 85 vilja viðhalda skerðingarákvæðunum, sumar með hækkuðu skerðingarmarki. Tæplega 60 vildu afnám þeirra eða þá verulega hækkun á skerðingarmarkinu, en rúmlega 20 sveitarstjórnir svöruðu ekki þessari spurningu. Eins og tryggingakerfið er byggt upp samkv. gildandi lögum og enn fremur samkv. því frv., sem hér er til umr., hvílir það ekki á hreinum tryggingargrundvelli, þannig að hinir tryggðu beri kostnaðinn einir að öllu leyti. Gert er ráð fyrir því, að iðgjöld hinna tryggðu nemi aðeins 33% af heildarframlögum til Tryggingastofnunarinnar. Hitt ber ríkissjóður, sveitarsjóðir og atvinnurekendur. Af þessu leiðir, að sá grundvöllur, sem Tryggingastofnunin er reist á, er að verulegu leyti framfærslusjónarmið. Og þá kemur það til athugunar, þar sem þetta tryggingakerfi hvílir að verulegu leyti á framfærslusjónarmiði, hvort það sé eðlilegt að afnema með öllu skerðingarákvæðin og láta ríkið, sveitarsjóðina og atvinnurekendur taka ríflegan þátt í því að framfæra menn, sem hafa tekjur af atvinnu eða eignum, hærri en þær, sem frv. gerir ráð fyrir að skerðingarmarkínu nemi.

Það hefur stundum í þessu sambandi verið vitnað til lífeyrissjóða embættismanna. En þetta er ekki að öllu leyti sambærilegt, vegna þess að þeir eru að miklu leyti grundvallaðir á tryggingasjónarmiði. Ríkið greiðir að sönnu hluta af iðgjaldinu, en í því falli má líta á ríkið sem atvinnurekanda. Ríkið greiðir ekki framlag til sjóða einstakra stofnana, sem myndaðir hafa verið, heldur greiða þær stofnanir aðeins vissan hluta af iðgjaldi meðlima sinna, en ríki eða bæjarsjóður greiða ekki aukaframlög til þeirra. Í lífeyrissjóði embættismanna fer hæð lífeyrisins eftir starfsaldri, þannig að til þess að fá fullan lífeyri hefur maður þurft að greiða iðgjöld í 30 ár. Nú er þannig ástatt um almannatryggingarnar, að enginn borgari í landinu hefur enn þá greitt iðgjald til þeirrar stofnunar lengur en 10 ár og gæti því ekki heldur eftir reglu lífeyrissjóðanna komizt að því að fá fullan lífeyri, eins og málum er háttað nú í dag. [Frh.]