20.02.1956
Neðri deild: 73. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

89. mál, almannatryggingar

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra, sem standa að flutningi þeirra till., sem prentaðar eru á þskj. 346, en þar höfum við gert fjórar till. til breytinga á því lagafrv., sem hér liggur fyrir um almannatryggingar. Aðrir flm. eru hv. 11. landsk. þm., hv. 8. þm. Reykv., hv. 7. landsk. þm. og hv. 4. landsk. þm.

Fyrsta brtt., sem við flytjum á þessu umrædda þskj., er við 8. gr. frv., en í henni er ákveðið um yfirstjórn trygginganna svo og hvernig haga skuli umboði trygginganna utan Reykjavíkur. Í frv. er einfaldlega gert ráð fyrir, að fógetaembætti og sýslumannsembætti hafi þessi umboð, en þar er um að ræða breytingu frá því, sem er í framkvæmd nú, því að í flestum kaupstöðum landsins munu sjúkrasamlög annast umboð trygginganna, og á meðan sjúkrasamlögin haldast á þann hátt, sem þau nú eru, er ekkert eðlilegra en að þau fari með umboð almannatrygginganna að því er varðar greiðslu bóta. Á hinn bóginn hafa fógetaembættin víðast, máske alls staðar, umboð almannatrygginganna til innheimtu, og er það einnig eðlilegt, enda er svo um margt fleira á vegum ríkisins, sem fógetaembættunum er falin innheimta á, að ástæðulaust er að haga þeim innheimtum með öðrum hætti, þar sem það mundi aðeins leiða til þess, að hver rukkarinn mundi ganga í annars fótspor heim til manna til innheimtu, en það virðast vera hagkvæm vinnubrögð, að innheimtan sé í höndum fógetaembættanna. En í þessari till. okkar felst einnig það, að sú breyting sé gerð frá frv., að þau sjúkrasamlög, sem þegar hafa umboð trygginganna, skuli halda þeim áfram og einnig að Tryggingastofnuninni sé heimilt að fela umboðin almennt sjúkrasamlögunum. Við höfum sömuleiðis gert ráð fyrir því, að ákvörðunarréttur sá, sem nú er í Reykjavík hjá tryggingaráði, færist um leið yfir til þessara umboða sjúkrasamlaganna úti í kaupstöðunum og til þeirra sjúkrasamlaga í sveitum, þar sem hagkvæmt þykir að hafa slík umboð, þannig að sem allra flestir landsmenn geti sjálfir átt þess kost að koma að máli við þá aðila, sem eiga að úrskurða um bótarétt þeirra.

Það leikur ekki neinn vafi á því, að þeir, sem búa úti á landsbyggðinni, hafa örðugri aðstöðu til þess að ná fram sínum rétti gagnvart tryggingunum, þegar mikill hluti af bótaákvörðununum er tekinn hér í Reykjavík. Það er allt annað að geta gengið sig á fund þeirra yfirvalda, sem ákvarðanirnar taka, rætt við þá málin, eða þurfa að senda allar upplýsingar bréflega, og reynslan er sú, að þær skrifstofur, sem hér taka við slíkum bréfum, hafa lengi lag á því að finna á þeim einhvern formgalla, draga afgreiðslu, óska eftir frekari útskýringum, þegar bezt lætur, en oft að leggja slíkar umsóknir beinlínis í glatkistuna, vegna þess að þær hafa ekki verið að öllu leyti eins útfylltar og skýrsluform eða viðkomandi úrskurðaryfirvöld hefðu viljað vera láta. Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að fólk úti á landsbyggðinni glatar nokkrum hluta af réttindum sínum í almannatryggingunum einmitt vegna þess, að þeir aðilar, sem eiga að úrskurða samkvæmt heimildargreinum trygginganna, eru of fjarri, til þess að viðkomandi menn geti sjálfir gengið á fund þeirra og rakið þar mál sín þannig, að ekkert þurfi að fara á milli mála um form og útfærslu á skjölum. Með því að hafa ákvörðunarréttinn úti í umboðunum mundi að verulegu leyti verða hætt úr þessu. Á hinn bóginn er það greinilegt, að tryggingarnar hljóta að verða að hafa eitthvert eftirlit með því, að lögin séu framkvæmd í sem mestu samræmi um allt land, og gerir till. okkar ráð fyrir því, að slíkt eftirlit hafi Tryggingastofnun ríkisins, en fyrsta till. okkar gerir ráð fyrir því, ð úrskurðunarréttur samkvæmt heimildargreinum laganna færist út í umboðin.

Hv. alþm. geta svo sjálfir metið það, hvort þeir telja þetta sanngjarnt eða ekki. En bágt á ég með að trúa því að óreyndu, að þeir, sem eru hingað á Alþingi kosnir sem fulltrúar utan af landsbyggðinni, telji það eitt vera sanngirni, að úrskurðunarréttur samkvæmt heimildargreinum almannatryggingalaga sé eingöngu í Reykjavík og ekki annars staðar.

Önnur brtt., sem við gerum, er við 13. gr. frv. og er varðandi upphæð ellilífeyrisgreiðslna og örorkulífeyrisgreiðslna. Í frv. er gert ráð fyrir, að grunnlífeyrir til hjóna nemi 1067 kr. samkv. núgildandi vísitölu á mánuði, en við teljum, að þetta sé heldur lág upphæð og hafi ekki hækkað til samræmis við aðrar verðhækkanir í landinu, og leggjum til, að upphæðin verði 8400 kr. á ári í grunn. Það þýðir, að hækkun á þessum lífeyri mundi nema milli 29 og 30% frá því, sem nú er.

Það verður ekki hægt að telja, að það sé nein ofrausn, þótt slík hækkun væri ákveðin, enda væri þá lífeyrir sá, sem hjónum er ætlaður, ekki meiri en svo, að rétt væri fyrir allra brýnustu þörfum. Við höfum ekki gert ráð fyrir því í okkar till., að landið væri nema eitt verðlagssvæði, og því höfum við ekki gert till. um nema eina upphæð, en ef þau ákvæði frv. fara óbreytt í gegnum þingið, að áfram skuli landið vera í tveimur verðlagssvæðum, þá geri ég ráð fyrir, að á einhverjum stigum málsins yrðu að þessari till. samþykktri gerðar ráðstafanir til þess að færa inn aðra tölu til samræmis á öðru verðlagssvæði, en munurinn mun vera sá, að á öðru verðlagssvæði eru bæturnar 25% lægri en á fyrsta verðlagssvæði.

Þriðja brtt. okkar er varðandi greiðslu barnalífeyris samkvæmt úrskurði, en við flm. erum ábyggilega ekki einir um að líta svo á, að þau ákvæði, sem í frv. eru nú um greiðslu þessa lífeyris, séu spor aftur á bak. Í frv. er gert ráð fyrir því, að viðkomandi mæður óskilgetinna barna, sem fengið hafa úrskurð um barnalífeyri með börnum sínum, skuli fyrst snúa sér til sveitarfélags, en ef sú innheimta gangi ekki að óskum, þá geti þær snúið sér til fógeta, sem eigi að sjá um greiðslur til þeirra. Nú eru í gildi um þetta reglur á þá lund, að Tryggingastofnun ríkisins greiði út þennan lífeyri, og það hefur af öllum aðilum verið talin góð málsmeðferð, að öðru leyti en því, að Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki sýnt þann dugnað í innheimtu þessara meðlaga, sem ákjósanlegt væri, og hefur þess vegna myndazt nokkur skuld barnsfeðra. Ekki verður séð, að hin nýja skipun þessara mála, sem frv. gerir ráð fyrir, muni í nokkru draga úr þeim vanskilum. Þvert á móti væri æskilegt, að löggjöfin færði innheimtuna í það horf, sem líklegra væri til þess, að sem bezt skil mættu verða á þessum barnalífeyri, en héldi þeim háttum um greiðslu barnalífeyrisins, sem vel hafa gefizt, en það er, að Tryggingastofnunin eða umboð hennar á hinum einstöku stöðum greiði út þennan lífeyri.

Í okkar till. er lagt til, að Tryggingastofnunin annist útborgun lífeyrisins, eins og nú er í gildi, en frv. gerir ráð fyrir að verði breytt. En till. gerir einnig ráð fyrir því, að öllum afskiptum sveitarfélaganna af þessu verði hætt, þannig að Tryggingastofnunin öðlist endurkröfurétt á viðkomandi barnsföður og innheimti hjá honum, án þess að sveitarfélögunum sé í þetta blandað á nokkurn hátt. Af öðru tilefni hef ég rakið það, hver rök hníga að því, að þessi háttur verði upp tekinn, og sakar ekki, þó að þau séu nú hér endurtekin, þar sem þessi till. er beint til umræðu. Í fyrsta lagi eru það rök fyrir þessu, að bæjarfélögin og sveitarfélögin hafa yfirleitt ekki mikið gjaldþol, og ef eitthvað lendir í vanskilum af þessu, þá eru aðrir aðilar eðlilegri greiðendur þess fjár en bæjar- eða sveitarfélögin. Ég hef bent á dæmi um það, að nú feilur skylda á einn barnsföður til þess að greiða barnalífeyri með barni sínu. Sá barnsfaðir er ekki sá reiðumaður, að hann standi í skilum með þetta. Við getum hugsað okkur, að hann sé búsettur á Akureyri. Það þýðir: Akureyrarbær verður ábyrgur fyrir þessari greiðslu og verður að inna hana af höndum. Barnið elst máske upp í einhverju allt öðru sveitarfélagi, og þegar barnið er orðið uppkomið og orðið skattborgari, eru sáralitlar líkur til þess, að Akureyrarbær, sem orðið hefur að gjalda kostnað af uppeldi þess, njóti í nokkru viðkomandi þjóðfélagsþegns sem skattborgara. Þar á móti er alveg víst, að ríkið tekur skatt af þessum einstaklingi, þegar hann er orðinn skattskyldur, og sömuleiðis mun Tryggingastofnun ríkisins, hvar svo sem viðkomandi einstaklingur verður með búsetu á landinu, leggja á hann iðgjöld vegna almannatrygginganna.

Það er þess vegna eðlilegast, að Tryggingastofnun ríkisins greiði út öll slík barnsmeðlög og innheimti þau, eftir því sem mögulegt er, en að sá aðili, sem endanlega greiðir, ef ómögulegt reynist að innheimta viðkomandi barnalífeyri hjá barnsföður, sé ríkið, sem að lokum greiði Tryggingastofnuninni þann halla, sem hún kann að verða fyrir vegna greiðslu þessa barnalífeyris. Ég hef einnig bent á, að einmitt fyrir þessu eru fordæmi mjög nærtæk, þar sem um er að ræða barnalífeyri barna erlendra manna, en nú er sá háttur hafður á, að Tryggingastofnun ríkisins borgar út slíkan barnalífeyri, en ríkið stendur Tryggingastofnuninni að lokum skil á þeim lífeyri, sem ekki innheimtist hjá viðkomandi barnsfeðrum. Ekki get ég séð, að þessi regla, svo sjálfsögð sem hún er, þegar útlendir feður eiga í hlut, geti ekki einnig verið sanngjörn í þeim tilfellum, þar sem barnsfeðurnir eru innlendir, en óskilamenn, þannig að þeir gjalda ekki sjálfir sinn barnalífeyri.

Enn fremur hef ég bent á, að á núgildandi fjárlögum greiðir ríkið til aðstoðar við innheimtu á slíkum barnalífeyri 630 þús. kr., þ.e.a.s. styrkinn til Kvíabryggjuheimilisins, en sá styrkur kemur eingöngu til góða því sveitarfélaginu á Íslandi, sem stærst er og ríkast, þ.e. Reykjavík. Engin önnur sveitarfélög á Íslandi njóta neinna hliðstæðra styrkja á fjárlögum. Það væri þess vegna ekki nema eðlilegt, að ríkið tæki að sér þessar greiðslur, þær sem ekki er hægt að innheimta hjá viðkomandi barnsfeðrum. Ríkið hefur þegar gert ráðstafanir til þess að greiða sem svarar 150 óskilabarnsmeðlögum fyrir Reykvíkinga. Reykjavíkurbúar eru ekki nema um það bil þriðjungur af landsmönnum, og til þess að samræmis gætti, væri ekki nema eðlilegt, að ríkið tæki á sig þá byrði að greiða sem svarar lífeyri 300 barna, þar sem feðurnir væru búsettir eða ættu heimilisfang utan Reykjavíkur.

Að síðustu hef ég svo einnig getið þess, að varðandi vinnubrögð í þessum efnum er þetta einnig heppilegasta leiðin, að Tryggingastofnun ríkisins greiði út viðkomandi barnalífeyri og innheimti hann, að svo miklu leyti sem mögulegt er. Til þess hefur hún þá möguleika, að í Reykjavik er spjaldskrá yfir alla íslendinga, sem Tryggingastofnunin er raunar einn kostnaðaraðilinn að, að gerð var. Þessi spjaldskrá verður með ári hverju fullkomnari, og má reikna með, að í nánustu framtíð verði hún býsna örugg heimild um búsetu landsmanna. Þess vegna eru hæg heimatökin hjá Tryggingastofnun ríkisins að fletta upp í spjaldskrá yfir alla Íslendinga, hvar viðkomandi barnsfaðir er niður kominn, og ef það verður nú gert að lögum, sem í frv. er lagt til, að fógetar og sýslumenn verði umboðsmenn trygginganna um land allt, þá eru það einnig hæg heimatök hjá Tryggingastofnun ríkisins, eftir að hún hefur haft upp á heimilisfangi viðkomandi barnsföður í spjaldskránni stóru, að fela viðkomandi fógeta innheimtuna, en fógetaembættin, eins og ég hef áður tekið fram, eru ein allsherjar innheimtustofnun fyrir ríkið, hver í sínu héraði. Þannig má í fyrsta lagi gera ráð fyrir því, að viðkomandi barnalífeyrir mundi betur innheimtast með þessu fyrirkomulagi heldur en ef hvert einstakt sveitarfélag á að annast innheimturnar, og í öðru lagi, ef um vangreiðslur er samt að ræða af óhjákvæmilegum ástæðum, þannig að þrátt fyrir ýtarlega viðleitni til þess að innheimta hjá viðkomandi barnsföður kann það samt ekki að takast, þá er eðlilegast, að ríkið endurgreiði Tryggingastofnuninni þau barnsmeðlög, sem ekki fást greidd með eðlilegum hætti, á sama hátt og gert er, þegar útlendir barnsfeður eiga hlut að máli.

Varðandi aðstöðu mæðra leikur ekki vafi á því, að þessi háttur væri mun hagkvæmari en sá, sem frv. gerir ráð fyrir. En algengasta reglan er sú, að viðkomandi barn fylgi móður sinni, og aðstaða hennar er þess vegna ekki einasta það, sem maður gæti kallað sérmál konunnar, heldur er það fyrst og fremst mál barnsins, sem á uppeldi sitt undir því, að skilvísar greiðslur um þess lífsframfæri dragist ekki úr hófi fram.

Síðasta brtt. eða 4. brtt., sem við höfum gert, er við 58. gr. frv., en hún tekur til iðgjalda í sjúkrasamlögum. Í núgildandi reglum um þetta og í frv. er gert ráð fyrir því, að hinir tryggðu greiði 60% af kostnaði sjúkrasamlaganna, 20% á svo ríkið að greiða, og aðra 20 á viðkomandi sveitarfélag að greiða.

Nú hefur því í rauninni verið lofað fyrir allmörgum árum, að sjúkrasamlögin sem slík ættu að leggjast niður og þar með sérstök iðgjöld til þeirra. Þetta hefur ekki orðið í raun, og horfir nú svo, að langur tími muni liða, þar til svo skipast. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að af ríkisvaldsins hálfu verði gert eitthvað til þess að koma þó til móts við almenning í þessum efnum, þ.e.a.s. að koma fram iðgjaldalækkun til sjúkrasamlaganna. Og till. okkar, 4. till. á þskj. 346, er um það, að breytt verði þeim hlutföllum, sem hér hafa gilt, þannig að greiðslu þessara aðila, sem nú greiða kostnað sjúkrasamlaganna í svo ójöfnu hlutfalli sem ég þegar hef nefnt, að hinir tryggðu greiða 60%, ríkið 20, bærinn 20, verði jafnað til þriðjunga á þessa aðila. Það mundi lækka iðgjöld í sjúkrasamlögum nærfellt um helming, en það mundi að vísu nokkuð auka útgjöld bæði bæja og ríkis. En það hefur þann kost, að í sjúkrasamlagi verða allir hinir tryggðu að borga jafnhá iðgjöld, hvort þeir eru ríkir eða fátækir eða hver sem aðstaða þeirra kann að vera í þjóðfélaginu að öðru leyti. Aftur á móti tekur bærinn af þegnum sínum það, sem hann leggur til sjúkrasamlaga, eftir allt öðrum reglum, hann tekur það yfirleitt í gegnum útsvör, en þau eiga að vera á lögð samkv. efnum og ástæðum, og væri þess vegna eðlilegt að flytja meiri hluta af kostnaði sjúkrasamlaganna yfir í greiðslur, sem teknar eru eftir efnum og ástæðum, heldur en nú er. Að því er viðkemur ríkinu, þá hefur ríkið lagt svo ríflega skatta og tolla á þjóðina nú síðustu daga, að það ætti ekki að vera ofverkið þess að hækka hlut sinn úr 20% í greiðslum til sjúkrasamlaga í 331/3%, og er ég ekki í neinum vafa um það, að fjárhagur ríkisins, eins og almenningur er skattaður nú, fer ekki í neitt öngþveiti fyrir það, þótt þessar greiðslur verði hækkaðar eins og lagt er til í 4. till. okkar.