21.02.1956
Neðri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

89. mál, almannatryggingar

Fram. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar, frá því að 2. umr. fór fram, og ber fram nú við þessa umr. málsins nokkrar brtt. um viss atriði, sem hún hafði ekki tekið fulla afstöðu til við 2. umr. Eitt af þeim atriðum, sem nokkur ágreiningur hefur verið um, er það, hvernig haga skuli ákvæðum 22. gr. frv. um skerðingu á elli- og örorkulífeyri eftir því, hve aðrar tekjur aðila nema hárri fjárhæð.

Við 2. umr. kom fram till. frá einum nm. í heilbr.- og félmn., hv. 3. landsk. þm. (HV), um að fella niður með öllu ákvæði um skerðingu lífeyris, hve háar sem aðrar tekjur aðila væru. Þessi brtt. var felld. Nú flytur heilbr: og félmn. á þskj. 366 brtt. við 22. gr. frv., þar sem rýmkað er nokkuð skerðingarmarkið frá því, sem ákveðið er í frumvarpsgreininni. Þessi brtt. hefur verið til athugunar í Tryggingastofnun ríkisins, og form. mþn. þeirrar, sem samdi frv., hefur einnig athugað þessa tili., og innan heilbr.- og félmn. hefur náðst fullt samkomulag um orðalag hennar. Vænti ég þess, að hv. þdm. geti fallizt á að afgreiða þetta atriði málsins í þeim búningi, sem n. leggur nú til.

Önnur brtt. heilbr.- og félmn. á þskj. 366 er við 59. gr. frv. og miðar einungis að því að gera skýrara orðalag frvgr., en felur ekki í sér efnisbreytingu.

Gert var ráð fyrir því, þegar frv. var samið, að lögin öðluðust gildi 1. jan. 1956. Þar sem ekki reyndist fært að afgreiða frv. fyrir s.l. áramót, leiðir af því, að þessu ákvæði frv. þarf að breyta. Heilbr.- og félmn. leggur til, að gildistaka laganna verði miðuð við 1. apríl þ. á., en jafnframt þarf að ákveða til bráðabirgða, að allmörg ákvæði laganna komi ekki til framkvæmda fyrr en um n.k. áramót, og fjallar um það 4. brtt., þar sem lagt er til, að við frv. bætist nokkur ákvæði til bráðabirgða.

Enn fremur flytur heilbr.- og félmn. brtt. á þskj. 386. Þær brtt. eru fram bornar eftir ábendingu og að tilmælum skattstjórans í Rvík og fela í sér orðalagsbreytingar til samræmis við orðalag skattalaga og skattareglugerðar. Þykir það skýrara að orða þau atriði málsins, sem þessar brtt. fjalla um, á þann veg, sem lagt er til á þskj. 386.

Þá hafa verið fluttar við þessa umr. brtt. frá einstökum þm., og hafa flm. þeirra þegar mælt fyrir þessum till.

1. brtt. á þskj. 346 felur í sér þá breytingu á 8. gr. frv., að sjúkrasamlög í kaupstöðum skuli hafa á hendi umboð fyrir Tryggingastofnun ríkisins, í stað þess að gert er ráð fyrir í frvgr., að sýslumenn og bæjarfógetar annist umboðsstörfin fyrir Tryggingastofnunina. Ef þessi till. yrði samþ., yrði gengið lengra í því en verið hefur í framkvæmd að fela sjúkrasamlögum umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina. Heilbr.- og félmn. lítur svo á, að það sé ekki rétt að samþ. þessa till., eins og hún er orðuð, og það sé of langt gengið að gera það að beinni skyldu, að sjúkrasamlög í öllum kaupstöðum landsins skuli hafa þessi umboðsstörf á hendi.

2. brtt. á þessu þskj. er um hækkun á elli- og örorkulífeyri. Við 2. umr. málsins flutti hv. 3. landsk. þm. till. um nokkra hækkun á þessum líðum frv. Till. hans voru felldar. Nú gerist sá óvenjulegi háttur í sambandi við flutning þessarar till., að nú er lagt til að hækka tölurnar frá því, sem fellt var við 2. umr. málsins. Ég tel, að þetta sé fremur óvenjulegt. T.d. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga er það venjulegt, að þegar búið er að fella till. um ákveðna fjárhæð sem aðaltill., þá séu fluttar till. um nokkru lægri fjárhæð, sem koma þá til atkvæða sem varatill. En það er vitanlega á valdi hæstv. forseta að skera úr því, hvort till., sem hljóðar um hærri fjárhæð en þegar er búið að fella í þessari hv. deild, getur komið til atkvæða eða ekki. — En það er ýmislegt fleira, sem er athugavert við þessa till. Að flutningi hennar eins og annarra till. á þskj. 346 standa fimm hv. þm. úr þremur flokkum, en svo virðist, að allir þeir vösku liðsmenn, sem að þessum till. standa, hafi gerzt helzt til hraðvirkir við lagasmíðina, þegar þeir gengu frá þessum till Ég fæ ekki betur skilið en það sé lagt til, að allar bætur, þ.e.a.s. árlegur ellilífeyrir og örorkulífeyrir, verði jafnar til aðila, hvar sem þeir búa á landinu, að það verði greiddar jafnháar bætur í þessum bótaflokkum, hvort sem aðili býr á fyrsta eða öðru verðlagssvæði.

Nú var það fellt hér við 2. umr. málsins að afnema verðlagssvæðaskiptinguna, svo að það stendur eftir í frv. Það virðist þá eiga að líta þannig út, ef þessi tili. yrði samþykkt, að iðgjöld öll og framlög til Tryggingastofnunarinnar ættu að vera lægri af öðru verðlagssvæði, en bæturnar í aðalbótaflokknum ættu að vera jafnháar þar eins og á fyrsta verðlagssvæði.

Það má segja, að í þessu felist raunar hlunnindi fyrir þá, sem búa á öðru verðlagssvæði, en ekki eykur þetta samræmið, og ég held, að samræmið milli ýmissa ákvæða í lögunum mundi verða dálítið einkennilegt, ef þessi till. yrði samþykkt. Skal ég þessu til sönnunar aðeins benda á, að ef þessi till. yrði samþykkt við 13. gr. frv., væri þar með ákveðið, að bæturnar, þ.e.a.s. elli- og örorkulífeyrir, væru jafnháar til aðila, hvort sem hann býr í sveit eða kaupstað, en eftir ætti að standa í 10. gr. frv., þrátt fyrir þetta ákvæði, svo hljóðandi:

„Bætur skulu vera fjórðungi lægri á öðru verðlagssvæði en á fyrsta verðlagssvæði.“

Það virðist ekki aukast samræmið í lagasetningunni við að láta þetta hvort tveggja hafa lagagildi. Enn fremur ætti að standa áfram:

„Iðgjöld skulu vera hlutfallslega lægri á öðru verðlagssvæði en á fyrsta verðlagssvæði, miðað við bótaupphæðir hvors verðlagssvæðis.“

Ég bendi aðeins á þetta hv. þdm. til athugunar, áður en þessar till. koma til atkvæðagreiðslu.

3. brtt. á þskj. 346 fjallar um greiðslu barnalífeyris. Efni þeirrar till. hefur verið rætt hér í þessari hv. deild áður í sambandi við annað frv., sem fjallar um sama efnisatriði. Það hefur verið álit löggjafans alveg ótvírætt, að þó að Tryggingastofnun ríkisins hefði á hendi fyrirgreiðslu um greiðslu barnalífeyris, ætti hún ekki að taka að sér framfærslu, hún ætti alveg óvefengjanlegan endurkröfurétt á hendur öðrum aðilum á því fé, sem hún innti af hendi í þessu skyni. Í fyrsta lagi á Tryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur barnsföður, en bregðist hann þeirri skyldu að inna þessa greiðslu af hendi til Tryggingastofnunarinnar, skal innheimta kröfuna hjá sveitarfélagi, framfærslusveit föður. Löggjafinn hefur kveðið svo á, að það skuli innheimta þessar kröfur, af því að það hefur vakað fyrir löggjafanum, að Tryggingastofnunin tæki ekki að sér framfærslu, þó að hún veitti fyrirgreiðslu í þessu efni.

Nú vekur það eftirtekt, að í þeirri till., sem hér liggur fyrir um þetta efni, er horfið frá því, að Tryggingastofnunin eigi endurkröfurétt á hendur sveitarfélagi, heldur einungis á hendur barnsföður, og bregðist það, að barnsfaðir inni meðlagið af hendi, hlýtur sá halli, sem af því leiðir, að lenda á Tryggingastofnun ríkisins. Það kom reyndar fram í ræðu hv. 9. landsk., þegar hann mælti fyrir þessum brtt., að hann teldi eðlilegt, að ríkið hæri ábyrgð á þessum greiðslum og hlypi undir baggann, ef skuldir söfnuðust af þessu tilefni. En ég fæ ekki séð, að í þessum brtt. sé neitt ákvæði, sem leggur ríkissjóði þá skuldbindingu á herðar, og í frv. er það ekki, svo að ef till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, fæ ég ekki betur séð en Tryggingastofnunin hlyti að standa í ábyrgð fyrir þessum greiðslum og verða að bera þann halla, sem af þessum viðskiptum leiddi.

Till. um sama efni er á þskj. 355 frá hv. 1. þm. Árn. og þm. Borgf. Sú till. er að því leyti frábrugðin till. á þskj. 346, að gert er ráð fyrir, að Tryggingastofnunin geti innheimt kröfuna hjá framfærslusveit barnsföður, verði vanskil af hálfu föðurins. En ég vil vekja athygli á því, að þó að brtt. sé orðuð á þennan hátt, þá á samkv. henni einungis að vera um heimild að ræða til handa Tryggingastofnuninni að innheimta þessar kröfur, því að orðalagið er þannig: „Verði vanskil af hálfu föðurins, má innheimta kröfuna hjá framfærslusveit hans.“ Það er í heimildarformi.

Í þessu er vikið frá ákvæðum laganna, eins og þau hafa verið, frá því að þau tóku gildi 1946, því að í lögunum er Tryggingastofnuninni lögð bein skylda á herðar að reyna að ná inn þessu fé. Í lögunum segir orðrétt: „Verði vanskil af hálfu föðurins, skal innheimta kröfuna hjá framfærslusveit föður.“

Heilbr.- og félmn. hefur tekið þá afstöðu að mæla með ákvæðum frv., sem að þessu lúta, eins og þau eru í frv., en leggur jafnframt til, að samþ. verði sérstakt frv. um breytingar á framfærslulögunum. Hefur það verið rætt áður í þessari hv. d. Heilbr.- og félmn. mun því ekki breyta afstöðu sinni um þetta atriði málsins, þótt þessar brtt. hafi komið fram.