26.03.1956
Efri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

89. mál, almannatryggingar

Gísli Jónason:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 579, í nál. frá hv. heilbr.- og félmn., og eins og lýst hefur verið í framsögu af hv. frsm. n., hef ég ritað undir nál. með fyrirvara, svo sem um er gelið í nál. Þessum atriðum hef ég reynt að fá breytt, en það hefur ekki tekizt. Ég vildi ekki kljúfa n., vegna þess að ég tel, að málið eigi að ná fram að ganga, þó að þessar till. verði felldar, en ég tel hins vegar, að það sé mjög miður, að ekki hefur tekizt samkomulag um sum þau atriði, sem hér um ræðir, og vildi ég nú vænta þess, að hv. þm. vildu fallast á, að þær breytingar sumar hverjar eða helzt allar yrðu gerðar á frv., sem ég skal nú ræða nokkuð um.

Um frv. í heild skal ég ekki ræða að þessu sinni, ég gerði ýtarlega grein fyrir minni afstöðu til þess við 1. umr.

Ég get m.a. ekki fallizt á þá fullyrðingu hjá hv. frsm. n., að hallalaus rekstur stofnunarinnar sé tryggður með því frv., sem hér liggur fyrir, ef að lögum verður. Ég tel, að fjárhagsgrundvöllur stofnunarinnar sé engu tryggari en hann er eftir núgildandi lögum, nema síður sé, en skal hins vegar ekki fara frekar út í það atriði.

Ég tel ekki heldur, að það sé rétt, að frv. feli í sér miklar aukabætur og aukin réttindi. Að sumu leyti dregur það mjög úr þeim réttindum, sem fyrir eru, og að öðru leyti að vísu bætir það nokkuð önnur, þ.e.a.s. flytur til réttindi frá einum aðila til annars. En í heild tel ég, að það væri betur farið, að lögin raunverulega yrðu samþ. eins og þau áttu að gilda um áramótin síðustu, þ.e., að skerðingarákvæðin hefðu fallið niður og heilsugæzlan hefði verið áfram o.s.frv. Ég skal ekki frekar fara út í þau atriði.

Hvað snertir brtt. n. er ég þó þakklátur n. fyrir að hafa fengizt til þess að taka upp í frv. 1. brtt., við 23. gr. Það er raunverulega eina efnisbreytingin, sem gerð er á frv. af n. Hitt eru allt leiðréttingar, en engin efnisbreyting. Hér er þó gerð sú efnisbreyting, að n. viðurkennir, að það sé ekki rétt að halda í frv. um aldur og ævi skerðingarákvæðinu í sambandi við ellilífeyri. Ég hefði helzt óskað eftir, að tekin hefði verið upp ákveðin regla, og minntist á það í n., hvernig væri hægast að afnema þessa skerðingu, svo að hún kostaði sem minnst fé fyrir tryggingarnar og fyrir viðkomandi aðila, stakk þar upp á ákveðinni aðferð um, að hver aðili, sem hefði greitt a. m. k. 10 ár í tryggingarnar, fengi skerðingarlaust 20% af sínum ellilaunum, ef hann hefði náð 67 ára aldri, og síðan bættust við 2% fyrir hvert ár, sem hann hefði greitt, þannig að skerðingin yrði fullkomlega afnumin, þegar allir aðilar hafa greitt 50–51 ár í ellitryggingarsjóðina. Um þetta varð ekki samkomulag. Þó fannst mér. að sumir af hv. meðnm. mínum vildu athuga þetta mál nánar, en til þess gefst ekki tími á þessu þingi, og það er m.a. með það fyrir augum, að þetta ákvæði er sett nú inn, að athugað skuli af hæstv. ríkisstj. og Tryggingastofnuninni, hvaða leiðir séu heppilegastar til þess að afnema að fullu skerðinguna á elli- og örorkulífeyri.

Ég held því enn fram eins og ég hef haldið fram áður, að það sé óverjandi að láta aðila greiða frá 16 ára aldri og þangað til hann er 67 ára í ellilaunasjóðinn og njóta þá ekki neins af þeim gjöldum, sem hann hefur greitt þannig í meira en hálfa öld, ef aðrar tekjur hans eru meiri en sem svarar því skerðingarmarki, sem ákveðið er í lögunum. Hér býr almenningur við allt önnur og lakari kjör en embættismenn þjóðarinnar og aðrir aðilar í þjóðfélaginu, sem hafa komið sér upp tryggingasjóðum. Ég skal ekki fara frekar út í það atriði, en er þakklátur n. fyrir þó að hafa viljað mæta mér á miðri leið í þessu máli á þann hátt, sem hér er gert, og vænti þess, að hæstv. ríkisstj. og Tryggingastofnunin láti rannsaka þetta mál mjög ýtarlega og að till. liggi fyrir fyrir árslok 1958, til þess að þá gefist tími til þess að taka upp nýja aðferð í þessu máli, ef samkomulag yrði um það.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða að neinu öðru leyti till. n. sjálfrar, því að allt annað í till. er ekkert annað en leiðréttingar, sem engin efnisbreyting er í.

Ég hef borið fram átta brtt. á þskj. 576. Meiri hl. n. vildi ekki taka undir þessar brtt., raunverulega ekki undir neina þeirra, en hv. þm. Hafnf. hefur þó látið í ljós bæði í n. og einnig við mig, síðan till. komu fram, að hann sé mjög fylgjandi 1., 2. og 3. brtt., og gerði raunverulega ítrekaðar tilraunir í n. til þess að reyna að fá samkomulag um þær á einn eða annan hátt, þótt það tækist ekki. Hins vegar er hann ekki flm.till. hér, vegna þess að hann er ekki jafnákveðinn í að fylgja öðrum þeim brtt., sem eru á þskj. 576. Skal ég nú í stuttu máli gera grein fyrir þessum till.

1. till. er um breytingu á yfirstjórn Tryggingastofnunarinnar. Ég vil taka það fram strax hér til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þetta er ekki gert sem neitt vantraust eða árás á núverandi forstjóra Tryggingastofnunarinnar, síður en svo, til þess hef ég enga ástæðu. En ég tel, að hér eigi forstjórar, einn eða fleiri, eftir því sem tímarnir telja nauðsynlegt að hafa, ekki að vera skipaðir af hæstv. ráðh., heldur eigi þeir að vera valdir af tryggingaráði Tryggingastofnunar ríkisins. Tryggingaráðið er kosið eftir fullkomnum lýðræðisreglum. Það er kosið eftir þeim þingmeirihl., sem hver flokkur hefur á þinginu á hverjum tíma, og það eftir hverjar alþingiskosningar, og er það hárrétt stefna frá mínu sjónarmiði, þar sem það veltur á því, hvaða fjárhagslegar byrðar eru lagðar á ríkissjóðinn, og þar af leiðandi snertir það bæði Alþingi og hvern einasta þegn í þjóðfélaginu. Þess vegna tel ég rétt, að þeirri reglu sé haldið áfram, sem þarna er tekin upp, en þá sé jafnsjálfsagt, að það sé tryggingaráðið, sem ræður yfirstjórnina, en ekki hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. gæti vel verið mjög andstæður, t.d. hæstv. fjmrh., og það gæti vel farið svo, að það væri lítil eða engin samvinna um fjárhagsmál trygginganna á milli þessara tveggja aðila. En nú er það ekki eingöngu það, sem vakir fyrir mér, heldur vakir það fyrir mér, að það sé bein snerting á milli þeirra, sem ráða raunverulega Tryggingastofnuninni, sem er tryggingaráð, og framkvæmdavaldsins á hverjum tíma. Ég vil benda á, að hér hefur þessi regla verið tekin upp í sambandi við bankana í landinu. Þar eru það bankaráðin, sem ráða bankastjórana, og ráðning þeirra er alveg óháð bæði Alþingi og ríkisvaldinu að öðru leyti en því, sem hægt er að hafa áhrif á það í gegnum þau ráð, sem ráða þessa aðila. Þetta þarf ekki að kosta Tryggingastofnunina neitt fé, vegna þess að ég tei, að þó að forstjórum væri fjölgað, sem ég tel alveg nauðsynlegt, þar sem þetta er allt of mikið bákn fyrir einn mann, sérstaklega þegar hann sinnir ýmsum öðrum störfum, ýmist í þingi eða utan þings, svo að maður ræði ekki um þann tíma, sem fer í að reyna að mynda vinstri stjórn og slíkt brölt, þá sé alveg fullkomið verkefni fyrir fleiri en einn forstjóra í stofnun, sem veltir orðið töluvert á annað hundrað millj. kr. á ári, og að það væri hægt á sama tíma að spara skrifstofustjórana og jafnvel eitthvað af sérfræðingunum, til þess að það þurfi raunverulega ekki að kosta neitt fé fyrir Tryggingastofnunina að koma á þessu miklu hagkvæmara fyrirkomulagi. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál að öðru leyti, en vænti þess, að þessi till. verði samþ.

2. brtt. mín er við 8. gr. í frv. Í 8. gr. í frv. segir svo: „Utan Reykjavíkur skulu sýslumenn og bæjarfógetar annast umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina hver í sínu umdæmi.“ Ég tel, að það sé alveg óverjandi, að það skuli ekki vera hægt að skipta um umboðsmenn utan Reykjavíkur nema með lagabreytingu. Ég hefði getað fellt mig við, að þetta hefði verið sett í reglugerðarákvæði, en það er það ekki, og tel því, að það sé alveg nauðsynlegt að setja inn hér, eins og ég legg til í minni till.: þó getur tryggingaráð ákveðið, að aðrir aðilar skuli annast umboðsstörfin, ef ástæða þykir til þess. — Þetta tel ég þó það mildasta, sem hægt er að hugsa sér um breytingu á þessari gr., og þykir ákaflega merkilegt, að n. skyldi ekki fást til þess að taka þetta atriði upp, og enn merkilegra, ef hv. d. skyldi nú feila þessa brtt. Ég sé ekki nokkra frambærilega ástæðu til þess að lögbinda einhverja ákveðna stétt sem umboðsmenn trygginganna utan Reykjavíkur. Ég fullyrði og viðurkenni fullkomlega, að það fyrirkomulag, sem hér hefur verið tekið upp, að láta sýslumennina annast þessi umboðsstörf, hafi gefizt vel, hef ekkert við það að athuga. En þótt það gefist vel í dag eða á morgun, þá þarf það ekki að gefast bezt um alla framtíð, og þá er óviðeigandi, að það skuli þurfa að breyta lögunum til þess að skipta um þá menn. Ég veit, að á þessu hafa orðið ýmsir vankantar, eins og gengur og gerist og mundu verða hjá hverjum sem væri, — er það ekki nein ásökun á viðkomandi aðila, það hefði sjálfsagt getað orðið, hver sem hefði verið umboðsmaður, — en ég tel alveg óviðeigandi að setja í lög, að það skuli vera ákveðin stétt í þjóðfélaginu, sem eigi að fara með þetta mál, og það sé ekki hægt að víkja frá því. Vænti ég þess því, að þessi brtt. verði samþ.

3. brtt. mín er við 18. gr. Þessari gr. var allverulega breytt í hv. Nd., og ég geri nú till. um, að, henni verði aftur breytt hér í þessari hv. d., þannig að í stað orðanna „á hún endurkröfurétt á hendur barnsföður“ í lok 2. málsgr. komi: á hún endurkröfurétt á ríkissjóð, en hann síðan á barnsföður.

Ég fæ ekki skilið, hvers vegna hv. meiri hl. n. fékkst ekki til að fallast raunverulega á þetta sjálfsagða fyrirkomulag og leysa með því þann vanda að vera að útbúa hálfklúðurslega till., eins og hv. meiri hl. gerir hér á þskj. 581 og hv. meiri hl. telur að sé nauðsynlegt að fá samþ., ef mín till. verði ekki samþ. Ef mín till. verður samþ., verður gangur málsins þannig, að mæðurnar geta snúið sér beint til Tryggingastofnunarinnar, á hverjum stað sem er, til þess að fá greitt meðlag samkvæmt úrskurði, sem hefur verið kveðinn upp venjulega af umboðsmönnum trygginganna. Ef samþ. er óbreytt 8. gr., eru það venjulega sömu mennirnir, sem eru að úrskurða meðlögin með þessum börnum. Ég sé því ekki, hvers vegna einmitt þessir aðilar skuli ekki vera þeir, sem fyrst og fremst eigi að reka þau mál fyrir þá aðila, sem þeir eru að vernda með sínum úrskurði gegn annaðhvort ófyrirleitni eða rangsleitni þeirra manna, sem úrskurðurinn er á. Ég sé ekki, hvers vegna á að fara að setja þetta alveg sérstaklega á Tryggingastofnunina. Það hafa engir menn betri aðstöðu í landinu en einmitt sýslumennirnir, dómararnir, sem hafa fellt þennan úrskurð, til að sjá um, að úrskurðinum sé fullnægt, þannig að viðkomandi menn, sem þeir úrskurða að skuli greiða gjöldin, greiði þau. Og alveg sérstaklega er þetta sjálfsagður hlutur, eftir að búið er að koma því á, sem vitað er nú að hefur verið komið á, að ríkið sjálft rekur stofnun, sem kostar nærri 800 þús. kr. á ári samkvæmt framlagi á fjárlögum yfirstandandi árs, til þess að geyma þar eða láta þá menn vinna þar af sér framlögin, sem ekki hafa greitt samkvæmt úrskurði, sem sýslumennirnir og dómararnir hafa ákveðið. Þess vegna er mér það gersamlega óskiljanlegt, hvers vegna meiri hl. hv. n. hefur ekki viljað fallast á þessa skipan málanna. Þær konur, sem eiga að fá féð, geta fengið það beint hjá Tryggingastofnuninni, og það tryggir fullkomlega beztu sókn í málinu á hendur þeim mönnum, sem eiga að greiða, og það tryggir fullkomlega endurgreiðsluna frá þeirra hálfu, svo framarlega sem hægt sé að ná henni, og þar af leiðandi tryggir það, að viðkomandi sveitarfélög þurfa ekki að greiða það. Vitanlega verður að síðustu endirinn sá, að ef sveitarfélögin eiga að fara að greiða Tryggingastofnuninni það samkvæmt till. á þskj. 581 og þeir svo að síðustu eiga að ganga að þessu hjá ríkissjóði, þá sýnir sig, að það er ekkert annað en að fara krókaleiðir í staðinn fyrir að fara þá beinu leið, sem ég legg til í minni till. Mér er sagt, að það muni vera nú um 10 millj. kr. útistandandi hjá Tryggingastofnuninni, og hvers vegna á að vera að dreifa vaxtabyrði af því fé eða áhættu um, að eitthvað af því fé tapist, á þá, sem standa undir tryggingunum? Ég sé enga ástæðu til þess, nema síður sé. Hvers vegna á iðgjaldsgreiðandi, sem stendur í skilum með sitt iðgjald, að fara að taka á sig hluta af vangreiðsluskuld einhvers aðila, sem bregzt að greiða með barni, sem hann er skyldugur að greiða með, — eða atvinnurekendur eða óviðkomandi sveitarfélög? Ég sé enga ástæðu til þess. Ef ekki er hægt að ná þessu hjá viðkomandi aðilum, þá er langeðlilegast, að ríkissjóður greiði það, enda mun hann hafa bezt tökin til þess að innheimta það. Þarf svo ekki frekar að ræða um það atriði.

4. brtt. mín er við 24. gr., að 4. mgr. falli niður, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Uppbót þessi greiðist að 2/5 af hlutaðeigandi sveitarsjóðum og 3/5 af Tryggingastofnun ríkisins, og skal stofnuninni heimilt að verja upphæð, sem nemur allt að 7% af heildarupphæð elli- og örorkulífeyris s.l. ár, í þessu skyni.“ Þetta er sú upphæð, sem ákveðið er í greininni að megi greiða til sérstakra manna vegna umönnunar sökum sjúkleika eða ellilasleika, er dvelja á elliheimili, sjúkrahúsi eða öðru slíku hressingar- eða dvalarheimili eða eru einstæðingar. Ég spyr: Hvers vegna eiga sveitarfélögin alveg sérstaklega að greiða þetta í staðinn fyrir að láta tryggingarnar greiða þetta? Þetta er eitt af því, sem við tryggjum fyrir, og þetta kemur beinlínis vegna þess, að enn sem komið er eru ekki bæturnar nægilega háar úr tryggingunum, til þess að þessir menn, sem eiga erfiðast í lífsbaráttunni, geti lifað. Og það mundi auk þess draga úr framkvæmdum eða löngun hjá Tryggingastofnuninni, ef till. er felld, til þess að koma þessum málum í það horf, að þessir sömu menu geti dvalizt á elliheimilum fyrir þann styrk, sem þeir fá, en það er það, sem nauðsynlegt er. Það hafa þegar verið sett lög um, að allur erfðafjárskatturinn skuli renna til þess að byggja upp elliheimili eða örorkuheimili fyrir þessa menn, og það er fyrst og fremst Tryggingastofnunin, sem á að hafa forustu um það frá mínu sjónarmiði, að þessu sé komið upp og þetta fé sé notað eins hagkvæmt og hægt er, og koma þessum málum í það horf, að þessir aðilar, sem þurfa sérstakrar umönnunar sökum sjúkleika eða ellilasleika eða dveljast á elliheimilum eða sjúkrahúsum eða öðrum slíkum hressingar- eða dvalarheimilum eða eru einstæðingar, geti átt aðgang að slíkum stað án þess að þurfa að greiða meira fyrir það en ellistyrkurinn eða örorkustyrkurinn er ákveðinn á hverjum tíma. Það er því tvenns konar vinningur við að samþ. þessa brtt. mína: annar að létta á sveitarfélögunum, sem kvarta undan því árlega, að það séu lagðar á þau nýjar og nýjar byrðar með mörgum þeim lögum, sem samþ. eru á Alþ., og hins vegar enn meiri þvingun á Tryggingastofnunina til þess að vinna að þessum málum, sem ég tel að henni beri að vinna að frekar en nokkrum öðrum aðila í landinu.

5. brtt. mín er um það, að b-liður 53. gr. falli niður. B-liður í 53. gr. mælir svo fyrir, að fyrir almenna læknishjálp utan sjúkrahúss hjá samlagslækni eða öðrum lækni, ef slíkar vitjanir eru heimilaðar í samþykktum samlagsins, skuli samlagsmenn á fyrsta verðlagssvæði samkvæmt 10. gr. greiða 5 kr. fyrir hvert viðtal á læknastofu og 10 kr. fyrir hverja vitjun, breytist kauplagsvísitalan um 10% eða meira, skal samræma greiðslurnar þeirri breytingu. Ég tel, að það sé alveg óviðeigandi að taka hér upp nýjan skatt, sem læknum á fyrsta verðlagssvæði er heimilað að taka af hverjum sjúklingi, sem kemur til þeirra eða hann vitjar í heimahúsum. Þegar menn hafa greitt í sjúkrasamlög eða greitt fyrir tryggingar, þá er það ákaflega óviðkunnanlegt, að á sama tíma sé verið að gera þeim að greiða kannske jafnháa upphæð á ári alveg aukalega. Og þetta á að greiða til einna tekjuhæstu manna á landinu annars vegar og auk þess á þann hátt, að útilokað er að geta haft eftirlit með því, að allt þetta fé sé talið fram til skatts. Ég tel því, að það sé alveg óverjandi að samþ. þetta ákvæði 53. gr., og vildi mjög leggja til þess, að mín brtt. yrði samþ.

Ég vil nú spyrja: Hvers vegna var ekki þetta sett um allt land? Var það af því, að fulltrúar sveitanna á öðru verðlagssvæði vildu ekki samþykkja þennan skatt á sína umbjóðendur, en var nokkurn veginn sama um, þó að það væri sett á það fólk, sem býr hér í fjölbýlinu? Ég er einn af þeim, sem eru umboðsmenn fyrir umbjóðendur á öðru verðlagssvæði, en ég tel mér alveg jafnskylt að taka þessa baráttu upp fyrir því, þó að ég eigi ekki neinna sérstakra hagsmuna að gæta hér sem fulltrúi fyrir þá aðila, sem eru á fyrsta verðlagssvæði.

6. brtt. mín er við 55. gr., að tveir síðustu málsl. 2. málsgr. orðist eins og hér segir. Það er í sambandi við gerðardóm í deiluatriðum á milli læknanna og Tryggingastofnunarinnar. Hér segir í 55. gr.: „Náist ekki samkomulag við lækna, skal gerðardómur ákveða samningskjörin. Tilnefna samningsaðilar einn gerðarmann hvor, en hæstiréttur skipar oddamann.“ Svo segir enn fremur: „Verði gerðardómur ekki fullskipaður, fellur niður veiting bóta, eftir því sem við á samkvæmt 53. gr. b og e, en iðgjöld hinna tryggðu lækka að sama skapi.“ Þetta er ákaflega einkennileg braut að fara inn á, að í staðinn fyrir að láta einhvern þriðja oddaaðila, t.d. hæstarétt, útnefna þann mann, sem einn aðilinn vanrækir að útnefna, og láta svo dóm ganga í málinu, skuli allt í einu vera hætt að dæma um málið, en láta þetta ganga út yfir þá aðila, sem greiða í Tryggingastofnunina iðgjöld sín, og þá á að fara að draga af þeim bæturnar. Mér er bókstaflega óskiljanlegt, hvernig milliþn. hefur getað komizt að slíkri niðurstöðu, að það sé nokkurt réttlæti í svona meðferð málanna. Mín till. er þannig, að tilnefni samningsaðili eigi gerðarmann innan 14 daga frá því, að ákveðið hefur verið að skipa gerðardóm, skuli hæstiréttur skipa gerðarmenn, unz gerðardómurinn er fullskipaður, og gildir það að sjálfsögðu, hvort sem um er að ræða Tryggingastofnun eða læknana. Báðir aðilar skulu lúta niðurstöðu gerðardómsins, og verður honum eigi áfrýjað. Þetta er eina eðlilega meðferðin á málinu. Þannig er það venjulega um öll deiluatriði, að ef menn komi sér saman um gerðardóm á annað borð, þá skuli einhver þriðji aðili skipa gerðadómsmennina, ef ekki er skipaður gerðadómsmaður af hvorum aðila um sig.

7. brtt. mín er við 64. gr., að fyrri málsl. falli niður, en þar stendur í lögunum nú: „Ef bótaþegi flyzt til útlanda eða dvelst erlendis, falla bótagreiðslur til hans niður, unz hann kemur aftur til landsins.“ Og svo enn fremur: „Heimilt er þó að greiða elli- og örorkulífeyri til manna, er dveljast í útlöndum allt að 12 mánuði, og lengur, ef lengri dvöl er nauðsynleg vegna lækninga: Ég skil ekki, hvers vegna á að fella niður ellilaun til manns, sem flytur til útlanda, bara af því að hann er annaðhvort verkamaður eða lágt launaður maður í þjóðfélaginu, en það er sjálfsagt að láta embættismanninn halda fullum eftirlaunum, þó að hann flytjist alla leið til Ástralíu eða Afríku eða hvert sem hann flæktist. Hvers vegna geta þessir menn ekki fengið sama rétt, þó að annar sé ofur litið lægri í þjóðfélagsstiganum en hinn? Hér er um að ræða tvo aðila, sem báðir hafa greitt inn í lífeyrissjóðina, annar getur bara greitt í 30 ár, hinn hefur kannske greitt í 51 ár, en svo á sá, sem hefur greitt lengur, að hafa minni rétt en hinn, sem hefur greitt skemur. Mér er líka alveg óskiljanlegt, að hv. meiri hluti hefur ekki viljað fallast á þessa brtt.

Síðasta brtt. mín er við 7. gr., að aftan við lögin komi bráðabirgðaákvæði, er orðist svo: „Ríkisstjórnin lætur í samráði við Tryggingastofnun ríkisins og öryrkjafélögin í landinu fara fram á því athugun, á hvern hátt hagkvæmast verði fyrir komið að nota sem bezt starfsorku öryrkjanna, t.d. með stofnun og rekstri öryrkjaskóla, öryrkjaheimila eða öryrkjavinnustöðva, þar sem öryrkjunum verði sköpuð viðunandi lífsskilyrði á borð við aðra þegna þjóðfélagsins, og skulu niðurstöður þeirra athugana liggja fyrir ásamt till. fyrir lok yfirstandandi árs.“

Í fyrsta lagi er hér ekkert um að ræða annað en að láta rannsaka þessi mál, sem eru mjög aðkallandi mál. Og mér er alveg óskiljanlegt, hvernig bæði hv. meiri hluti vildi ekki gangast inn á þetta, og enn væri mér óskiljanlegra, ef hv. d. vildi feila þessa tillögu. Hv. frsm. sagði, að það hefði lítið verið rætt um þetta mál í n. Ég marghreyfði þessu máli í n. Því var svarað þá, að þetta ætti betur heima annaðhvort sem sérstök þáltill. eða við einhver önnur lög, m.a. lögin um erfðafjárskattinn. En það á hvergi betur heima en einmitt við þessi lög hér og það m.a. vegna þess, að Tryggingastofnunin greiðir stórar fjárfúlgur árlega og vaxandi fjárfúlgur fyrir öryrkja í landinu. Hún ætti, eins og ég hef tekið fram áður, að hafa langmestan áhuga fyrir því að koma upp öryrkjaskólum, öryrkjaheimilum og öryrkjavinnustofum, þótt ekki væri til neins annars en til að draga, ef mögulegt væri, úr þeim kostnaði, sem þeir verða að hafa af öryrkjunum í landinu. Ég veit því ekki, hvar þetta á frekar heina en einmitt við þessa löggjöf.

Í sambandi við þetta vil ég að síðustu benda á, að þó að ég telji það mjög mikils virði að geta dregið úr þeim fjárfúlgum, sem fara til þess að greiða til öryrkjanna, einmitt vegna þess, að þetta mál er ekki nægilega skipulagt, þá lít ég samt svo á, að það sé enn meira virði að geta skapað þessum mönnum störf, þar sem þeir geta notið lífshamingjunnar eins og hverjir aðrir þegnar, með þeirri orku, sem þeir eiga yfir að ráða, og það sé alveg óverjandi og alveg sérstaklega óverjandi af Tryggingastofnun ríkisins að taka ekki upp baráttu til þess að leysa þennan vanda, jafnvel þótt ekki væri nein lagasetning um það. En það hefur ekki tekizt enn, og þess vegna vænti ég, að þessi till. verði samþykkt.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál hér nánar. Ég mun að sjálfsögðu fylgja frv., þó að þessar till. nái ekki fram að ganga, í þeirri fullu vissu og sterku trú, að það komi einhver maður inn á Alþ. við næstu kosningar, sem heldur þeirri baráttu áfram, sem ég hef reynt að halda hér uppi í sambandi við þessi mál þau ár, sem ég hef átt sæti hér, síðan fyrst var farið að ræða um þessi atriði.