26.03.1956
Efri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

89. mál, almannatryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Hv. frsm. afsakaði niðurfellingu heilsugæzlukaflans með því, að sveitarstjórnir og læknar hefðu yfirleitt lagt til, að hann yrði felldur niður. Ég held nú, að sveitarstjórnir séu ekki réttir fulltrúar fyrir skoðanir almennings í þessu efni og því síður læknar. Sjónarmið sveitarstjórnanna er oftast nær þröngt fjárhagssjónarmið, og hvað læknana snertir, þá hygg ég, að þar komi líka þröngt stéttarsjónarmið til greina, enda veit ég, að margir þeir læknar, sem láta sig almenn umbótamál mestu skipta, hafa barizt fyrir þessu fyrirkomulagi árum saman og fært mjög þung rök fyrir kostum þess, sem ekki hefur verið mótmælt. Ég fer ekki nánar út í það í þetta skipti, en það væri efni í heila bók.

Undanhaldið, sem felst í því að fella heilsugæzlukaflann niður, er ekki hægt að réttlæta með því að skírskota til lækna og sveitarstjórna.

Þá taldi hv. þm., að ekki væri hægt að gera hvort tveggja, að gera endurbætur á tryggingunum og lækka hlut hinna tryggðu í kostnaðinum við þær. Raunar telur hann, að hvorugt sé hægt, af fjárhagsástæðum, að mér skilst. Hvað fjáröflunina snertir hef ég oft lýst því yfir, að ég mundi frekar kjósa hverja aðra leið til tekjuöflunar en nefskatta, eins og tryggingagjöldin og sjúkrasamlagsiðgjöldin eru, því að þeir eru ranglátastir af öllum sköttum.

Ekki hafði það nein áhrif á hv. þm., að í samanburðinum við nágrannaþjóðirnar greiða hinir tryggðu langsamlega hæst gjöld hér á landi. Hér greiða þeir þriðjung, en í Danmörku aðeins örlítið brot. Þetta er alls ekki spurning um fjárhagsgetu, heldur um hitt, hvernig sköttunum er jafnað niður á þegnana. Hér er fyrirkomulagið ólýðræðislegast og óréttlátast af öllum Norðurlöndum, svo að þar þolir Ísland engan samanburð. Ég legg aðeins til, að þetta óréttlæti verði að litlu leyti leiðrétt. En eins og nú standa sakir, þarf enga nýja tekjustofna til þess að framkvæma till. minar. Ég hygg, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að tekjuafgangur ríkisins verði á þessu fjárhagsári ekki minni en eitthvað á milli 50 og 100 millj. kr., svo að nú er tækifærið til þess að gera þessar endurætur á lögunum.

Hv. þm. fór ekki inn á nein einstök atriði í till. mínum. Hann minntist þó aðeins á tvö atriði, sem eru sameiginleg með mínum till. og till. annars þm., hv. þm. Barð. Það er í fyrsta lagi um umboð trygginganna. Ég held, að það sé með engum rétti hægt að halda því fram, að það sé ekki með öllu fráleitt, að ákveðið sé í lögum, að þeir, sem Tryggingastofnunin á að semja við, skuli fá það lögfest, að þeir skuli hafa starfið með höndum, því að það fara fram samningar milli Tryggingastofnunarinnar og þessara aðila. Og ef það er lögfest, að þeir eigi að hafa starfið með höndum, þá stappar nærri, að þeim sé sett sjálfdæmi. Það skiptir í sjálfu sér ekki miklu máll, hvort staðfesting ráðh. kemur til eða ekki, því að það er fyrst og fremst formsatriði. Hér er um samninga milli aðila að ræða.

Hvað snertir þátttöku hinna tryggðu í greiðslum til læknanna, þá held ég, að það sé alveg óhætt að fullyrða í fyrsta lagi, að í samningum við læknana verður ekki tekið nema mjög lítið tillit til þessa ákvæðis. Þeir telja það mjög lítils virði. Mér er vel kunnugt um það. Það er langt síðan þetta frv. kom fram, og það hafa farið fram samningar og umræður við læknana síðan, og í þeim umr. kom það fram, að þeir mátu þetta mjög lítils, þannig að ég efast stórlega um, að það hafi hin minnstu áhrif á samningana við læknana. Fjárhagsatriði fyrir tryggingarnar er þetta því ekki. En hv. þm. minntist á önnur rök, sem eru miklu frambærilegri, nefnilega að þetta mundi draga eitthvað úr aðsókn til læknanna. Það er náttúrlega ágætt, ef hægt er að finna ráð til þess að draga úr óþarfaaðsókn til læknanna, jafnmikið og þeir hafa nú að gera, sem raunar stafar mest af því, hversu læknaþjónustan er illa skipulögð. Og ein af stærstu rökunum fyrir nauðsyn þess að samþykkja heilsugæzlukaflann er einmitt það, hvílík nauðsyn það er að breyta um skipulag þessarar þjónustu. En ég tel með öllu fráleitt að ætla að leiðrétta þetta með því að gera tryggingarnar lakari, með því að draga úr hlunnindum trygginganna fyrir alla, láta allan almenning gjalda þeirrar misnotkunar, sem kann að vera hjá einstöku mönnum að því er snertir að ónáða læknana að óþörfu.