28.05.1957
Sameinað þing: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Í þessum umr. hefur allmjög verið rætt um skyndilegan áhuga íhaldsins fyrir launamálum ýmissa launþegasamtaka nú hér í bænum. Óþarft er að taka það fram, að þessi áhugi íhaldsins á ekkert skylt við raunverulegan áhuga fyrir bættum launakjörum verkafólks. Það er nauðsynlegt, að þau stéttarfélög, sem nú eiga uppsagða samninga, geri sér þetta fyllilega ljóst.

Því fer fjarri, að ríkisstj. telji, að allar launabreytingar stéttarfélaga séu nú fordæmanlegar. Hún veit, að vissulega getur verið þörf á leiðréttingu í launagreiðslum í ýmsum tilfellum, og hún mun ekki setja sig upp á móti slíkum launaleiðréttingum. En það ber eigi að síður að vara sterklega við tilgangi íhaldsins með vinnustöðvunum og kauphækkunum, svo augljóslega sem það reynir að stefna þessum ráðstöfunum gegn verðstöðvunarstefnu ríkisstj.

Hv. 6. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, borgarstjórinn í Reykjavík, reyndi hér að afneita rafmagnshækkuninni, þeirri sem laumað var inn í vísitöluna nú um síðustu mánaðamót. Hann taldi verðhækkunina hafa orðið af sjálfu sér. Helzt var á honum að skilja, að hann kærði sig lítið um þessa verðhækkun, og er sjálfsagt að taka það til nánari athugunar. Hv. þm. getur nú ekki hlaupizt hér undan ábyrgð. Það var hann og flokksmeirihluti hans í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem tók ákvörðunina um þessa verðhækkun og ber alla ábyrgð þar á.

Hv. 6. þm. Reykv., borgarstjórinn í Reykjavík, minntist hér á landspróf skólabarna. Hann taldi fremur ólíklegt, að ríkisstj. stæðist sitt landspróf með hliðsjón af stefnu sinni í landsmálunum. Sínum augum lítur hver á silfrið, eins og stendur þar, og ekki er nú víst, að þjóðin líti eins á prófmálin og þeir íhaldsmenn gera í þessu tilfelli. Segja mætti mér það, að þjóðin vildi ekki sleppa þeim flokki í gegnum landspróf, sem neitar því, að stóreignamenn eigi fremur að borga styrki til framleiðslunnar í landinu en alþýða manna, — sem neita því, að lækka megi álagningu heildsala, — sem neita því, að afnema megi einokunina í útflutningsmálunum, — sem neita því, að rétt sé að skapa framtíðarsjóð til lausnar á húsnæðisvandamálunum. Ætli sé ekki nokkur hætta á því, að þjóðin felli þann flokk á landsprófinu, sem neitað hefur nú á þessu þingi öllum þessum málum? Skyldi það ekki verða íhaldið, sem fellur á landsprófinu?

Þessum umr. er nú að verða lokið. Þær hafa ótvírætt leitt í ljós, að stjórnarandstaða Sjálfstfl. er án málefna og algerlega ábyrgðarlaus.

Þar sem ég er síðasti ræðumaður hér í kvöld og mikið er þegar að gert, sé ég enga ástæðu til þess að eyða frekari höggum á stjórnarandstöðuna, svo gersamlega liggur hún afvelta eftir þessar umr.

Stefna ríkisstj. liggur ljóst fyrir. Hún vinnur markvisst að öflun nýrra framleiðslutækja. Hún viðurkennir sérstaka þörf þeirra landshluta, sem dregizt hafa aftur úr í atvinnulegum efnum á undanförnum árum. Hún leggur áherzlu á gernýtingu framleiðslutækjanna og vill samstarf við framleiðendur og hefur sýnt það í verki. Hún leggur óhikað byrðarnar af nauðsynlegri aðstoð við framleiðsluna á herðar heildsölum, á herðar milliliðum og stóreignamönnum fremur en alþýðu landsins. Hún krefst þess, að bankapólitík landsins sé í samræmi við uppbyggingar- og atvinnumálastefnu stjórnarinnar. Hún krefst þess, að afurðasalan sé rekin með þjóðarhag fyrir augum og að aflétt sé allri einokun í þeim efnum. Hún telur rétt og nauðsynlegt að bæta kjör fiskimanna og lyfta þannig undir aukna framleiðslu landsmanna. Hún berst fyrir stöðugu verðlagi og sanngjarnri verðlagningu, þó að slíkt kunni að bitna á nokkrum gæðingum stjórnarandstöðunnar. Og hún hefur sýnt með tillögum sinum í húsnæðismálunum, að hún vill leysa þau mál, svo að til frambúðar megi verða. — Þetta eru nokkur aðalatriðin í stefnu stjórnarinnar. Afstaða almennings til stjórnarinnar á að fara eftir viðhorfum manna til þessara mála.

Ríkisstj. kvíðir ekki að taka við dómi almennings, þegar þessi mál eru lögð til grundvallar og störf hennar í þessum efnum. En segja mætti mér, að Sjálfstfl. óttaðist dóm kjósenda, ef hann stæði fyrir framan þá eftir þá frammistöðu, sem hann hefur sýnt til þessara og annarra höfuðmálefna, sem íslenzka þjóðin á við að glíma nú. — Góða nótt.