25.01.1957
Neðri deild: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir nýrri skipan á útflutningi og sölu sjávarafurða. Það er öllum kunnugt, að á undanförnum árum hafa oft og tíðum verið uppi allmiklar deilur um það skipulag, sem í gildi hefur verið um sölu sjávarafurða á erlendum markaði. Einkum hefur mikil óánægja komið fram með þau sérréttindi einstakra samtaka um söluréttindi á tilteknum vörum sjávarframleiðslunnar, sem í gildi hafa verið. Þetta hefur alveg sérstaklega átt sér stað með þá einkaréttaraðstöðu, sem í gildi hefur verið í sambandi við útflutning á saltfiski, eins og kunnugt er. Þá hefur óánægja manna með ríkjandi skipulag um sölu sjávarafurða einnig beinzt að því, að í þessum efnum væri ríkjandi verulegt skipulagsleysi og misræmi í reglum varðandi útflutning og sölu á hinum efnistöku greinum sjávarafurða.

Þetta frv. gerir ráð fyrir fastari skipan þessara mála, og jafnframt gerir það ráð fyrir því, að tekið verði upp opinhert eftirlit með öllum þáttum útflutningsframleiðslunnar, en ekki aðeins nokkrum greinum, eins og verið hefur. Það skipulag, sem nú er gert ráð fyrir að taka hér upp í þessum efnum, er mjög í samræmi við það, sem gildir hjá Norðmönnum, og hefur verið stuðzt við samningu þessa frv. við þær reglur, en þó að sjálfsögðu tekið tillit til ýmissar sérstöðu, sem við hljótum að hafa.

Áður en ég vík að einstökum atriðum frv., þykir mér rétt að gera hér stutta grein fyrir því, hvernig þessum málum hefur verið háttað hér í aðalatriðum. Þessum málum hefur verið þannig fyrir komið, að einn aðili, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, hefur í rauninni haft einkaútflutningsrétt á saltfiski, og þar hafa ekki aðrir aðilar getað komið til greina. Þessum samtökum hefur flest árin verið veitt þessi einkaréttaraðstaða, en önnur árin hefur verið þannig haldið á þessum málum, að öðrum aðilum hefur beinlínis verið synjað um rétt til þess að fá að fást við saltfiskssölumál, og þannig hefur sölusambandinu í framkvæmd verið tryggð einkaréttaraðstaða.

Síldarútvegsnefnd hefur raunverulega á sama hátt haft einkaréttaraðstöðu með sölu á allri saltsíld frá landinu. Fyrirkomulagið í þeim efnum hefur verið á svipaða lund. Nefndin hefur fengið árlega viðurkenningu þess ráðuneytis, sem farið hefur með sölu sjávarafurða, fyrir þessari einkaréttaraðstöðu, og hafa því ekki aðrir aðilar flest árin getað komið til greina í sambandi við útboð og sölu á saltaðri síld.

Sala á frosnum fiski hefur aftur á móti verið með þeim hætti, að raunverulega hafa þrír aðilar haft með þau mál öll að gera, þ.e. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga og fiskiðjuver ríkisins. Þessir aðilar hafa að vísu þurft að hafa samráð við það ráðuneyti, sem farið hefur með þessi mál, um söluna, en aðrir en þessir þrír hafa ekki getað komið til greina að fá að annast útboð og sölu þessarar framleiðslugreinar. Enn annað form hefur svo verið haft í sambandi við sölu á skreið og fiskimjöli, lýsi og ýmsum öðrum framleiðsluvörum sjávarútvegsins. Þar hafa verið margir útflytjendur, sem í hverju einstöku tilfelli hafa fengið útflutningsleyfi hjá þar til settum manni af ráðuneytinu, sem veitt hefur slík útflutningsleyfi.

Þannig hefur þessu verið komið fyrir í aðalatriðum, og sjá menn, að það er rétt, að hér hefur í rauninni ekkert fast skipulag verið á. Í sumum greinum hefur verið einkaréttaraðstaða við útflutning. Í öðrum tilfellum hafa verið teknir út úr 2–3 útflytjendur og þeir raunverulega látnir einir hafa með útflutninginn að gera. Í enn öðrum greinum hafa útflytjendur verið margir og þá ýmist samtök framleiðenda, framleiðendur sjálfir eða einstaklingar, sem aðeins hafa fengizt við verzlunarstörf.

Eins og ég sagði hér í upphafi, er það álit flestra, að þetta skipulag geti ekki verið til frambúðar, það verði að takast fastari tökum, og margir eru á þeirri skoðun, að hér hafi ríkt hið mesta misrétti og jafnvei mikil verðmæti farið forgörðum vegna skipulagsleysis.

Aðalatriði þessa frv. eru fólgin í því, að gert er nú ráð fyrir, að skipuð verði sérstök þriggja manna útflutningsnefnd, sem hafi ein yfirstjórn þessara mála með höndum og veiti öllum aðilum útflutningsleyfi, og geta þá að sjálfsögðu jafnt komið til greina samtök framleiðenda, einstakir framleiðendur eða aðrir, sem með sölu á sjávarafurðum hafa að gera, með að fá þessi útflutningsleyfi. Þá er gert ráð fyrir því, að þessi útflutningsnefnd sjávarafurða verði sérstaklega ríkisstj. til ráðuneytis um allt það, sem varðar fisksölumál, enn fremur að hún fylgist með markaðsmálum og reyni að afla nýrra markaða, eftir því sem möguleikar eru á, og þá síðast en ekki sízt, að þessi nefnd hafi beinlínis á hendi eftirlit með öllum þeim, sem útflutning sjávarafurða hafa með höndum, og er gert ráð fyrir í þessu frv., að n. verði veitt allvíðtækt vald í þeim efnum til þess að kalla eftir upplýsingum frá einstökum útflytjendum um allt það, sem varðar sölufyrirkomulag þeirra. Með þessum hætti ætti að vera hægt í fyrsta lagi að tryggja samræmi í þessum efnum, þannig að allar greinar sjávarframleiðslunnar búi við hliðstætt skipulag með sölu á sínum varningi. Enn fremur ætti að vera hægt betur en nú er að koma í veg fyrir það, að um misbeitingu á valdi einstakra samtaka geti verið að ræða. Og þá standa vonir til þess, að með þessu skipulagi væri hægt að draga nokkuð úr þeirri miklu tortryggni, sem nú hefur verið á einstökum aðilum, sem með þessi mjög svo þýðingarmiklu mál þjóðarinnar hafa haft að gera.

Nú vaknar að sjálfsögðu sú spurning, hvort með þessu nýja skipulagi eigi að leggja niður þau sölusamtök framleiðenda, sem starfað hafa hér á undanförnum árum, eða hvort á einn eða annan hátt eigi að gera þeim ókleift um starf. Til þess er ekki ætlazt á neinn hátt í sambandi við þetta nýja skipulag. Að sjálfsögðu geta framleiðendur haft sín framleiðslusamtök, og þeir geta áfram unnið að sölu á sínum framleiðsluvörum. En þeir verða, í hverri greininni sem um er að ræða, að afla sér nauðsynlegra útflutningsheimilda, hafa fengið samþykki útflutningsstjórnarinnar fyrir verði og fyrir því, hvert selt er og með hvaða skilmálum selt er hverju sinni. Og þessi samtök, ef þau vilja taka að sér útflutninginn, verða að undirgangast það að veita þessum stjórnskipuðu aðilum allar þær upplýsingar, sem þeir óska eftir í sambandi við afurðasöluna. Til þess er svo aftur ekki ætlazt, að neinum einstökum samtökum verði veitt einkaréttaraðstaða til útflutnings eða sölu á sjávarafurðum. Hitt gefur svo auga leið, ef framleiðendur óska allir eftir því að vera í einum samtökum og fela þeim samtökum sölu á allri sinni framleiðslu, að þau samtök mundu að sjálfsögðu fá möguleika til þess að selja alla framleiðsluna, svo framarlega sem þau samtök vilja að öðru leyti fara eftir settum opinberum reglum.

Ég tel því, að það sé ástæðulaus ótti, sem fram hefur komið, að hér eigi að gera samtökum framleiðenda ókleift að starfa, því að það er síður en svo. Hins vegar geta einstök samtök ekki vænzt þess að njóta meiri eða frekari réttar um sína starfsemi heldur en önnur samtök sambærilegs eðlis fá þá fyrir sitt leyti.

Eins og ég minntist hér á í upphafi máls míns, eru ýmis atriði varðandi það skipulag, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp, miðuð við það, sem þekkist hjá Norðmönnum. Vissulega eru þessi útflutningsmál þeirra miklu víðtækari og meiri og margbrotnari en okkar hér. Því er það skipulag ríkjandi hjá þeim, að slíkar útflutningsstjórnir eru raunverulega þar margar, einnig varðandi sjávarútveg. En hér er gert ráð fyrir aðeins einni útflutningsstj. í sambandi við allar útflutningsgreinar sjávarútvegsins. Þar eru í gildi þau ákvæði, að útflutningsstjórnin ákveður, hverjir það eru, sem leyfi fá hverju sinni til þess að bjóða út og selja þeirra sjávarafurðir á erlendum mörkuðum, og útflutningsstjórn þeirra hefur a.m.k. jafnvíðtækt og mikið vald og gert er ráð fyrir í þessu frv. að útflutningsstjórn sjávarafurða hér fái til þess að hafa eftirlit með afurðasölunni.

Í þessu frv. til laga er að vísu ekki að finna mörg ný ákvæði, sem ríkisstj. hefur ekki heimild til að notfæra sér nú í dag skv. eldri lögum, því að löggjöf sú, sem í gildi er varðandi þessi mál, skapar ríkisstj. svo að segja ótakmarkað vald til þess að setja reglur og ákvæði varðandi allt útboð á sjávarafurðum og sölu þeirra erlendis. En sú löggjöf hefur verið framkvæmd á mjög óákveðinn hátt, og því þótti mér miklu eðlilegra að slá því föstu hér með lagasetningu frá Alþingi, hvaða form yrði tekið upp skv. þessum mjög svo víðtæku heimildum, sem annars eru til í lögum um þessi efni, — hvaða form skyldi tekið upp og látið gilda varðandi sölumál sjávarútvegsins í heild.

Hitt veit ég svo að eru skiptar skoðanir um, eins og þær hafa verið, hvernig notfæra eigi sér þessar heimildir, hvort t.d. á að veita einstökum félagasamtökum, eins og t.d. Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, einkaréttaraðstöðu til sölu á saltfiski eða hvort þau samtök eiga að sætta sig við sams konar reglur og t.d. Samlag skreiðarframleiðenda verður að búa við í dag eða jafnvel eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna verður nú að búa við, en þessir aðilar hafa á engan hátt haft sambærileg réttindi til sölu á sinni framleiðslu eins og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur haft á saltfiskinum. Það eru vissulega til þeir menn, sem telja, að einkasöluformið í höndum framleiðenda eða þeirra samtaka, sem hluti þeirra hefur myndað með sér, sé hið bezta, og vilja halda í það af miklu kappi. Mín skoðun er aftur sú, að það sé eðlilegra, eins og þessum málum er komið nú, að ríkið hafi strangt eftirlit með því, hvernig að þessum málum er staðið, en hins vegar geti framleiðendur myndað með sér samtök, skipulagt sig í þessum efnum eins vel og þeirra er kostur, en að þeir verði þrátt fyrir allt að sætta sig við það að víkja til hliðar með leyfi fyrir öðrum, ef aðrir geta staðið sig betur í sambandi við söluna heldur en samtök framleiðenda kunna að gera í einstökum tilfellum.

Mér er það að vísu ljóst, að með þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, er ekki sagt í einstökum atriðum, hvernig framkvæmd þessara mála verður. Ég tel ekki heldur rétt að binda hendur útflutningsstjórnar nema að litlu leyti, því að hún verður að finna það í framkvæmd, hvernig bezt verður á þessum málum haldið. En það mundi ég leggja áherzlu á, að hin nýja útflutningsstjórn reyndi að hafa sem nánast samstarf við framleiðendur um sölu á þeirra framleiðsluvörum. En takist það ekki á þeim megingrundvelli, sem frv. gerir ráð fyrir, sem sé á þann hátt, að þeir sætti sig við opinbert eftirlit í þessum efnum og að þeir geti lagt sín skjöl á borðið fyrir þá n., sem til þess er skipuð af ríkisins hálfu að líta eftir þessum málum, þannig að tryggt megi telja, að þjóðarhags hafi verið gætt við afurðasöluna, þá vitanlega hljóta þau samtök framleiðenda að dæma sig úr leik að mínum dómi. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., að ríkið taki að sér útflutningsmálin eða söluna í heild. En vissulega getur komið alltaf til þess í einstaka tilfellum, að nefnd frá hálfu ríkisstj. sjái beinlínis um sölusamninga, eins og hefur verið gert á undanförnum árum í sumum tilfellum, en þá yrði vitanlega slíkt gert einnig í nánu samstarfi við samtök framleiðenda.

Eitt atriði er það enn, sem mér þykir rétt að gera hér nokkra frekari grein fyrir, en það er í sambandi við skipulagið á sölu á saltsíld. Þar hefur verið nokkuð sérstakt form á, þar sem opinber nefnd, sumpart kosin af Alþingi og sumpart tilnefnd fulltrúum frá framleiðendum, hefur haft með sölu á saltsíld að gera.

Samkvæmt því, sem hér er gert ráð fyrir, getur síldarútvegsnefnd að sjálfsögðu starfað áfram sem sölusamtök framleiðenda í þessari sérstöku grein, en hún yrði, eins og önnur sölusamtök, að falla undir þetta skipulag, lúta því, lúta eftirliti þessarar nefndar og verða að sækja um útflutningsleyfi til hennar eða samþykkis um einstaka sölusamninga. Sem sagt, að þó að gildandi séu um síldarútvegsnefnd sérstök lög, þá er ekki gert ráð fyrir því, að hún hafi neina sérstöðu eða nein sérstaða verði varðandi sölu á þeim þætti sjávarframleiðslunnar.

Ég vil svo óska þess, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr. Málið verður að sjálfsögðu athugað í nefnd, og það er sjálfsagt að taka það til greina, sem n. við nánari athugun telur að betur mætti fara. En ég vænti, að það komi í ljós, að það sé brýn þörf á því að fella í fastara skipulag en verið hefur mál þessi öll og skapa ríkinu sterkari aðstöðu en verið hefur í framkvæmd til eftirlits á þessum mjög svo þýðingarmikla þætti í þjóðarbúskap okkar, sem er salan á öllum okkar sjávarafurðum.