25.01.1957
Neðri deild: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Ólafur Thors:

Herra forseti. Frv. því, sem hér er til umr., var útbýtt hér á Alþingi í gær, og okkur hefur þess vegna ekki, a.m.k. stjórnarandstöðunni, gefizt verulegur tími til að athuga það. Persónulega hafði ég ekki hugboð um, að það frv. kæmi einmitt í gær, og hafði heitið að mæta á fimm fundum í gær og einum í morgun. Ég viðurkenni þess vegna, að þær athugasemdir, sem ég nú mun setja fram, mundu verða ýtarlegri, ef ég hefði haft meiri tíma til að athuga frv.

Ég tel rétt að segja nokkur orð þegar á þessu stigi málsins, einnig vegna þess, að ég á ekki sæti í þeirri nefnd, sem fjallar um þetta mál.

Með brbl., sem voru út gefin haustið 1939 og seinna voru staðfest á Alþingi 12. febr. 1940, er ákveðið, að ríkisstj. hafi heimild til að ákveða, að engar vörur megi bjóða til sölu, selja né flytja úr landi, án þess að ríkisstj. veitti til þess sérstakt leyfi. Í skjóli þessara laga hafa svo ríkisstjórnirnar haft hönd í bagga með sölu á allri útflutningsvöru frá landinu, ýmist með því að fela frjálsum samtökum framleiðenda einkaumboð til sölunnar eða með því að veita einstaklingum eða félögum leyfi, sem þau þá hafa sótt um hverju sinni. En með þær leyfisveitingar hefur farið viðskiptadeild utanrrn. undir yfirstjórn og ábyrgð þess ráðherra, sem hverju sinni hefur farið með útflutningsmálin. Sá ráðh. hefur að gildandi lögum getað haldið á þeim málum eftir sinni beztu samvizku og í samræmi við það, sem hann hefur talið að þjónaði bezt þjóðarhagsmunum hverju sinni.

Frv. það, sem hér er til umræðu, virðist mér að geri ekki neina breytingin í þessum efnum. Valdið var allt hjá ráðherra, og það er í raun og veru allt hjá ráðherra enn. Hæstv. sjútvmrh. var að leitast við að gera grein fyrir, í hverju nýjungarnar í þessu frv. lægju. Ég gat ekki fundið, að honum tækist það, og hef ég þó nokkurn kunnugleika á þessum málum.

Ég hygg, að enn sem fyrr fari allt eftir framkvæmdinni. Það er að sönnu rétt, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að sett sé á laggirnar nefnd, skipuð 3 mönnum og 3 varamönnum, og að þessi nefnd megi svo ráða sér fulltrúa, einn eða fleiri, og þeir megi ráða sér aðstoðarmenn eftir þörfum eða geðþótta, — hvort sem það eru nú þarfir sjálfs viðfangsefnisins eða þarfir skjólstæðinga fyrir atvinnu, sem þar ráða, það læt ég alveg liggja milli hluta.

Þetta bákn, sem hér á að hleypa af stokkunum, á þá að koma í stað þess manns, sem farið hefur með þessi mál undir yfirstjórn ráðherra, og þeirrar aðstoðar, sem hann hefur notið varðandi skrifstofustörfin í viðskiptadeild utanrrn. Nefndin á svo, eins og stendur í frv., að „vera ráðherra til ráðuneytis um sölu og útflutning sjávarafurða“, eins og það er orðað. Ég vil nú ekki vera með neina útúrsnúninga, en mér virðist þetta orðalag benda til þess, að ráðh. ætli nú að færast meira í fang en við höfum gert, þeir, sem áður höfum verið í því sætí, sem hann nú er í, því að þetta bendir til þess, að hann ætli að bæta ofan á sína smáu pinkla því að selja fiskinn og afurðirnar sjálfur og hafa þarna menn til þess að ráðleggja sér, hvernig hann geti bezt að þessu farið. En það er að sjálfsögðu ekki tilgangurinn, og mætti þá lagfæra orðalagið, ef það þætti betur fara. En sé tilgangur þessa frv. annar og meiri en sá að skapa þarna atvinnu fyrir nokkra menn, fleiri eða færri, þá sé ég ekki, að um annað sé að ræða en að brjóta niður þá varnarmúra, sem framleiðendur með frjálsum samtökum hafa reist til framdráttar sínum hagsmunum. Um þetta segir ekkert í frv. og um þetta sagði hæstv. ráðh. í rauninni heldur ekki neitt í sinni ræðu, ekki neitt, sem úr skar. Hins vegar eru í grg. frv. og raunar einstökum ummælum ráðh. í framsöguræðunni vissar bendingar um, að hann hyggist að beita því valdi, sem hann nú hefur án lagabreytinga, með öðrum hætti en verið hefur. Og ef maður auk þess lítur á ummæli blaðs ráðh., þá virðist þar enn þá skýrara að kveðið, því að í blaði ráðh., Þjóðviljanum, segir miðvikudaginn 12. des. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Afurðasalan hefur verið í höndum einokunarhringa eins og S.Í.F., og að sjálfsögðu ber vinstri stjórn þegar að afnema það kerfi og koma á réttlátu fyrirkomulagi.“

Ég beini athygli manna að því, að hér er gefið fyrirheit, væntanlega í umboði hæstv. ráðh., um að breyta kerfinu. Það er ekki rætt um einokunarhring, heldur einokunarhringa, og S.Í.F. tekið sem dæmi, og vinstri stjórn á að dómi blaðsins og sennilega í umboði ráðh. að sjálfsögðu þegar að afnema það kerfi og koma á réttlátu fyrirkomulagi. Ég viðurkenni, að þetta skýtur nokkuð skökku við það, sem hæstv. ráðh. sagði, og ég viðurkenni enn fremur, að það skýtur þó enn meir skökku við það, sem útgerðarmenn hafa sagt mér um skoðanir og ummæli hæstv. ráðh., þegar hann á viðtöl við þá.

Ég hef sjálfur um nokkurt árabil haft þessi mál í mínum verkahring. Ég hef áður lýst mínum skoðunum um, hvers vegna ég hef hagað framkvæmdinni eins og ég hef gert, bæði hér á Alþ. hef ég gert þetta að umræðuefni að gefnum tilefnum vegna málflutnings andstæðinga minna í stjórnmálum um breytingar á minni framkvæmd málanna, og ég hef raunar rætt þetta opinberlega annars staðar, og mér þykir rétt nú þegar á þessu stígi að gera nokkra grein fyrir, hvers vegna ég hef hagað framkvæmdinni eins og ég gerði, einnig vegna þess að hæstv. sjútvmrh. var að reyna að láta í það skína, að hann teldi, að sú framkvæmd hefði verið skaðvænleg.

Þegar ég fór með þessi mál, var framkvæmdin sú, að það voru í meginefnum 4 aðilar, sem höfðu sérstöðu; það var síldarútvegsnefndin varðandi síldina, fisksölusamlagið varðandi saltfiskinn, en varðandi hraðfrysta fiskinn var það í aðalatriðum Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna annars vegar og Samband ísl. samvinnufélaga hins vegar. Þessir aðilar máttu heita að hefðu allir einkasöluaðstöðu. Aðrir og varðandi aðrar vörur höfðu svo aðgang að rn., sem með þessi mál fór, og sendu þangað beiðnir sínar um útflutningsleyfi og samþykki fyrir verðlagi og skilmálum.

Ég ætla að styðjast við þessar ræður, sem ég hef um þetta flutt, í aðalefnum til þess að verða ekki of margmáli um mín sjónarmið.

Varðandi síldina, sem síldarútvegsnefnd hefur farið með sölu á, er það að segja, að síldarútvegsnefndin er kosin af Alþ., útvegsmönnum og Alþýðusambandi Íslands. Síldarútvegsnefndin heldur árlega fundi og leitar þar álits framleiðenda um, hvaða skipan þeir óski að ríki í þessum efnum, og ég held, að ég segi það rétt, og a.m.k. var það svo, meðan ég fór með þessi mál, að nær ævinlega var það langsamlega yfirgnæfandi meiri hluti síldarútvegsmanna, sem óskuðu eftir, að síldarútvegsnefndin ein færi með málin. Ég lét þessi sjónarmið ráða, og það hafa fyrirrennarar mínir í embættinu einnig gert. Og ég held, að ég mæli ekki um of, þegar ég leyfi mér að staðhæfa, að þessi skipan málanna hefur verið landinu í heild, ekki aðeins útgerðarmönnum og sjómönnum, heldur öllum landsmönnum til mikillar farsældar.

Ég man vel, að meðan ég stundaði þennan atvinnurekstur, var það mjög algengt, að því meira sem aflaðist, því meira töpuðu síldarsaltendur. Þetta var ákaflega nákvæm loftvog. Ef aflinn var lítill, gat síldin rokið upp úr öllu verði, en ef aflinn varð meiri en eðlileg og venjuleg neyzla, þá varð líka verðfallíð mjög snöggt og áþreifanlegt. Af þessum ástæðum hafa útgerðarmenn samkvæmt dómi reynslunnar fyrr og síðar óskað eftir þessum samtökum, og ég vil ekkert leyna því, að ég tel það þjóðhættulegt að breyta um þessa skipun. Mér finnst það vera beinlínis þjóðhættulegt.

Varðandi saltfiskinn verð ég að vera nokkuð fjölorðari, bæði vegna þess að að saltfisksölunni hefur gagnrýninni í verulegum atriðum verið stefnt meira en gagnvart annarri skipan málanna, og ég hef einnig sjálfur meiri þekkingu á saltfisksölu en sölu annarra íslenzkra afurða. Með saltfisksöluna hefur Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, S.Í.F. svokallað, farið, en það eru frjáls félagssamtök útvegsmanna, opin öllum þeim, sem saltfisk framleiða eða eiga. Félag þetta var stofnað, eins og menn kannske muna, 1932, og það hefur farið síðan með sölu á allri framleiðslu landsmanna af saltfiski ævinlega nema allra fyrstu árin, að smáafvik voru gerð frá þessu, en það þótti þá nauðsynlegt til að ná í öndverðu allsherjarsamkomulagi um málið. Mér er vel kunnugt um aðdragandann að stofnun þessa félags, og ég ætla aðeins stuttlega að víkja að honum, vegna þess að ég tel, að það skýri málið og glöggvi sjónarmið manna á, hvað rétt muni vera og þjóðhollt í þessum efnum.

Eins og suma menn rekur minni til, var þannig ástatt um saltfisksölu landsmanna um og eftir 1930, að við mjög mikla örðugleika var að stríða. Útflytjendur voru þá margir, og samkeppni af hendi sumra þeirra var miskunnarlaus, fávís og hörð. Sumir höfðu þá líka aðallega það sjónarmið að græða sjálfir á verzluninni, alveg án allrar hliðsjónar af því, hvað framleiðendum var fyrir beztu. Um þessar mundir vann ég hjá hlutafélaginu Kveldúlfi. Þetta félag var þá í senn stærsta útgerðarfélag landsins og langstærsti fiskútflytjandi landsins. Ég held, að þegar bezt lét þá fyrir okkur, höfum víð flutt út 3 fiska af hverjum 5, sem á land komu hér á landi, og ég held, að við höfum a.m.k. sjálfir talið okkur kunna nokkur skil á þessari verzlun, og mig minnir, að ég megi staðhæfa, að við höfum aldrei tapað á fiskverzluninni út af fyrir sig sjálfir. En þó kom þar, að við töldum okkur nauðbeygða til að afsala okkur gróða fiskverzlunar til þess með þeim hætti að forðast þau geigvænlegu töp, sem þessi óeðlilega samkeppni leiddi yfir okkur og aðra, sem fisk framleiddum, því að þessi samkeppni hafði þá oft leitt til óþarflega óhagstæðs verðs fyrir Íslendinga.

Ég ætla ekki að gera okkur, sem þá stjórnuðum Kveldúlfi, neitt verri en við erum, og ég viðurkennt þess vegna, að okkur tók sárt að sjá, hvernig sjómenn og útgerðarmenn voru leiknir af þessum ástæðum. En mér dettur ekki heldur í hug að vera að gera neina tilraun til að gera okkur neitt betri en við erum, og ég hygg þess vegna, að mér sé alveg óhætt að viðurkenna, að meginástæðan fyrir því, að við fórum að beita okkur fyrir stofnun sölusamlags íslenzkra framleiðenda, var sú, að við sáum okkar hag bezt borgið sem framleiðendum með þeim hætti.

Þetta má segja að skipti ekki máli. Aðalatriðið er, að við hófumst handa um að stofna þessi félagssamtök. Við áttum um það samtöl við stjórn Landsbanka Íslands og við ríkisstjórnina, og báðir aðilar tóku mjög vel á þessu máli, og ég minnist í því sambandi einkum Magnúsar heitins Sigurðssonar þjóðbankastjóra, sem manna bezt og öflugast studdi þennan félagsskap og um langt árabil fór sjálfur með formennsku í honum.

Ég vil nú leyfa mér aðeins að varpa fram þessum spurningum: Dettur nokkrum manni í hug, að stærsti fisksali landsins hefði að þarflausu átt að því frumkvæði að svipta sjálfan sig frelsi til fisksölu, sem hann ævinlega hafði rekið með hagnaði? Dettur nokkrum þetta í hug? Heldur nokkur maður, að stjórn þjóðbankans og stjórn sjálfs ríkisins hefði stutt þessa framkvæmd, nema gild rök hefðu legið til þess? Og loks spyr ég: Trúir nokkur því, að undantekningarlítið hefði hver einasti íslenzkur fiskframleiðandi fallizt á þessa skipan af frjálsum vilja, eins og þeir gerðu, nema því aðeins, að þörfin hefði verið brýn og augljós? Ég held, að það sé óhætt að svara öllum þessum spurningum afdráttarlaust neitandi.

En sé svo, hafi þessi frjálsu samtök fiskframleiðenda til samsölu á framleiðsluvöru þeirra, sem undanfarið höfðu farið með alla saltfisksölu Íslendinga, verið æskileg eða jafnvei óumflýjanleg nauðsyn 1932, hvað er það þá, sem veldur því, ef menn vilja nú gera leik að því að brjóta skarð í þessa skjólgarða, sem útvegsmenn sjálfir reistu sér til að reyna að halda uppi verði á sínum afurðum? Hefur reynslan e.t.v. kveðið upp dóm gegn þessari skipan málanna? Ég spyr hæstv. ráðh. Er það hans dómur, að verðsveiflurnar hafi orðið tíðari, óhöppin örlagaríkari eða töpin geigvænlegri, eftir að þessi skipan var tekin upp, heldur en áður? Er þetta hans skoðun? Ég hygg, að hann muni svara í hjarta sínu, hvernig sem varirnar hreyfast nú á eftir, — ég hygg, að hann muni svara því afdráttarlaust neitandi.

Með starfsemi S.Í.F. hófst nýtt tímabil öryggis og festu í fisksölumálum Íslendinga, og frá því hafa síðan engin afvik orðið, og það er einmitt vegna þessara staðreynda, sem meginþorri fiskframleiðenda hefur fram að þessu, eftir því sem ég bezt veit, krafizt þess, að þessi samtök þeirra séu vernduð og fái að fara ein með saltfisksölu Íslendinga. Og við þessum tilmælum hafa hlutaðeigandi ráðh. alltaf orðið fram að þessu, eins og hæstv. ráðh. líka tók fram.

En ég spyr aftur: Hefur þá e.t.v. eitthvað breytzt varðandi hagi og aðstöðu erlendra fiskkaupmanna eða kaupenda, sem því valdi, að nú beri að neita að verða við þessum óskum framleiðenda? Því fer víðs fjarrí, því fer mjög víðs fjarri. Að sönnu hafa orðið breytingar og það stórvægilegar breytingar í þessum efnum. En þær hníga allar til rökstuðnings því að halda, en ekki breyta núverandi skipan íslenzkrar saltfisksölu. Breytingarnar eru nefnilega í því fólgnar, að í stað þess, að áður fyrr voru margir fiskinnflytjendur í sérhverju viðskiptalandi Íslendinga, er nú svo komið, að í Spáni, í Portúgal, Grikklandi og ég held líka í Ítalíu í framkvæmdinni a.m.k. er aðeins einn aðili, sem fer með innkaupin, ýmist í umboði sjálfs ríkisins eða vegna allsherjarsamtaka fiskkaupenda.

Þessi staðreynd, þessi breyting, sem á er orðin, þótt engu öðru væri til að dreifa, nægir til þess, að frá mínu sjónarmiði eigi íslendingar tæplega annars úrkosta en að láta einn aðila fara með fisksölu sína. Eða trúir nokkur því, að betur sé borgið hagsmunum Íslands með því móti, að margir íslenzkir aðilar bjóði sömu vöru sama kaupanda á sama tíma? Ég endurtek: Trúir nokkur því, að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið með því, að margir íslenzkir aðilar bjóði sömu vöruna á sama tíma einum innkaupanda, sem er fyrir hvert af þessum aðalviðskiptalöndum Íslendinga á þessu sviði? Hvor aðilinn halda menn nú að mundi græða á þessu, Íslendingar eða hinn erlendi kaupandi? Er það ekki alveg augljóst mál, að slík orusta þeirra, sem fiskinn eiga að selja, verður háð á kostnað Íslendinga, en ekki á kostnað fiskkaupenda? Hinir erlendu kaupmenn bíða auðvitað átekta og etja seljendunum saman og kaupa svo að lokum af þeim, sem býður við lægstu verði. Þeim er vorkunn, þó að þeir geri það.

Ég hef mjög heyrt tæpt á því, að undir þennan leka megi setja með því, að hið opinbera setji hámarksverð á vöruna, á fiskinn, og banni mönnum að selja undir því hámarksverði. Varðandi saltfisk er þetta að mínu viti framt að því óframkvæmanlegt. Þegar menn athuga hin mismunandi viðskiptalönd og hinar mjög mörgu tegundir, mörgu verkunarstig hverrar tegundar, sem um er að ræða, þá skilja menn, að þetta er framt að því óhjákvæmanlegt, að ég segi ekki algerlega óframkvæmanlegt. Og ég vil segja það, að sá ráðh., sem ætlar að taka að sér að fara með þetta vald og bera á því ábyrgð, verður að hafa þekkingu, mjög ríka þekkingu á fisksölunni og geta fórnað til þess tíma ofan á öll sín embættisverk, sem ég hygg nú að enginn ráðh. kæmist yfir, og enginn yrði a.m.k. öfundsverður af því og mundi sennilega heldur enginn lána sig í það.

Þessi lausn málsins er þess vegna frá mínu sjónarmiði þegar af þeirri ástæðu miklum vandkvæðum bundin og í sjálfu sér alveg óraunhæf. Slíkt er auðvitað framkvæmanlegt um vöru eins og fiskimjöl, lýsi, síldarolíu, þar sem um einhæfa vöru er að ræða. Menn mega ekki rugla þessu saman og allra sízt menn, sem hafa þekkingu á sjávarútvegsmálum, eins og hæstv. sjútvmrh. hefur. Hann hlýtur að gera sér það ljóst, að þetta er ekki sambærilegt.

En auk þessa, sem ég nú hef nefnt, eru á þessari skipan margir aðrir gallar, sem ég skal ekki fara út í við þessa umr. málsins.

Þetta mál skýrðist allt allvel á fundi sölusamlagsins 1951, og þar hygg ég að hæstv. sjútvmrh. hafi verið staddur. En þar fór aðalforstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga fram á það, að Sambandið fengi útflutningsréttindi við hliðina á Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda. En hins vegar tók hann alveg skýrt fram, að hann ætlaðist ekki til, að aðrir fengju þennan rétt. Forstjóranum var þá, að mig minnir af mér, bent á það, að það væri út af fyrir sig til nokkuð mikils mælzt, að ef höfuðspámenn samvinnunnar hleypa úr hlaði burt frá samvinnunni og yfir í lendur samkeppninnar, þá væru allir aðrir gæddir þeim samvinnuþroska að halda tryggð við þessa samsölu fiskframleiðendanna; þess vegna mætti ætla, að þeir, sem fisksölu réðu, áður en S.Í.F. var myndað, mundu óska eftir að fá sinn rétt að nýju, að sínu leyti eins og ekki væri þá óeðlilegt, ef samkeppni á annað borð væri hleypt af stokkunum í þessum efnum, að við skulum segja Vestmanneyingar segðu: Við viljum hafa okkar samlag, Faxaflóamenn segðu: Við viljum hafa okkar samlag, Norðlendingar, sem höfðu, a.m.k. meðan ég var í fiskverzlun, vöru, sem var talin eftirsóknarverðari en önnur vara, vildu hafa sitt samlag, Austfirðingar kannske líka. Og þannig mætti gera ráð fyrir, að ef ráðh. á annað borð færi að veita undanþágu í þessum efnum, þá væri honum illa stætt á því að veita einum og neita öðrum, þar á meðal þeim, sem stærstu fiskverzlun hefðu rekið áður, og þeim, sem mest fiskmagnið hefðu í dag. Ég óttaðist þá, að slík meðferð þess valds, sem ég að lögum fór með þá, mundi leiða til ófremdar. Það tókst að ná samkomulagi við þá verzlunarfróðu menn, sem þar var um að ræða, þannig að ekki var stýrt í nein vandræði, heldur hafa þeir verið áfram í samtökunum og góðir samstarfsmenn þar, eftir því sem ég bezt veit.

Og það er einmitt út frá þessum meginsjónarmiðum, sem ég hef hér verið að skýra, sem allur þorri útvegsmanna fram á þennan dag, eða a.m.k. meðan ég fór með þessi mál, var sammála um að óska eftir, að sú skipan ríkti áfram, sem nú ríkir. Og þeir hafa borið fram um þetta margendurteknar og rökstuddar óskir og áskoranir, ekki aðeins Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, heldur líka Landssamband ísl. útvegsmanna, en það eru heildarsamtök íslenzka útvegsins, eins og menn þekkja. Og ég held, að allar þessar áskoranir, meðan þær bárust mér a.m.k., hafi verið samþykktar einróma, ef frá eru skilin í þetta eina skipti atkvæði þeirra manna, sem sjálfir vildu öðlast réttindin, en ekki veita öðrum þau. Þarna eru þó menn óskyldra skoðana að verki, og ég man mjög vel eftir því, að einmitt árið 1951, þegar þetta var til umr. á aðalfundi S.Í.F., voru það einmitt framsóknarmenn úr röðum fiskframleiðenda, sem hvað harðast beittu sér gegn því, að Sambandið fengi útflutningsleyfi.

Ég skal hér ekki að þessu sinni gera sérstaklega að umræðuefni, hverja afstöðu flokksbræður hæstv. sjútvmrh. hafa haft í þessum efnum né hv. Alþýðuflokksmenn, en ég geri það þá e.t.v. seinna, ef sérstakt tilefni verður til þess. Og ég vil segja það um saltfisksöluna, af því að að henni er hér mest stefnt örvum eða beint skeytum, að mín skoðun er sú og það er minn spádómur, að ef í verulegum efnum verður vikið frá því, sem nú gildir, þá muni skapast hér öngþveiti, sem eftír örlagarík töp og mikið tjón muni leiða til þess, að núverandi skipan verði tekin upp að nýju.

Flest þetta, sem ég hef sagt um saltfisksöluna, á í rauninni að meira eða minna leyti líka við um hraðfrysta fiskinn, þó með þeim afvikum eða þeirri breytingu, að innflutningur á hraðfrystum fiski er miklu víðar alfrjáls en á saltfiski. Það eru löndin austan járntjalds, sem þar hafa stjórnskipaðar nefndir, sem fyrir hönd ríkisins kaupa vöruna, en alls staðar annars staðar er innflutningurinn frjáls. Og ég verð að segja alveg eins og er, að ég hefði kosið heldur, að hraðfrysti fiskurinn væri á einni hendi, heldur en eins og hann hefur verið, að það sé aðallega Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga, sem með söluna fara. Ég hefði heldur kosið, að það væri á einni hendi, og teldi það sterkara. Og ég reyndi ævinlega að beita mér, meðan ég var ráðh., fyrir góðu samkomulagi á milli þessara aðila, þó að það tækist misjafnlega. En venjulega var þó stýrt hjá stærri ógæfu, enda báðir aðilarnir vanir að fara með slík mál.

Ég viðurkenni það, að ég hef sjálfur trú á, að samkeppni og frelsi hafi sína kosti, en einnig sína ágalla. Kostirnir njóta sín óvíða verr en í sölu margra íslenzkra sjávarafurða, m.a. vegna þess, sem ég gat um áðan, að innflutningur til neyzlulandanna er víðast, þar sem mestu máli skiptir fyrir okkur Íslendinga, á einni hendi. Af sömu ástæðum aukast og margfaldast ágallar frelsis og samkeppni við sölu þessarar vöru fyrir okkur Íslendinga. Ég viðurkenni, að ég aðhyllist athafnafrelsi í sem allra ríkustum mæli og á sem flestum sviðum. En engin regla er án undantekningar. Og svo sem högum okkar Íslendinga er háttað og þegar athugaðir eru þeir örðugleikar, sem við eigum við að stríða um afurðasölu sjávarútvegsins og raunar afurðasölu okkar yfirleitt, þá hygg ég, að íslenzkum hagsmunum sé bezt borgið með því, að fullt frelsi ríki í innflutningsverzluninni, svo að samkeppnin verði íslenzkum kaupsýslumönnum spori til að leggja fram krafta sína, þrek og þekkingu til að tryggja þjóðinni sem ódýrasta neyzluvöru. En ég tel alveg jafntvímælalaust, að að sama skapi sé farsælast, að sala íslenzkra útflutningsafurða sé á sem fæstum höndum, ekki sízt meðan einkasala eða einn aðill fer með þessi mál í neyzlulöndunum.

Ég var, meðan ég fór með þessi mál, trúr þessari skoðun minni, og meðan fiskframleiðendur leituðu henni skjóls hjá mér, veitti ég henni það skjól, sem ég gat. Ég mun hins vegar, og það hef ég oft sagt útgerðarmönnum, að sjálfsögðu beygja mig fyrir vilja útgerðarmanna, ef þeir breyta um skoðun í þessum efnum, vegna þess að ég hef enga sönnun fyrir því, að ég sé alvitur eða vitrari en þeir um þetta. Ég hef aldrei ætlað mér einn að vera þeirra forsjón, þó að mér falli vei, að þeirra skoðanir hafa fallið saman við mína skoðun. Auk þess er ég andvígur því, að ríkisvaldið taki fram fyrir hendur framleiðenda. Mín afstaða hefur byggzt á því, að þeir hafa borið fram óskir við mig, sem ég hef talið landi og þjóð til farsældar að fullnægja. Á því hefur öll mín afstaða byggzt.

Ég endurtek, að mér er ekki kunnugt um, að útgerðarmenn hafi breytt um skoðun í þessum efnum. Mér er ekki kunnugt um það. En það getur verið fyrir því. Þeim ber engin skylda til að tilkynna mér það. Og ég sé þá líka, að í sjálfum aths. við frv. segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú um nokkurt skeið hafa heyrzt mjög háværar raddir um, að breytinga væri þörf á því fyrirkomulagi, sem gilt hefur um sölu og útflutning sjávarafurða. Bera þær greinilega vott um allmikla óánægju, er skapazt hefur um ýmsa þætti í framkvæmd þessara mála, enda því nær eingöngu komnar frá þeim framleiðendum sjávarafurða, er mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi víð þessi viðskipti.“

Þetta stendur í grg. Nú skora ég á hæstv. ráðh. að færa þessum orðum sínum stað. Það getur vel verið, að hann geri það. Það getur þá vel verið líka, að það beri minna á milli okkar um afgreiðslu málsins, þegar þar að kemur. Ég hef lýst áður, eins og ég tók fram, þeirri skoðun minni, að ég treysti mér ekki að vera forsjón útvegsmanna í þessum efnum. Og geti hann fært þessum orðum sínum stað, þá getur, eins og ég segi, líka mikið dregið saman með okkur um framkvæmd málsins. Sé það rétt, eins og ráðh. segir, að meiri hluti eða mikill hluti útvegsmanna vilji breyta til, því þá ekki það? Þeir verða að bera ábyrgð á sér. Og ég gæti líka vel trúað, að ef ég fengi sannfæringu fyrir því, að mjög verulegur hluti útvegsmanna vildi breyta til, þó að það væri minni hlutinn, þá nægði það mér. En ég hef hins vegar ekki viljað, að örfáir menn gætu rekið fleyg í þessi þjóðþrifasamtök, hvort heldur er síldin, saltfiskurinn eða hraðfrysti fiskurinn. Og einmitt af því að ég veit, að það nægir einn gikkur í hverri veiðistöð, eða af því að ég veit, að tiltölulega fáir menn, ef þeir fá frelsi til þess að reyna að skaða heildarsamtökin, geta gert ótæmandi bölvun, þá hef ég viljað vernda þessi samtök með sem víðtækustum einkaaðstöðuréttindum.

Ég sé, að hæstv. ráðh. byggir sínar till. einmitt á þessu, að mjög rík óánægja hafi gert vart við sig og það einmitt hjá þeim, sem mestra hagsmuna hafa að gæta. Af því leiðir, eins og ég segi, að sjálfsögðu, úr því að hann segir Álþingi frá þessu, að honum ber að sanna það. Af því leiðir aftur, að honum ber að sjá um það, að álít þessara aðila komi fram hér á Alþingi. Og ég á ekki bara við álit stjórnar þessara aðila. Ég tel ekki nóg, þó að sjútvn. sendi t.d. þessum umdeilda aðila, S.Í.F., fyrirspurn um, hvernig þeir litu á málið. Ég tel, að stjórn S.Í.F. beri að kalla saman í skyndi á fund, þar sem allir fiskframleiðendur fá aðstöðu til að mæta og vita, um hvað er að ræða, og segja sitt álit.

Það er ekki hægt fyrir ráðh. að bera fram till., þó að þær breyti ekki í raun og veru að forminu til neinu frá því, sem nú gildir, en þó fela í sér, að hann ætlar, samkv. hans eigin umsögn og skv. vissu orðalagi grg., að breyta um fyrirkomulag. Hann ætlar að beita sínu valdi öðruvísi en víð, sem á undan honum höfum faríð með þetta embætti, höfum gert. Hann ætlar að beita því öðruvísi, og hann segist gera það vegna þess, að útgerðarmenn vilji þetta. Þá er ekki hægt fyrir hann að staðhæfa þetta á Alþ., og gefa ekki útgerðarmönnum kost á að segja: Er það rétt eða er það rangt. Ráðh., segir: Það er mín skoðun, að það á að gera þetta, vegna þess að útgerðin vill það. Ég segi: Ef útgerðin vill það, þá erum við sammála, ef hún vill það ekki, þá skilja leiðir, en þá ber líka ráðh. að segja: Ég ætla að hafa vit fyrir útgerðinni, hún hefur ekki vit á því sjálf eða vit fyrir sér sjálf.

Ég endurtek þess vegna að ég tel, að í þessum orðum ráðh. felist fyrirheit um það, að hann muni hlutast til um, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, leiti þessara álita og einnig að þeirra sé leitað þannig, að þau verði ekki vefengd.

Hæstv. ráðh. sagði í sinni ræðu, að það hefði ekkert fast skipulag ríkt í þessum efnum fram að þessu. Hann lýsti þó því, að það hefði verið fast skipulag. Um alla meginþætti framleiðslunnar hefði ríkt skipulag, sem hann sjálfur lýsti, og ekkert verið vikið frá því. Það hefði þess vegna verið fast. Og um aðrar minni háttar framleiðslugreinar hefði líka verið fast skipulag, að ákveðinn embættismaður í umboði ráðh. og samráði við ráðh. fór með þau mál, en valdið var allt hjá ráðh., eins og það verður eftir sem áður. Og ráðh. kvað miklu fastar á í sinni ræðu en hann gerir í grg. Hann sagði, að það væri álit flestra, að þetta skipulag geti ekki verið til frambúðar. Hverjir eru þessir flestu? Okkur langar að horfa framan í þá, vita, hverjir þeir eru og á hverju þeir byggja þetta. Ég skammast mín ekkert fyrir það, þó það yrði mitt hlutskipti að verða í minni hluta með mína skoðun í þessum efnum og beygja mig algerlega fyrir útgerðarmönnum í því. En ég vil ekki beygja mig að nauðsynjalausu. Ég vil þá láta þvinga mig til þess, ef það á að vera, af öðrum ástæðum.

Einnig sagði hæstv. ráðh., að það hefði verið margvíslegum misrétti beitt. Ég vil gjarnan, að hann finni þeim orðum sínum stað líka. Hann hefur sjálfur samstarf við þá embættismenn, sem unnu þarna á mína ábyrgð. Ég held þeir muni frekar kvarta undan, að ég hafi of lítið skipt mér af málunum. En ég hygg, að enginn þeirra beri, að ég hafi nokkurn tíma reynt að hafa í frammi nokkurt misrétti eða draga fram hlut eins á kostnað annars.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta frv. væri borið fram í þeim tilgangi, að það, ef að lögum verður, geti komið í veg fyrir misbeitingu einstakra samtaka á því valdi, sem þau hafa fengið. Ég bendi hæstv. ráðh. á það, sem hann veit líka sjálfur, að hann sem ráðherra getur sett hvaða skilyrði sem hann vill. Hann getur t.d. sagt við Sölusamband ísl. fiskframleiðenda: Ég skal veita ykkur útflutningsleyfi, einkaleyfi, eins og aðrir hafa gert, en þið verðið bara að fullnægja vissum skilyrðum, sem ég set. — Það er alveg skýrt ákvæði í núgildandi lögum, að þetta getur ráðh. Og ég man ekki til, að þessi hæstv. ráðh., sem er útgerðarmaður, hafi verið í hóp þeirra niðri í fisksölusamlagi, sem vildu breyta til, meðan Ólafur Thors fór með valdið. En þegar Lúðvík Jósefsson á að fara með valdið, þá er orðið svo hættulegt, að ráðh. ráði, að þá þarf að bera fram frv. um að taka valdið af honum og setja það til einhverra annarra.

Ég þakka fyrir traustið. En ég tel ekki heldur, að hann þurfi að bera neinn kinnroða fyrir sína framkomu að þessu. Ég hef ekki heyrt nein afglöp í þeim efnum af hans hendi, og ég mundi alveg treysta honum til þess að beita því valdi með réttlæti og samkvæmt sinni embættisskyldu.

Hæstv. ráðh. sagði: Það er ekki ætlazt til að spilla frjálsum samtökum útvegsmanna með þessu, og ég held að hann meini þetta. En ég spyr: Er hann ekki enn þá nægilega kunnugur aðstöðunni í þessum efnum til að vita, að hér er einmitt á ferðinni, ef hann hagar framkvæmdum eins og ræða hans bar vott um, mjög mikil hætta á, að samtökunum sé spillt? Veit ekki hæstv. ráðh., að þeir, sem eru að kaupa fiskinn, fara oft fram á tryggingar fyrir því, að engir aðrir geti fengið ódýrari fisk, við skulum segja í 2–3 mánuði? Hvernig ætlar nú ráðh. að samræma það, að stórir kaupendur setja oft þessi skilyrði, við hitt, að það sé engin hætta í því að leysa upp þessa skipun og innleiða í staðinn hættuna fyrir þessa erlendu kaupendur á því, að eftir að þeir kaupa stórt magn fyrir hátt verð, við skulum segja mánuði eftir og meðan þeir eiga meginhluta magnsins óseldan, þá geti kannske komið annar kaupandi við hliðina á honum, sem hefur fengið keyptan fisk frá Íslandi fyrir miklu lægra verð?

Mér fannst sannast sagna á ræðu hæstv. ráðh., að hann hefði enga trú á, að nein breyting í þessum efnum hefði neina þýðingu, nema ef það væri til bölvunar. Mér fannst þessi hæstv. ráðh. tala af lítilli sannfæringu um málið, og það er líka í samræmi við það, sem ég hef áður heyrt af hans skoðunum um þetta mál, og sérstaklega í samræmi við það, sem ég hef nú upp á síðkastið heyrt að hann hafi sagt við útvegsmenn um sínar skoðanir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki að finna mörg ný ákvæði í frv. Það er mjög viturlega til orða tekið. Aðalefni málsins er, eins og ég hef áður tekið fram, að frv., ef að lögum verður, er að því leyti eins og þau lög, sem nú gilda, að valdið er það sama. Allt veltur á því, hvernig valdinu er beitt. Og meðan þessi hæstv. ráðh. hefur valdið í sinni hendi, skil ég ekki, hvers vegna hann er að bera fram einhverjar málamyndabreytingar til þess að draga úr því valdi eða sýnast vera að draga úr því.

Hæstv. ráðh. sagðist gjarnan vilja slá föstu með lögum, hvernig framkvæmdin ætti að vera. Hann játaði þó sjálfur í ræðu sinni, að um þetta væri engu slegið föstu, enda þarf ekki annað en lesa frv., til þess að menn skilji, að það er alveg sama skipan í gildi enn, eftir að frv. yrði samþykkt, eins og nú, að allt valdið er hjá ráðh. Ráðh. gat alveg eins vel sparað sér að bera fram þetta frv. og staðið hér upp og sagt: Ég er óánægður með vissa þætti í skipan þeirri, sem ríkir í afurðasölu Íslendinga. Ég ætla mér — og lýsi því yfir að gefnu tilefni — að breyta eitthvað til um framkvæmd. Ég ætla t.d. að hafa meira eftirlit með saltfisksölu, ég ætla ekki að gefa sölusamlaginu einkasölu, nema því aðeins að ég fái að hafa nánara eftirlit með símskeytasendingum, ég þarf að hafa menn í stjórn o.s.frv. — Ég man ekki betur en að það væri einu sinni þannig af hendi ríkisvaldsins, að það væru 2 menn af 7 í stjórn. — Ég vil hafa meira eftirlit með þessu. — Þetta gat hann alveg eins gert án þess að fara fram á lagabreytingar. Hann hefur allt valdið, og ég verð að segja það, að eftir ræðu ráðh. er það mín skoðun, að hann hafi enga trú á neinu, sem í þessu frv. stendur, það sé borið fram til að sýnast gagnvart einhverjum öðrum en mér eða honum sjálfum eða útgerðarmönnum.

Ég vil svo ekki á þessu stigi málsins fara um þetta fleiri orðum. Ég sé ekki ástæðu til að vera hér að rekja einstök atriði. Þetta mál fær auðvitað þinglega meðferð. Það er ekkert, sem rekur svo á eftir þessu, að því verði jafnað við „jólagjöfina“, sem við köllum. Ég vona þess vegna, að þingið fái alla aðstöðu til að skoða þetta rólega og allar upplýsingar megi fram koma, sem mönnum þykir máli skipta. Ég ætla mér engan þátt að eiga í neinu málþófi um þetta, en lýk mínu máli nú með því að segja, að ég treysti því, að hæstv. ráðh. telji það skyldu sína eftir greinargerð frv., þar sem hann telur, að háværar raddir hafi komið fram frá þeim, sem mestra hagsmuna eiga að gæta, um breytingu á núverandi skipan, — og um þetta kvað hann enn sterkara að orði í ræðu sinni, — frv. er af hans hendi flutt hér sem útrás fyrir þessar óánægjuraddir, sem hann hefur heyrt eða telur sig hafa heyrt, og það byggist á því, okkar afstaða margra, að honum takist að sanna okkur, að þær séu raunverulegar, en ekki ímyndaðar.