25.01.1957
Neðri deild: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Þessi ræða hv. þm. G-K. gefur í sjálfu sér ekki tilefni til ýkja mikilla umræðna um þetta frv. Meginhluti ræðu hans snerist um það áhugamál hans, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda fengi áfram að halda þeirri sérstöðu, sem það hefur notið með því að vera löggilt sem einkaútflytjandi að saltfiski.

Það er honum hins vegar ljóst, eins og ég tók hér skýrt fram í minni ræðu, að það er beinlínis tilætlunin með þeirri breyttu skipan, sem hér er gert ráð fyrir, að engum aðila, hvorki Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda né öðrum slíkum sölusamtökum verði veitt þessi einkaaðstaða áfram, að verða einkaútflytjendur að sinni vöru.

Um þetta geta auðvitað verið skiptar skoðanir manna. Ég veit vel, að hann er á þeirri skoðun„ að það fyrirkomulag, sem gilt hefur á saltfisksölunni, sé hið eina rétta, og hann vill mjög halda í það. Aðrir eru á annarri skoðun. — Hann eyddi svo löngum tíma í að rekja alla söguna frá stofnun Sölusambands ísl. fiskframleiðenda fram til þessa dags, hvaða tildrög hefðu legið að stofnun sölusambandsins, þátttöku hins mikla útgerðarfélags Kveldúlfs á sínum tíma að stofnun þessara samtaka og reynslu þá, sem hann hefði haft og þetta útgerðarfélag af sölu á saltfiski. Ég sé sem sagt ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að fara langt út í að rekja þessi atriði. Þau eru meira og minna fyrir utan þetta mál og eru að vísu margrædd líka.

Mér kemur ekki til hugar að halda því fram, og það hef ég satt að segja heyrt fáa gera, að það ástand, sem hér var ríkjandi í saltfisksölumálum okkar Íslendinga, áður en að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda var stofnað, á meðan útgerðarfélögin Kveldúlfur og Alliance og nokkrir slíkir höfðu svo að segja með allan útflutning Íslendinga á saltfiski að gera, hafi verið eitthvað miklu betra en síðan skapaðist með sölusambandinu. Þeir eru áreiðanlega fáir, sem halda því fram, að fyrirkomulagið áður hafi verið betra. En þá ríkti líka í þessum málum fullkomið skipulagsleysi og afskiptaleysi frá hálfu ríkisins, þannig að þá var ekki haft eftirlit með þessum málum, svo að neinu nam, og þá mátti segja, að það voru hagsmunir fisksölusamtakanna, sem voru allsráðandi í þessum málum, en ekki nema að litlu leyti hagsmunir framleiðenda og ekki nema að litlu leyti hagsmunir þjóðarheildarinnar.

En jafnvel þó að stofnun sölusambandsins hafi verið til nokkurra bóta frá því vandræðaástandi sem áður ríkti, þá er ekki þar með sagt, að það fyrirkomulag, sem sölusambandið hefur leitt hér inn í þessum málum, sé hið æskilegasta fyrirkomulag.

Hv. þm. G-K. lagði svo á það nokkra áherzlu hér, að hann kannaðist ekki við það, að þau orð í grg. þessa frv., þar sem segir, að umkvartanir hafi einmitt komið frá ýmsum framleiðendum nm skipulag þessara mála nú, eigi við rök að styðjast, og lagði mikla áherzlu á, að ég færði þessum orðum stað. Mig undrar það nokkuð, að hann skuli hér lýsa eftír þessu, svo gerkunnugur sem hann hlýtur að vera þessum málum. Ég get t.d. sagt það, að ég held, að það hafi verið fyrsta atvikið, sem lagðist á mitt borð í stjórnarráðinu, það var beinlínis kæruefni frá einum þeim aðila, sem fengizt hefur hér við framleiðslustörf nokkuð, beinlínis kæra út af misrétti, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í sambandi við þessi mál, einmitt sölu á saltfiski, og allvíðtæk kæra varðandi það, hvernig á þessum málum væri haldið af hálfu þess aðila, sem einn hefur nú með sölu á saltfiski að gera á erlendum vettvangi.

Það er ekkert nýtt atriði, að slíkar umkvartanir og kærur komi fram frá einstökum aðilum, þær hafa komið fram á fundum, og þar eru í rauninni öllum kunnar.

Af því hefur m.a. leitt það, að heilir stjórnmálaflokkar hér í landinu hafa sett ofarlega á stefnuskrár sínar að knýja það fram, að breyting verði gerð á í þessum efnum.

Síðast, en ekki sízt, er svo að nefna það dæmi í þessu, sem hv. þm. G-K. nefndi hér sjálfur, þegar hann skýrði frá því, sem gerðist í sjálfum samtökunum, samtökum saltfiskframleiðenda, sölusambandinu, áríð 1960 eða 1961, — ég man nú ekki nákvæmlega, hvort árið það var, þegar stærsti aðilinn í saltfiskframleiðslumálum okkar, Samband ísl. samvinnufélaga í umboði allra þeirra, sem á þeirra vegum eru, krafðist þess að fá aðstöðu til útflutnings á framleiðslu sinna meðlima og rétt til þess að selja hana hvar sem væri. Einmitt þetta atvik sýnir, að saltfiskframleiðendur voru síður en svo allír á einu máli um að búa við þau kjör, sem þeir bjuggu við í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. Hv. þm. G-K. veit líka, hvernig þessu máli lyktaði. Því lyktaði einmitt á þá lund, sem bezt sýnir það og sannar, að það skipulag, sem við búum við í þessum efnum, getur ekki verið til frambúðar og er óþolandi til frambúðar, því að þessum deilum innan sölusambandsins við Samband ísl. samvinnufélaga í þessu tilfelli lyktaði þannig, að það varð að semja af hálfu sölusambandsins við Samband íslenzkra samvinnufélaga um, að það fengi að fara með saltfisksölumálin í tilteknum löndum heims.

Þá var svo komið, að búið var að skipta niður, annars vegar á milli S.Í.F., sölusambandsins, tilteknum landssvæðum, þar sem það eitt mátti selja saltfisk, og svo var búið að úthluta Sambandi ísl. samvinnufélaga öðrum svæðum, og þar átti það að fara með saltfisksölumálin.

Nokkuð svipuð deila reis svo aftur upp nokkru seinna, þar sem togaraútgerðarmenn kröfðust þess að fá að fara að sínu leyti með saltfisksölumálin í Bretlandi, og urðu þá allhörð átök líka í Sölusambandi ísl. saltfiskframleiðenda, þegar ekki var orðið við þessum óskum þeirra. Vitanlega hefði það alveg eins getað komið til mála að fela samtökum togaraeigenda að fara með saltfisksölumálin í Bretlandi og leysa þannig þetta kerfi upp og framselja síðan einstökum samtökum eða einstökum aðilum sölumálin í hverju landinu um sig. Þetta sýnir aðeins það, að menn eru ekki á eitt sáttir með það skipulag, sem þarna hefur verið ríkjandi, og ýmsir vildu komast í þessa sérstöðu og hafa með hana að gera, og það er sem sagt staðreynd, að margir eru þeir framleiðendur um allt land, sem hafa kvartað og kært yfir þessu, og þeir eru ekki aðeins hérlendis, heldur á þetta sér einnig stað erlendis frá. Ég veit, að hv. þm. G-K. hlýtur að þekkja dæmi þess eins og ég, að erlendir aðilar, t.d. suður á Ítalíu, sem keypt hafa inn til þess lands allmikið af saltfiski, hafa beinlínis kvartað undan því opinberlega, að þeir gætu ekki átt kost á því með eðlilegum hætti að kaupa saltfisk frá Íslandi, vegna þess að á Íslandi væri aðeins einn aðili, sem hefði með útflutninginn að gera, hann hefði aðeins tiltekinn aðila sem umboðsmann sinn á Ítalíu, og án þess að kaupa í gegnum hann væri þeim ekki unnt að komast inn í viðskiptin við Íslendinga.

Þó að ég greini frá þessu, þá er ég ekki þar með að kveða upp nein dóm um það, hvernig á þessum málum hefur verið haldið að öðru leyti. Það kann vel að vera, að þeir, sem stjórnað hafa S.Í.F., hafi haft gild rök fyrir ýmsu af því, sem þeir hafa gert, þó að þeir hafi verið sakfelldir fyrir að gera það. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kynnast því til hlítar. Ég veit, að þeir menn, sem þar hafa farið með þessi mál, hafa að ýmsu leyti staðið sig sæmilega. En það er mér ljóst, að störf þeirra hafa mætt allmikilli gagnrýni í ýmsum tilfellum, og það er mér einnig ljóst, að sú einokunaraðstaða, sem þarna kemur fram í sölumálunum, er mjög svo óviðfelldin, og það verður ekki annað séð en að í ýmsum tilfellum beinlínis komi hún í veg fyrir, að við fáum notið beztu kjara. Hitt er svo eins og ég sagði hér í minni upphaflegu ræðu, að mér finnst, .að saltfiskframleiðendur, sem stofnað hafa með sér samtök eins og S.Í.F., væru fullsæmdir af því eins og aðrir framleiðendur í öðrum samtökum að búa við hin sömu kjör og þeir. Ef allir saltfiskframleiðendur vilja vera í S.Í.F. og láta þau samtök fara með saltfisksölumálin, þá verður það að sjálfsögðu í framkvæmd.

Það skipulag, sem hér er gert ráð fyrir, mundi vitanlega veita S.Í.F. rétt til þess að halda áfram saltfisksölu, svo lengi sem það getur rekið saltfisksölumálin á hinn heppilegasta hátt að dómi útflutningsnefndar og svo lengi sem þessi samtök vilja hlíta almennu eftirliti um sín mikilvægu störf. En því er vissulega ekki að neita, að það hefur allmjög borið á því, að það er eins og þeir kveinki sér undan því, að opinbert eftirlit verði með þeirra störfum.

Ég vil t.d. í þessu efni benda á, að vitanlega er alveg fullkomlega hliðstætt að ætlast til þess, að skreiðarframleiðendur hefðu sömu aðstöðu og saltfiskframleiðendur hafa með söluréttindi á sinni framleiðslu á erlendum vettvangi, en þeir hafa það ekki nú í dag. Salan á skreið er fyllilega eins margbrotin og salan á saltfiski. Skreiðarframleiðendur hafa með sér sölusamlag, að vísu ekki allir í því, vegna þess að þar geta einstakir framleiðendur fengið leyfi til þess að selja framleiðslu sína sjálfir án þess að vera í nokkrum sérstökum samtökum, en þetta samlag skreiðarframleiðenda hefur ekki fengið einkaútflutningsaðstöðu, eins og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur á saltfiskinum. Ég tel því, að saltfiskframleiðendur geti alveg eins unað við þetta eftirlit af hálfu ríkisins eins og skreiðarframleiðendur og eins og þeir, sem hafa með sölu á fiskimjöli og lýsi og öðrum sjávarafurðum að gera, og að það sé ekki á neinn hátt blakað við þeirra samtökum, svo lengi sem þau vilja vinna á heilbrigðum grundvelli, þó að þau fái ekki þessa einkaréttaraðstöðu.

Hv. þm. G-K. vék hér að því, að hann teldi, að hér væri verið að gera tilraun til þess að setja upp eitthvert starfsmannabákn, það ætti að reyna að koma hér einhverjum mönnum í vinnu, það væri sennilega aðaltilgangurinn, og væri svo gert ráð fyrir heilli nefnd manna og starfsfólki í staðinn fyrir það, að að þessum málum hefði unnið að undanförnu einn maður með starfsliði úr utanríkisráðuneytinu.

Ég veit nú, að hv. þm. sér það, að ef þetta hefði verið tilgangurinn, þá hefði mér aldrei komið til hugar að flytja þetta frv. og vera að vekja svona sérstaka athygli á því, vegna þess að það er eins og hann segir, að vissulega hafði ég sem sá ráðherra, sem fer með útflutningsmálin, vald til þess að ráða til þessara starfa eins marga menn og þörf þótti á, og það var hægt að breyta um þessa skipan, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, samkv. núgildandi lögum, vegna þess að núgildandi lög um þessi efni segja, að ráðherrann megi gera alla hluti — hvað sem hann vill — varðandi þessi mál. En ég taldi hins vegar réttara, að meginatriðið í þessum efnum yrði ákvarðað með lögum, en ekki, að þessi mjög svo víðtæka heimild yrði notuð. Ég er á þeirri skoðun, og það ætla ég að séu nú flestir, að það sé ekki sæmilegt, að aðeins einn maður eigi að úrskurða um það, hverjir af fjölmörgum aðilum fá leyfi í hverju einstöku tilfelli til þess að selja sjávarafurðir Íslendinga úr landi og með hvaða verði þeir fá rétt til þess að selja þessar útflutningsvörur og með hvaða öðrum skilyrðum. Það er varla frambærilegt að fela slík störf aðeins einum manni. Ástæðan til þess, að þetta var gert, var sú, að upphaflega var hér um aðeins lítið verksvið að ræða og tiltölulega fá leyfi veitt, en þetta er sífellt að verða yfirgripsmeira og yfirgripsmeira, þar sem stór hluti framleiðslunnar er að falla undir þetta, eins og t.d. skreiðarframleiðslan öll nú, sem skiptir orðið mörgum tugum milljóna króna. Og það er vitanlega miklu eðlilegra, að hér sé um skipaða fasta nefnd manna að ræða, sem á að skera úr um, hvort þessi eða hinn fær fremur leyfi til þess að selja út úr landinu andvirði, sem nemur tugum milljóna króna, en að slíkt vald sé ekki aðeins í hendi eins manns, þó að hann sé skipaður af ráðherra. Ég vil segja það, að oft áður hefur verið sett niður nefnd manna til þess að hafa minni og ómerkari störf með höndum en þó að þrír menn hefðu það starf, í stað þess að einn hefur farið með þetta nú.

Meginefni þess skipulags, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp í sambandi við söluna á sjávarafurðum, er einmitt það, að öll sölusamtök, sem mynduð eru, eða allir útflytjendur sjávarafurða búi við einn og sama rétt, að þeir þurfi allir að fá útflutningsleyfi hverju sinni og fá sína sölusamninga viðurkennda, þeir verði allir að lúta hliðstæðu eftirliti, en að það sé ekki gert upp á milli útflytjenda, eins og nú er, þar sem sumir eru látnir hafa einkaréttaraðstöðu, aðrir verða að hlíta leyfum, sumir eru undir talsverðu eftirliti, en aðrir undir engu opinberu eftirliti. Tilgangur frv. er einmitt að koma þessari skipan á, og þetta þýðir auðvitað í framkvæmd, að einkaréttaraðstaðan verður afnumin.

Þá er hinn megintilgangurinn sá að koma á föstu eftirliti með þessum mikilvægu málum, til þess m.a. að létta af þeirri stórhættulegu tortryggni, sem á hefur verið í þessum efnum, því að vissulega er það stórhættulegt fyrir okkur, að það skuli vera á slík tortryggni um sölu á okkar útflutningsvörum, eins og óneitanlega hefur verið. Hver sá, sem fylgzt hefur með blaðaskrifum og hlustað hefur á ræður manna, bæði hér á Alþingi og annars staðar, varðandi þessi mál, getur vitanlega ekki neitað því, að í þessum efnum hefur verið gífurlega mikil tortryggni og jafnvel stórar og miklar ásakanir bornar fram. Ég held því, að fyrir sjálf samtök framleiðenda sé það beinlínis fyrir beztu, að þau geti unnið þannig að þessum málum, að þau sýni sín skjöl, þau bjóði sínar bækur, þegar þess er krafizt, og þau vinni þannig, að þau þurfi ekkert fyrir réttum opinberum aðilum að hylja, og þá er vitanlega sjálfsagt að heimila þeim í umboði framleiðenda að fara með þessi mál, svo lengi sem þannig er að þeim unnið, að það sé í samræmi við þjóðarhagsmuni.

Það er því mín skoðun, að það sé ekki sízt hagsmunamál beinlínis samtaka framleiðenda að koma þessari skipan á í staðinn fyrir það form, sem gilt hefur fram til þessa.

Það atriði, sem hv. þm. G-K. sagði, að víssulega hefði verið hér fast skipulag á í þessum málum, tel ég að fram hafi komið greinilega í þessum umr. að er með öllu rangt. Skipulagið hefur verið mjög laust í böndum á allan hátt. Það hefur verið fast að þvi leyti ti1, að einn aðili hefur haft með alla saltfisksöluna að gera, en slíkt skipulag hefur ekki gilt í sambandi við útflutning á öðrum sjávarafurðum, og alveg hliðstæð samtök í öðrum greinum hafa ekki notið þessara sérréttinda, eins og t.d. þeir, sem með saltfiskútflutninginn hafa haft að gera.

Það furðaði mig svo nokkuð, hvers konar boðskap hv. þm. G-K., sem jafnframt er form. Sjálfstfl., flutti hér, því að einhvern tíma hefði verið kallað, að þetta væri hreinn einokunarboðskapur, sem hann flutti hér, þar sem hann hélt langa ræðu um það, að varast bæri á allan hátt frelsi útflytjenda í sambandi við útboð og sölu á þessum framleiðsluvörum, en dásamaði á hinn hóginn það form að fela einum aðila algeran einkarétt, og þar máttu ekki einu sinni aðrir fá neina aðstöðu til þess að keppa við þennan aðila, ekki einu sinni þó að um opinbert eftirlit í sambandi við þessa samkeppni væri að ræða. Þetta verður nú að segjast að er furðulegt af form. þess flokks, að boða þetta, sem annars er boðberi hinnar frjálsu samkeppni á öllum sviðum og sérstaklega í verzlunarmálum. Ég held, að hann hljóti að verða að viðurkenna, að þessi boðskapur hans sé ekki þess eðlis, að hann eigi að gilda aðeins í þeim takmörkuðu greinum, sem honum hentar sjálfum í hverju einstöku tilfelli, en þó að um algerlega hliðstæðar greinar sé að ræða, sem aðrir hafa með að gera, þá passi ekki þessi boðskapur þar.

Þetta á að vera bezta leiðin í sambandi við sölu á saltfiski. En hvers vegna tók þá ekki þessi hv. þm., þegar hann réð þessum málum, hvers vegna tók hann þá ekki þetta skipulag einnig upp, t.d. í sambandi við skreiðarsöluna? Af hverju tók hann það ekki upp? Af hverju voru framleiðendur ekki alveg ákveðnir í því, að þetta væri bezta skipulagið? Það er vegna þess, að þó að framleiðendur viðurkenni, að það sé nauðsynlegt að hafa hömlur á því, hvernig menn geti staðið að því að bjóða út íslenzkar sjávarafurðir á erlendum markaði, þó að nauðsynlegt sé að hafa á þessu hömlur, þá eru þeir flestir, að ég ætla, á þeirri skoðun, að heilbrigt og gott sé að leyfa þar takmarkaða samkeppni, þannig að ríkisvaldið hafi þar hönd í bagga með, hvernig framboðum er háttað, og hinir ýmsu aðilar fái tækifæri til þess, ef þeir geta sannað, að þeir bjóði betri kjör en aðrir, að þá fái þeir líka leyfi til þess að koma slíkum sölum fram.

Það er ábyggilegt, að það var þetta, sem var vilji skreiðarframleiðenda. Þeir vildu reyna að notfæra sér þessi atriði, einmitt að fenginni reynslu í saltfisksölumálunum, að skapa sér þá aðstöðu, að þó að þeir hefðu nokkuð sameiginleg útboð og þess yrði gætt, að ekki yrði um veruleg undirboð að ræða, þá yrði þó samkeppni um það, hvernig til tækist með verð á þessum vörum og sölu á erlendum markaði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta mál á þessu stigi, en tel eins og áður, að reynslan hafi leitt í ljós, að það skipulag, sem gilt hefur fram til þessa í afurðasölumálum okkar, sé svo laust í böndunum, að þar þurfi verulegar breytingar til að koma og það sé hægt með eðlilegu ríkiseftirliti í þessum efnum að ná þarna verulegum árangri og koma á meiri jöfnuði hjá þeim, sem hafa með þessi útflutningsmál að gera, og að hægt sé með slíku eftirliti að tryggja betur þjóðarhagsmuni í sambandi við sölu okkar sjávarafurða en reynzt hefur mögulegt með því skipulagi, sem hefur verið.