25.01.1957
Neðri deild: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það voru nú aðeins nokkur orð. — Hv. 5. þm. Reykv. hélt því hér fram, eins og reyndar hv. þm. G-K., að í þessu frv. væri ekkert nýtt að finna, sem ekki væri í eldri lögum, og því væri hér um sýndarfrv. að ræða og engin þörf á að samþ. frv.

Ég gat þess hér í upphafi, að þau ákvæði, sem nú eru í lögum varðandi sölu á sjávarafurðum, eru þannig, að ráðh. hefur nær ótakmarkað vald til hvers, sem hann vill. (Gripið fram í.) Nei, það var eitt af því, sem ég tók fram, hvað það er, sem vakir fyrir mér með flutningi þessa frv. Ég vil, að sett verði löggjöf um það, í hvaða farveg framkvæmd þessara mála á að falla í höfuðatriðum. Ef þessi röksemd ætti að takast gild hjá hv. 5. þm. Reykv. og þm. G-K., þá væri vitanlega alveg eins hægt að segja: Það er alls ekki hægt að setja nein lög á Alþingi um skipan á útflutningi sjávarafurða, vegna þess að þetta er allt saman fyrir í lögum. — Þegar gripið hefur verið til slíks, eins og gert var á stríðsárunum, árið 1940, að heimila ríkisstjórninni að setja hvaða skilyrði og gera hvað sem hún vildi í sambandi við þessi mál — og þessar tvær setningar hafa verið látnar standa — þá er vitanlega hægt að segja á eftir, hvað sem ákveðið er, hvort sem ákveðið er að taka einkaréttaraðstöðu af saltfiskútflytjendum, hvort sem ákveðið er að taka einkaréttaraðstöðu af síldarútvegsnefnd og hvað annað sem ákveðið er til breytingar: Ja, raunverulega þurfti ekki að setja nein lög um þetta, ráðh. gat bara fyrirskipað þetta. — Það er mér alveg ljóst. Ráðh. gat notað þessi almennu ákvæði í eldri lögum til þess að gera hvað sem hann vildi.

Og framkvæmdin varð líka sú, að í einu tilfeili var þetta ákveðið, í öðru tilfelli var hitt ákveðið, og því varð það skipulagsleysi úr, sem ég hef hér nokkuð rakið í mínum fyrri ræðum í þessu máli.

Hv. 5. þm. Reykv. spyr svo um það: Hvaða nýtt skipulag á hér að taka upp? Hvaða breyting á hér að verða? Það er greinilegt, að þm. hefur alls ekki lesið frv., og það hlýtur líka að vera greinilegt af þessu, að hann hefur alls ekki hlustað á þær ræður, sem hér hafa verið fluttar. Með frv. er t.d. það tekið upp, sem ekki hefur verið í núverandi skipulagi í þessum málum, að skipa skal fasta þriggja manna nefnd, sem á að hafa yfirstjórn þessara mála með höndum. Slík föst nefnd hefur ekki verið fyrir hendi. Nú á þessi nefnd að fá mjög viðtækt vald til þess að hafa eftirlit með þeim sölusamtökum, sem hafa með útflutningsmálin að gera. Slíkt eftirlit hefur ekki verið haft með höndum. T.d. hafa saltfiskútflytjendur fengið sinn einkarétt viðurkenndan og síðan verið látnir starfa án frekara eftirlits. Hér er vitanlega grundvallarmunur á framkvæmd fyrirhugaður. Nú er gert ráð fyrir því, að þessi þriggja manna útflutningsstjórn veiti útflutningsleyfi fyrir öllum útflutningi á íslenzkum sjávarafurðum. Hingað til hafa saltfiskútflytjendur ekki þurft að sækja um leyfi, þegar þeir hafa framkvæmt sölu. Hingað til hafa saltsíldarframleiðendur ekki þurft að sækja um leyfi, vegna þess að þeir hafa haft einkaréttaraðstöðu. Nú verða þeir í hverju einstöku tilfeili að fá samþykki útflutningsstjórnarinnar fyrir sínum sölum, og þeir verða að leggja á borðið allar upplýsingar, sem þessi útflutningsstjórn óskar, til þess að sanna, að þeir séu að gera það, sem sé þjóðinni hagkvæmast í hverri sölu fyrir sig. Þetta hefur ekki verið. Þetta er vitanlega grundvallarmunur á skipulagi og framkvæmd. Hitt veit ég, að það er vitanlega hægt að segja: En það var hægt að fyrirskipa þetta. — Það er rétt. Ráðh., sem hafði ótakmarkað vald, gat gefið út þessa fyrirskipun nú og aðra næst. Það var alveg rétt. En þó að til séu nú í lögum ákvæði um það, að ráðh. megi gera það, sem honum sýnist, þá tel ég það ekki réttlæta, að það sé ekki rétt að setja löggjöf, sem marki í höfuðatriðum, hvernig á að halda á jafnmikilvægum og merkilegum málaflokki og hér er um að ræða. En það sýnir manni bezt, að þeir sjálfstæðismenn, sem hér hafa talað og talað nokkuð langt mál um þetta frv., finna það á sér, að hér stendur til að breyta talsvert verulega um skipulag og taka upp nokkuð aðra starfshætti en verið hefur, að þeir eru greinilega uggandi um, hvað hér sé á ferðinni, og á móti málinu. Það leynir sér ekki. Og sérstaklega er hv. þm. G-K. algerlega andvígur því, að einkaréttaraðstaðan verði tekin af saltfiskútflytjendum, því hefur hann lýst hér mjög greinilega.

Þetta mál virðist vera sama eðlis og mörg önnur mál, sem hér hafa verið til afgreiðslu nú á þessu þingi, að afstaða Sjálfstfl. er hin kynlegasta. Ég vil t.d. minna á efnahagsmálin. Efnahagsmálin voru þess eðlis, sögðu talsmenn Sjálfstfl., að raunverulega var hér um stefnu Sjálfstfl. að ræða, ekkert annað en endurtekningu á henni. — En auðvitað voru þeir á móti afgreiðslu málsins og héldu uppi löngum umr. hér á Alþingi gegn þeim till., sem hér lágu fyrir.

Í hinum margumtöluðu varnarmálum var vitanlega framkvæmd hér stefna Sjálfstfl. út í æsar í öllum greinum, en þeir hafa flutt hér till. á Alþingi um það, að ríkisstj. segi tafarlaust af sér fyrir svík hennar í öllum málum og fyrir það, að hún er ómöguleg. Maður skal a.m.k. ætla, jafnvel þótt menn séu utan ríkisstj., að ef ríkisstj. er að framkvæma þeirra eigin mál og að þeirra vild, eins og þeir vildu helzt á málunum halda, þá væru þeir menn ekki að heimta ríkisstj. í burtu.

Eins var þetta í sambandi við löggjöf um bindingu kaupgjalds eða vísitölu á tímabili og verðfestingu. Þetta höfðu sjálfstæðismenn alltaf prédikað. Þeir höfðu alltaf haldið þessu fram. Það höfðu verið vondir menn, kommúnistar, sem höfðu alltaf staðið á móti þessu. En þeir voru alveg æfir hér í umr. og annars staðar í skrifum sínum út í þessa löggjöf á allan hátt.

Eins er með þetta frv., sem hér liggur fyrir. Raunverulega er ekkert nýtt í þessu, þetta eru bara lögin, sem við höfum alltaf unnið eftir, þetta eru öll ákvæðin, sem við höfum haft í gildi. Þetta er það skipulag, sem við höfum talið bezt, sem við höfum unnið eftir. Hér er því ekkert nýtt. En samt kemur það fram, að þeir eru uggandi og þeir eru á móti málinu.

Nei, sannleikurinn er sá, að þessir aðilar, sem svona málflutning iðka, vita, að það er öllum ljóst, að þeirra skoðanir í þessum efnum eru aðrar en þeir vilja almennt láta uppi. Hið rétta er, og það er rétt að viðurkenna, að í þessum málum er það svo, að þeir sjálfstæðismenn vilja, t.d. viðvíkjandi saltfisksölumálum, veita Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda einkaréttaraðstöðu og þar komist ekki aðrir að. Þetta er alveg ákveðið þeirra stefna, og við því er í rauninni ekkert að segja. Form. Sjálfstfl. hefur rökstutt sitt mál mjög frambærilega í þessum efnum sem sína skoðun. Það eru hins vegar margir aðrir menn á því, að það fari ekki vel á því að hafa þetta þannig. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé engin nauðsyn á því, eins og saltfisksölumálunum er háttað, að veita Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda einkaréttaraðstöðu til þess að fara með þau mál. Ég álít, að þau sölusamtök, að því leyti til, sem þau hafa reynzt vel, geti haldið sinni starfsemi áfram undir því skipulagi, sem hér er fyrirhugað, geti fengi útflutningsleyfi í hverju einstöku tilfelli, þegar þau eru að gera rétta sölu og selja vei, og eigi að þola það, að haft sé opinbert eftirlit með þess gerðum, og það eigi að þola fullkomna opinbera gagnrýni. Þarna er um skoðanamun að ræða. Ég álít líka, og það gera margir fleiri, að það sé full ástæða til þess að hafa sama skipulag á um sölufyrirkomulag á skreið, á fiskimjöli, á lýsi og ísfiski og öðrum slíkum sjávarafurðum eins og t.d. á sér stað um saltfisk, en saltfiskurinn eigi ekki að hafa þar neina sérstöðu, og ég tel, að það sé hægt að ná þar góðum og miklum árangri, að það geti verið fleiri en einn útflytjandi í viðkomandi grein, en föst útflutningsstjórn reyni að hafa hemil á því, að ekki verði um óeðlileg undirboð að ræða á erlendum vettvangi og reynt að fá hið bezta út úr sölunni, sem hægt er fyrir þjóðarheildina.

Ég álít líka, að það sé engin þörf á því að veita síldarútvegsnefnd einkaréttaraðstöðu í sambandi við sölu á saltsíld, það sé engin ástæða til þess. En hins vegar tel ég heldur ekki rétt að leggja síldarútvegsnefnd niður. Ég tel, að hún hafi margt gott gert og hennar starfsemi megi vera áfram, en hún eigi líka að þola það að vera undir opinberu eftirliti með sín störf og geti sótt um útflutningsleyfi hverju sinni og fengið sínar sölur samþykktar af löggiltri útflutningsstjórn, sem ráðgert er nú að setja samkv. þessu frv.

Þá er auðvitað í miklu fleiri greinum gengið út frá verulegum breytingum frá því, sem áður hefur verið. Nú er t.d. ráðgert, að þessi fasta útflutningsstjórn reyni að afla nýrra markaða, hún kynni sér sem bezt aðstæður allar í markaðslöndunum. Enginn slíkur aðili hefur verið fyrir hendi frá hálfu hins opinbera, því þó að einum manni hafi verið falið að veita í vissum greinum útflutningsleyfi, þá hefur hann ekki haft til þess aðstöðu að kynna sér sérstaklega eða fylgjast með markaðsmálum erlendis eða söluaðstöðu á hinum ýmsu mörkuðum.

Hér er því vissulega tekið upp nýtt skipulag, þó að hv. 5. þm. Reykv. gæti ekki séð það, og ég held, að í rauninni sé ekki honum hægt að ráðleggja neitt annað en að lesa frv., kynna sér grg. þess og kynna sér þá þessi mál, eins og þau hafa verið í framkvæmd, og vita, hvort hann sannfærist ekki um það, að hér sé fitjað upp á nýju skipulagi og allt öðru skipulagi en hér hefur verið gildandi.

Ég skal svo segja það í tilefni af því, sem hér kom fram hjá hv. þm. G-K., að ég hefði verið hér með dylgjur í hans garð, að það er misskilningur, og hafi orð mín á einhvern hátt legið þannig, að hafi gefið ástæðu til, að hann skildi þau svo, þá er það rangt, því að það var ekki mín meining að vera með neinar dylgjur í hans garð. Ég vék aðeins að því, að mér þætti, að hann hefði lagt meiri áherzlu á að halda uppi einkaréttaraðstöðu fyrir saltfiskútflytjendur en hann hefði a.m.k. í framkvæmd haft gagnvart annarri útflutningsframleiðslu, og þannig kemur þetta mér fyrir sjónir, að hann hafi haft þar miklu meiri áhuga á að koma því þannig fyrir. En þetta ber ekki að skoða á neinn hátt sem dylgjur í hans garð um, að það hafi hann gert af einhverjum sérhagsmunum sínum.

Það er svo rangt hjá honum, þó að hann reyni hins vegar að dylgja um það í minn garð, að tilgangurinn með þessu frv. hjá mér sé að auðvelda mér eitthvað að ráða til mín starfsmenn í sambandi við framkvæmd þessara mála frá því, sem verið hefur, þar sem hann reynir enn að halda því fram, að það muni verða auðveldara eftir þessa lagasetningu að koma við fjölgun starfsmanna, m.a. vegna þess, að í hinu fyrra tilfellinu hefði ég þurft að fá samþykki fjmrh. fyrir launagreiðslum til nýrra starfsmanna í þessum efnum, sem ég þurfi ekki, þegar búið sé að lögfesta þetta. Þetta er líka misskilningur, og það hlýtur hann að vita, því að í þessu frv. er gert ráð fyrir nákvæmlega sama tekjustofninum og þessi útflutningsmál höfðu annars, þar sem var um sérstakt útflutningsgjald að ræða, sem víðtæk heimild var til að breyta, hækka eða lækka, svo að ef hefði þurft á auknum peningum að halda til að standa þar undir frekari launagreiðslum, þá væri í rauninni ekki annað fyrir ráðh. en að nota þessa miklu og víðtæku heimild til þess að hækka útflutningsgjaldið fyrir leyfisveitingar. Var því öll aðstaða til hins sama og miklu betra að koma slíku við, hefði það vakað fyrir mér að fjölga hér starfsmönnum, að vera ekki með frv. á Alþingi um þetta mál, eins og ég hef einmitt valið. Engu slíku er því til að dreifa, heldur er hitt meginatriði, að ég tel, eins og ég hef lýst hér áður, að það sé gagnlegt og nauðsynlegt fyrir framleiðendur sjávarafurða að koma þessum málum í fastara form en þau hafa verið í til þessa. Ég álít, að það sé mjög þýðingarmikið fyrir einmitt samtök framleiðenda að koma þessum málum fyrir á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, og að það hafi ekki í rauninni verið viðunandi að búa við það skipulagsleysi, sem í þessu hefur verið hingað til. Það er það, sem vakir fyrir mér með þessu frv., að ákveða í meginatriðum, hvernig staðið skuli að þessum málum, og þá eru aðalatriðin þessi, að skipa sérstaka útflutningsstjórn, sem hefur með málin að gera, sem veitir öllum, sem uppfylla viss skilyrði, leyfi, og að koma á fullkomnu ríkiseftirliti hjá þeim aðilum, sem fara með jafnmikilvæg mál og útflutning sjávarafurða. Það er megintilefni þess, að þetta frv. er flutt.