05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég þarf ekki af hálfu okkar minnihlutamanna í sjútvn. um þetta mál að hafa langa framsögu. Við höfum í alllöngu nál. gert grein fyrir afstöðu okkar til málsins, eins og það liggur nú fyrir, og niðurstaðan hjá okkur hefur orðið sú að leggja til við hv. deild, að þetta frv. yrði afgr. með rökstuddri dagskrá, og það er byggt á tveimur atriðum þessa máls, sem ég skal síðar koma að.

Eins og í nál. getur og raunar í nál. beggja aðila, var þetta frv. að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna í sjútvn. sent til umsagnar tíu aðila, og okkur þótti rétt til þess að styrkja frásagnir um niðurstöður þessara umsagna að birta útdrátt úr þeim sem fylgiskjal með nál.

Niðurstaðan er þá sú, að einn aðill, sem gaf umsögn um frv., sem sé Alþýðusamband Íslands, mælir með samþykkt þess. Síldarútvegsnefnd telur hagkvæmast, að sala og útflutningur síldar verði áfram eins og verið hefur um skeið í höndum eins aðila, sem sé að ekki verði breytt til frá því fyrirkomulagi, sem verið hefur á um þetta. Þriðji aðilinn, sem er Samband ísl. samvinnufélaga, telur heppilegast, að minnst tveir útflytjendur séu löggiltir til þess að hafa á hendi útflutning sjávarafurða. En allir hinir aðilarnir, sjö að tölu, mæla gegn samþykkt frv.

Ég vil í sambandi við umsögn Sambands ísl. samvinnufélaga strax geta þess, að mér hafa borizt um það ábyggilegar frásagnir, að það muni á þessu ári eins og að undanförnu ætla að fela sambandi ísl. fiskframleiðenda sölu á öllum sínum saltfiski, svo að eftir því að dæma virðast sakir í því efni standa þannig nú, að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda muni á þessu ári hafa á hendi sölu alls útflutts saltfisks frá landinu. Þetta byggist á því, að allir þeir, sem framleiða saltfisk, hafi sameinazt um það á þessu ári sem að undanförnu að fela þessum félagssamtökum framleiðendanna alla sölu saltfisksins. Og ég vil geta þess í sambandi við það, sem hv. frsm. meiri hl. minntist hér á, að þetta fyrirtæki hefði sætt að undanförnu nokkurri gagnrýni í sambandi við það umboð, sem það hefur haft til einkasölu á saltfiskinum, að þá má á það benda, að þeirri gagnrýni er vel og rækilega svarað með þeim samtökum, sem nú hafa með frjálsum hætti verið mynduð um að fela sambandinu að hafa á hendi alla saltfisksöluna á þessu ári.

Þá skal ég víkja að þeim tveimur atriðum, sem við minnihlutamenn í sjútvn. byggjum á niðurstöður okkar.

Það orkar ekki tvímælis, að það frv., sem hér liggur fyrir um útflutning sjávarafurða, felur ekki í sér neina aukna heimild til handa ríkisstj. til afskipta af þessum málum frá því, sem nú er í lögum, enda hefur ríkisstj. mjög víðtæka heimild í þessu efni. Það er engu bætt við í þessu frv. og heldur ekki að neinu leyti skert sú heimild, sem ríkisstj. hefur í þessu efni.

Á einum fundi, sem rætt var um þetta mál í sjútvn., mætti hæstv. sjútvmrh. þar, og n. ræddi mjög ýtarlega við hann um málið. Viðurkenndi hann þar alveg fullkomlega, að ríkisstj. hefði að öllu leyti þær heimildir nú í þessu efni, sem í þessu frv, felast. Það getur því ekki orkað neiaum ágreiningi.

Að þessu leyti til er frv. algerlega óþarft. Allar þessar heimildir, sem þarna er um að ræða, hefur ríkisstj., enda kemur það greinilega fram í þeim umsögnum, sem n. hafa borizt um þetta mál, að gagnrýnin gagnvart þessu frv. tekur ekkert til þeirrar hliðar málsins, enda var það heldur ekki hægt. Þeir, sem áður felldu sig við að hlíta þessum afskiptum ríkisstj., hlutu vitanlega einnig að gera það nú, þar sem engu var breytt.

Gagnrýnin snýst um allt annað, og það er þá annar þátturinn, sem við byggjum á afstöðu okkar til þessa máls. Gagnrýnin snýst að því, að í grg. fyrir þessu frv. er því beinlínis lýst yfir, að nú verði eftirleiðis breytt um stefnu í framkvæmd ríkisstj. í þessum málum. Ríkisstj. hefur að undanförnu látið framleiðendurna vera alveg sjálfráða um það, hvaða form þeir veldu þeim félagssamtökum sínum, sem hafa haft söluna með hendi, og þannig er það, að í tveimur tilfellum hafa félagssamtök haft einkasölu á vissum tegundum. Annars vegar er síldarútvegsnefnd, sem flytur út og selur alla saltsíld, hún hefur haft til þess einkaleyfi. Hins vegar er Samband ísl. fiskframleiðenda, sem haft hefur með hendi einkasölu á öllum saltfiski. Þessi ákvörðun þeirra, sem að þessu standa, og óskir hafa ekki að neinu leyti verið skertar af áhrifavaldi ríkisstj. að undanförnu, heldur veittur stuðningur til þess að tryggja framleiðendunum þessa tilhögun með því að láta þessum fyrirtækjum í té leyfi til einkaútflutnings og sölu.

Nú er það mjög skýrt fram tekið í grg. þessa frv., að með því sé fyrst og fremst gengið inn á nýja braut og að samkvæmt þessu fyrirkomulagi fær enginn útflytjandi einkarétt á útflutningi neinnar vörutegundar, en hverjum sem vill gefst kostur á að sýna hæfni sína og möguleika þá, sem fyrir hendi eru. Það er þessi íhlutun, sem hér er boðuð af hálfu ríkisstj., sem hefur vakið andúð og mótmæli framleiðendanna, sem að þeim félagssamtökum standa, sem hafa á hendi sölu þessara vara. Það er þessi boðskapur, að nú skuli tekinn af þeim rétturinn til þess að velja fyrirtækjum sínum það söluform, sem þeir telja að skapi þeim sterkasta aðstöðuna á erlendum markaði til þess að selja framleiðsluna. Þessi erlendi markaður fyrir þessa einhæfu framleiðslu okkar Íslendinga er allþröngur víðast hvar og margir, sem keppa þar við okkur með sams konar vörur, og þess vegna hafa framleiðendurnir af langri reynslu komizt að þeirri niðurstöðu, að þegar svona sérstaklega stendur á, sé heppilegra og raunhæfara fyrirkomulag, að einn aðill standi að sölu varanna, heldur en að hún sé á hendi fleiri manna, sem máske eru þá ekki svo samstilltir um það að haga framboði og öðru þannig, að það geti ekki skapað erlendis rangar hugmyndir um það magn, sem hér geti verið árlega á boðstólum. Og þó að ríkisstj. hafi heimild og beiti henni til þess að ákveða lágmarksverð á sölunni, þá nær það ekki nema að takmörkuðu leyti tilgangi sínum, því að þetta fyrirkomulag á þeim þrönga og einhæfa markaði, að margir bjóði sömu vöruna, getur skapað kaupandanum rangar hugmyndir um það, hvað sé hér mikið á boðstólum, og þá að sjálfsögðu leiða þeir hugann að því, hvort þeir geti ekki fengið betra verð, fengið verðið lækkað, ef framboðið sé máske meira en þröng takmörk markaðarins krefja á hverjum tíma.

Þetta er nú svona, að þetta hefur orðið reynslan og niðurstaðan hjá útflytjendum þessara vara, og á þessum grundvelli er reist það fyrirkomulag, sem þeir nú hafa á sölu varanna.

Um freðfiskinn er það að segja, að það eru hér um bil að heita má eingöngu tveir aðilar, sem hafa hann á boðstólum, og þessir aðilar hafa auk þess samband sín á milli, svo að með því fyrirkomulagi, að þeir standi einir að framboðinu, á það að vera alveg tryggt, að ekki geti komið upp hjá kaupandanum rangar hugmyndir um það, um hvað mikið magn sé að ræða, sem sé til framboðs á hverju ári af þessum vörum, auk þess sem þeir að sjálfsögðu haga samstarfi sínu þannig, samband hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga, að stilla verðinu upp í félagi, svo að ekki geti hlotizt af því neitt undirboð eða hreyting á verðinu, önnur en sú, sem alveg er óhjákvæmileg af markaðsástæðum á hverjum tíma.

Það er stefnubreytingin í þessu frv., að hér er boðað beinlinís, að hvernig sem framleiðendurnir líti á það, þá eigi enginn útflytjandi að fá einkarétt til útflutnings, og þetta tekur þá, eins og sakir standa núna, fyrst og fremst til síldarútvegsnefndar og sölusamlags íslenzkra saltfiskframleiðenda.

Nú sé ég það í nál. meiri hl., að þeir telja það þar, að heppilegast muni vera að því er snertir síldarútvegsnefndina, að þar verði í engu breytt frá því, sem verið hefur, og leggja það beinlinís til, og hv. frsm. meiri hl. áréttaði þetta einnig nú í sinni ræðu.

Einnig er það víst, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að samband íslenzkra saltfiskframleiðenda muni verða eitt um framboðið á fiskinum á þessu ári, eftir því sem upplýsingar, að ég ætla nokkuð ábyggilegar, liggja fyrir um.

Hér verður því annaðhvort að ske, að horfið verði frá því ráði, sem boðað er í grg. frv., að enginn einstakur aðill fái einkarétt, og þetta tekur þá líka til sambands íslenzkra saltfiskframleiðenda, ef þeir nú hafa sjálfir allt í sínum höndum, alla framleiðslu saltfisksins, — þá verður annaðhvort að ske, að ríkisstj. hverfi frá eða réttar sagt sjútvmrh., sem falin eru í þessu frv. öll völd í þessum málum, hverfi frá því, sem hann boðar hér í grg., eða þá að hann fari að beita valdi sínu, og sé ég nú ekki vel, hvernig slíkt valdbeiting geti orðið gagnvart sölusamlagi íslenzkra saltfiskframleiðenda, ef allir standa nú þar eins og einn maður. Hins vegar má segja máske, að hann hafi frekar vald á síldarútvegsnefnd, og það verður þó að sjálfsögðu örðugt líka, því að eftir því sem ég bezt veit og fram kemur í álitum frá tveimur félögum síldarsaltenda hér, þá leggja þeir á það höfuðáherzlu, að aðstaða síldarútvegsnefndar til einkaútflutnings verði ekki skert.

Hér er þess vegna ekki hægt að samrýma þá aðstöðu, sem þessi félög hafa nú, við þessa yfirlýsingu, sem gefin er í grg. fyrir þessu frv., og við, sem að þessu nál. stöndum, væntum þess að sjálfsögðu, að ekki verði gripið til þess óheillaráðs, eins og fram kemur í okkar nál., að fara að taka fram fyrir hendur framleiðendanna í þessum málum og leyfa þeim ekki að ákveða það söluform, sem þeir telja hagsmunum sínum bezt borgið með.

Við höfum þess vegna með tilliti til þess, hvernig ástatt er með þetta hvort tveggja, lagt til, að málið yrði afgr. með rökstuddri dagskrá, sem er svo hljóðandi:

„Þar sem ríkisstj. hefur í gildandi lögum og reglugerð allt það vald í þessum málum, sem í frv. feist, og að telja verður varhugaverða þá nýju stefnu í framkvæmd þessara mála, sem boðuð er í grg. frv., þ.e.a.s. að leyfa framleiðendum ekki að ákveða það söluform, sem þeir telja hagsmunum sínum bezt borgið með, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við, sem að þessu nál. stöndum, erum ekki í neinum vafa um, að það væri gengið inn á mjög varhugaverða braut, ef nokkuð væri gert til þess að stöðva þá þróun, sem verið hefur í þessu núna á undanförnum áratugum, að framleiðendurnir sjálfir hafi þessi mál, útflutningsmál og sölumál, í sínum eigin höndum og að þeir fái að ráða því, eftir því sem löng reynsla hefur kennt þeim, hvaða form þeir velja þessum samtökum sínum, til þess að tryggja þeim sem beztan árangur, að því er snertir það verð, sem fyrir afurðirnar fæst.

Ég tel svo ekki þörf á því af hálfu okkar í minni hl. að hafa fleiri orð um þetta að svo stöddu, nema því aðeins, að það gefist að nýju tilefni til þess.