06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

Endurskoðun varnarsamningsins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af skýrslu hæstv. utanrrh. og út af orðsendingum þeim, sem nú hafa farið fram milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna, aðeins taka eftirfarandi fram fyrir hönd okkar ráðherra Alþýðubandalagsins í ríkisstjórninni:

Við eigum engan þátt í orðalagi eða framsetningu þeirra orðsendinga, sem milli ríkisstjórnanna hafa farið um frestun á endurskoðun herverndarsamningsins samkv. ályktun Alþingis 28. marz s.l. Við erum einnig andvígir þeim forsendum frestunar, sem þar eru greindar, en töldum aðstæður ekki heppilegar nú til þess að tryggja samninga um brottför hersins. En við vorum samþykkir því, að frestað yrði um nokkra mánuði samningum þeim, sem ráðgert var að hefjast skyldu 15. f.m. um þessi mál.

Skipun fastanefndar þeirrar, sem um getur í orðsendingunum, erum við hins vegar andvígir og teljum hana þarflausa með öllu, þar sem hér er aðeins um bráðabirgðafrestun að ræða, enda teljum við, að ekki komi til mála, að frestur þessi verði notaður til nokkurra nýrra hernaðarframkvæmda.

Við munum samkvæmt þessu vinna að því, að fljótlega verði hafin endurskoðun varnarsamningsins samkv. ályktun Alþingis frá 28. marz 1956 með það fyrir augum, að herinn fari af landi burt. Hitt er til bóta, að það er skýrt fram tekið í orðsendingum ríkisstj., að það sé á valdi ríkisstj. Íslands einnar að taka ákvörðun um, hvort amerískur her skuli vera á Íslandi, og einnig að ákveða, hvenær samningar um brottför hans samkv. ályktun Alþingis og stefnuyfirlýsingu ríkisstj. skuli teknir upp að nýju.

Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en tel, að þessi yfirlýsing okkar skýri afstöðu okkar í einstökum atriðum til þeirra orðsendinga, sem hér hafa verið birtar Alþingi.