07.03.1957
Neðri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég er ekki sérfræðingur í fisksölumálum og hafði þar af leiðandi ekki hugsað mér að taka til máls í sambandi við þetta mál. En það, sem kom mér til að standa hér upp, voru ummæli í ræðu hv. 2. landsk. þm. (KGuðj), sem hann flutti hér áðan.

Hann talaði um það sem ósamræmi í málflutningi sjálfstæðismanna í verzlunarmálunum, að þeir vildu takmarka samkeppnina á sviði útflutningsverzlunarinnar, jafnframt því sem þeir boði frjálsa samkeppni á sviði innflutningsins, en svipuð ummæli hafa mjög oft komið fram í skrifum stjórnarblaðanna um þessi efni.

Að mínu áliti er þessi áróður yfirborðskenndur og missir marks. Eins og kunnugt er og varla er ágreiningur um, þá er einokunarverð yfirleitt hærra en samkeppnisverð. Einkasala er því seljanda að jafnaði í hag, en kaupanda í óhag. Ef þeirri stefnu væri fylgt að framfylgja „prinsipum“ frjálsrar samkeppni óháð því, hvort það hentar innlendum aðilum og þeirra hagsmunum eða erlendum aðilum, þá mætti vissulega segja, að það sé ósamræmi í því að vilja takmarka samkeppnina á sviði útflutningsframleiðslunnar, en hafa innflutninginn sem frjálsastan. En sjálfstæðismenn álita og um það held ég að ætti ekki að vera ágreiningur, að stefnuna í verzlunarmálunum eigi fyrst og fremst að miða við hagsmuni landsmanna, eða það, að þeir njóti sem hagstæðastra verzlunarkjara. Af þessu leiðir, að á þeim sviðum, þar sem við erum seljendur, nefnilega á sviði útflutningsframleiðslunnar, er okkur hagkvæmt að hafa einkasölu. Á því sviði aftur á móti, þar sem við erum kaupendur, eða á sviði innflutningsins, er hagkvæmast að hafa verzlunina frjálsa, það tryggir, að þeir innflytjendur, sem hagkvæmust gera innkaup; sitji fyrir innflutningnum. Þetta er sú stefna, sem skapar Íslendingum hagkvæmust verzlunarkjör, og það er aðalatriðið. Stefna vinstri flokkanna í þessum efnum virðist hins vegar vera sú gagnstæða. Á þeim sviðum, þar sem við erum seljendur, á samkeppnin að vera frjáls, á þeim sviðum aftur á móti, þar sem við erum kaupendur, eiga að vera höft og einokun, sem aftur skapar okkur óhagstæðari kjör, því að þá er ekki nein trygging fyrir því, að þeir, sem hagkvæmust innkaupin gera, sitji fyrir innflutningnum, og ætti ljóst að vera, að einmitt frá hagsmunasjónarmiði heildarinnar er okkar stefna í þessum málum til muna skynsamlegri en andstæðinganna. Það hefur að vísu verið á það bent, að koma megi í veg fyrir, að frjáls samkeppni í útflutningnum eða það fyrirkomulag, að útflytjendur séu margir, lækki verðið, með því að setja lágmarksverð á útfluttar afurðir. Ég fæ satt að segja ekki séð, þó að það gæti verið til bóta, að slíkt lágmarksverð mundi þó koma í veg fyrir undirboð, því að auðvitað er það svo, jafnvel þótt slíkt lágmarksverð væri sett, að æskilegt er að selja á sem hæstu verði yfir lágmarksverðinu. Lágmarksverðið getur því að mínu áliti ekki verið trygging fyrir slíkum undirboðum, þó að ég að öðru leyti játi takmarkaða þekkingu mína á fisksölumálunum.