08.03.1957
Neðri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hefði vænzt þess, að hæstv. sjútvmrh. yrði viðstaddur hér í deildinni, þegar þetta mál væri til umr. Mun ég aðallega beina orðum mínum til hans. Eru það mér töluverð vonbrigði, að hann skuli ekki vera mættur hér.

Frá því að frv. um sölu og útflutning sjávarafurða var lagt fram í hv. deild, hefur hæstv. sjútvmrh. marglýst yfir í umr., að hann meti hin frjálsu samtök, sem annast sölu og útflutning afurða sjávarútvegsins. Jafnframt hefur hæstv. ráðh. lýst yfir, að ekki eigi á neinn hátt að skerða ráðstöfunarrétt þessara samtaka yfir afurðum meðlima sinna og þau eigi að fá að starfa með sama hætti og hingað til og án frekari afskipta ríkisvaldsins af störfum þeirra en verið hefur fram til þessa. Frv., ef lögfest verður, eigi ekki að valda neinum breytingum um starfsemi og ákvörðunarrétt samtakanna um sölu og útflutning afurða meðlima sinna, nema hvað samtökin eigi að leita samþykkis útflutningsnefndar um söluverð, í stað þess að það er nú undir eftirliti fulltrúa hæstv. ráðh.

Það er ekki að ástæðulausu, þó að spurt sé, hver sé þá tilgangur hæstv. ríkisstj. með flutningi þessa frv. Málflutningur hæstv. ráðh. og hin vinsamlega afstaða hans til flestra samtaka framleiðenda og útflytjenda sjávarafurða stangast mjög á við ýmis ákvæði frv.

Í 2. gr. frv., þar sem rætt er um störf útflutningsnefndar, 3. lið, er rætt um það, að n. eigi að hafa forgöngu um markaðsleit og tilraunir til að selja sjávarafurðir á nýja markaði og auka sölu þeirra á eldri mörkuðum og annað það, er lýtur að útflutningi sjávarafurða. Ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort það sé áform hans, ef frv. verður lögfest, að fela útflutningsnefnd sjávarafurða og öðru starfsliði hennar að annast að mestu eða ef til vill öllu leyti markaðsleit og sölu sjávarafurða á erlendum markaði. Þar sem hæstv. sjútvmrh. er ekki mættur hér, vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. eða þeir hæstv. ráðh. sem hér eru mættir, svari fyrir hans hönd.

Það er ekki að ástæðulausu að þessari spurningu er beint til hæstv. ráðh. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ráðh. skipi 3 menn í útflutningsnefnd sjávarafurða. Útflutningsnefndin má með samþykki ráðh. ráða sér fulltrúa og aðstoðarfólk, eftir því sem nauðsyn krefur. Með þessu ákvæði frv. virðist vera í uppsiglingu stórt skrifstofubákn, sem mun, ef að líkum lætur, heimta þann rétt, sem það telur sig eiga samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Þegar svo þessar tvær hliðar frv. eru nánar íhugaðar, annars vegar þriggja manna útflutningsnefnd ásamt fulltrúa og öðru starfsfólki og hins vegar verksvið útflutningsnefndar og starfsliðs hennar, sbr. 2. gr., sem á að hafa forgöngu um markaðsleit og tilraunir til að selja sjávarafurðir á nýja markaði og auka sölu þeirra á eldri mörkuðum, er ekki að ástæðulausu, þó að samtök fiskframleiðenda, sem á undanförnum árum hafa með mjög góðum árangri annazt þessi viðskipti eða fyrirgreiðslu fyrir meðlimi sína, spyrji: Hver er tilgangurinn með frv.? Er hann nokkur annar en að taka umráðaréttinn yfir sölu sjávarafurða úr höndum samtaka fiskframleiðenda og flytja hann yfir til útflutningsnefndar sjávarafurða?

Ýmis ummæli hæstv. ráðh. í umr. í gær gefa aðra og lakari mynd af hug hans til samtaka útvegsmanna og vinnslustöðva en þá, er ég nefndi hér áðan. Hann ræddi um sérhagsmuni einstakra hópa innan samtakanna og ýmislegt annað, er hann taldi að orsakaði tortryggni og óvild til samtakanna. Virtist hann aðallega beina skeytum sínum í þessu sambandi til Sölusambands ísl. fiskframleiðenda.

Ég harma það, að hæstv. ráðh. skuli hafa slík orð yfir hér í hv. d. Hæstv. ráðh. hlýtur að vita, að meðlimum innan samtaka framleiðenda sjávarafurða er ekki misjafnað í verði á afurðum sömu tegundar. Allir meðlimir, hvort heldur þeir eru stórir eða smáir í framleiðslunni, fá sama verð fyrir afurðir sínar innan samtakanna, ef um sams konar tegundir og gæði er að ræða.

Þá sagði hæstv. ráðh., að nokkrir af forustumönnum Sjálfstfl. brytust um á hæl og hnakka gegn samþykkt frv. Á ég að trúa því, að hæstv. ráðh. hafi ekki veitt því athygli, að það eru ekki sjálfstæðismenn einir innan samtaka útflutningsaðila sjávarafurða, sem mælt hafa gegn lögfestingu frv., heldur einnig margir stjórnarliðar, sbr. undirskrift þeirra undir umsagnir um frv., sem við í minni hl. sjútvn. létum prenta sem fylgiskjöl með nál. okkar á þskj. 309?

Það er því hrein firra að reyna að telja hv. alþm. trú um, að sjálfstæðismenn einir séu frv. andvígir og telji það beinlínis til þess fallið, ef lögfest verður, að veikja þann mikla og góða árangur, sem náðst hefur á undanförnum áratugum í sambandi við ómetanlegt starf samtakanna að sölu og útflutningi sjávarafurða.

Ég fullyrði, að það eru engu síður meðlimir innan sölusamtakanna, sem telja sig fylgja öðrum stjóramálaflokkum að málum, sem eru ákveðnir í þeirri afstöðu sinni, að fenginni reynslu undanfarinna ára, að bezt sé og affarasælast fyrir þjóðarheildina, að sami háttur sé á hafður um sölu og útflutning sjávarafurða og verið hefur á undanförnum árum og gefizt vel.

Þessir ágætu stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem unnið hafa að framleiðslustörfum sjávarútvegsins, sumir þeirra mikinn hluta ævi sinnar, og kunna glögg skil á þessum málum, hafa einnig mælt gegn lögfestingu frv., eins og umsagnir þeirra um frv. á þskj. 309 bera með sér.

Félagasamtök framleiðenda á sviði sjávarafurða hafa nær einróma mælt gegn lögfestingu frv. Þeir munu innan skamms komast að raun um, hversu mikið tillit er tekið til viðhorfs þeirra til frv. hér á hinu háa Alþingi.

Við 3. umr. mun hv. þm. Borgf. (PO) og ég flytja brtt. við 1. og 2. gr. frv„ eins og við höfum áður lýst hér yfir.