14.03.1957
Efri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði, sem ég tel rétt að víkja hér að nokkrum orðum, af því, sem hér kom fram í ræðu hv. þm. N-Ísf.

Hann hóf ræðu sína með því að halda því fram, að þetta frv. væri aðeins einn liðurinn í þeirri herferð, sem kommúnistar væru nú að fara gegn framleiðslunni í landinu. Ekki fór hann frekari orðum um það, í hverju þessi herferð hefði yfirleitt verið fólgin. En það mætti spyrja hann að því, hvernig afstaða þeirra manna, sem hann kallar almennt kommúnista, og svo afstaða hans og annarra sjálfstæðismanna hefði verið nú um síðustu áramót, þegar var verið að ganga frá mestu hagsmunamálum sjávarútvegsins, sem jafnan koma hér fyrir á hverju þingi. Var þá ekki framgangur málsins sá, að þessir voðalegu menn, sem eru nú í herferð gegn framleiðendum sjávarafurða í landinu, beittu sér hér fyrir þeirri lausn á aðalvandamálum sjávarútvegsins, sem útvegsmenn lýstu alveg einróma yfir að væri bezta og hagstæðasta lausnin, sem þeir hefðu getað náð í sínum hagsmunamálum á undanförnum árum, og þessi voðalega herferð þeirra manna, sem hv. þm. N-ísf. kallar kommúnista, kom þannig fram, að þeir náðu mjög auðveldlega góðu samstarfi og samkomulagi við allar greinar sjávarútvegsins í tæka tíð um ráðstafanir þeim til aðstoðar á komandi ári? En hver var svo aftur afstaða Sjálfstfl., hver var afstaða hv. þm. N-Ísf. til þessara hagsmunamála sjávarútvegsins? Hvað lagði hann til að gert yrði, og hvernig hafði hans flokkur staðið að hagsmunamálum sjávarútvegsins, þegar þau höfðu legið hér fyrir til afgreiðslu á undanförnum árum? Þá var afstaðan sú að bjóða sjávarútveginum upp á slíka lausn sinna mála, að flestar greinar sjávarútvegsins sögðu „nei takk“ og stöðvuðu sinn rekstur vikur og jafnvel svo að mánuðum skipti. En þegar þessir voðalegu menn, sem hann segir að séu nú að ofsækja sjávarútveginn í öllum greinum, áttu samningsaðstöðu við forsvarsmenn sjávarútvegsins, þá tókust samningar strax, og þeir lýstu því yfir, að nú hefði þeirra sjónarmiðum verið meira og betur mætt en nokkurn tíma áður. Heldur nú hv. þm. N-Ísf., að honum gangi vel með þetta í baksýn að reyna að halda þessari fjarstæðu fram, að núv. ríkisstj. og við, sem að henni stöndum, séum sérstaklega að leggja okkur í framkróka með að vega að samtökum útvegsmanna og skerða þeirra kjör almennt?

Sjálfstfl. var við síðustu áramót, þegar þessi mál lágu hér fyrir til umr., stefnulaus með öllu. Hann hafði ekkert fram að leggja, ekki neitt, nema ég held að það hafi komið fram ein tillaga um að skerða nokkuð þá tekjuöflun, sem aðstoðin til útvegsins byggðist á. En annað hafði Sjálfstæðisflokkurinn ekki fram að færa í þeim efnum.

Nei, Sjálfstfl. rak sig á það hér um síðustu áramót, að þó að hann beitti sínum aðalforustumönnum til þess að hlaupa á milli samtaka framleiðenda sjávarútvegsins og óska eftir því, að þeir settu þannig skilyrði, að ekki gæti tekizt samkomulag um lausn vandamála sjávarútvegsins um áramótin, þá fékk hann ekki óskum sínum framgengt í samtökum sjávarútvegsmanna, m.a. varðandi kröfuna um, að þetta frumvarp kæmist ekki í framkvæmd.

Man hv. þm. N-Ísf. ekki eftir því, að fulltrúar Sjálfstfl. hér í deild inntu eftir því æ ofan í æ dagana fyrir jólin, þegar var verið að samþykkja ráðstafanirnar til lausnar á vandamálum sjávarútvegsins, hvort það hefðu ekki verið sett skilyrði af hálfu útvegsmanna fyrir því, að þeir byrjuðu rekstur um áramót, að ríkisstj. lýsti því yfir, að hún breytti ekki skipulagi á afurðasölu sjávarútvegsins, og ég lýsti því hér yfir, að þeir hefðu ekki sett þessi skilyrði? Ég vissi mætavel, að forustumenn Sjálfstfl. höfðu lagt mjög hart að þeim og nokkrir af forustumönnum sjávarútvegsins voru að reyna í umboði Sjálfstfl. eins og oft áður að koma þessum aukaskilyrðum fram. En þegar útvegsmenn voru búnir að kynna sér það frv., sem hér liggur fyrir, neituðu þeir með öllu að setja nokkur skilyrði um þetta atriði, þó að Sjálfstfl. hefði mikinn áhuga á því að reyna að tryggja þá einkaaðstöðu, sem hann hefur náð sér til handa í sambandi við sölu á saltfiski, að tryggja það, að slíkt yrði.

Hv. þm. N-Ísf. gerði hér nokkuð mikið úr þeim umsögnum, sem fyrir lægju frá ýmsum þar til greindum framleiðslusamtökum eða félögum útvegsmanna um afstöðuna til þessa frv. Hann vitanlega mistúlkaði, eins og við var að búast, stórlega þessar umsagnir. Sannleikurinn er sá, að nokkrir þessara aðila segja svo að segja ekkert gegn þessu frv., sem hér liggur fyrir. Fiskifélagið mótmælir ekki frv. Það er algerlega rangt. Það segir aðeins, að það telji, að það þurfi ekki að setja nein ný lög til þess að afla ríkisstj. frekari heimilda í samhandi við framkvæmd þessara mála en nú eru í gildi. En Fiskifélagið mótmælir ekki frv. Það er rangt hjá hv. þingmanni. Alþýðusambandið mælir eindregið með frv. og talar þar án efa í umboði sjómannastéttarinnar í landinu. Samband ísl. samvinnufélaga mælir líka raunverulega með frv., því að það leggur eindregið til, að það verði a.m.k. tveir aðilar viðurkenndir sem útflytjendur í hverri grein fyrir sig. Hitt var svo ofur eðlilegt, að stjórn saltfisksölusamtakanna mælti á móti frv. Það hefði engum manni í landinu komið annað til hugar. En það vita líka flestir framleiðendur og reyndar allmargir fleiri, og hv. þm. N-Ísf. ætti einnig að vita það, að um langan tíma hefur Sölusamband ísl. fiskframleiðenda verið þannig, að það hefur ekki verið neitt venjulegt framleiðendafélag. Þar hafa framleiðendur ekki haft síðasta orðið. Sannleikurinn hefur verið sá, að þar hafa farið með framkvæmd mála ýmsir þeir menn, sem náð hafa undir sig þessum samtökum á liðnum árum, en eru löngu hættir nokkuð að hafa með sjáyarútvegsmál sem slík að gera. Formaður samtakanna, Riehard Thors, hann og hans fyrirtæki hefur t.d. ekki átt einn einasta saltfisk í a.m.k. 1b ár, ekki einn einasta saltfisk. Hið gamla stóra útgerðarfélag, Kveldúlfur, sem eitt sinn var stærsta saltfiskframleiðendafélag í landinu og sölufélag að saltfiski, hefur ekki framleitt nokkurn saltfisk, ekki einn einasta ugga, um margra ára skeið. Og Richard Thors komst inn í þessi samtök upp úr þeirri aðstöðu, sem hann og hans félag hafði á sínum tíma sem stórframleiðandi að saltfiski og stór aðili að saltfisksölunni. Þarna eru líka í stjórn bæði bankastjórar og ýmsir aðrir, sem engra beinna hagsmuna eiga að gæta sem framleiðendur að þessari vöru. Í samtökum saltfiskframleiðenda hafa verið uppi á undanförnum árum mjög háværar óánægjuraddir um þetta, og meira að segja á þeim aukafundi, sem nú var boðað til, þegar reynt var að fá fram mótmæli gegn þessu frv. í samtökum saltfiskframleiðenda, komu fram tillögur, sem samþykktar voru þrátt fyrir mótmæli Richards Thors, formanns samtakanna, sem skoruðu á stjórnina að fara nú að heita sér að almennum hagsmunamálum saltfiskframleiðenda, skoruðu á stjórnina að snúa sér að því að láta sig skipta almenn hagsmunamál saltfiskframleiðenda. Með því var í rauninni verið að segja, að stjórnin hefði ekki gert það fram til þessa.

Hitt er svo líka ekki til þess að verða hissa á, þó að nokkrir af aðalforustumönnum Sjálfstfl. hér á Suðvesturlandi í síldarútvegsmálum, eins og Sveinn Benediktsson og aðrir slíkir, taki undir kröfu aðalforustumanna sjálfstæðismanna og mæli gegn því, að nokkrar breytingar verði samþykktar á þeim sérréttindum, sem Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur haft í saltfisksölumálunum. Það verður væntanlega enginn verulega hissa á því, þó að þaðan berist mótmæli um það. En hitt hefði líka gjarnan mátt minnast á, að hliðarfélag síldarsaltenda, sem annars vill mæla með því, að helzt einn aðili verði lögglitur sem útflytjandi í hverri grein um sig, minnist á það, að þeir vilji mjög gjarnan, að síldarframleiðendur einir saman fái þessi réttindi, núverandi skipulagi í sambandi við sölu á síld verði breytt, og félag síldarsaltenda fái það vald, sem síldarútvegsnefnd hefur nú í sambandi við útflutning á síld. Það kemur því strax upp, að þeir eru ekki alls kostar ánægðir með það skipulag, sem nú er, eða a.m.k. vildu ná nokkru meira valdi undir sig en þeir hafa skv. reglunum í dag.

Og svo kemur hér hv. þm. N-Ísf. og segir, að allir framleiðendur í einum kór hafi mótmælt frv. Ja, hann er nú ekki hissa á því, hvernig hann hnýtir að þessu. Ég hygg nú samt, að hann þurfi að endurskoða þessa fullyrðingu sína. Ég hafði hér upplýst, að jafnvei innan samtaka saltfiskframleiðenda kom greinilega í ljós við atkvgr., að þar vantar a.m.k. helming þeirra, sem í þeim samtökum eiga að vera. Þeir tóku ekki þátt í þessari atkvgr., af því að þeir höfðu ekki aðstöðu til þess að mæta. Ég veit um það, að umboðsmenn saltfiskframleiðenda úr heilum landsfjórðungum voru ekki mættir á þessum fundl. Það skorti því vitanlega mikið á það. En þó var vitanlega helzt við því að búast, að saltfiskframleiðendur, sem þarna hafa búið við sérstöðu, vildu halda í þessa sérstöðu sína áfram. Hitt mun svo koma glögglega í ljós, eins og það kom í ljós um áramátin, þegar foringjar Sjálfstfl. voru að reyna að fá útvegsmenn til þess að fara í stríð út af þessum málum, að framleiðendur að frosnum fiski, sem nú búa við það skipulag og hafa búið við það skipulag, sem hér er boðað, fara ekki, jafnvel þó að foringjar Sjálfstfl. óski eftir því, í neinar deilur víð ríkisstj. út af þeirri framkvæmd þessara mála, sem hér er boðuð. Þeir geta að vísu tekið undir það sem góðir sjálfstæðismenn, framámenn þar, að mæla gegn því, að það sé verið að taka þessi sérréttindi af þeim saltfisksölumönnum. En dýpra rísta heldur ekki þeirra mótmæli, það er mér vel kunnugt um.

Hv. þm. N-Ísf. endurtók svo það, sem þeir sjálfstæðismenn hafa reynt að halda hér fram um þetta mál og sérstaklega hafa staglazt á í Morgunblaðinu, að með þessu frv. sé verið að ráðast gegn samtökum framleiðenda, þó að það sé beinlínis boðað í frv. og margyfirlýst hér í umr. um málið á Alþ., að til þess er beinlínis ætlazt, að samtök framleiðenda hafi forgangsrétt til þess að fá útflutningsleyfi og geta annazt sölu á framleiðsluvöru sinna meðlima. Samt er verið að segja, að með þessu frv. sé verið að ráðast gegn samtökum framleiðenda. Af hverju þora þeir ekki að segja það, sem rétt er, að það sé verið að bjóða öllum félögum framleiðenda upp á sömu kjör? Af hverju þora þeir ekki að segja það? Hvernig stendur á því, að þeir þora ekki að segja það, sem rétt er, að það sé verið að bjóða öllum samtökum framleiðenda upp á sömu aðstöðu, ef einn þarf að sækja um útflutningsleyfi, þá skuli annar þurfa að gera það líka? Ef Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna þarf að sækja um útflutningsleyfi og samþykki hverju sinni fyrir þeim sölum, sem hún gerir á frosnum fiski, þá er Richard Thors heldur ekkert of góður til þess að gera það í sambandi við þá sölu á saltfiski, sem hann kann að hafa með höndum. Og ef Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna þarf að leggja sín spil á borðið fyrir ríkisstjórnina um það, hvernig unnið hefur verið að sölu á frosnum fiski, við hvaða verði og með hvaða skilmálum og hvernig að því hefur verið staðið, þá geta þeir líka, sem hafa með sölu á saltfiski að gera, tekið á sig þá skyldu að leggja fram sín gögn, þegar þeir eru spurðir. Til þess er engin ástæða, að þeir séu undanþegnir þessu almenna eftirliti. Og það er alveg furðulegt, að þeir menn skuli vera til eftir allt það, sem á undan er gengið í þeim málum, í sambandi við alla þá tortryggni, sem upp hefur komið varðandi framkvæmd saltfisksölumálanna, að þeir skuli berjast um á hæl og hnakka og biðjast undan því að lúta sama eftirliti og aðrir verða að lúta í þessum málum. Slíkt vitanlega ætti að gefa ábendingu um það, að þeir óttist eitthvað í þessum efnum.

Svo kom hv. þm. N-Ísf. að því, að ég hefði meira að segja verið sjálfur þátttakandi í félagssamtökum saltfiskframleiðenda. Ég segi aðeins: Hvar annars staðar gat ég verið, fyrst við áttum og höfðum með að gera sölu á þúsundum tonna af saltfiski? Hvar gátum við annars staðar verið en í þeim samtökum, sem lögum samkv. höfðu allan rétt til þess að selja allan okkar saltfisk? Og eins og ég hef einnig lýst hér yfir í umræðum um þetta mál áður á þingi, þó að það skapaðist möguleiki t.d. fyrir það fyrirtæki, sem ég stjórnaði, til þess að fara með sína saltfisksölu sjálft, þá mundi ég ekki vinna að því að segja það fyrirtæki úr samtökum saltfiskframleiðenda. Ég hef sagt það: Ég álít, að þessi samtök saltfiskframleiðenda, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, hafi margt vel gert. Jú, það hefur svo verið tekið, þegar ég hef sagt þetta, og blásið upp og sagt, að ég hafi hælt því á hvert reipi og sagt, að það væri algott. Ég er ekkert hræddur við að segja það, að ég tel, að þessi samtök hafi margt vel gert. En með því hef ég aldrei sagt, að þau hafi allt gott gert. Síður en svo. Ég veit, að þau hafa gert ýmislegt, sem ekki verður talið gott og er verulega aðfinnsluvert. En þar með óska ég ekki eftir því að rifta þessum samtökum framleiðenda, en tel, að þau geti látið sér nægja að búa við það skipulag í sambandi við sölu á saltfiski, sem önnur hliðstæð félög verða að búa í hliðstæðum greinum.

Þá vék hv. þm. N-Ísf. að því, að í grg. frv. væri beinlínis á það minnzt, að nú yrði hverjum sem er gefinn kostur á því að sýna hæfni sína við hliðina á sölusamtökum framleiðenda. Það er rétt, að með því að enginn fær einkasöluaðstöðu, þá vitanlega getur hver sem er sótt um það til réttra útflutningsyfirvalda að óska eftir því að taka að sér sölu og útflutning sjávarafurða. Það getur hver sem er fengið að sanna það, hvað hann kemst langt. Með þessu er ekki sagt, að það eigi að veita öllum leyfi til þess að taka þátt í útboðum á fiski, hverjum þeim sem til útflutningsstjórnarinnar sækir. Síður en svo. Ég hef einmitt lýst því yfir, að ég tel rétt að reyna að hafa hóf í því, hvað margir aðilar verða í hverri grein, sem taka þátt í sölunni, og gæta vel að því, að þar sé ekkert öngþveiti skapað. En hins vegar tel ég nokkra samkeppni í þessum efnum heilbrigða og góða.

Þá minntist hv. þm. N-Ísf. á það, sem hér hefur verið reynt að halda fram í þessum umr. áður, að það sýndi bezt, hversu ánægðir menn væru með söluna á saltfiskinum og S.Í.F., að meira að segja S.Í.S., sem annars vildi komast inn í útflutninginn, hefði nú falið Sölusambandinu umboð sitt til þess að selja alla sína framleiðslu á þessu ári. Og í Nd. orðaði formaður Sjálfstfl. þetta á þá lund, að allir saltfiskeigendur í landinu hefðu nú vottað S.Í.F. sérstakt traust með því að fela því að selja alla sina framleiðslu á þessu ári, hvað sem liði öllum lögum, og þetta hefði verið gert á þann hátt, að þeir hefðu ekki tilkynnt Sölusamlaginu fyrir 1. marz, að þeir ætluðu að ganga úr samtökunum.

Ég vitanlega leiðrétti þennan misskilning í Nd., og ég þarf að leiðrétta hann hér aftur í Ed., að þetta er vitanlega algerlega rangur málatilbúnaður og sýnir á engan hátt það, sem hv. þm. N-Ísf. vill vera láta. Það er að vísu rétt, ég kannast við það, að það er til lagaákvæði hjá Sölusambandinu, sem segir, að fyrir 1. marz skuli félagsmenn tilkynna, hvort þeir ætli að fela samtökunum umboð til þess að selja sína framleiðslu. En þetta atriði, sem hér á að nota til þess að sanna mönnum, hve allir dáist nú að þessu skipulagi og séu ánægðir með samtökin, hefur aldrei verið notað í framkvæmd. Enginn aðili hefur snúið sér á undanförnum árum til Sölusambandsins fyrir 1. marz og tilkynnt því neitt í þessum efnum. Og Sölusambandið hefur hvorki nú né áður snúið sér til framleiðenda til þess að spyrja þá um neitt í þessum efnum. Þetta hefur verið algerlega dauður lagastafur í þessum samtökum. Og því er það, að þó að enginn hafi nú tilkynnt, að hann ætli að ganga úr samtökunum fyrir 1. marz, þá segir það ekkert um afstöðu til þessa frv. eða til framkvæmdanna hjá S.Í.F. á sölunni á saltfiskinum.

Ég skal aðeins minna á það, að það liggur þannig fyrir, að ekki verður um deilt, að í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda hafa verið uppi mjög skiptar skoðanir um marga hluti á undanförnum árum, og það hefur komið fyrir, að allstórir aðilar hafa beinlínis gert kröfu til þess, að skipulagi samtakanna yrði algerlega breytt. Síðast var þetta frá hálfu Sambands ísl. samvinnufélaga, sem beinlínis hótaði því að ganga úr samtökunum, ef það fengi ekki mjög verulega breytingu þar á framkvæmd mála. Þetta endaði svo með því samkomulagi, sem frægt er orðið, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem hefur einkarétt á að selja allan saltfisk úr landinu, varð að framselja þennan rétt sinn til Sambands ísl. samvinnufélaga að nokkru leyti, þannig að Samband ísl. samvinnufélaga fer eitt með sölu á saltfiski í nokkrum þar til greindum löndum. Þegar t.d. við óbreyttir saltfiskframleiðendur þurftum að selja saltfisk til Danmerkur, þá var það komið út á áhrifasvæði Sambands ísl. samvinnufélaga, og við þurftum bæði að greiða umboðslaun til Sambands ísl. samvinnufélaga og til S.Í.F., sem hafði framselt Sambandinu þetta umboð að nokkru leyti. Það, sem þarna garðist, sýndi auðvitað mjög ljóslega, að það voru uppi verulega skiptar skoðanir um þetta skipulag, og það hefur komið þar fram í miklu fleiri tilfellum en þessu.

Ég skal svo láta þessu lokið, þar sem komið er fram yfir réttan fundartíma, enda geri ég ráð fyrir því, að betra tóm skapist síðar, þegar n. hefur fengið að fjalla um málið, og ég teldi æskilegast, ef hægt hefði verið að koma málinu til nefndar, en þá ætti að skapast aðstaða til þess að ræða ýtarlegar um einstök atriði þessa máls.