15.03.1957
Efri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst fyllilega eðlilegt, að hæstv. sjútvmrh. leggi sig fram um að verja það afkvæmi sitt, sem hér liggur fyrir til umr. Það er í samræmi við mannlegt eðli, að menn snúast til varnar, þegar sótt er að afkvæmum þeirra. Hitt finnst mér öllu óvirðulegra, að hæstv. ráðh. skuli í vörn sinni grípa til rakalausra ósanninda um staðreyndir, sem honum sem sjútvmrh. ættu að vera kunnari en flestum öðrum.

Hæstv. ráðh. upplýsir það í ræðu sinni hér í gær, þegar hann er að sýna fram á það, hversu illa hafi verið sóttur fundur Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem um þetta mál ræddi, að heildarframleiðsla saltfisks á árinu 1956 hafi verið 50 þús. tonn og að útflutningurinn hafi numið þessu magni. Þetta endurtekur blað hæstv. ráðh. í dag. Jafnhliða lýsti ráðh. því yfir, að umboðsmenn fyrir aðeins um 25 þús. tonn af saltfiski hefðu verið mættir á fyrrgreindum fundi. Mætti af þessu marka, hversu illa fundurinn hefði verið sóttur, og til viðbótar mætti benda á það, sagði hæstv. ráðh., að heilir landshlutar hefðu engan fulltrúa átt á þessum fundi.

Hver skyldi nú sannleikurinn vera í þessu? Hann er í fyrsta lagi sá, að hæstv. sjútvmrh. leyfir sér að fara með rangar tölur um saltfiskútflutninginn. Hann segir, að hann hafi á s.l. ári numið 50 þús. tonnum. Staðreyndin er hins vegar sú, að samkvæmt skýrslum Fiskifélags Íslands, sem sjútvmrh. hefur vissulega ekki síður aðgang að en aðrir, hefur heildarframleiðslan á árinu orðið 39500 tonn. Frá því dragast svo 15 hundruð tonn, sem fara til innanlandsneyzlu, þannig að heildarútflutningurinn hefði átt að verða 38 þús. tonn, en frá þeirri upphæð dragast enn 1000 tonn, sem er venjuleg rýrnun, þannig að heildarútflutningur á saltfiski hefur á árinu 1956 orðið 37 þús. tonn í staðinn fyrir 50 þús. tonn, eins og hæstv. ráðh. upplýsti.

Ég spyr nú bara: Hvernig stendur á því, að hæstv. ráðh. er að grípa til svona ósanninda um staðreyndir, sem hver einasti maður í landinu og að sjálfsögðu hver einasti þm. getur sannfært sig um með því að fletta upp í opinberum skýrslum að eru rangar? Ég verð að segja það, að málstaður hæstv. ráðh. er vissulega ekki góður, þegar hann þarf í vörn sinni að grípa til slíkra bragða. Sannleikurinn er auðvitað sá, að á þessum fundi S.Í.F., þar sem mótmælt var harðlega frv. ráðh., voru mættir fulltrúar fyrir saltfiskframleiðendur í öllum landshlutum, og þar voru mætt atkv. fyrir 27 þús. tonn af þessum 37 þús. tonnum, sem út voru flutt á árinu. Má segja, að þessi fundur hafi verið eins vel sóttur og aðalfundur fyrirtækisins er að jafnaði.

Það er þess vegna fullkomin blekking hjá hæstv. ráðh., þegar hann er að burðast víð að halda því fram, að aðeins lítill hluti af saltfiskeigendum hafi verið mættur á þessum fundi S.Í.F., þar sem afstaða var tekin til afkvæmis hæstv. ráðh. og frv. harðlega mótmælt.

Ég taldi rétt að upplýsa þetta hér, vegna þess að hæstv. ráðh. lagði svo mikla áherzlu á þetta, á hve veikum grundvelli þessi fundur hefði staðið og hversu þýðingarlítil þau mótmæli þess vegna væru, sem frá honum hefðu borizt og ég vitnaði til og liggja hér fyrir hv. Alþingi.

Þá gerði hæstv. ráðh. það einnig að miklu ádeiluatriði á þessi heildarsamtök saltfiskútflytjenda í landinu, að í þeim hefði um langt skeið átt sæti einn af bankastjórum Landsbankans. Ég býst við því, að hæstv. ráðh. viti, að einn af frumkvöðlum þess, að saltfiskútflytjendur mynduðu með sér samtök, þegar undirboðin og samkeppnin voru að eyðileggja íslenzkan sjávarútveg, var einmitt einn af bankastjórum Landsbankans, Magnús heitinn Sigurðsson, sem var framsýnn og vitur maður og hafði mikla reynslu á sviði útflutningsmála. Hann var kosinn í fyrstu stjórn S.Í.F. og svo lengi sem honum entist líf og heilsa. Það var talið vel fara á því, að þessi brautryðjandi um þessi þýðingarmiklu félagasamtök útvegsins ætti sæti í stjórn þeirra. Síðan var talið ekki óeðlilegt, að einn af bankastjórum Landsbankans ætti sæti í stjórninni, og fyrst á eftir Magnúsi Sigurðssyni var Pétur heitinn Magnússon valinn í stjórnina og siðan Jón Maríasson. Nú gerir hæstv. sjútvmrh. það að stórkostlegu ádeiluatriði á samtökin, að þessi háttur skuli hafa verið á hafður. Ég segi enn: Þessi hæstv. ráðh. hlýtur að vera í hraki með rök, þegar hann grípur til annarra eins staðhæfinga og þeirra, sem hann lét sér um munn fara í sambandi við setu eins bankastjóra frá þjóðbankanum í stjórn þessara samtaka.

Þá gerði hæstv. ráðh. það einnig að ádeiluatriði á sölusamtök saltfiskframleiðenda, að fáir sjómenn eða engir ættu aðild að samtökunum.

Í fyrsta lagi er þetta nú algerlega rangt. Fjöldi sjómanna, sem eiga báta og verka saltfisk, eru aðilar að S. Í. F., — það veit ég að hæstv. ráðh. veit, — og það jafnvel menn úr hans landsfjórðungi. En í öðru lagi er þess að geta, að sjómennirnir hafa ekki fyrst og fremst hagsmuna að gæta í sambandi við þessi samtök. Það er ekki fyrst og fremst eðlilegt, að þeir fyllí þessi samtök, þeir gæta hagsmuna sinna í sambandi við sjávarútveginn, sem að sjálfsögðu eru ríkir, á öðrum stöðum og í öðrum samtökum. Sjómennirnir eru nefnilega búnir að selja fiskinn, og þeir eru ekki lengur eigendur að honum, þegar kemur til kasta þessara sölusamtaka að selja fiskinn úr landi. Engum kemur til hugar að krefjast áhrifa eða atkvæðisréttar kaupafólksins, kaupakonunnar eða kaupamannsins, um ráðstöfunarrétt bóndans yfir afurðum sínum. Á sama hátt er ekki eðlilegt, að sjómaðurinn, sem búinn er að selja fiskinn, hafi fyrst og fremst áhrif í þessum samtökum.

Þessi ádeila hæstv. ráðh. á samtök saltfiskseljenda, útflytjenda, eru þess vegna harla veigalítil.

Hæstv. ráðh. blandaði inn í þetta mál afstöðu Sjálfstfl. til lausnar á vandamálum sjávarútvegsins, sem hæstv. ríkisstj. hefði beitt sér fyrir fyrir síðustu áramót. Hvaða „lausn“ á hæstv. ráðh. við? Á hann við þau skattafrv., sem afgr. voru og flutt af hæstv. ríkisstj. hér fyrir jólín? Það er líklegast. Engum hefur komið til hugar að halda því fram, nema þá hæstv. ráðh., að þar væri um nokkra „lausn“ að ræða á vandamálum sjávarútvegsins. Hæstv. ríkisstj. hafði að vísu lofað „varanlegum úrræðum“ og „nýjum leiðum“ til lausnar á vandamálum útflutningsframleiðslunnar. Hvorki þessar „nýju leiðir“ né „varanlegu úrræði“ hafa sézt hér á hv. Alþingi. Það eina, sem gerzt hefur, er það, að flutt hafa verið frv. um gífurlegar nýjar skattaálögur á þjóðina, og hluta af því fé hefur að vísu verið varið til þess að borga hluta af hallarekstri sjávarútvegsins, togara og vélbáta. Það hefur engin „ný leið“ verið mörkuð.

Sjálfstæðismenn deildu á ríkisstj. fyrst og fremst fyrir úrræðaleysi hennar í þessum málum. Ég tók það hins vegar þvert á móti fram í ræðu, sem ég flutti hér um það mál, í hv. Ed., að að svo miklu leyti, sem stefnt væri að því að styðja útflutningsframleiðsluna með þessu frv., þá áteldi ég ekki ríkisstj. fyrir það, en ég áteldi hana fyrir hitt, að hafa heitið þjóðinni því, bæði flokkar hennar, áður en þeir mynduðu ríkisstj., og eins eftir að ríkisstj. var mynduð, að leggja fram till. um nýjar leiðir og varanleg úrræði til lausnar erfiðleikum sjávarútvegsins, en svíkja svo þetta allt saman, koma með nákvæmlega ekki neitt nema nýjar skattaálögur, sem nema hundruðum milljóna króna á almenning, hafandi þó í höndunum yfirlýsingu frá þeim samtökum, sem stjórnin leggur mikið upp úr að hafa gott samstarf við, Alþýðusambandi Íslands, um það, að ekki kæmi til mála, að nýjar álögur verði lagðar á almenning til þess að afla fjár til styrktar framleiðslunni.

Alþýðusamband Íslands lýsti því yfir fáum vikum áður en hæstv. ríkisstj. lagði fram tolla- og skattafrv. sín, að ekki kæmi til mála, að lagðar yrðu stórkostlegar nýjar byrðar á þjóðina til þess að afla tekna til styrktar sjávarútveginum, og meira að segja sumir hæstv. ráðh. stóðu að því að semja þessa ályktun. Hæstv. félmrh., sem einnig er forseti Alþýðusambands Íslands, kom með þessa ályktun í vasanum upp í stjórnarráð á fund til hæstv. ríkisstj. og segir: Gerið þið svo vel. Þetta segir Alþýðusambandið. — Og svo sezt þessi hæstv. ráðh. með hæstv. sjútvmrh. og öðrum ráðh. hæstv. ríkisstj. og semur frv. nákvæmlega um það, sem Alþýðusambandíð var að mótmæla. Svo segjast þessir menn vera í sérstaklega nánum tengslum við verkalýðssamtökin í landinu og grobba af því í tíma og ótíma.

Hæstv. ráðh. sagði hér í ræðu sinni í gær, þegar ég lýsti þeirri skoðun minni, að þetta frv. væri liður í baráttu kommúnista fyrir auknum áhrifum á útflutningsverzlunina, að það væri ótrúlegt, að sjútvmrh., þ.e.a.s. hann, væri að flytja frv., sem stefndi að því að þröngva kosti sjávarútvegsins, það væri fyrst og fremst hlutverk sitt að styðja sjávarútveginn, greiða götu hans og þess fólks, sem að honum starfaði. Vissulega er þetta hlutverk hans. En hefur þetta ekki verið hlutverk sjútvmrh. á undanförnum árum, þó að hann hafi ekki setið í ríkisstjórn? Hann hefur verið kosinn á þing af sjávarútvegskjördæmi, mörgum sjómönnum og útvegsmönnum og verkafólki í kaupstöðum og sjávarþorpum. En hver hefur afstaða hæstv. ráðh. verið til þeirra úrræða, sem fyrrverandi ríkisstjórnir hafa gripið til? Það kemur fyrst í huga minn afstaða hæstv. sjútvmrh. veturinn 1950, þegar breytt var skráningu á gengi ísl. krónu, sem var ákaflega ríkt hagsmunamál útvegsins, því að hann hafði þá á undanförnum árum verið neyddur til þess að selja þann erlenda gjaldeyri, sem hann aflaði, á gengi, sem var allt annað en hið raunverulega gengi krónunnar.

Hv. þáv. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, vissi mætavel, að þetta var langlíklegasta leiðin til þess að bæta aðstöðu útgerðarinnar, og hann fór ekki í neinar felur með þá skoðun sína við menn, þegar hann var staddur annars staðar en í ræðustól á Alþingi. En á Alþingi barðist hann eins og ljón gegn þessari nauðsynlegu leiðréttingu, sem útvegurinn þurfti á að halda, bæði togaraútgerðin og vélbátaútgerðin. Hann var ekki sjálfum sér samkvæmari þá en það, að hann lét síg hafa þetta.

Nú segist hæstv. ráðh. vera að berjast fyrir hagsmunum útvegsins, en flytur svo frv., sem öll samtök sjávarútvegsframleiðslunnar í landinu mótmæla harðlega. Ég býst við, að útvegsmenn geti sagt gagnvart hæstv. ráðh. eins og einn vitur maður sagði fyrir allmörgum öldum: „Guð varðveiti mig fyrir vinum mínum.“ Guð varðveiti sjávarútveginn fyrir þeim vinum hans, sem þannig haga stuðningi sínum við hann.

Svo grípur hæstv. ráðherra til þess úrræðis, þegar hann fær hvern hóp manna á fætur öðrum frá samtökum framleiðenda, að fullyrða, að Sjálfstfl. hafi náð einkaaðstöðu sér til handa í þessum samtökum, eins og hæstv. ráðh. orðaði það.

Því fer víðs fjarri, að Sjálfstfl. eða sjálfstæðismenn meðal útvegsmanna og sjómanna standi einir að þessum mótmælum, eins og ég benti á í gær. Og ef hæstv. ráðh. vill líta á útdrættina úr umsögnum þessara samtaka, sem fylgja sem fskj. með nál. sjútvn. neðri deildar, þá sér hann mörg nöfn manna, sem hingað til hafa a.m.k. ekki verið taldir í Sjálfstfl.

Ég veit t.d. ekki til þess, að Valtýr á Rauðuvík við Eyjafjörð hafi verið talinn sjálfstæðismaður, þó að hann undirriti ein mótmælin. Ég veit heldur ekki til þess, að Óskar Jónsson í Hafnafirði, einn af aðalleiðtogum Alþfl. þar, hafi verið talin tryggur stuðningsmaður Sjálfstfl., eða hefur hæstv. sjútvmrh. upplýsingar um það?

Nei, ég álít, að það væri sæmra fyrir hæstv. ráðh. að draga úr gífuryrðum sínum og fullyrðingum í þessu máli, reyna að gera tilraun til þess að halda sér við staðreyndir og við sannleikann í málinu, og hann er sá, að útvegsmenn úr öllum flokkum, jafnvel úr kommúnistaflokknum, hafa risið upp gegn þessu yfirborðsfrv. ráðh. og mótmælt því harðlega.

Svo reynir hæstv. ráðh. að hengja sig í það, að Alþýðusamband Íslands hafi ekki mótmælt þessu, heldur mælt með því. En hvaða rök færir stjórn Alþýðusambandsins fyrir því, að hún mæli með frv. Svar hennar við fsp. sjútvn. Nd. um málið er eitthvað 5 línur. Án þess að færa ein einustu rök fyrir því, að þetta sé hagkvæmara fyrir útveginn, fyrir sjómenn og fyrir efnahag þjóðarinnar í heild, lýsir stjórn Alþýðusambandsins því yfir, að hún sé samþykk frv. Flokksbróðir hæstv. sjútvmrh. í hæstv. ríkisstj. gerir þessum flokksbróður sínum þann greiða, að hann skrifar upp á þennan víxil fyrir hann, en sér sér þó ekki fært að láta fylgja meira en 5 línur án nokkurs rökstuðnings fyrir því, að málið sé skynsamlegt og samrýmist hagsmunum framleiðenda.

Þá segir hæstv. ráðh., að Fiskifélag Íslands hafi ekki mótmælt frv. Ég þekki nú hæstv. sjútvmrh. frá því, að við vorum í skóla, og ég veit, að hann er greindur maður og mjög vel læs. Þess vegna er hann að gera sér upp óþarfa heimsku, þegar hann kemur með svona staðhæfingar. Ég las upp þessi ummæli Fiskifélagsins í gær, og ég skal gera það aftur fyrir minn gamla skólabróður honum til upplýsingar. Ég er alltaf óþreytandi í að vilja honum vei. Í svari Fiskifélagsins segir á þessa leið í niðurlaginu, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem segir í athugasemdunum, er meginhluti útflutnings fiskafurðanna í höndum samtaka framleiðenda sjálfra eða aðila, sem studdir eru af þeim, og hefur svo verið um langa hríð. Telja verður, að þetta fyrirkomulag hafi sannað gildi sitt, enda er ekki kunnugt um annað en að framleiðendur yfirleitt hafi talið það henta sér bezt.“

Ég fæ nú ekki betur séð en að í þessum ummælum sé tekinn af allur vafi um það, hver afstaða Fiskifélagsins er í þessu máli. (Gripið fram í: Þið ættuð að lesa þetta allt saman.) Það náttúrlega getur orðið nauðsynlegt að gera það, ef hæstv. ráðh. hefur mislesið þetta allt, allar þessar álítsgerðir, álíka eins og þessa frá Fiskifélagi Íslands. En ég vil nú ekki þreyta hæstv. forseta með því, þó að ég kynni gjarnan að vilja leggja þann kross á hæstv. ráðh.

„Telja verður, að þetta fyrirkomulag hafi sannað gildi sitt, enda er ekki kunnugt um annað en að framleiðendur yfirleitt hafi talið það henta sér bezt.“ Eftir þetta þarf vissulega enginn að fara í neinar grafgötur um afstöðu Fiskifélags Íslands. Hún er alveg skýlaus. Þeir telja þetta frv. með öllu óþarft, því að það fyrirkomulag hafi sannað gildi sitt, sem nú ríki í þessu máli.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni hér í gær, að sjálfstæðismenn hefðu verið að hvetja framleiðendur til þess að fara í stríð við ríkisstjórnina, og mér skildist, að framleiðendur hefðu að einhverju leyti orðið við þessari hvatningu sjálfstæðismanna um að fara í stríð við ríkistjórnina. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi þarna snúið staðreyndum alveg gersamlega við. Framleiðendur sjávarafurða hafa ekki hafið neitt stríð við hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. Hann gat þess raunar í upphafi ræðu sinnar í gær, að útvegsmenn hefðu verið mjög fúsir til samstarfs við hæstv. ríkisstj. um síðustu áramót, og ég skal ekkert hafa á móti því, að útvegsmenn hafi verið það. Það er yfirleitt eðlilegt, að hinar ýmsu atvinnustéttir þjóðfélagsins vilji hafa sem bezt samstarf við ríkjandi stjórn í landinu á hverjum tíma. Það er engin ástæða til þess fyrir stéttirnar að fara í stríð við ríkisstjórnirnar yfirleitt. Stjórnir sitja yfirleitt á grundvelli kosningaúrslita, lýðræðislegra kosningaúrslita, og atvinnustéttirnar verða að sætta sig við það.

Það, sem hins vegar hefur gerzt í þessu máli, er það, að hæstv. sjútvmrh. hefur farið í stríð við framleiðendur. Hann hefur flutt frv., sem hefur vakið tortryggni og ugg allra sjávarútvegsframleiðenda í öllum landshlutum og í öllum flokkum. Þess vegna liggja þessi mótmæli fyrir, sem ég las upp úr hér í gær og ég hef lítillega vitnað til í dag, vegna þess að hæstv. sjútvmrh. hefur hafið illdeilur við framleiðendur. Svo kemur hæstv. ráðh. og ætlar að fara að telja manni trú um það hér, að Sjálfstfl. hafi látið framleiðendur hefja illdeilur við stjórnina. Heldur hæstv. ráðh. því fram, að þessi mótmæli hefðu komið fram, ef hann hefði ekki flutt þetta frv.?

Sá veldur miklu, sem upphafinu veldur. Það er vegna þess, að þetta frv. er um að skerða áhrif framleiðenda — sjálfsögð og eðlileg áhrif framleiðenda — á skipulag afurðasölu þeirra, sem samtök þeirra hafa sent hæstv. ríkisstj. og Alþingi mótmæli. Það er því fljótsvarað þessari staðhæfingu hæstv. ráðh.

Það, sem hér er að gerast, í stuttu máli sagt, er það, að annar af ráðh. kommúnista í núverandi hæstv. ríkisstj. hefur tekið sér það fyrir hendur að skerða áhrif framleiðenda sjávarafurða á skipulag afurðasölumála þeirra, skipulag, sem þeir hafa sjálfir byggt upp og stundum með stuðningi og hvatningu frá ríkisvaldinu, skipulag, sem meira að segja kommúnistar hafa ekki s.l. b ár gert minnstu tilraun til þess að breyta hér á hv. Alþingi. Í staðinn fyrir það, að framleiðendur fái sjálfir að hafa úrslitaáhrif á skipulag afurðasölumála sinna, ætlar núverandi hæstv. sjútvmrh. að setja upp pólitískt bákn, sem á að verða alls ráðandi yfir útflytjendum sjávarafurða. Hann hefur í hótunum í grg. þessa frv., sem hér liggur fyrir, hótunum, sem eru svo greinilegar og ótvíræðar, að ekki verður um villzt. Það er þetta, sem hefur knúið fram harða andstöðu, ekki aðeins sjálfstæðismanna í útvegsmannahópi og sjómanna, heldur manna úr öllum flokkum, jafnvel flokki hæstv. ráðh., en þó fæstum að sjálfsögðu þaðan.

Ég álít, að hér sé um mjög varhugaverða hraut að ræða, og ég endurtek það, að stefna okkar sjálfstæðismanna hefur á undanförnum árum verið sú og er sú enn í dag, að framleiðendur eigi að ráða sem mestu um skipulag afurðasölu sinna. Þeir hafa bezta aðstöðu til þess að vita, hvar skórinn kreppir að, þeir þekkja sjálfir bezt sína eigin hagsmuni, og þeir hafa þess vegna bezta aðstöðu til þess að halda skynsamlega á þessum málum, sem öll þjóðin á vissulega mikið undir komið að vel og skynsamlega sé á haldið.

Ég get svo að lokum ekki komizt hjá því að aðeins vekja athygli á því, hversu feiminn hæstv. sjútvmrh. virtist vera við það, þegar ég talaði um hann sem kommúnista: „Þeir menn, sem hv. þm. N-Ísf. (SB) kallar kommúnista.“ Og það var eins og hæstv. ráðh. fengi gæsahúð af hryllingi yfir því, að hann skyldi vera ávarpaður með slíkri nafngift.

Ég er alveg hissa á þessu. Ég er nú búinn, eins og ég sagði, að þekkja þennan hæstv. ráðh. frá því að við vorum unglingar. Og hann hefur aldrei skammazt sín fyrir það að vera kallaður kommúnisti. Nú roðnar hann eins og siðprúð heimasæta, þegar hann er bendlaður við kommúnista.

Jæja, þetta er kannske tákn um einhverjar innri hræringar, eitthvað stórkostlegt og merkilegt, sem er að gerast. Ég skal ekkert fullyrða um það. Menn geta leitt að því getum. En vegna þess að ég hef í sambandi við þetta mál deilt á hæstv. sjútvmrh. fyrst og fremst og einnig á hæstv. ríkisstj. fyrir handahófslegar aðfarir í sambandi við þetta mál, þá get ég ekki stillt mig um að láta í ljós gleði mína yfir því að hafa eignazt bandamann úr hinni ólíklegustu átt, þ.e.a.s. úr hópi sjálfs hæstv. sjútvmrh. Það er nú svo komið, að ekki aðeins það vonda blað Morgunblaðið fer litlum viðurkenningarorðum um núverandi hæstv. ríkisstj. og þennan hæstv. ráðh., heldur einnig blað stærsta stjórnarflokksins, „Þjóðviljinn“.

Í dag birtist grein, sem er mjög athyglisverð, einmitt um hæstv. ríkisstj., og af því að ég er ekki alveg vonlaus um, að þessi afstaða blaðsins til stjórnarinnar spretti af því, að því kunni nú að ofbjóða yfirborðshátturinn í sambandi við flutning þessa frv., sem ég hef hér verið að gagnrýna og er til umr. hér í hv. þd., þá langar mig til þess að lesa upp niðurlag þessarar forustugreinar úr stærsta stuðningsblaði hæstv. ríkisstj. og sérstöku stuðningsblaði hæstv. sjútvmrh., sem þó fær gæsahúð, ef hann er nefndur kommúnisti.

Í blaðinu er komizt að orði á þessa leið, í niðurlagi forustugreinar, með leyfi hæstv. forseta :

„Sem stendur verður ekki séð, að ríkisstj. í heild eigi til þá stefnufestu, sem ein endist til árangurs. Einstakir ráðherrar virðast líta hvikulum sjónum í ólíklegustu áttir. Það er sannarlega tími til kominn, að stjórnin haldi á nýjan leik einarðlega í þá stefnu, sem mörkuð var í upphafi“ (Sjútvmrh.: Þetta er nú fallega mælt.) Það er meira en fallega mælt. Þetta virðist vera mælt, aldrei þessu vant, af miklu raunsæi. Og ég vænti, að hæstv. ráðh. eftir þær umr., sem farið hafa fram um þetta mál hér í hv. þd., hugsi nú sitt ráð, geri að nýju tilraun til þess að vera sjálfum sér samkvæmur, þannig að hann verði ekki talinn í hópi þeirra „einstöku ráðherra, sem virðast líta hvikulum sjónum í ólíklegustu áttir“ Ég vænti, að hæstv. ráðh. verði við þessum tilmælum mínum, og ef hann verður það, þá mun hann sjá, að þetta frv. er óburður, sem bezt fer á að dagi uppi og ekki miðar að því, að betur verði gætt hagsmuna sjávarútvegsframleiðenda í landinu, heldur þvert á móti að hinu, að setja á stofn pólitískt bákn, sem engum verður til þurftar og að lokum mun verða mjög lélegur minnisvarði um sjávarútvegsmálaráðherratíð hæstv. ráðh., sem ég að öðru leyti engu spái um hversu löng kann að verða.