26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Frsm. minni hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur ekki orðið sammála um frv. það, sem hér liggur fyrir:

Meiri hl. n., hv. þm., sem styðja núverandi ríkisstj., leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl., fulltrúar Sjálfstfl., leggur til, að því verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Það skal tekið fram, að annar fulltrúi Sjálfstfl. í n., hv. þm. Vestm. (JJós), gat ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins þar sakir sjúkleika.

Enda þótt ég hafi við 1. umr. þessa máls hér í hv. þd. gert nokkra grein fyrir afstöðu minni og Sjálfstfl. til þess, tel ég þó rétt að fara enn á ný nokkrum orðum um frv. og þau rök, sem til grundvallar því liggja og hafa verið flutt af hæstv. sjútvmrh.

Hann hefur haldið því fram, að það, sem fyrst og fremst sannaði nauðsyn þessarar lagasetningar, væri mikil óánægja með núverandi skipulag á útflutningi sjávarafurða. Af því tilefni finnst mér rétt að athuga, hverjir hafi annazt stjórn afurðasölu sjávarútvegsins á undanförnum árum. Það kemur þá í ljós, að það eru fyrst og fremst samtök framleiðendanna sjálfra. Þannig hafa eigendur saltfisks falið Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda sölu á öllum útfluttum saltfiski. Framleiðendurnir hafa sjálfir byggt þessi samtök upp, og rætur þeirra liggja aftur í þeim tíma, þegar taumlaus samkeppni ógnaði hagsmunum útgerðarinnar og undirboð voru algeng og við borð lá, að saltfiskverzlun Íslendinga lamaðist og yrði undir í samkeppninni við erlenda keppinauta. Af slíku hefði að sjálfsögðu ekki leitt tjón aðeins fyrir framleiðendur fisks á Íslandi, heldur og fyrir þjóðina í heild, sem byggði afkomu sína fyrst og fremst á útflutningi sjávarafurða.

Útflutningur hraðfrysta fisksins hefur svo að segja allur verið í höndum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er byggð upp af eigendum þessara atvinnutækja. Þessi samtök voru í upphafi veik og lítils megandi, en hafa með vaxandi fiskiðnaði fært mjög út kvíarnar og eru nú í dag mjög öflug samtök framleiðenda, samtök, sem freðfiskframleiðendur standa mjög einhuga saman um. Hins vegar hefur Samband ísl. samvinnufélaga söluumboð á hraðfrystum fiski fyrir þau frystihús, sem kaupfélögin reka víðs vegar um land. Þau eru allmörg, en þó miklu færri en þau frystihús, sem eru innan vébanda Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.

Um skreiðarútflutninginn er svo það að segja, að Samlag skreiðarframleiðenda annast nú sölu á um það bil 70% af allri skreiðarframleiðslu landsmanna. Einnig hér er um að ræða frjáls samtök, sem framleiðendurnir hafa byggt upp og síðan skipað sér einhuga um.

Að því er snertir sölu á útfluttri saltsíld, þá hefur síldarútvegsnefnd séð um hana, en sú stofnun er einnig byggð upp af síldarsaltendum í samvinnu við ríkisvaldið.

Ég hef þá talið hér upp meginútflutningsvörur sjávarútvegsins. Sölu og útflutning á þeim annast í stuttu máli sagt stofnanir og samtök framleiðenda sjálfra.

Nú er það svo, að með l. frá 1940, um sölu og útflutning á vörum, og reglugerð um það efni er ríkisstj. veitt mjög víðtækt vald yfir útflutningi hvers konar framleiðsluvara landsmanna og þá einnig sjávarafurða. Hefur verið á það bent í umr. um þetta frv., að í því felist engin þau ákvæði, sem fyrrgreind lög og reglugerð feli ekki í sér. ríkisstj. þær, sem setið hafa á hverjum tíma í s.l. 11/2 áratug, hafa hins vegar ekki beitt því valdi, sem í þessum l. felst, til þess að taka ráðin af framleiðendum um sölu og útflutning afurða þeirra, heldur hafa þær haft samvinnu við samtök framleiðenda og talið skynsamlegast að efla þau og láta þau ráða sem mestu um þessi hagsmunamál sín. Hygg ég, að varla nokkrum manni geti blandazt hugur um það, að sá háttur sé skynsamlegri en hinn að taka fram fyrir hendur framleiðendanna, sem mestra hagsmuna hafa að gæta og mesta reynslu hafa á þessu sviði. Þeir hafa sjálfir byggt samtök sín upp til þess að annast afurðasöluna og kunna gleggst skil á því, hvaða ályktanir eigi að draga af þessari reynslu.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, og í grg. þess er það greinilega tekið fram, að einn höfuðtilgangur þess sé að skerða það frjálsræði, sem framleiðendur hafa búið við um uppbyggingu félagssamtaka sinna. Það er skoðun minni hl. sjútvn. og okkar sjálfstæðismanna yfirleitt, að þessi stefna frv. sé hin háskasamlegasta og feli ein í sér nægileg rök fyrir frávísun þess.

Af því, sem ég hef sagt nú, sést það, að sú staðhæfing sjútvmrh., að það hafi verið fyrst og fremst nauðsynlegt að flytja þetta frv. vegna óánægju með skipulag útflutningsmála undanfarin ár, fær ekki staðizt. Fyrir Alþingi liggja nú enn fremur umsagnir frá öllum þeim aðilum, sem haft hafa nokkur afskipti af afurðasölu sjávarútvegsins undanfarin ár. Eru það samtals 10 aðilar. Má segja, að a.m.k. einn þeirra hafi ekki haft afskipti af afurðasölu sjávarútvegsins, en engu að síður taldi sjútvn. hv. neðri deildar rétt að leita álíts þessa aðila, þ.e.a.s. stjórnar Alþýðusambands Íslands. En aðeins þessi aðili, þessi eini aðili, stjórn Alþýðusambandsins, mælir með samþykkt frv. í bréfi, sem er aðeins fjórar línur að lengd. Í þessu bréfi er ekki gerð minnsta tilraun til þess að rökstyðja þá skoðun stjórnar A.S.Í. að skynsamlegt sé að samþykkja þetta frv. Stjórn þessara víðtæku launþegasamtaka gerir ekki einu sinni minnstu tilraun til þess að færa þeim orðum sínum stað, að skynsamlegt sé að samþykkja frv. Það getur því varla verið mikið leggjandi upp úr umsögn þess aðila um þetta frv.

Samband ísl. samvinnufélaga mælir ekki með samþykkt frv., en lýsir því hins vegar yfir, að það telji heppilegast, að minnst tveir útflytjendur séu löggiltir til að hafa á hendi útflutning á öllum sjávarafurðum. Í áframhaldi af því má benda á það, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur á þessu ári falið Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda útflutning á öllum sínum saltfiski, og hafa þá allir saltfiskframleiðendur í landinu falið S.Í.F. að annast útflutning fyrir sig á þessu ári.

Ég tel það ekki djarfa ályktun hjá mér, sem ég dreg af þessari staðreynd, að þetta sýni, að framleiðendur, eigendur saltfisks í landinu, telji, að þessi samtök hafi gætt vel hagsmuna þeirra á undanförnum árum og að það skipulag, sem samtökin eru byggð upp um, sé gagnlegt og að ekki séu líkur til þess, að með þessu frv., ef að lögum yrði, yrði hagsmuna þeirra gætt betur en með því skipulagi, sem nú ríkir og framleiðendur hafa sjálfir sett á laggirnar.

Loks er á það bent í umsögn síldarútvegsnefndar, að hún telji hagkvæmast, að sala og útflutningur síldar ver$i framvegis, eins og verið hefur, í höndum eins aðila, og mótmælir nefndin því, að frá þeirri skipan verði horfið.

Allir hinir 7 aðilarnir, sem ég skal ekki telja hér upp að þessu sinni, — það hefur verið gert áður, — mæla gegn því, að frv. verði samþykkt, og leiða rök að því, að það sé mjög hættulegt fyrir útflutningsverzlun þjóðarinnar að fara út á þá braut, sem rætt er um í grg. frv.

Í þessu frv. og í grg. felst hótun við framleiðendur og samtök þeirra, hótun um það að láta þau ekki hafa það frjálsræði að hafa afurðasöluna á sínum höndum, sem þau hafa notið undanfarin ár, þrátt fyrir það mikla vald, sem ríkisvaldið hefur haft í l. frá 1940. Það er álit minni hl. sjútvn., að það sé hið mesta glapræði af ríkisvaldinu að virða mótmæli allra þessara samtaka, allra félagssamtaka og stofnana sjávarútvegsins, að vettugi og samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir.

Að minni hyggju hefur reynslan sýnt og sannað, að öruggasta leiðin til þess að ná hagstæðu verði fyrir íslenzkar sjávarafurðir er að láta framleiðendurna sjálfa um að annast söluna, um að gæta sinna eigin hagsmuna. Og þeir hafa valið þann kostinn að láta söluna á erlendum markaði vera á sem fæstra höndum. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að á sama hátt og samkeppni um innflutninginn til landsins sé nauðsynleg og sjálfsögð, þá geti samkeppni margra útflytjenda um sölu á einni og sömu vöru á sama erlenda markað oftast verið skaðleg og geti leitt til undirboða og verðfellingar. Og það er einmitt þetta, sem samtök framleiðendanna óttast og benda rækilega á í umsögnum sínum um frv.

Þegar Alþingi tekur afstöðu til þessa frv. og boðskaps hæstv. sjútvmrh. í sambandi við það, verður það fyrst og fremst að hafa þetta í huga.

Það skipulag, sem nú ríkir í afurðasölumálunum, er byggt upp af framleiðendum sjálfum og lýtur þeirra stjórn. Því fer víðs fjarri, að hér sé um að ræða einhverja sérhagsmunaklíku, sem einna helzt sé byggð upp af einum pólitískum flokki, eins og hv. frsm. meiri hl. sjútvn. vildi vera láta í framsöguræðu hér áðan.

Hv. 8. landsk. sagði, að andstaða sjálfstæðismanna gegn þessu frv. væri „sjúkleg“. Þetta er hinn mesti misskilningur. Andstaða sjálfstæðismanna gegn þessu frv. byggist fyrst og fremst á virðingu þeirra fyrir reynslunni og þeirri skoðun þeirra, að framleiðendurnir sjálfir eigi að fá að ráða skipulagi afurðasölumála sinna.

Umsagnir framleiðendasamtakanna og fyrrgreindra stofnana sjávarútvegsins bera það einnig með sér, að þau telja þetta skipulag hafa reynst vel og vilja, að það gildi áfram, þangað til reynslan hefur sannað, að annað henti betur.

Að lokum vil ég svo benda á það, sem ég einnig nefndi við 1. umr. þessa máls, að innan fyrrgreindra sölusamtaka og stofnana sjávarútvegsins, sem látið hafa í ljós álit sitt um þetta mál, eru menn — útvegsmenn og sjómenn — úr öllum hinum pólitísku flokkum í landinu. Engu að síður hafa allir þessir menn orðið sammála um afstöðuna til þessa frv, Þeir hafa allir mótmælt því, hvar í flokki sem þeir hafa staðið, hvort sem þeir hafa verið sjálfstæðismenn, Alþýðuflokksmenn, framsóknarmenn eða jafnvel kommúnistar.

Þetta sprettur af því, að í þessum almennu samtökum framleiðenda líta menn fyrst og fremst á heill, heiður og velferð sinnar atvinnugreinar, sinnar stéttar, en láta pólitíska togstreitu síður vaða uppi. Þess vegna er það, að menn úr öllum flokkum hafa ekki hikað við að sameinast í andmælunum gegn þessu frv., sem þó er flutt hér af hæstv. ríkisstj., en fyrst og fremst fyrir forustu og frumkvæði hæstv. sjávarútvegsmálaráðherra.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé hið mesta hættuspil og raunar glæfraspil fyrir þessa litlu þjóð að gera útflutningsverzlun sína og hin þýðingarmestu mál þannig að pólitísku bitbeini. Okkur getur greint á um margt og hlýtur að greina á um margt, en við verðum að gæta þess að kunna að setja deilum okkar einhver takmörk. Og það verða að vera til svið, sem eru friðhelg fyrir hinum pólitísku togstreitum og fyrir hinum hörðu deilum. Ég álít, að framleiðendur úr hinum ýmsu stjórnmálaflokkum hafi verið þroskaðri en hv. Alþingi í þessum efnum. Þeir hafa staðið sameinaðir um sín samtök á grundveill sinnar reynslu, á sama tíma sem hæstv. ríkisstj. hefur ætt út í það fyrirhyggjulaust að flytja frv. það, sem hér liggur fyrir, fyrst og fremst til þess að styrkja aðstöðu sína pólitískt og ná sér niðri á pólitískum andstæðingum, því að það hefur engum getað dulizt, sem heyrt hefur málflutning hæstv. sjútvmrh. fyrir þessu máli, hver tilgangur hans hefur verið með því. Hann hefur ekki getað fært nein rök fyrir því, að það, sem hann stefnir að með þessu frv., mundi tryggja hagsmuni útvegsmanna og sjómanna. Hann hefur ekki heldur getað kveðið niður þau rök, sem samtök framleiðendanna sjálfra hafa lagt fyrir Alþ. í álitsgerðum sínum og prentuð hafa verið og legið fyrir í nefndarálitum. Það er aðeins einn sterkur, þungur undirtónn hjá honum, það er hin pólitíska nauðsyn fyrir hann og hans flokk og kannske fleiri stjórnarflokka til aukinna pólitískra ítaka um málefni útflutningsframleiðslunnar og sjávarútvegsins.

Að athuguðum öllum þeim rökum, sem ég hef dregið fram í minnihlutaáliti mínu, er það till. minni hl., að þessu frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. En verði hún felld, mun ég flytja brtt. við frv. við 3. umr. þess. Sú brtt. mun fyrst og fremst miða að því, að Alþ. kjósi þá nefnd, sem gert er ráð fyrir að skipuð verði í frv.

Það eru aðeins örfá atriði í ræðu hv. 8. landsk.; frsm. meiri hl., sem ég vildi gera nokkrar athugasemdir við, en ég vil skýra hæstv. forseta frá því, að ég geri ráð fyrir, að það geti dregizt nokkuð fram yfir venjulegan fundartíma, að ég ljúki máli mínu. (Forseti: Ætli það sé þá ekki bezt að fresta því?) Ef hæstv. forseti telur það skynsamlegra, þá er ég reiðubúinn til þess. [Fundarhlé.]

Ég skal ekki ásaka hæstv. forseta fyrir það, að hv. frsm. sjútvn. er fjarstaddur, þegar umr. fer fram, en ég verð að telja það mjög vítaverð vinnubrögð af hálfu hv. meiri hl. og hæstv. ríkisstj., að hvorki frsm. sjútvn. né hæstv. sjútvmrh. skuli vera viðstaddur, þegar rætt er um þetta þýðingarmikla mál, þó að þeir hafi verið hér viðstaddir í upphafi 2. umr.

Hv. 8. landsk. þm., frsm. meiri hl., flutti langa og allvel samda ræðu fyrir hönd meiri hl. En málstaður hans var slæmur, og þá duga góðar umbúðir lítt, og honum tókst ekki að berja í þá bresti, sem í málinu voru eftir umr. þær, sem fram fóru um það við 1. umr. í þessari hv. þingdeild.

Hv. þm. sagði, að andstaða okkar í minni hl. gegn þessu frv. væri „sjúkleg“. Ég benti á það áðan, að við sjálfstæðismenn stæðum í þessu máli við hlið framleiðendanna, sem hafa byggt upp þau samtök, sem hér er verið að ráðast gegn. Ég álft, að í þessu sé ekkert sjúklegt. Þvert á móti bendir hitt til einhvers veikleika, að hæstv. ríkisstj. skuli semja frv., sem hún stefnir að að verði að lögum, en hún getur engin rök fært fyrir að muni leiða til gagns fyrir þá atvinnugrein, sem við þessa löggjöf á að búa. Takmark löggjafar hlýtur jafnan að vera að bæta að einhverju aðstöðu þess fólks, sem við hana á að búa, eða að styrkja með því þjóðfélagið sem heild. Enginn hefur getað bent á, að það væri tilgangur þessarar löggjafar eða að slíkt takmark mundi með henni nást.

Hv. 8. landsk. þm. spurði, hvernig Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda gæti stafað hætta af þessu frv., ef allir framleiðendur væru fylgjandi núverandi skipulagi og vildu fela þessum samtökum að annast sölu afurða sinna. Vissulega getur þessum framleiðendasamtökum engu að síður stafað hætta af því, sem hér er á ferðinni, vegna þess að það á ekki að taka tillít til vilja útvegsmannanna sjálfra, það á að sniðganga algerlega álitsgerðir þeirra og reynslu þeirra og knýja fram, hvað sem hver segir, þennan pólitíska óskapnað, sem sjútvmrh. kommúnista hefur aðallega verið látinn beita sér fyrir.

Hv. 8. landsk. kvað í þessu felast „aukið frelsi“ til framleiðenda. Í hverju er það aukna frelsi fólgið, og hvernig stendur þá á því, að framleiðendur snúast jafnhart gegn þessu frv. og raun ber vitni?

Sannleikurinn í málínu er auðvitað sá, að hér er ekki um aukið frjálsræði að ræða. Þvert á móti. Boðskapur frv. og hæstv. sjútvmrh. er skerðing á því frjálsræði, sem útvegsmenn hafa notið innan sinna eigin samtaka til þess að annast sölu afurða sinna, og er á það bent í nál. sjútvn. Nd., að í grg. frv. er m.a. komizt að orði á þessa leið:

„Samkvæmt þessu fyrirkomulagi fær enginn útflytjandi einkarétt á útflutningi neinnar vörutegundar, en hverjum sem vill gefst kostur á að sýna hæfni sína og möguleika þá, sem fyrir hendi eru.“

En þetta er einmitt það, sem samtök framleiðenda hafa talið mjög hættulegt, og ekki aðeins ólíklegt til þess að bæta aðstöðu þeirra í samkeppninni á erlendum mörkuðum, heldur megi telja öruggt, að það verði til þess að skerða hagsmuni íslenzkra fiskútflytjenda að miklum mun og þar með þjóðarinnar í heild.

Varðandi svo það, að kommúnistar séu að berjast hér fyrir málstað frelsisins, þá verð ég nú að segja, að það hljómar eins og öfugmæli.

Hvar stefna kommúnistar eiginlega að auknu frelsi, og hver trúir því, að þeir geri það? Hvernig er það frelsi t.d., sem þeir hafa búið þeim þjóðum, sem þeir ráða yfir. Auðvitað verður að kveða upp dóminn á grundvelli reynslunnar, reynslu þeirra þjóða, sem búið hafa við kommúnistískt skipulag.

Við getum tekið fyrst Sovétríkin, sem kommúnisminn hefur lengst ráðið ríkjum í. Það vita allir menn, að þar er ekkert frelsi til. Þar er svartasta einræði, sem sagan getur um. Það er sama, hvert er lítið, hvort heldur er á sviði framleiðslu eða menningar, lista og vísinda. Ríkið hefur einokun á allri verzlun t.d., útflutnings- og innflutningsverzlun. (Gripið fram í.) Já, eins og t.d. síld, sem keypt er frá Íslandi. (BjörnJ: Eins og t.d. S.Í.F., sagði ég.) S.Í.F. er ekki ríkiseinokun. S.Í.F. er byggt upp af framleiðendunum sjálfum, því fólki, sem á fisk og selur fisk frá Íslandi, en það er ekki ríkið sjálft, sem hefur einokun á útflutningi á fiski frá Íslandi. Það er allt annað en gerist í hinum kommúnistísku ríkjum, þar sem ríkið sjálft er aðilinn að verzluninni og allri starfsemi.

Lítum svo á svið menningarmála. Skáldin hafa ekki leyfi til þess að yrkja eins og þeim sýnist. Enginn rithöfundur hefur frelsi til þess að semja skáldsögur eins og honum sýnist, enginn hljómlistarmaður frelsi til þess að semja hljómlistarverk að sínu skapi, enginn myndlistarmaður frelsi til þess að mála myndir eða móta í leir eða höggva í stein. Allt verður að lúta einni stjórn og stefnu. Hlutverk listarinnar í hinu sósíalistíska ríki er fyrst og fremst að boða þá stefnu, sem valdhafarnir fylgja.

Þetta er frelsi sósíalismans á hinu andlega sviði, og ég hef áður lýst því á sviði framleiðslu og atvinnumála. Hvernig ætlast svo hv. 8. landsk. þm. til þess, að hv. þm. hér trúi því, að kommúnistar séu með þessu frv. að berjast fyrir auknu frelsi?

Nei, ég álít, að hv. 8. landsk. ætti að læsa slíkar setningar niðri í skúffu sinni og taka upp einhverjar aðrar, sem eitthvað eru nær raunveruleikanum en það, að kommúnistar séu með þessu eða yfirleitt með nokkru að berjast fyrir frelsi einum eða neinum til handa.

Hv. 8. landsk. lagði mikla áherzlu á það, að stjórnir allra þessara samtaka, sem látið hafa allt sitt í ljós á þessu frv., væru „einlitar“, skipaðar sjálfstæðismönnum einum.

Í fyrsta lagi er þetta nú rangt. Þessar stjórnir eru ekki „einlitar“. Í stjórnum flestra þeirra samtaka, sem hér hafa sent umsagnir, sitja menn úr öllum hinum pólitísku flokkum. En segjum nú svo, að þetta væru einlitar stjórnir sjálfstæðismanna, réttlætti það þá ofsókn gegn samtökum framleiðenda, sem á sér stað af hálfu hæstv. ríkisstj. og fyrst og fremst hæstv. sjútvmrh.?

Það getur vel verið, að hv. 8. landsk. finnist það alveg sjálfsagt, að ef einhverri stofnun er stjórnað eingöngu af andstæðingum hans eða andstæðingum núv. ríkisstj., þá beri að segja henni stríð á hendur, hvernig sem málstaður hennar er og þeirra samtaka, sem hún stýrir. Ég er ekki á þessari skoðun, og ef við sjálfstæðismenn hefðum verið á svipaðri skoðun og hv. 8. landsk. undanfarin ár, þegar við höfum verið í stjórnaraðstöðu, þá líti margt öðruvísi út í þessu þjóðfélagi en það gerir í dag.

Vitanlega eiga samtök framleiðslunnar, hvort sem það er landbúnaðarins eða sjávarútvegsins, að hafa frelsi til þess að fela þeim mönnum trúnaðarstörf, sem þeim sýnist og þau treysta bezt. Það er alveg rétt, að margir þessara manna, þótt það séu ekki allir, eru framámenn í Sjálfstfl. En að það eigi að réttlæta þetta frv., sem miðar að því að taka ráðin af framleiðendum sjálfum, fæ ég ekki séð að verði stutt með rökum. Í ríkjum kommúnista mundi slíkt að vísu vera talið sjálfsagt, þar sem ekki er leyfður nema einn flokkur og það er glæpur að vera á móti stjórninni. Á Íslandi er það þó ekki enn þá talið.

Nei, kommúnistar eru ekki að berjast fyrir auknu frelsi til handa framleiðendasamtökunum í landinu með þessu frv., og það sannast bezt á því, sem ég hef margbent á, að þessi samtök sjálf hafa snúizt hart gegn frv.

Hv. 8. landsk. ræddi allmikið um það, að nú liti svo út sem sjómenn væru orðnir sérstakir skjólstæðingar Sjálfstfl.

Ég álít það bera vott um nokkurn ókunnugleika hjá hv. frsm. meiri hl., ef hann uppgötvar þetta nú í fyrsta skipti.

Sjálfstfl. er að vísu flokkur allra stétta og telur sér skylt að gæta hagsmuna þeirra allra, og það er meginskoðun hans, að á því sé rík nauðsyn fyrir þjóðfélagið, að stéttirnar starfi saman og að hlutur einnar sé ekki dreginn um of á kostnað annarrar.

Engu að síður verður að viðurkenna það, sem er satt og rétt, að sjálfstæðismenn hafa alltaf haft glöggan skilning á hagsmunum og þörfum sjómannastéttarinnar, einfaldlega vegna þess, að þeir hafa gert sér ljóst, hversu þýðingarmikil störf hún vinnur, eins og bent var á í sambandi við annað mál, sem hér lá fyrir til umræðu. Það er staðreynd, sem ekki verður sniðgengin, að sjómennirnir afla meginhluta útflutningsverðmæta þjóðarinnar. Það segir sig þess vegna sjálft, að það er geysiþýðingarmikið, að þjóðin vilji taka þátt í þessum störfum, vilji leggja sig í þá áhættu, sem í þeim felst. Sjálfstæðismenn hafa á undanförnum árum haft og munu halda áfram að hafa glöggan skilning á þeirri miklu þýðingu, sem starf sjómannsins hefur fyrir þjóðarheildina. Sjómennirnir hafa einnig sýnt sinn skilning á afstöðu Sjálfstfl. til þeirra, þar sem mikill fjöldi þeirra fyllir okkar flokk eins og stór hluti útgerðarmanna landsins. Þetta er heldur engin tilviljun, því að yfirleitt hygg ég, að sjómenn séu frelsisunnandi menn, þeir vilja ekki hafa yfir sér einokun og kúgun. Þeir hljóta þess vegna að vera andstæðir kommúnistum og fylgjandi frjálslyndum borgaralegum flokki eins og Sjálfstfl. Þetta kom m.a. fram í afstöðu t.d. Sjómannafélags Reykjavíkur á s.l. vetri, þegar einhverjir fylgismenn núv. ríkisstj. ætluðu að knýja fram meðmæli með stofnun olíueinkasölu. Í staðinn fyrir, að Sjómannafélag Reykjavíkur samþykkti slík meðmæli, vorn samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta harðorð mótmæli gegn því, að til slíkrar einokunar yrði gripið. Auðvitað sögðu kommúnistarnir, sem hafa beitt sér fyrir því máli, að þetta ætti að vera til þess að bæta kjör sjómannastéttarinnar. Það vantar svo sem ekki, að einokun og frelsisskerðingar eiga allar að verða til þess að bæta hagsmuni fólksins. En sjómennirnir áttuðu sig á því, að þarna var ekki um neitt slíkt að ræða, heldur lævíslega tilraun kommúnista til að setja upp pólitískt bákn, sem átti að fóðra einhverja gæðinga þeirra, alveg það sama og er að gerast með þessu frv., sem hæstv. sjútvmrh. berst eins og ljón fyrir, einn allra úr ríkisstj. Ég veit ekki, hvernig það hefur verið í hv. Nd. En hér í hv. Ed. hefur enginn hæstv. ráðh. sagt eitt orð til stuðnings þessu frv., svo að ég muni til, og mun ég þó hafa verið viðstaddur allar þessar umræður. Þetta er engin tilviljun. Hæstv. sjútvmrh. er að reyna að knýja hér fram óvinsælt mál, sem ríkisstj. að vísu stendur á bak við í heild, en er um og ó. Einstök málgögn hennar eru búin að tala yfir sig í þessu máli, þannig að hæstv. ríkisstj. finnst, að hún verði að sýna einhvern lit á því að standa við stóru orðin, og þess vegna er þessi óburður kominn hingað upp í hv. Fd.

Ég get svo undir lok míns máls ekki komizt hjá því að benda á það, að lítið er nú orðið úr öllum yfirlýsingum hv. stjórnarflokka um það, að þeir vilji fyrst og fremst standa vörð um „hagsmuni framleiðendanna“ í landinu. Þeir hafa marglýst því yfir, sem líka er satt og rétt, að grundvöllurinn undir þjóðfélagsstarfinu myndist af því fólki, sem framleiðir verðmæti og þá ekki sízt til útflutnings, þess vegna beri að styðja þetta fólk og þess samtök, hins vegar beri að heyja stöðugt stríð við það, sem þeir kalla „milliliði“ og „afætur“ og „gróðastéttir“.

Ég fæ nú ekki betur séð en þetta hafi snúizt þannig, að hæstv. ríkisstj. undir forustu sjútvmrh. sé fyrst og fremst í stríði við framleiðendasamtökin í landinu. Hún hefur neytt þau öll saman í eina fylkingu til baráttu gegn fyrirætlunum ríkisstj. um skipulag útflutningsmálanna. Þetta er þá orðið úr loforðum hæstv. ríkisstj. um vernd og skjól fyrir framleiðendurna við sjávarsíðuna. Kannske kemur röðin seinna að framleiðendunum í sveitunum.

Ég á nú eftir að sjá, hvernig hv. Framsfl. snýst við, ef á að fara að taka samtök landbúnaðarframleiðenda eitthvað svipuðum tökum og stefnt er að að beita gegn sjávarútvegsframleiðendum í þessu frv. Ég er hræddur um, að þá mundi koma hljóð úr horni frá samtökum bænda, ekki síður en samtök framleiðenda við sjávarsíðuna hafa látið til sín heyra, þegar átt hefur að þröngva upp á þau skipulagi, sem virðist hafa fæðzt í höfði hæstv. sjútvmrh.

Nei, hér er lagt út á óheillabraut. Ég hafði haldið, að allir lýðræðissinnaðir menn í þessu landi væru a.m.k. sammála um það í aðalatriðum, að skynsamlegast væri og bezt færi á því, að framleiðendur til lands og sjávar fengju sjálfir að byggja upp sín samtök og skipuleggja afurðasölu sína. Því miður setur að manni efasemdir um, að þessi eining sé fyrir hendi, þegar Framsfl. og Alþfl. láta kommúnista nota sig til þess að knýja í gegn frv. eins og það, sem hér liggur fyrir.

Ég endurtek svo það, að það er till. minni hl. og Sjálfstfl. í þessu máli, að þessu frv. verði visað frá.

Að lokum vildi ég leyfa mér að beina stuttum fyrirspurnum til hæstv. sjútvmrh.

Hann kvað það hrein ósannindi, er ég minntist á það í umr. um þetta mál hér í hv. þd. fyrir skömmu, að ríkisstj. hefði vanefnt þá samninga við útveginn, er hún gerði við síðustu áramót. Vitnaði ég þá til ályktunar frá fulltrúafundi útvegsmanna, þar sem skorað var á stjórnina að standa við samninga sína og fyrirheit. Hæstv. ráðh. kvað það sem sagt með öllu rangt, að um nokkrar vanefndir væri að ræða, útflutningssjóður og ríkisstj. hefðu staðið til fullnustu við öll sín fyrirheit við útflutningsframleiðsluna.

Ég vildi nú mega beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort hann vildi ekki gefa mér upplýsingar um það við þessa umræðu, hvernig þessi mál standi nú, og hvort hann sé reiðubúinn til þess að endurtaka þá yfirlýsingu sína, að um engar vanefndir sé að ræða af hálfu útflutningssjóðs og hæstv. ríkisstj. við útvegsmenn á þeim loforðum, sem gefin voru um síðustu áramót.

Hæstv. ráðh. sagði hér fyrir skömmu, að ríkisstj. hefði staðið við öll sín fyrirheit í þessum efnum og hennar borð væri hreint. Ég bíð þess nú að heyra þá yfirlýsingu á ný frá hæstv. ráðherra.