02.04.1957
Efri deild: 81. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég veit að vísu, að fyrri flm. brtt. á þskj. 383, hv. þm. N-Ísf., hefur mælt fyrir till. Ég var þar að vísu ekki áheyrandi, en hef sannar fregnir af, að svo hafi verið. En af því að ég er meðflm. að þessari till., vildi ég frá mínu sjónarmiði leitast við að rökstyðja efni hennar varðandi þetta mál, úr því sem komið er.

Það er öllum hv. dm. vel kunnugt, að hér er um mjög umdeilt mál að ræða, þessa tilvonandi lögfestingu á frv. um sölu og útflutning sjávarafurða o.fl., og beinlínis með því veitzt að heildarsamtökum útvegsmanna og framleiðenda á sjávarafurðum, þar sem er vitað og hefur sannanlega fram komið í opinberum þskj., að mikill meiri hluti þeirra, sem að þessum málum standa, er mótfallinn lagasetningunni. Það kann nú að vera að bera í bakkafullan lækinn að telja þeirra rök að nýju fram hér, og var ekki mín meining með því að biðja um orðið að fara að endurtaka hér allar þær umr., sem fram hafa farið, bæði í hv. Nd. og í þessari hv. deild, um þetta mál. En sú staðreynd er óhrekjanleg, að ég hygg, að með samþykkt slíks frv. sem hér um ræðir og einkanlega á þeim forsendum, er því fylgdu upphaflega af hálfu þess hæstv. ráðh., sem stendur að baki frv., er freklega gengið á sjálfsákvörðunarrétt stórmikils meiri hluta framleiðenda við sjóinn.

Mér finnst, að sú ríkisstj., sem hefur talið það sína mestu prýði að stjórna í samráði við stéttir landsins til lands og sjávar, sé hér með víxlspor og að það fari illa á því, að þessi hæstv. ríkisstj. taki fyrir eina stétt landsins og leggi kapp á að hnekkja uppbyggingu hennar og fyrirkomulagi að því er snertir það að koma vöru sinni á markað. En það er óhrekjanlega gert með þessu frv. og með öllum þeim fullyrðingum, bæði í ræðum og riti, sem því fylgja og hafa fylgt af hálfu stjórnarvaldanna.

Á það hefur verið bent, að gildandi lög feli í sér mjög rúma heimild fyrir ríkisstj. að hafa allt hæfilegt eftirlit með þessari verzlun, og verður það víst tæplega hrakið, að í lögunum frá 1940, minnir mig, eru þessar heimildir til, enda hefur þeim verið beitt og er beitt enn í dag.

Ég hef mikil og löng kynni af sölufyrirkomulagi því, sem sérstaklega hefur ríkt að því er saltfiskinn snertir, því að ég hef verið í stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda frá því, held ég, að sölusambandið var stofnsett, og setið þar með merkum mönnum úr öðrum sölusamtökum og úr öðrum stjórnmálaflokkum fyrir utan þá, sem ég hef talið flokksbræður mína í pólitískum skilningi. Ég veit þess vegna mjög vel um það fyrirkomulag og þann traustleika í þessum málum, sem vannst á við það, þegar bankarnir fyrir eitthvað 24 eða 25 árum tóku sig til og gengust beinlínis fyrir því, að útflutningurinn sameinaði krafta sína skipulega. Ástæðan fyrir því, að þetta gerðist svo, var ósköp augljós, og við, sem stóðum í stríði eða höfðum staðið í stríði undanfarin ár, áður en sölusamlagið var stofnað, höfðum mjög fundið til þess, hve sundrungin á þessu sviði hafði áhrif á sölu afurðanna. Löngu fyrir þann tíma höfðum við, sem að þessum málum unnum, t.d. í Vestmannaeyjum, byggt upp okkar einstöku samlög á þessu sviði og þekktum af eigin sjón og reynd, hvað mikið ávannst við það, að við störfuðum saman. Það voru þá þrjú kaupfélög starfandi í Eyjum, þegar þetta átti sér stað, og þau með einni eða tveimur kaupmannsverzlunum unnu saman að þessum málum í miklu bróðerni, og við hvað okkur snerti fögnuðum því mjög, þegar það ljós rann upp fyrir ráðandi mönnum hér í höfuðstaðnum, að efnt var til allsherjar landssamtaka um sölu saltfisksins. Það var í rauninni verið að endurtaka í stærri og fullkomnari stíl það, sem við höfðum verið að leitast við í okkar heimahéruðum ýmsir, ekki einasta Vestmanneyingar, heldur fleiri, til þess að reyna að bæta hag þeirra, sem stunda útveginn.

Ég veit af eigin reynd og hef þreifað á, hvaða styrkleiki það er á þessu höfuðútflutningssviði sjávarútvegsins, sem lengi var, að hafa þetta allt í einni hendi hér innanlands, og ég hef sérstaklega fundið til þess síðar, þegar ég hef starfað við sölusamtök, sem ekki hafa haft neina opinbera vernd sams konar og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda er.

Í því sambandi, sem í daglegu máli er kallað S.Í.F., hef ég í mörg ár fylgzt mjög nákvæmlega með því, sem gerzt hefur, sem stjórnarmeðlimur, og stundum í forföllum framkvæmdastjóranna á víxl átti ég kost á því að vera þar sem starfandi framkvæmdastjóri um nokkurra mánaða skeið í hvert skipti og komst þá vitaskuld mjög meira inn í það, sem maður kallar „gang hlutanna“, heldur en sem stjórnarmeðlimur.

Ég veit, að það hefur ávallt verið mikill styrkur, að sölusamlagið hefur haft nokkurs konar einkarétt á útflutningnum á saltfiskinum, einkanlega gegn þeim áróðri, sem oft vill spretta upp í sumum markaðslandanna, þar sem flaggað er framan í mann ýmsum fréttum um undirboð á vörunni, íslenzkri vöru á erlendum markaði, og oft látið bera þannig að, að það er sagt, að frá einhverju okkar nágrannalanda sé þetta og þetta boðið fram á lægra verði en sölusambandið heimti.

Í S.Í.F. hefur verið einfalt mál að ráða við slíkan áróður, sem oft hefur ekki verið grundvallaður á réttum staðreyndum. Eftir að hlutaðeigandi fréttaburði er hægt að mæta með því að segja, að þetta geti ekki átt sér stað, vegna þess að öll salan fari fram í gegnum þessa skrifstofu hér á landi og henni sé ekki kunnugt um þetta undirboð, hafa þessar áróðursraddir oft og tíðum látið sér það nægja og ekki streitzt við að hamra það fram, að þeir hefðu undirboð á hendinni.

Ég hef sérstaklega tekið eftir því, síðan við fórum að starfa og ég gerðist starfsmaður hjá skreiðarsamlaginu, hve berskjaldaðri slík samtök eru fyrir svona tilraunum til að lækka verðið heldur en t.d. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Við erum miklu berskjaldaðri þar fyrir því, að reynt sé að „svekkja“, reynt sé að ráða niðurlögum okkar, ef svo mætti segja, á útlendum markaði með fölskum fréttum um undirboð á sömu vöru, við skulum segja í gegnum Kanpmannahöfn eða Bergen eða eitthvað því um líkt, heldur en að saltfiskframleiðendur þurfa að vera með því fyrirkomulagi, sem hingað til hefur gilt og er búið að gilda í tugi ára.

Framboð á markaðinum á sömu vöru, oft og tíðum á sama tíma mörg framboð, miða auðsjáanlega aldrei að því að styrkja aðstöðu seljandans til að halda uppi verði, heldur þvert á móti, þau veikja hana, og það eru höfuðrökin fyrir því, að rétt hefur þótt af stjórnarvöldum undanfarin ár og verið samkvæmt vilja fiskeigendanna sjálfra að fela Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda söluna frá ári til árs tímabundið, á þann hátt sem gert hefur verið. Þetta hefur verið brúkað sem nokkurs konar áróður á samlagið nú upp á síðkastið — og raunar ekki alveg nýtilkomið — af ýmsum og vegna ýmissa ástæðna, ég held í flestum tilfellum í eigingjörnum tilgangi þeirra, sem fyrir slíkum áróðri hafa staðið, eða þeirra bakhjarla. Það hefur verið vægðarlaus og mér liggur við að segja samvizkulaus áróður rekinn í þessu efni, og hann hefur gengið svo langt, að jafnvel þeir menn, sem hafa verið trúnaðarmenn Íslendinga á erlendum vettvangi og eru það í fleiri en einum skilningi, t.d. bæði á Ítalíu og ég held í Grikklandi líka, hafa hlotið hnútuköst héðan að heiman, sérstaklega hjá vissum blöðum, fyrir það, að þeir hafa léð starfskrafta sína til þess að selja íslenzka útflutningsvöru á erlendum markaði í stórum stíl.

Þetta framferði, þessi aðferð kann ekki góðri lukku að stýra, og ég harma það, að svo langt sé gengið í þessu efni sem hér er í ljós komið með flutningi þessa frv. Sumir hafa sagt, að hæstv. ríkisstj. hefði heimild í l. frá 1940 til alls þess, sem hér er í þessu frv. Ég vil nú ekki fyllilega taka undir það, ekki í öllum greinum, en hún hefur fulla heimild til alls þess í því, sem getur greitt fyrir aðstöðu íslendinga á erlendum markaði með þeim l., sem þegar eru í gildi. Aftur á móti er í þessu frv. gert ráð fyrir, að þeir menn, er hafa eiga framkvæmd þessara l. með höndum, eigi nú að vasast í mörgu fleiru, því að það er jafnvel gert ráð fyrir, að þeir eigi að gangast fyrir því að leita markaðar fyrir íslenzka vöru og þá sennilega fisk. Það verkefni er þegar í höndum þeirrar n., sem ræður yfir fiskimálasjóði, að ég held, mig minnir, að löggjöfin sé frá 1935. Fiskimálasjóður hefur heimild til að verja fé til markaðsleitar eða til að styðja markaðsleit, eins og raunar margt annað, sem getur orðið atvinnuveginum til framdráttar, og ég held, að fiskimálasjóður hafi gert talsvert að því á undanförnum árum að styðja slíkt. Það hefur eiginlega verið hans veglegasta verkefni, svokölluð markaðsleit.

Ég sé ekki, að gert sé ráð fyrir í þessu frv., að lögin um fiskimálasjóð eigi að nema úr gildi. Það hefur þá farið fram hjá mér, ef það stendur í því. Ég hef ekki séð, að það sé gert. Það má nú kannske segja sem svo, að það sé gott, að tvær stofnanir hafi þetta með höndum, en hér hallast mjög á, því að í frv. er ekki séð, að stjórnarnefnd sú, sem á að setja á stofn í þessu, hafi neina fjármuni til að styðja markaðsleitina, en aftur á móti hefur fiskimálasjóður yfir fé að ráða, sem hann getur notað í því skyni.

Ég held nú sannast að segja, hvað það sérstaka verkefni snertir, markaðsleit, að það sé enn ósannað mál, hvort vald til þeirra hluta er betur komið í höndum tveggja stofnana en einnar.

Þá er það eitt, sem hefur verið talið að gæti verið hlutverk þeirrar nefndar, sem hér á að vera í fyrirrúmi, að jafna verði milli tegunda og sjá til þess, að hver framleiðandi beri sjálfur ábyrgð á þeim skakkaföllum, sem koma fyrir á hans vörum.

Ákvæði um að jafna verð milli tegunda eru sjálfsagt til í lögum S.Í.F. og ég held líka í lögum skreiðarsamlagsins. Hjá báðum þessum stofnunum finnast ákvæði um það, að hver skuli bera ábyrgð á gallaðri vöru, sem frá honum kemur. En það hefur reynzt ákaflega erfitt að framkvæma slík ákvæði, vegna þess líka að í svo til öllum tilfellum getur sá, sem talinn er eiga gallaða vörusendingu, að einhverju leyti vísað til matsvottorðs, og matsvottorðin eru gefin út af opinberum aðila, en sá aðili hefur ekki, svo að ég viti til, orðið nokkurn tíma að bera fjárhagslega ábyrgð á sínum vottorðum.

Kvartanir yfir vöru, t.d. fiski, berast að öllum jafnaði ekki hingað til lands, ef það er frá útlöndum, fyrr en eftir þann tíma, sem búið er að borga út til framleiðenda hlut þeirra í sendingunum, og gerir það mjög erfitt fyrir um að krefja þá endurgreiðslu til bóta, ef til þarf að taka. Greiðslurnar fara líka stundum og núna á síðari árum oft beint til bankanna, sem hafa lánað til útgerðarinnar, og verður það sennilega jafnerfitt fyrir væntanlega útflutningsnefnd að eiga við þetta fyrirbæri samkv. þessum l., ef til kæmi, eins og það hefur verið torveit að framfylgja því út í yztu æsar samkv. þeim reglum, sem gilt hafa.

Það var svo að sjá, að mig minnir, m.a. í forsendunum fyrir þessu frv., þegar það kom frá hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj., að hann hefði komið auga á fyrirmynd, sem vert væri að fara eftir, og vildi með þessari lagasetningu beina útflutningsverzluninni á sjávarafurðum inn í eitthvert gósenland, sem Íslendingar hefðu áður ekki þekkt, og var þar sérstaklega vitnað til norsks fyrirkomulags.

Við höfum nú á undanförnum árum nokkuð lengi haft svo að segja samsiglingu með Norðmönnum hvað snertir sölu á fiski á erlendum mörkuðum. Það hefur verið sérstaklega milli S.Í.F. og Norðmanna talsvert náin samvinna til að reyna að halda uppi verði, en það er komið í ljós, einkum núna síðari árin, að þrátt fyrir þær útflutningsreglur, sem kunna að gilda í norskum lögum, og reglugerðum, þá er því engan veginn að treysta, að þær nægi, þegar til framkvæmdarinnar kemur, til þess að halda uppi eða festa verð vörunnar, vegna þess að sá leiði siður virðist hafa komizt inn í þá verzlun hjá Norðmönnum að borga ýmiss konar aukauppbætur til kaupendanna eftir ýmsum leiðum, sem Íslendingar hafa hvorki vilja né getu til þess að fara inn á. Fyrir því hafa borizt sannanir í skýrslum umboðsmanna sölusamlagsins, einkum og sér í lagi nú upp á síðkastið frá Brazilíu, þar sem bætt hefur verið við mjög hæfum Íslendingi núna fyrir skömmu til þess að líta eftir þessari verzlun.

Ef maður lítur í norskt blað, þá kemst maður varla hjá því að sjá þar stórar deilugreinar milli framleiðenda og ríkisstjórnarinnar, því að það virðist vera langt frá því, að norskar útflutningsreglur og norskt sölueftirlit, sem ríkisstj. stendur fyrir, hafi vinsældir hjá framleiðendunum þar í Noregi. Ég held því, án þess að fara of langt út í að skýra frá því, að það sé ekki, þegar til framkvæmdarinnar er litið og niðurstöðunnar, neitt til fyrirmyndar fyrir okkur Íslendinga að elta Norðmenn í þessu sambandi. Hitt vitum við, að oft hafa heyrzt um það raddir, ekki einasta hjá Norðmönnum, heldur hjá öðrum líka, sem hafa látið í ljós, að sölufyrirkomulag Íslendinga væri betra en margra annarra, ekki sízt vegna þess, að með því fyrirkomulagi er hægt að gefa kaupandanum einhverja vernd, en slíka vernd krefjast menn að fá nú á dögum, sem kaupa mikið magn af vörum, hvort sem það eru neyzluvörur eða aðrar, þó sérstaklega neyzluvörur, og hún er þá aðallega í því fólgin, að þeir fái öryggi fyrir því eða tryggingu, sem kallað er, að ekki sé dembt á markaðinn ódýrari vörum, á meðan þeir eru að selja þá vöru, sem þeir kaupa hverju og einu sinni. En útflutningsstofnun hérlend, sem veit sig vera aðeins með einn hluta af útflutningnum á sinni hendi, getur ekki veitt slíka vernd, ekki neitt sem jafnast á við það, sem hægt er, þegar salan er á einni hendi.

Þess arna er krafizt oft og tíðum af okkur, sem vinnum í skreiðarsamlaginu, að kaupendurnir telja sig þurfa að vera tryggða fyrir því, að við sjáum til þess, að ekki komi skreið á markaðinn á þessu og þessu tímabili fyrir lægra verð en þeir hafa sem grundvöll. En við höfum ekki í okkar hendi að veita slíkt, því að við verðum að sækja um útflutningsleyfi í hvert skipti fyrir okkar sendingar og verðum auðvitað að sætta okkur við, að það eru margir fleiri á leiðinni, sumpart sem við vitum af og sumpart sem við vitum ekki af.

Ég tel nú líklegt, að hæstv. ríkisstj. muni ætla að halda þessu máli til fullrar streitu, að hverju sem stefnir, og taki eða ætli sér ekki að taka neinum sönsum í því. Það hefur a.m.k. ekki komið fram við meðferð málsins í hv. Nd. og kannske ekki hér frekar. Ætlar ríkisstj. að ganga í berhögg með opnum augum við framleiðendur á þessu sviði, þó að það sé illsamræmanlegt við þá samstöðu, sem hæstv. ríkisstj. telur sig hafa með ýmsum öðrum stéttum landsins? Ég var sjálfur staddur á þeim fundi, sem Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hélt sérstaklega út af framkomu þessa frv., og tók þar lítils háttar þátt í og hlustaði mikið á umr. og taldi upp fundarmenn með sjálfum mér og veit, að þar var yfirgnæfandi meiri hluti, sem óskaði þess, að sölufyrirkomulaginu yrði ekki breytt með nýrri lagasetningu.

Þessi hópur manna á í dag erfiða aðstöðu með sinn atvinnurekstur af mörgum ástæðum, sem hvorki ríkisstj. né Alþingi ráða við, en hér við bætist það, að með þessum lögum virðist eiga að ganga feti lengra gagnvart fiskframleiðendum með opinberum afskiptum og þvílíku heldur en nokkrum öðrum og heldur en nokkurn tíma áður hefur verið gert á friðartímum a.m.k.

Ég skal engu spá um það, hversu til kann að takast með framkvæmd þeirra laga, sem hér eru á ferðinni. En það er að vísu með öll lög svo, að mikið veltur á því, hvernig framkvæmdin er. Og ég tel fyrir mitt leyti, að það sé ekki einasta rétt, heldur skylt, að sú yfirstjórn, sem framkvæmdina á að hafa á höndum og vera hæstv. ráðh. til ráðuneytis, sé kosin af Alþingi, en ekki háð kannske duttlungum einhvers stjórnarherra. Fyrir því hef ég ásamt hv. þm. N-Ísf. staðið að flutningi brtt. á þskj. 383, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta, að 1. gr. frv. orðist svo:

Sameinað Alþingi kýs hlutbundinni kosningu til tveggja ára í senn þrjá menn í nefnd, sem nefnist útflutningsnefnd sjávarafurða, og jafnmarga varamenn til sama tíma og að sú nefnd kjósi sér formann.

Meðan við í þessu landi eigum að heita að búa við lýðræðisstjórnarfyrirkomulag, finnst mér það vera í miklu meira samræmi við lýðræðislegt skipulag á hlutunum, að nefnd, sem á að hafa þessa hluti með höndum varðandi einn stærsta atvinnuveg landsins, sé kosin af sameinuðu Alþingi, en ekki skipuð af ríkisstj. eða ráðherra, sem er fyrirkomulag, sem hefur miklu meiri einræðiskennd á sér en það, að Alþingi ráði því, hverjir í slíkri nefnd sitja, enda er þess fjöldi dæma í nefndum og störfum, sem eru ætluð til þess að hafa alþjóðahagsmuni með höndum, að Alþingi kýs til þess hlutbundinni kosningu þá, sem framkvæmd slíkra mála hafa með höndum. Að því leyti til er þessi till. í fullu samræmi við aðrar gerðir hv. Alþingis varðandi alþjóðarmál.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. Ed., sem oft hér á fyrri árum a.m.k. var talin eiga að taka um stjórnvölinn í afgreiðslu mála á Alþingi, þegar þörf þætti, jafnvel þó að það kæmi í berhögg við gerðir hv. Nd., sé svo lýðræðissinnuð enn í dag og svo sjálfstæð, að hún geti fallizt á þessa till. um, að Alþingi kjósi með hlutbundinni kosningu þá, sem eiga að framkvæma það, sem samkvæmt þessu frv. á að framkvæma, hvað sem efni frv. að öðru leyti líður.