06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

Endurskoðun varnarsamningsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér datt í hug áðan, þegar hv. 1. þm. Reykv. (BBen) var fyrst að færa fram þakkir til hæstv. utanrrh. og síðan nú, um leið og hann kom upp aftur og hafði atbugað málið enn þá betur, var að endurtaka þakkir sínar til hæstv. utanrrh., að það væri máske gott fyrir þá, sem slíkt lof hljóta, að minnast þess spakmælis, sem stundum hefur verið sagt við ýmsa vinstri menn, að þegar íhaldið fari að hæla þeim, þá sé hætta á ferðum.

Ég held, að það sé alveg óhætt fyrir okkur að athuga, þegar það í fyrsta skipti kemur nú fyrir hér í þinginu, að íhaldið allt í einu fer að hæla einhverju, sem hæstv. ríkisstj. gerir, hvort sé verið að gera rétt. Og ég held, að það sé ekki hægt að fá öllu betri áminningu fyrir alla þá, sem vilja vinna að því að losna við hernámið, heldur en það, að íhaldið virðist nú gleðjast.

Ég er hræddur um, að það séu rangar hugmyndir, sem hæstv. utanrrh. hefur gert sér um ástandið í veröldinni. Ég held, að það sé ekki rétt metið hjá honum, það sem hann hér lagði höfuðáherzlu á, að það væri svo alvarlegt ástand í veröldinni, svo mikil stríðshætta, að þess vegna væri rétt að breyta um frá því, sem ákveðið var í vor, og fresta af þeim orsökum framkvæmd á samþykkt Alþingis frá 28. marz. Ég er hræddur um, að hvernig sem menn annars líta á það, sem gerzt hefur í veröldinni á hinum síðustu mánuðum, þá muni vart nokkur maður verða til þess að álíta, að t.d. Varsjárbandalagið sé sterkara í dag eða færara til árása, ef menn ætluðu í árásir, heldur en það hafi verið 28. marz. Ég er hræddur um, að flestir muni líta svo á, að það muni vera veikara. Og ef við ætlum að athuga hins vegar Atlantshafsbandalagið, sem við erum í, þá held ég, ef við ættum að spyrja okkar nágrannaþjóðir, Breta og Frakka og þeirra ríkisstj., ráða, þá á ég a.m.k. bágt með að skilja það, að brezka ríkisstj. og franska ríkisstj. hafi álitið, þegar þær réðust á Egyptaland, að það væri yfirvofandi hætta á árás á Vestur-Evrópu að austan. Ég á þess vegna bágt með að trúa því, að þeir menn, sem þarna fjalla fyrst og fremst um og ættu að hafa þarna, a.m.k. af hálfu þeirra, sem stjórna í Atlantshafsbandalaginu, einna mest vit á, gangi út frá því nú, að það sé yfirleitt meiri hætta, þó að kaldar blási í heiminum, heldur en í vor. Og ég veit ekki betur en meira að segja sjálfur yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, Lauritz Norstadt, hafi fyrir eitthvað þrem, fjórum dögum látið hafa það eftir sér, að hann teldi, að það væri lítil hætta á, að til styrjaldar kæmi, og utanrrh. Bandaríkjanna hafi lýst því yfir, þegar hann kom af fundi Eisenhowers forseta, að friðarhorfur væru nú góðar.

Þannig held ég, að ef við viljum reyna að líta til einhverra annarra og fá stuðning einhverra annarra um okkar mál heldur en okkar eigin skynsemi, þá megi til tína álit ýmissa manna, sem þeir, sem hlynntir eru Atlantshafsbandalaginu, telja mæta, um það, að þó að heimurinn sé yfirleitt vondur og máske yfirleitt hættuástand í honum, eins og hv. 1. þm. Reykv. kom inn á, þá sé ekki meira hættuástand í veröldinni nú en það, að ef við ættum að taka það gilt til að fresta framkvæmd ályktunarinnar frá 28. marz, þá muni lengi mega leita að ástæðum til að fresta. Var ekki stríð í Algier í vor, þegar Alþ. ákvað, að það væru góðar friðarhorfur í heiminum? Meira að segja eitt Atlantshafsríki átti í stríði.

Það voru fleiri ríki en við, sem tóku svipaðar ákvarðanir í vor að reyna að losa sig við herstöðvar. Annað eyríki alllangt frá okkur, en þó held ég nær þeim hluta jarðar, sem hæstv. utanrrh. taldi hættuna mesta, sem sé nær Súezskurðinum, Ceylon, sagði líka upp samningum í vor og vildi losa sig við brezkar herstöðvar. Og ég veit ekki betur en forsrh. Ceylons sitji nú þessa dagana á fundi í London til þess að ganga frá samningum við Bretastjórn um að losna við herstöðvar og að það sé talið öruggt, að þeir Ceylonbúar samkv. ályktun síns þjóðþings og sinnar ríkisstj. losni við herstöðvar þar. (Gripið fram í.) Ja, ég skal skjóta því inn í, fyrst hv. þm. G-K. vill fá upplýsingar um, hvað forsrh. Ceylons álítur, að ég hef heyrt, að þessi forsrh. Ceylons sé að vísu reiðubúinn til þess að lofa brezkum skipum að koma þar í höfn til þess að taka kol og annað slíkt á friðartímum, en á ófriðartímum vilja þeir ekki láta þau koma nokkurs staðar nærri. — Ég er þess vegna hræddur um, að þær hugmyndir, sem hæstv. utanrrh. hér gerir að sínum forsendum fyrir því, að hann álítur rétt að fresta framkvæmd ályktunarinnar frá í vor, séu rangar.

Hins vegar vil ég taka það fram, og þar veit ég að við erum á alveg andstæðri skoðun, en ég vil aðeins minna á það, að það er skoðun, sem ég hef oftar látið hér í ljós, að þó að stríðshætta væri meiri í ár í veröldinni heldur en hún hafi verið í vor, þá álít ég einnig rangt að hafa hér her eða herstöðvar. Og ég vil, að það sé munað í öllum þeim umr., sem fram fara um þessa hluti, að svo illt sem það er að hafa her og herstöðvar á Íslandi á friðartímum, þá er það enn verra á stríðstímum. Það er hætta af þeim herstöðvum, sem hér starfa, margs konar hætta fyrir okkar þjóðerni og okkar efnahag og annað slíkt á friðartímum, en það er tortímingarhætta fyrir þjóðina af þeim á styrjaldartímum.

Við skulum alveg gera okkur það ljóst, og það heyrði ég á hv. 1. þm. Reykv. að hann gerði sér líka, að þjóðir eins og Bandaríkin fara ekki fram á herstöðvar hér á Íslandi vegna okkar Íslendinga, heldur vegna sjálfra sín. Herstöðvar hér á Íslandi eru aðeins útvörður fyrir Bandaríkin, en ekki varnarstöð fyrir Ísland. Herstöðvar og her á Íslandi er ekki til þess að verja Ísland, heldur til þess, að Bandaríkin og þeirra þjóð geti orðið fyrr viðbúin, ef á er ráðizt.

Yfir Íslandi vofir tortímingarhætta af þeim herstöðvum, sem hér eru, slæm á friðartímum, verri á stríðstímum. Og við skulum alveg gera okkur það ljóst, að við erum eins og hver annar skjöldur, sem brugðið er fyrir Bandaríkin og þess vegna tekur fyrst og fremst á móti því höggi, sem greitt yrði.

Það var alveg rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í því sambandi um herstöðvarnar, en ályktanirnar, sem við ættum að draga út frá því, væru þær, að þessar herstöðvar ættu ekki að vera til hér. Ég hef sagt það hér áður, og ég skal segja það enn, að það álít ég beztu varnarráðstöfun okkar, ef til styrjaldar væri að koma, að sprengja þær allar saman upp, þannig að okkar land væri sem minnst eftirsóknarvert fyrir nokkra styrjaldarþjóð, — og helzt, að það væri hvergi hægt að lenda hér flugvélum. En það er ekki út frá umhyggju um það, hver eða hverjir mundu sigra í því stríði, sem væri, heldur út frá því, að það yrði þá reynt að forða einhverjum Íslendingum lifandi, ef til slíkrar styrjaldar kæmi. Og ég held, að það sé nóg verkefni íslenzkra stjórnmálamanna á hverjum tíma, þegar hætta vofir yfir, að til styrjaldar komi í heiminum, að hugsa um, að eitthvert fólk verði eftir lifandi í þessu landi, þegar því stríði væri lokið, heldur en hitt. að vera að leggja fram sinn skerf til þess, hvor muni standa betur að vígi í slíkum hildarleik.

Við skulum horfast í augu víð þá hluti af alvöru þeirra, sem þekkja það, hvað það er að standa í stríði og standa og lifa í borgum, sem loftárásir eru gerðar á, en ekki þeirra, sem hvergi koma nærri nema kannske til að græða á því.

Ég held, að það hefði meira að segja, eins og nú standa sakir, verið full ástæða til fyrir hæstv. utanrrh. að bæta því við ályktunina frá í vor, að það mætti jafnvel endurskoða Atlantshafssamninginn. Ég veit, að þeir hv. þm., sem samþykktu þann samning, muna nokkurn veginn, hvernig hann byrjar. 1. gr. hans hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðilar takast á hendur, svo sem segir í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, að leysa hvers konar milliríkjadeilumál, sem þeir kunna að lenda í, á friðsamlegan hátt, þannig að alþjóðafriði, öryggi og réttlæti sé ekki stofnað í hættu, og að beita ekki hótunum né valdi í milliríkjaviðskiptum á nokkurn þann hátt, sem ósamrýmanlegur er markmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

Þetta var fyrsta og höfuðgreinin í Atlantshafssáttmálanum, og það var víst þessi grein, sem tvö af forvígisríkjum Atlantshafssamningsins voru að framkvæma, þegar þau réðust á Egyptaland.

Ég held, að það hefði verið ástæða til þess að taka þennan samning til endurskoðunar, þegar það var sýnt, hvað á bak við bjó, eftir allar þær fullyrðingar, sem hér hafa verið þuldar yfir okkur um það, að Atlantshafsbandalagið væri ekki árásarbandalag.

Hins vegar ætla ég ekki að fara út í þessa sálma. Við höfum svo oft deilt um það, að þess er ekki þörf og ekki bein ástæða í sambandi við það, sem hér liggur fyrir. Hitt vil ég aðeins taka fram út frá því, sem ég hóf mál mitt með, að að mínu áliti eru það rangar hugmyndir, sem hæstv. utanrrh. hefur gert sér um ástandið í veröldinni sem stendur og liggja til grundvallar frestuninni sem forsenda frá hans hálfu. Hins vegar er það rétt, þegar slíkar hugmyndir sem þessar eru ekki aðeins hjá honum, heldur einnig, býst ég við, hjá hæstv. ráðherrum Framsfl., að það væri óheppilegur tími að ætla að knýja fram endurskoðun á samningnum, og þess vegna álít ég það hafa verið algerlega rétt af ráðh. Alþb. að vera inn á því að fresta um nokkra mánuði því, að endurskoðun hæfist, einmitt með tilliti til þessara ytri aðstæðna, með tilliti til þessa huglæga ástands hjá meiri hl. ríkisstj. Ég þykist að vísu vita, að stjórnarandstaðan hefði gjarnan kosið, að við slíkar aðstæður færi endurskoðun fram. Slíkt hefði ekki aðeins verið að mínu áliti óheppilegt, heldur beinlínis háskalegt. Það gat þýtt, að ýmislegt hefði máske tapazt af því, sem nú þó vinnst. M.ö.o., ég er fyllilega sammála því, að það er rétt um nokkra mánuði með tilliti til þessara innri aðstæðna að fresta því að hefja endurskoðunina. En hins vegar viðurkenni ég heldur ekki þær forsendur, sem hæstv. utanrrh. færði fram af sinni hálfu fyrir þeirri frestun.

Þá — og það er næst á eftir þessu spursmáli um forsendurnar höfuðatriði í þessum orðsendingum, sem hér hafa verið kynntar okkur — er spurningin um fastanefndina, sem hér er tilkynnt. Hæstv. félmrh. hefur lýst því yfir f.h. ráðh. Alþýðubandalagsins og Alþýðubandalagsins í heild, að þeir væru þessari fastanefnd og öllum ákvæðum um hana andvígir, og það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að það komi kannske fram einhverjar fyrirspurnir frá okkar hálfu um skilning á verkefni þessarar fastanefndar.

Ég verð að segja það, að mér finnst eiginlega sumt í þessari fastanefnd lykta nokkuð undarlega — af eins konar herforingjaráði. Mér finnst það eiginlega alveg nýtt, ef við eigum hér á Íslandi að fara að fjalla um það, hvernig sé með horfurnar í heiminum, víst herfræðilegar og pólitískar, og ég vildi óska þess, að hæstv. utanrrh. gæfi slíkar skýringar á þessu, að allur slíkur ótti hjá manni hyrfi.

Ég tók eftir, að hv. 1. þm. Reykv. vildi leggja það út á þann veg, að nú væri loksins hans langþráði draumur að rætast um íslenzkan her. En ég verð að lýsa því yfir, að svo gott traust ber ég til hæstv. utanrrh., þó að ég kunni að deila á hann um ýmislegt, að ég býst ekki við, að neitt slíkt sé þarna á ferðinni. En gjarnan hefði þetta orðalag þá mátt vera skýrara og betra. Hins vegar munu hans yfirlýsingar um slíkt auðvitað taka af öll tvímæli.

Þá vildi ég enn fremur segja það, að ég álít það, sem sagt er um að vinna að sambúðinni milli hersins og Íslendinga þarna, vera bæði óþarft og hvimleitt að taka slíkt upp í samninga.

Svo vil ég að síðustu, líka út frá því, sem hv. 1. þm. Reykv. var að minnast hér á, minnast á orðið „ábyrgur“ í þessu sambandi. Ég held nú, eftir því sem ég var að kíkja í plöggin hjá hv. þm. G-K., að á enskunni heiti þetta „senior“. Og þó að ég sé ekki neinn verulegur sérfræðingur í ensku, er ég þó a.m.k. vanur því, að það þýði annaðhvort svona eldri maður eða þá í yfirfærðri merkingu háttsettur maður. Og mér liggur við að spyrja: Hvers konar vinnubrögð eru það í utanrrn. í þýðingum, ef orð, sem á ensku eða amerísku heitir „senior“, er þýtt með „ábyrgur“ á íslenzkunni? — Án þess að við förum út í hugleiðingar um allt það, sem venjulega er skilið við „ábyrgur“ í sambandi við íslenzk stjórnmál og sérstaklega þeir, sem eru í stjórnarandstöðu á hverjum tíma, hafa oft fengið að heyra um, að þeir væru harla óábyrgir gerða sinna. En þetta vona ég nú líka að skýrist.

Þá sagði hæstv. utanrrh. enn fremur í sambandi við þessi mál og tók það sérstaklega fram, og það var haft eftir honum í útvarpinu, að aðrir samningar hefðu ekki verið gerðir í sambandi við þessi mál. Það er gott, ef svo er og ef ekki hafa verið lögð drög að neinum samningum í sambandi við þetta. Og það vildi ég leyfa mér að óska eftir að hæstv. utanrrh. tæki fram, að það hefði heldur ekki verið rætt um neina aðra hluti, t.d. lán eða annað slíkt, í sambandi við þessar orðsendingar.

Ég hef nú deilt nokkuð á það, sem mér fannst þurfa að deila á í sambandi við þessar orðsendingar, og sett fram spurningar um ýmislegt, sem mér fannst í þeim óljóst. En hitt vil ég taka fram og taka þar undir með yfirlýsingum hæstv. utanrrh., að þrátt fyrir þessar orðsendingar stendur ekki aðeins óhaggaður allur réttur okkar Íslendinga til þess að knýja fram endurskoðun og uppsögn á þessum samning, heldur líka samþykkt Alþingis frá í vor, samþykkt Alþingis frá 28. marz og ákvæðin í stjórnarsamningnum um, að þeim samningi skuli framfylgja, þeim samningi um brottför hersins. Og það vil ég leggja alveg sérstaka áherzlu á, að þrátt fyrir þær orðsendingar, sem nú hafa farið fram, stendur bæði þetta ákvæði í stjórnarsamningnum og í þál. frá 28. marz. Það eina, sem frestað hefur verið, er tíminn, hvenær endurskoðunarákvæðin byrja að ganga í gildi, hvenær 6 mánaða tíminn og þar af leiðandi 18 mánaða tíminn byrja að líða.

Ég vil taka undir þá yfirlýsingu, sem hæstv. félmrh. hér flutti, að við munum berjast fyrir því, að það verði sem fyrst hægt að taka upp þessa samninga um endurskoðun samningsins með brottflutning hersins fyrir augum, eins og ákveðið var í vor. Ég vil í því sambandi segja, að ég hef fyrir mitt leyti ekkert efazt um það, að þótt til þess þyrfti að koma, að við næðum ekki samkomulagi við Bandaríkin og segðum samningnum upp, þá mundu Bandaríkin fara héðan burtu með sinn her. En það segi ég, þó að ég fyllilega muni eftir þeirri aðstöðu, — standandi sjálfir í sömu aðstöðu og nú er — að vera stuðningsmaður ríkisstj. þá með samning íslenzka ríkisins við Bandaríkin í höndunum, sem Bandaríkin stóðu ekki við.

Ég man fyllilega eftir því, þegar Bandaríkjastjórn lýsti því yfir út frá samningnum 1941, þegar þau áttu að fara burt með sinn her hér í stríðslok, að þau skildu samninginn öðruvísi og mundu ekki fara. Ég man eftir því, þegar þau fóru fram á að fá hér herstöðvar til 99 ára. Út frá því, sem hér hefur borizt í tal, sérstaklega frá hálfu hv. 1. þm. Reykv., vil ég minna á, að sú hætta er enn yfirvofandi, að sú krafa Bandaríkjanna eða einhver svipuð kunni að koma upp. Ég hef skilið þetta 10 ára tímabil eða 11 ára nú, sem liðið er síðan krafan um herstöðvar til 99 ára var flutt hér af hálfu Bandaríkjastjórnar, — ég hef skilið það tímabil þannig, að Bandaríkin hafi verið að reyna að koma ár sinni þannig hér fyrir borð, að þau gætu haft hér herstöðvar marga áratugi. Ég tók eflir því, að hv. 1. þm. Reykv. orðaði það svo hér áðan í ræðu sinni, að hann sagði: Hættuástandið hefur staðið allt frá lokum síðustu heimsstyrjaldar. — Það er að vísu ofur lítið teygjanlegt orð, þetta hættuástand, sem hv. 1. þm. Reykv. notaði í því sambandi. En ég er hræddur um, að Bandaríkjastjórn hafi a.m.k. litið svo á eins og hann, þessi síðustu 10 eða 11 ár, að það hafi alltaf verið hættuástand, eins og hann virðist líta á. Ég er hræddur um það.

Við Íslendingar höfum litið öðruvísi á þessi mál. Við lítum þannig á þau 1946, að Alþingi lýsti því yfir, þegar það gekk í Sameinuðu þjóðirnar, að við mundum ekki einu sinni ljá

Sameinuðu þjóðunum herstöðvar hér, þó að þær gripu til styrjaldarráðstafana út frá sínum lögum. Og ef það hefur verið álit hv. 1. þm. Reykv., — eins og hann virtist álíta hér áðan eða skauzt hér upp úr honum, — að það hafi verið hættuástand allan þennan tíma, og Bandaríkjastjórn líklega líka litið þannig á, eins og hún sýndi með kröfu sinni um herstöðvar hér til 99 ára 1945, er ég hræddur um, að þá hafi jafnvel yfirlýsingin, sem gefin var, þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, um, að hér yrðu ekki herstöðvar á friðartímum, frá sumra hálfu verið meint þannig, að það væri bara tímaspursmál, hvenær hægt væri að fá Íslendinga til þess að taka hér upp herstöðvar.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um undanlátssemi við kommúnista, eins og hann orðaði það, í sambandi við ýmislegt í þeim orðsendingum, sem hér liggja fyrir. Kannske það hafi líka bara verið undanlátssemi við kommúnista, að því var neitað 1945 að gera herstöðvasamning við Bandaríkin til 99 ára. Það er a.m.k. talað þannig nú af hálfu forustumanna stjórnarandstöðunnar, að manni gæti dottið slíkt í hug. M.ö.o.: við stöndum frammi fyrir því, að forustumenn stjórnarandstöðunnar hér virðast líta svo á, að það hafi verið síðustu 11 árin sífellt hættuástand í heiminum, verði það líka lengst af, hér séu hvort sem er komnar herstöðvar og það verði þá líklega, liggur manni við að draga ályktanir þar af, lengst af að vera her hér á Íslandi. Við sjáum sem sé, frammi fyrir hverju við stöndum, svo framarlega sem ástandið væri þannig í dag, að Sjálfstfl. hefði áhrif á ríkisstj. þessa lands. Það mundi víst þá ekki vanta á, að það yrði tekið lipurlegar í það að semja, jafnvel þó að það væri til allmargra áratuga, um herstöðvar á Íslandi og engin undanlátssemi við kommúnista sýnd, svo að ég noti orðatiltæki hv. 1. þm. Reykv.

Það er vissulega ekkert ánægjulegt, — og þar skildi hv. 1. þm. Reykv. mjög vel okkar afstöðu, — það er ekkert ánægjulegt, þó að við álitum það rétt í augnablikinn út frá öðrum forsendum en okkar samherjar að fresta um nokkra mánuði framkvæmd þeirrar samþykktar, sem Alþingi gerði í vor. En við gerum það til þess að tryggja okkar þjóð réttinn til þess áfram að knýja þessa endurskoðun fram, knýja það fram, að samþykktin frá 28. marz verði sett að fullu í gildi og 18 mánaða tíminn, sem samningurinn frá 1951 ákveður um, hefjist. Það er á valdi þjóðarinnar og allra þeirra samtaka hjá henni, sem áhuga hafa fyrir þessum málum, að knýja þetta fram. Alþýðusambandsþing hefur þegar samþykkt fyrir sitt leyti ákveðna og djarfa áskorun í því efni, og ég efast ekki um, að Alþingi muni á sínum tíma standa, þ.e.a.s. meiri hluti þess, einhuga um að framfylgja þeirri ályktun, þó að frestur sé á henni ger nú. Hitt skulum við svo jafnan hafa í huga, og þær ræður, sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar, fulltrúar Sjálfstfl., flytja hér, sýna okkur, hver hætta er á ferðum. Það hlakkar bókstaflega í Sjálfstfl., ef hann heldur, að það sé hægt að framlengja hernámið á Íslandi. Það er eins og honum finnist alveg sérstök ánægja að því. Og ég efast ekki um, að öllum áróðri hans mikla blaðakosts muni verða beitt að því að reyna að skapa það álit hjá þjóðinni, að hernáms sé þörf.

Á móti þessu þarf þjóðin að vinna. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut, sem Alþ. fór inn á 28. marz. Og þótt ég hafi deilt á ýmislegt í þessum orðsendingum, gleður það mig, að það er hvergi hopað frá þeim og að engu leyti ógiltar þær ákvarðanir, sem þar voru teknar. Ég hef þá trú á þeirri þjóð, sem komið hefur í veg fyrir það, að við stæðum nú með herstöðvar hér til 99 ára, að hún muni líka bera gæfu til þess að losa okkur við þessar herstöðvar, sem við burðumst hér með.