08.02.1957
Neðri deild: 52. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

10. mál, dýravernd

Fram. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft frv. þetta til athugunar alllengi. N. sendi það til umsagnar Dýraverndunarfélagi Íslands, Búnaðarfélagi Íslands og Dýralæknafélagi Íslands, og bárust n. umsagnir og ábendingar ýmsar frá öllum þessum aðilum. N. hafði þær ábendingar til hliðsjónar við samningu þeirra brtt., sem hún flytur við frv. á þskj. 226. Nefndin hafði öll fjallað um málið og efnislega um þær brtt., sem hún ber fram við frv., en einn nm., hv. 5. landsk. þm., gat ekki komið því við að mæta á fundi n., þegar gengið var að lokum frá nál.

Það er langt síðan fyrst var um það rætt á Alþ., að setja þyrfti lög um dýravernd og veita aðhald af hálfu ríkisvaldsins í því efni. Meðan Alþ. hafði aðeins ráðgefandi vald, voru sendar bænarskrár til konungs um, að gefin yrðu út lagaboð til hegningar fyrir vísvitandi illa meðferð á kvikfénaði. Leiddi það til þess, að 1862 var af hálfu konungs gefið fyrirmæli um það, að ákvæði danskra laga um þetta efni skyldu gilda á Íslandi. Fáum árum síðar voru með ákvæði í almennum hegningarlögum ákveðin viðurlög við því að verða brotlegur í þrælslegri misþyrmingu eða annarri grimmdarfullri meðferð á skepnum, einkum húsdýrum. Var það lagaboð í gildi til 1915, þegar sett voru sérstök lög um dýravernd.

Óhætt mun að fullyrða, að á hinum síðustu áratugum hafi meðferð á húsdýrum og viðhorf manna til dýraverndunar breytzt til bóta. Félagsstarf áhugamanna á þessu sviði hefur haft mikil áhrif og góð í þá átt. Fóðrun og hirðing búfjár af hálfu bænda hefur tekið miklum framförum. Veldur því ekki eingöngu hagnaðarvon í sambandi við aukinn arð búfjárins, heldur jafnframt sjónarmið mannúðar í sambandi við meðferð húsdýranna. Að þessu styður einnig það, að dýralæknar þekkja nú og veita almenningi fræðslu um mildari aðgerðir og betri tæki til að ráða bót á ýmsum kvillum búfjár heldur en áður tíðkaðist. Eigi að síður er rétt og sjálfsagt, að lagaákvæði um dýravernd séu ótvíræð og skýr. Lög um dýraverndun eru orðin 40 ára gömul, og þótt þau hafi veitt aðhald um meðferð dýra, þá er orðið tímabært að endurskoða þau og setja fyllri ákvæði um þetta efni en nú eru í lögum.

Menntmn. leggur því til, að frv. þetta verði samþ., með þeim breytingum, sem prentaðar eru á þskj. 226.

1. brtt. felur í sér lítils háttar orðalagsbreytingu á 3. gr. frv., og er sú brtt. flutt eftir ábendingu bæði Búnaðarfélags Íslands og Dýralæknafélags Íslands. Enn fremur leggur n. til, að 4. tölul. 3. gr. falli niður. Það ákvæði, sem þar stendur í frv., mun vera óþarft og raunar óraunhæft, miðað við aðstöðu hér á landi.

2. brtt., sem er við 4. gr., felur ekki heldur í sér efnisbreytingu, heldur aðeins breytingu á orðalagi.

Þá er komið að brtt. við 9. gr. frv. Á það hefur verið bent, bæði af hálfu dýralæknanna og Búnaðarfélagsins, að orðalag þeirrar gr., eins og hún er í frv., þurfi breytingar við. Það má raunar segja, að sú gr. eigi naumast helma í þessu frv., og bendir til þess það ákvæði, að gert er ráð fyrir samkv. frv., að framkvæmd ákvæða þeirrar gr. sé í höndum annars rn. en frv., ef að lögum verður, að öðru leyti.

Um þá sérstöku aðgerð á húsdýrum, sem þar ræðir um, eru í gildi lög, sem engar tillögur hafa verið gerðar um að þyrfti að breyta. Menntmn. gerir það því að till. sinni að fella þessa gr. burt úr frv., en láta lög nr. 123 27. des. 1935, um gelding húsdýra, halda gildi sínu eins og þau hafa verið og eru nú.

4. og 5. brtt. eru aðeins leiðréttingar, sem leiðir af 3. brtt.

Þá er komið að brtt. við 15. gr. frv. Ákvæði frv. í þeirri gr. um áfrýjunarrétt aðila, ef nauðsyn þykir að deyða dýr, vegna þess að það sé sjúkt eða lemstrað, þykja n. of flókin og margþætt. Mun framkvæmd þeirra geta haft í för með sér mikil umsvif og jafnvel óþarfa kostnað, og leggur því n. til að færa ákvæði þeirrar frvgr. í einfaldara form en í frv. sjálfu er gert ráð fyrir. Orðalagið, sem n. leggur til að haft verði á gr., er í samræmi við álit og tillögur dýralæknanna sjálfra, sem sent hafa n. ábendingu um þetta atriði. Leggur því n. til, að gr. verði umorðuð eða stytt eins og greinir á þskj. 226.

Í 17. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að rn., sem hefur yfirstjórn þessara mála, njóti aðstoðar dýraverndarnefndar, sem menntmrn. skipar, fjóra nefndarmenn eftir tilnefningu vissra aðila, en yfirdýralæknir á að vera sjálfskipaður formaður nefndarinnar.

Menntmn. lítur svo á, að ekki muni vera þörf á að setja upp n. til að aðstoða rn. við framkvæmd þessara laga. Er það álit n. meðal annars byggt á því, að um langt skeið hefur starfað hér í landinu félag áhugamanna, Dýraverndunarfélag Íslands, sem hefur helgað sér þetta starfssvið, sem gert er ráð fyrir að n. eigi að annast.

Í umsögn Dýralæknafélags Íslands segir m.a. svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta: „Hér á landi hafa um langt skeið verið starfandi dýraverndarfélög, sem unnið hafa mjög merkilegt og þarft starf í þágu dýraverndunarmála og orkað mjög á hugsunarhátt almennings í þessum efnum. Samkv. ákvæðum 17. gr. er gert ráð fyrir, að dýraverndarnefnd grípi mjög inn á verksvið dýraverndunarfélaga og njóti til þess fjárframlaga frá ríkissjóði. Teljum vér bæði óþarft og raunar ómaklegt að láta lögskipaða nefnd grípa þannig inn á verksvið, sem aðrir hafa helgað sér og rækt með prýði, því að allir, sem til þekkja, hljóta að viðurkenna, að mikið hefur áunnizt fyrir störf dýraverndunarfélaganna undanfarna áratugi.“

8. og 9. brtt. eru aðeins leiðréttingar í samræmi við aðrar till., sem lýst hefur verið, og 10. brtt. stendur og í sambandi við þá till. n. að láta 9. gr. falla burt, en lög nr. 123 1935 halda gildi sínu.