22.02.1957
Efri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

10. mál, dýravernd

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Af sérstöku tilefni langar mig til að fara nokkrum orðum um mál, sem snertir þetta frv.

Frv. til l. um dýravernd, sem liggur hér fyrir, er ætlað að ná til meðferðar á öllum dýrum. Það er ekki aðeins um að ræða góða meðferð á húsdýrum, heldur mannúðlega meðferð á öllum dýrum, þar með villtum dýrum. Að vísu kemur þetta ekki greinilega fram, að mínum dómi, í frv. sjálfu, en það kemur greinilega fram í þeirri greinargerð, sem því fylgir.

Í 8. gr. er kveðið á um, að þegar dýr séu deydd, beri að gæta þess, að deyðing fari fram með jafnhröðum og sársaukalitlum hætti og frekast er völ á. Þetta ákvæði mun því samkvæmt greinargerð frv. ná til allra dýra, líka villtra dýra, hér á landi. En það, að ég stend upp hér nú, er einmitt í sambandi við þetta og blaðaskrif um illa og ómannúðlega meðferð á villtum dýrum, blaðaskrif, sem hafa nýlega birzt. Ég minnist þess, að tveir nafngreindir menn hafa nýlega skrifað í blöðin um ómannúðlega meðferð á refum. Það eru þeir Ásgeir Erlendsson og Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Í blaðinu Tímanum 12. febr. 1957 skrifar Ásgeir Erlendsson grein, sem hann nefnir „Til skammar og skaða.“ Hann lýkur þessari grein með svofelldum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Meðan eitrun á sér stað hér á landi, er framkvæmdur að fyrirlagi löggjafarvaldsins verknaður, sem ekki er siðuðum mönnum samboðinn og kemur ekki að tilætluðum notum, en elur upp skaðræðisbíti og eyðir þessum fáu örnum, sem eru hér eftir. Ég skora fastlega á Dýraverndunarfélag Íslands að beita sér af alefli fyrir því, að eitrun fyrir tófur sé ekki lögboðin, heldur bönnuð. Við eigum ekki að kvelja og drepa þetta fallega og stolta fjalladýr á eitri, það á að falla fyrir byssuskoti.“ Þannig farast greinarhöfundi orð.

Í l. nr. 56 1949, um eyðingu refa og minka, segir svo í 10. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er að eitra fyrir refi og minka þriðja hvert ár í afréttum og heimalöndum. Oddvitar sjá um eitrunina, hver á sinn svæði, en þar sem fleiri hreppar eiga afréttir saman, skulu hlutaðeigandi oddvitar hafa samráð um eitrunina eða fá til sérstakan mann til að sjá um hana. Héraðslæknar eða lyfjabúðir láta oddvitum í hendur eitur eftir fyrirmælum landbúnaðarráðherra.“

Aðrir en þeir menn, sem ég tilgreindi áðan að skrifað hefðu í blöðin um, að þessi eitrunarherferð væri mjög ómannúðleg, hafa tjáð mér svipað í þessu efni. Þeir telja, að dýrunum sé misþyrmt með þessu, mörg þeirra deyi ekki, en liði kvalir eða deyi þá fyrst að loknum löngum þjáningum.

Ég vildi aðeins vekja máls á þessu atriði nú við 1. umr. um frv. þetta, sérstaklega í því skyni að vekja athygli hv. menntmn. á þessu. Ég teldi það þess vert, að þetta yrði tekið til athugunar um leið, hvort hér þyrfti einhverrar viðbótar við í þetta lagafrv. eða hvort ekki væri æskilegt, að tekin yrði þá til athugunar samtímis niðurfelling á þeirri lagagrein, sem ég las upp áðan, en hef svo ekki um þetta fleiri orð.