21.03.1957
Efri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

10. mál, dýravernd

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Gildandi lög um dýravernd eru nr. 34 frá 1915, eða rúmlega 40 ára gömul. Sem að líkum lætur, er orðið tímabært að endurskoða þau vegna breyttra aðstæðna í þessum málum. Í október 1955 fól þáv. menntmrh., Bjarni Benediktsson, Ármanni Snævarr prófessor að semja frv. til nýrra dýraverndarlaga, og samdi prófessorinn frv. það, sem hér liggur fyrir.

Frv. er í sjö köflum, og því fylgir ýtarleg og fróðleg grg., þar sem rakin er saga dýraverndarmála frá fyrstu tíð og lögskýrð.

Frv. þetta kemur í stað 179. gr. hinna almennu hegningarlaga frá 1940 og laga um dýraverndun, nr. 34 1915, ásamt breytingu, sem á þeim var gerð og er nr. 31 1922.

1, kafli frv. fjallar um meðferð dýra, og segir í 1. gr.:

„Skylt er að fara vel með dýr, svo að þau þjáist ekki að nauðsynjalausu.“

Um 1. gr. segir í athugasemdum við frv: „Ákvæði þetta er mjög víðtækt og felur í sér stefnuyfirlýsingu um dýravernd.“

1. gr. lætur ekki við það sitja að banna illa meðferð á dýrum, heldur geymir hún jákvætt boð um, að menn fari vel með dýr. Á þessum grundvelli er frv. byggt.

II. kafli frv. er um deyðingu dýra og aðgerðir á dýrum. Eru þar ákvæði um, að dýralæknum einum sé heimilt að framkvæma allar meiri háttar aðgerðir á dýrum, og fleiri ákvæði þessu viðkomandi.

III. kafli er um notkun dýra í vísindalegum tilgangi.

IV. kafli er um eftirlit með framkvæmd laganna og fleira. V. kafli er um stjórn dýraverndarmála, Vl. kafli um refsingu og önnur viðurlög og loks VII. kafli um almenn ákvæði, gildistöku laganna og brottfallin lög.

Af þessu yfirliti er ljóst, að hér er um ýtarleg ákvæði um dýravernd að ræða og mjög til bóta frá því, sem gilt hefur fram að þessu.

Frv. var lagt fram í hv. Nd., og tók það þar nokkrum breytingum. Var leitað umsagnar um það hjá Dýraverndunarfélagi Íslands, Dýralæknafélagi Íslands og Búnaðarfélagi Íslands. Umsagnir bárust frá öllum þessum aðilum. Dýraverndunarfélagið lagði til, að frv. yrði samþykkt óbreytt, en Dýralæknafélagið og Búnaðarfélag Íslands lögðu til, að það yrði samþykkt með nokkrum breytingum, og tók menntmn. Nd. till. þessara félaga að nokkru leyti til greina við samningu brtt. sinna.

Ég vil þá koma með nokkrum orðum að þeim breytingum, sem frv. tók í Nd.

Fyrsta breytingin, sem segja má að sé efnisbreyting, er, að 9. gr. frv. er felld niður, en sú grein var um vananir húsdýra. Dýralæknarnir og Búnaðarfélagið höfðu lagt til, að þessari grein yrði breytt allverulega, en samkomulag varð innan menntmn. Nd. að leggja til, að greinin yrði felld niður, og má í því sambandi benda á, að um þessar aðgerðir á húsdýrum gilda sérstök lög. Það eru lög nr. 123 27. des. 1935. Engin ósk hefur komið fram um, að þessum lögum yrði breytt nú, og þykir eðlilegt, að þau gildi áfram.

Þá var 15. gr. breytt, umorðuð og gerð einfaldari. Var það gert eftir ábendingu dýralæknanna.

Þá var gerð breyting á 17. gr. frv., en hún fjallar um stjórn dýraverndarmála. Í frv. var gert ráð fyrir, að menntmrn. skipaði fimm manna dýraverndarnefnd til fjögurra ára í senn. Skyldi einn skipaður eftir till. Dýraverndunarfélags Íslands, einn samkv. till. Hins íslenzka náttúrufræðifélags og einn eftir till. Dýralæknafélags Íslands. Menntmrn. átti að skipa einn nm., en yfirdýralæknir skyldi sjálfskipaður form. n. Skyldi nefnd þessi vera ráðuneytinu til aðstoðar um allt, sem snerti dýravernd og framkvæmd laga þar um. Breytingin, sem samþ. var í Nd., er í því fólgin, að fellt er niður ákvæðið um sérstaka nefndarskipun, en 16. gr. frv., eins og það er nú, sem fjallar um stjórn dýraverndunarmála, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Menntamálaráðuneyti hefur yfirstjórn allra mála, er varða dýravernd. Tillagna Dýraverndunarfélags Íslands, Búnaðarfélags Íslands, Dýralæknafélags Íslands og Hins íslenzka náttúrufræðifélags skal leitað, eftir því sem við á, við setningu reglugerða eða annarra stjórnarvaldsreglna um dýravernd.“

Annað segir ekki í þessari grein. Bæði Búnaðarfélag Íslands og Dýralæknafélag Íslands lögðu til, að nefnd þessi skyldi ekki skipuð, þ.e.a.s. þessi nefnd, sem talað var um í frv. og ég gat um áðan, og bentu í því sambandi á, að starf n. yrði að mestu það sama sem dýraverndunarfélög hefðu haft með höndum undanfarið, en þau hefðu ávallt unnið mjög merkilegt og þarft starf í þágu dýraverndunarmála og óráðlegt væri að láta lögskipaða nefnd grípa inn á þetta verksvið þeirra.

Menntmn. þessarar hv. deildar hefur, eftir að hún hefur athugað frv. og þær umsagnir um málið, sem leitað hefur verið eftir og borizt hafa, orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá hv. Nd. og er á þskj. 227. Einn nm., hv. 6. þm. Reykv., var ekki viðstaddur á nefndarfundi, þegar málið var endanlega afgreitt.

Hv. 1. landsk. þm. beindi því til n. við 1. umr. málsins, hvort ekki væri rétt að athuga 1 sambandi við þetta frv. um dýravernd ákvæði laga um eyðingu refa og minka, þar sem svo er mælt fyrir, að skylt er að eitra fyrir þessi villtu dýr þriðja hvert ár. Benti hann á, að eitrun fyrir dýr væri ómannúðleg aðferð við útrýmingu þeirra og þau liðu kvalafullan dauða á misjafnlega löngum tíma.

Nefndin tók til athugunar þessar ábendingar hv. þm., en var sammála um, að ekki væri rétt að taka ákvæðið um eitrun refa og minka upp í frv. um dýravernd. Um það mál gilda, sem kunnugt er og hv. þm. benti sjálfur á, sérstök lög. Ef banna ætti t.d. að eitra fyrir refi og minka, yrði slíkt ákvæði að koma sem breyting á þeim lögum, en ekki sem sérstakt ákvæði í lögum um dýravernd.

Ég vil svo endurtaka það, að nefndin leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það er á þskj. 227.